Hugmynd að Svarfdælasýsli kviknaði í norðurferð þegar menn á förnum vegi spurðu tíðinda af brottfluttum sveitungum. Hvað gerir þessi og hvað gerir hinn þarna fyrir sunnan? Sumu gat ég svarað, öðru ekki. Þá datt mér í hug að dunda við það í frístundum að segja smásögur af Svarfdælingum á höfuðborgarsvæðinu og fjalla í knöppu máli og myndum um hvað þeir sýsla við í starfi eða leik. Svarfdælingar koma líka suður til að sýna sig og sjá aðra af ýmsu tilefni. Segjum sögur af þeim eftir atvikum.
Margt kemur sum sé til greina en sv0 er sækir á áleitin spurning um úthald, dugnað/leti ritstjórans, sem hlýtur að skipta máli.
Efnisramminn er bæði víður og óljós og það af ásettu ráði. Leikurinn berst norður í land líka eftir atvikum. Ritstjórnarstefnan er þannig í raun opin í báða enda.
Ábendingar um efni eru vel þegnar á tölvupóstfangið atli@athygli.is.
Atli Rúnar frá Jarðbrú
PS. Fært til bókar 3. febrúar 2014:
Svarfdælasýsl hefur fengið andlitslyftingu á Vefnum í aðdraganda tveggja ára afmælis síns í mars 2014. Það er við hæfi að prófa sig áfram með nýtt útlit og gera greinum og myndum ögn hærra undir höfði á forsíðunni.
Þá skal þess getið að nýja aðalmyndin á forsíðunni er hluti af málverkinu Dalur í haustlitum eftir Kristinn G. Jóhannsson Svarfdæling og listmálara á Akureyri. Myndin er máluð haustið 2013 og er í eigu ritstjóra Sýslsins. Á hana mænir hann löngum stundum, eins og nærri má geta.
Ræman á forsíðunni segir ekki nema brot af sögunni og ljósmynd af myndinni allri segir ekki einu sinni söguna alla. Það er mikill galdur í málverkinu.
Komdu sæll, Atli Rúnar.
Mikið er þetta nú skemmtilegt framtak hjá þér:-) Og gleðiefni fyrir burtflutta sem langar til að fylgjast með því sem gerist á heimaslóðunum. Ég leyfi mér kalla mig Svarfdæling, því það er ég sannarlega í hjartanu þó fædd sé hinum meginn við Múlann. Í þessum dal sem er öngvegi íslenskra dala, náði ég að festa rætur, og hann á býsna mikið í mér. Tilurð þessa vefjar er gleðiefni og nú er hann kominn í „favorites“ hjá mér og bíð ég spennt að fá að fylgjast með:-)
Með kveðju og þökkum,
Rósa María Sigurðardóttir (sem kennir sig gjarnan við Hrísa).
Bestu þakkir fyrir þetta, Rósa! Það verður svo mitt vandamál að standa undir væntingum þínum og annarra sem kynnu að hafa gaman af þessu brölti …! -arh
Frábær síða hjá þér Atli og átt þú heiður skilið – ég var bara uppgötva hana í gær og mun svo sannarlega fylgjast með hér og koma með ábendingar um efni ef eitthvað áhugavert rekur á fjörur mínar.
Kristján Vigfússon
Heill og sæll Atli Rúnar,
Þetta er frábært framtak og til hamingu með heimsíðuna. Það er tilhlökkunarefni að getað litið hér inn öðru hvoru og fylgst með Svarfdælingum heima og að heiman.
Kærar kveðjur suður yfir heiðar,
Arnar Már Snorrason frá Völlum
Sæll og blessaður Atli Rúnar.
Langar til að þakka þér og hrósa fyrir þessa frábæru síðu „Svarfdælasýsl“ sem ég uppgötvaði fyrir ekki svo löngu síðan. Margt fróðlegt og skemmtilegt sem er hér til umfjöllunar. Ætla mér svo sannarlega og fylgjast með framvegis.
Bestu kveðjur.
Anna María Steinunnar Dan og Halldórsdóttir
Oft gaman að skoða Svarfdælasýsl. Þó hefði verið betra að reyna að slá inn nöfn þorrablótsgesta á myndunum frá Rimum, þó nokkrir þekkist á svipnum.
Set líka út á enskuna sem notuð er og óprýðir annars góða síðu,
hún er íslensk og Svarfdælsk er það ekki?
Með góðum óskum, Edda.
Sæll,
var að sjá þessa skemmtilegu síðu í fyrsta sinn. Habbði bara ekki hugmynd um síðuna né félagið 😦 Tel mig þó Svarfdæling, þar sem bæði móðurafi minn og móðuramma voru úr dalnum. Hvar gengur maður í þennan félagsskap og/eða heyrir af skemmtilegum uppákomum (áður en þær bresta á) ?
Vel til fundið að minnast þeirra sem fórust í snjóflóðunum áður en atburðirnir falla í gleymsku. Tengdapabbi, Gestur Hjörleifsson, minntist á þessa atburði er ég bjó á Dalvík á 9. áratug síðustu aldar.
Eg er bara nybúinn að uppgötva þessa siðu en hún er alveg frabær. Stort hros til aðstandenda hennar
Sæll og blessaður, Atli Rúnar.
Ég er afar þakklát mágkonu minni, Höllu Jónasdóttur Dalvíkingi ættaðri m.a. frá Melum að hafa deilt síðunni á fb. Þetta er góð síða hjá þér, mikið um skemmtilegar og jafnframt fróðlegar greinar og myndirnar gefa skrifunum meira líf. Ég tel mig vera Svarfdæling þar sem faðir minn, Angantýr Jónsson, er fæddur i dalnum og er frá Brautarhóli. Móðir mín er ættuð frá Hóli fyrir utan Dalvík. Ég á mjög margt skyldfólk, bæði í Svarfaðardal og á Dalvík. Ég reyni að heimsækja dalinn a.m.k. einu sinni á ári og þar líður mér vel.
Til hamingju með bókina. Mig langar að vita hversu víðtæk er hún um Svarfdælinga ? Afi minn, Páll Bergsson fæddist á Atlastöðum og þess vegna er ég að velta þessu fyrir mér. Mig langar að vita hvort eitthvað er fjallað um hann og hans ætt í þessari bók.
Þakka góðar óskir. Nei, þessi ætt kemur ekki við sögu í bókinni. Þetta er trúlega sá sem átti líka heima á Hæringsstöðum og síðar í Ólafsfirði.