Eðaltenór og öðlingur frá Ingvörum kvaddur

Staðlað

Engan veginn kom það á óvart að Steinar Steingrímsson frá Ingvörum hefði kvatt þennan heim eftir langt og erfitt sjúkdómsstríð en illt að sætta sig við það. Til forna sögðu menn einfaldlega: Hann var drengur góður. Það er allt sem segja þarf um Steinar, einfalt, skýrt og satt. Hann var ljúfur, hnyttinn, gamansamur, mátulega stríðinn og svo var hann sérlega fínn söngmaður.

Lesa meira

Dalvíkurtré í jólaskrúða á björtum laugardegi

Staðlað

Eftir svartan föstudag rann um bjartur og fagur laugardagur. Á meðan kaupmenn sátu enn í dagrenningu við að telja peninga eftir kauptíð gærdagsins – og seðlabankastjórinn fór til öryggis enn einu sinni yfir þverrandi gjaldeyrisforðann – skreyttu velunnarar Dalvíkur og nærsveita tré í Heiðmörk, tré sem tileinkað var byggðarlaginu fyrir margt löngu.

Þar með er aðventa gönguhópsins Sporsins formlega hafin.

Gjörningurinn er árviss og alltaf gleður það röltara og hlaupara í frumskóginum að sjá þetta tré fá á sig kúlur, stjörnur og engla um þetta leyti árs.

Haukur Sigvalda og Jón Magg eiga höfundarrétt að uppátækinu fyrir átján til tuttugu árum. Þeir muna það ekki sjálfir, hvað þá aðrir.

Fyrst var getið um skreytingu Dalvíkurtrésins hér á þessum vettvangi árið 2012. Þá var skrifað:

„Hvenær byrjaði þetta? Svörin voru ekki sérlega skýr þegar safnast var saman til skreytingar á fimmtudagskvöldið var, 29. nóvember. „Þetta er í áttunda skiptið,“ sagði einn. „Nei, þetta er ábyggilega í níunda skiptið,“ sagði annar. „Áttunda eða níunda skiptið án virðisaukaskatts, tíunda skiptið með vaski,“ mælti þá sá þriðji.“

Kannski er bara best að velja upphafsárið 2003. Þá er hægt að fagna vel að ári, á tuttugu ára skreytingarafmælinu. Það er að segja ef Dagur asnast ekki til að fara um þennan hluta Heiðmerkur með keðjusögina. Hann er svo ansi duglegur við að slátra trjám í aðdraganda jólahátíðarinnar en að vísu bara ef sjónvarpsstöðvarnar eru nálægar.

Svo verður spennandi að sjá hvernig gengur að koma rauðu slaufunni á toppinn að ári. Tréð hefur hækkað um hálfan metra frá í fyrra og fari svo sem horfir þarf meiri tilfæringar og enn meiri loftleika næst, hvað þá síðar. Rauða slaufan er nú þegar orðið áhættuatriði.

Til tíðinda heyrir að skreyta í rigningu og snjólausum skógi við upphaf aðventu. Oftast hefur verið snjóföl og meira en það, svell á jörðu og jafnvel hríðarfjúk. Nú eru hins vegar grænir garðar á suðvesturhorninu.

Aldraður fræðaþulur sagði á förnum vegi fyrr í vikunni að svona hefði nákvæmlega verið umhorfs árið 1952, ekki snjókorn sjáanlegt allan nóvember. Sjálfsagt má það til sanns vegar færa en þýðir ekki að spyrja Sporið. Þar er brigðult minni til lengri og skemmri tíma en skylduverkin við upphaf aðventu gleymast samt ekki.

Meðfylgjandi myndir eru líka frá Jóni Magg og Orra. Hreyfimynd Orra vekur sérstaka athygli, sölumaður heitra potta sýnir á sér nýja hlið með myndavélina í farsímanum.

Píanóstillingameistarinn Sindri Már gerist innflytjandi gæðavína

Staðlað

Þeir gerast ekki öllu búsældarlegri bílskúrarnir í höfuðborginni en sá sem Sindri Már Heimisson opnaði vínáhugafólki heima hjá sér í Víðihlíð á síðasta sunnudegi jólaföstunnar. Þar kynnti hann ítölsk freyðivín til að njóta um áramótin, hvít vín og rauð úr Napa dalnum í Kaliforníu og frá Bordeaux í Frakklandi. Margir þáðu boðið, lögðu sína í Víðihlíð og sneru þaðan heim aftur, nestaðir flöskum af eðalvínum til hátíðanna.

Vínin flytur fyrirtæki í eigu Sindra Más og fjölskyldu inn, milliliðalaust eða í gegnum birgja ytra. Fæst af þessum vínum hafa nokkru sinni sést á markaði á Íslandi. Sindra tókst að komast rækilega á kortið hjá íslenskum vínspekingum þegar hann náði í 60 flöskur af Bourdaux-víninu Château Siran 2018 Margaux sem var valið besta vínið 2021 af alls hundrað vínmerkjum á lista á vefnum Wine Enthusiast. Sérfræðingar á vegum þess fyrirtækisins smökkuðu sig í gegnum einar 22.000 víntegundir áleiðis að niðurstöðunni. Og flöskurnar sem Sindri komst yfir af toppvíninu franska seldust á augnabliki og meira kemur ekki hingað til lands af svo góðu fyrr en þá í fyrsta lagi að lokinni framleiðslu úr nýrri uppskeru.

Freyðandi vín fyrir áramótagleðina

„Núna otum við mjög að fólki ítölskum freyðivínum sem framleidd eru í héraðinu Franciacorta skammt austan við Mílanó. Þarna eru hátt í 40 vínframleiðendur en engin vín þaðan hafa fengist hérlendis fyrr en nú.

Freyðivínin vekja verðskuldaðan áhuga og eru kjörin til að rífa upp stemningu í áramótaveislum og hægt að fá þau líka í býsna stórum flöskum ef svo ber undir! Þau gefa frönskum kampavínum ekkert eftir, eru búin til á sama hátt og kampavínin, úr sömu þrúgum. Jarðvegurinn er hins vegar annar og annað veðurfar ríkir í vínræktarhéruðunum á Ítalíu en í Frakklandi.

Svo sakar ekki að geta þess að menn gera hér góð kaup, ítalska freyðivínið okkar er á hálfvirði saman borið við kampavín. Ítalir drekka þau ekki úr mjóum og háum glösum heldur belgvíðari vínglösum til að fanga betur ilminn og karakterinn.“

Dagur, Sindri Már, Valborg Sunna og Sindri Rafn tóku gestum fagnandi á vínkynningunni.

Vínklúbbur kominn á laggir

Sindri Már vinnur að píanóstillingum og viðgerðum á píanóum og flyglum í nafni fjölskyldufyrirtækisins. Hann heldur þeirri iðju áfram af krafti en víninnflutningurinn bætist nú við á verkefnaskrána og synir hans, Sindri Rafn og Dagur, eru liðtækir samstarfsmenn í þeim efnum, báðir miklir vínáhugamenn. Dóttirin Valborg Sunna er liðtæk líka en hún er aðallega í því að skipuleggja markaðssetningu og kynningu á innflutta varningnum enda í námi í viðskiptahönnun í Barcelona á Spáni.

Á vefnum usavin.is er annars ýmislegt að finna um fjölskyldufyrirtækið í Víðihlíð og víninnflutninginn. Þar er líka vakin athygli á vínklúbbi sem augljóslega áhugafólk um eðalvökva hlýtur að horfa mjög til. Gegn tilteknu mánaðargjaldi fá liðsmenn klúbbsins heimsendar tvær flöskur einu sinni í mánuði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en annars með Póstinum.

Strandamaðurinn Steve Matthiasson

„Við byrjuðum á innflutningnum í febrúar í ár, meira til gamans í upphafi. Öllu gamni fylgir nokkur alvara og þetta vatt hratt upp á sig. Fyrst horfðum við til vína í Bandaríkjunum eins og heiti vefsins okkar gefur til kynna, usavin.is, og raunar má rekja upphafið til óvæntrar Íslandstengingar. Við feðgar vorum á veitingastað í Bretlandi og fengum þar vín frá framleiðanda sem skráður var Matthiasson

Við fórum að grúska og röktun slóðina til hjóna og vínbænda í Napa dalnum í Kaliforníu, Jill og Steve Matthiasson. Hann er Vestur-Íslendingur og á ættir að rekja til bæjar á Ströndum, Skriðnesennis í Bitrufirði. Það þóttu okkur mikil tíðindi því konan mín, Matthildur Aradóttir, á líka ættir að rekja til Skriðnesennis. Á daginn komað ekki svo ýkja langt aftur í aldir fundust bræður, forfeður Matthildar og Steve!

Steve Matthiasson

Steve veðraðist svo upp við þessi tíðindi að við lá að hann tæki næstu flugvél til Reykjavíkur til að heilsa upp á frænku sína og fjölskyldu hennar sem orðin var innflytjandi Matthiasson-vína á Ísland. Þau hjón munu örugglega birtast hér einn góðan veðurdag.

Steve er mikill vínræktarsérfræðingur og kemur víða við í Napa dalnum. Honum er mjög lagið að þroska vínvið og þróa náttúrulega ræktun á eigin ekrum og annarra líka. Þau hjón framleiða nokkrar tegundir rauðvína og hvítvína sem við munum flytja inn og vonandi sjást þau líka í hillum Vínbúða ríkisins. Við höfum lagt inn umsókn þar að lútandi og bíðum niðurstöðunnar. Umsóknarferlið tekur eitt ár eða svo.

Matthiasson-vínið vekur áhuga þeirra sem á því bragða og það er til að mynda komið á vínlista Grillmarkaðarins í Reykjavík og Reykjavík Edition, hótels sem er hluti af Marriott-keðjunni. Þess er að vænta að fleiri veitingahús verði með þetta frísklega og góða vín á boðstólum.

Arnot, Roberts og hvuttarnir.

Svo gerðist það að vínáhugamaður nokkur benti mér á annan áhugaverðan framleiðanda í Napa dalnum, Arnot-Roberts, og við flytjum líka inn vín frá þeim. Að baki vörumerkinu standa félagarnir Duncan Arnot Meyers og Nathan Lee Roberts. Þeir hófu samstarf um vínframleiðslu 2001 og náðu skjótum árangri. San Fransisco Chronicle útnefndi þá til dæmis framleiðendur ársins 2013. Vinsældir vínsins þeirra eru slíkar að eftirspurnin er mun meiri en framboðið.

Svo kom á daginn að Arnot og Roberts eru vinir og samstarfsmenn Steve Matthiassons. Þegar þeir heyrðu af því að við flyttum inn vín frá Matthiasson kom ekki annað til greina en að við yrðum líka umboðsmenn fyrir vín frá Arnot & Roberts.“

Vín frá Arnot og Roberts

Háskaleikur við trjátopp í tilefni jóla

Staðlað

Dalvíkurtréð í Heiðmörk er komið í jólabúning og þar með er hafin niðurtalning til hátíða í skóginum. Liðsmenn gönguhópsins Sporsins, sem hafa haft þetta tiltekna grenitré í gjörgæslu frá því um aldamót, skreyttu það að loknu rölti í morgun og fögnuðu áfanganum að vanda við veisluborð undir berum himni.

Lesa meira

Lífrænn svefngalsi hleypur í dalvískan söngfugl

Staðlað

Verslun með svarfdælskt ættarívaf hefur bæst við í fyrirtækjaflóru höfuðborgarinnar,

Náttúrurúm ehf. að Grensásvegi 46. Aðaleigendur eru hjónin Matthías Matthíasson tónlistarmaður frá Dalvík og Brynja Ólafsdóttir, félagsráðgjafi.   Þau flytja inn og selja náttúrulegar og lífrænar svefnvörur af ýmsu tagi eftir að hafa fengið umboð á Íslandi fyrir breska svefnvörufyrirtækið Naturalmat sem starfrækt er í Devonskíri í suðvesturhluta Englands.  

Lesa meira

Jarðvísindakona deyr á afmælisdegi skapara síns

Staðlað

Þau fórust í fangi hvors annars. Það síðasta sem hún heyrði var þýður rómur hans upp við eyra sér: ­– Átta á Richter.“

Það gengur mikið á í nýrri skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem Salka bókaútgáfa sendi frá sér í vikunni. Höfundur tileinkar eiginmanni sínum söguna, Ragnari Stefánssyni. Sá veit margfalt meira en flestir aðrir um titring í jarðskorpunni.

Dalvíkurskjálftinn 1934 var nálægt 6,3 á Richter og Skagafjarðarskjálftinn 1963 um 7 á Richter. Átta á Richter er því meira en þó nokkuð en rithöfundar geta leyft sér að fara svo ofarlega á jarðskjálftaskalanum án þess að nokkur ljós blikki hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar á bæ gátu menn því einbeitt sér að hópsmituðum Skagfirðingum og kraumandi kvikukatli á Reykjanesi þegar Imba frá Tjörn lét jörð skjálfa í útgáfupartíi undir berum himni í strandhéruðum Reykjavíkur.

Lesa meira

Afmæli og jólum fagnað við Dalvíkurtréð

Staðlað

Fjölskylda Ingunnar Hauksdóttur söng henni til heiðurs í Heiðmörk í blíðviðrinu á öðrum degi jóla. Hún á afmæli 26. desember og í þetta sinn var tímamótanna minnst sérstaklega með því að staldra við í lundinum þar sem skjólstæðingur göngufélagsins Sporsins kúrir, fagurskreytt grenitré í tilefni jólahátíðar.

Þetta var í það minnsta önnur heimsókn heiðurshjónanna Ingunnar og Valdimars Sverrissonar að trénu. Hún aflaði snemma á aðventunni upplýsinga um hvar grenið góða væri að finna og Valdimar var svo elskulegur að senda myndir af fyrsta fundi Ingunnar og trésins og svo af afmælishópnum samankomnum á sama stað á öðrum degi jóla.

Lesa meira

Lýsandi geimverur á vegum Sporsins spariklæða heiðurstré Dalvíkur

Staðlað

Þá er það afstaðið hið árlega skreytingamannamót í Heiðmörk þegar gönguliðar í Sporinu fagna upphafi jólaaðventu með því að færa fósturtré Dalvíkur í sparigallann. Þetta höfum við gert í mörg ár og alltaf vekur hlýlega furðu göngumanna og hlaupara á nálægum stíg þegar þeir verða vitni að dularfullu brölti og príli fólks í tröppum í rökkri eða myrkri, meira að segja í brunagaddi eins og var nú.

Lesa meira

Sjónarhóll Sigríðar á Tjörn

Staðlað

Ýmislegt hafa Svarfdælingar vitað um fortíð Sigríðar Hafstað á Tjörn en örugglega ekki að hún hafi gert sjálfum Halldóri Laxness þann greiða að fara í leiðangur frá Kaupmannahöfn til Svíþjóðar haustið 1947, velja og kaupa kápu á Auði Laxness og koma flíkinni gegnum danska tollinn á bakaleiðinni.

Lesa meira

Góð ráð til að halda hestaheilsu við lestur Hesta

Staðlað

Bókin Hestar er heilsusamleg ef lesendur gæta þess að njóta hennar í áföngum og taka út áhrif í samræmi við það. Sá sem hér skráir lífsreynslu sína fór of geyst og fékk ákafan hósta upp úr drynjandi hláturrokum. Mundi þá eftir gesti á Fiskideginum mikla á Dalvík sem fékk sér bita af hvalkjöti á bryggjukantinum, smurði á hann þykkt lag af einhverju eiturgrænu sem hann ekki þekkti og gleypti allt saman. Hann var fluttur rifbrotinn á heilsugæsluna eftir gríðarlegt hóstakast og vaktlæknir skráði í sjúkraskýrslu: Tvö bein í sundur eftir ofneyslu Wasabi.

Lesa meira