Jarðvísindakona deyr á afmælisdegi skapara síns

Staðlað

Þau fórust í fangi hvors annars. Það síðasta sem hún heyrði var þýður rómur hans upp við eyra sér: ­– Átta á Richter.“

Það gengur mikið á í nýrri skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem Salka bókaútgáfa sendi frá sér í vikunni. Höfundur tileinkar eiginmanni sínum söguna, Ragnari Stefánssyni. Sá veit margfalt meira en flestir aðrir um titring í jarðskorpunni.

Dalvíkurskjálftinn 1934 var nálægt 6,3 á Richter og Skagafjarðarskjálftinn 1963 um 7 á Richter. Átta á Richter er því meira en þó nokkuð en rithöfundar geta leyft sér að fara svo ofarlega á jarðskjálftaskalanum án þess að nokkur ljós blikki hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar á bæ gátu menn því einbeitt sér að hópsmituðum Skagfirðingum og kraumandi kvikukatli á Reykjanesi þegar Imba frá Tjörn lét jörð skjálfa í útgáfupartíi undir berum himni í strandhéruðum Reykjavíkur.

Bókin kom út á afmælisdegi höfundarins og tvíburasysturinnar Sigrúnar. Þær fögnuðu tímamótunum hvor í sínu lagi og hvor á sinn hátt. Að ári tjalda Tjarnartvíbbar hins vegar til stórafmælis. Það geta meira að segja máladeildarstúdentar reiknað út frá fæðingarárinu.

Þetta er fimmta skáldsaga Ingibjargar og fjallar í ýmsum tilbrigðum um átök vegna áforma um kísilver í Selvík. Jarðvísindakona deyr á sviplegan hátt og fleiri deyja fyrr og öðru vísi en þeir kærðu sig um fyrir fram. Fleiri týndu svo lífi í jarðskjálftanum mikla.

Þetta er ekki glæpasaga og heldur ekki hamfarasaga. Líf slokknar að vísu aftur og aftur en líf kviknar líka. Í einum kaflanum er til að mynda fjallað um sauðburð.

Sjálf lýsir Ingibjörg bókinni sem „gamansögu með harmrænu ívafi“. Eftir henni er eftirfarandi haft í Fréttablaðinu 22. maí 2021:

„Á yfirborðinu virðist þetta vera sakamálasaga í léttum dúr en undir niðri er þetta háalvarleg samfélagsgagnrýni þar sem pólitískir og efnahagslegir hagsmunir svífast einskis. Þetta er saga um líf í landi, um átök sem felast í eftirfarandi spurningum:

  • Hafa almannavarnir eða aðrir eftirlitsaðilar eitthvert ákvörðunarvald þegar kemur að því að vara almenning við aðsteðjandi hættu ef það stríðir gegn æðri hagsmunum, eins og valdi og gróða?
  • Hvers má sín réttvísi tveggja roskinna kvenna gegn hagsmunum heils byggðarlags, jafnvel þjóðarinnar?
  • Geta vísindamenn yfirleitt gert „hlutlaust“ mat á umhverfisþáttum eins og hamfarahættum?
  • Munu ekki þeir sem réðu þá til verksins alltaf hafa áhrif á niðurstöðuna?“

Hópur vina og vandamanna Ingibjargar fagnaði útgáfunni með henni, langflestir gagnvarðir eftir eina sprautu eða tvær. Bólusetningar var mál málanna í umræðum.

Hófið átti sér að hluta stað innandyra hjá Ingibjörgu og Ragnari. Þá ávarpaði höfundur gesti og því næst var óvænt en afskaplega áhugavert dagskráratriði þegar hópur kvenna kvað ljóð eftir Birnu Guðrúnu Friðriksdóttur frá Melum í Svarfaðardal. Birna var hagyrðingur og ljóðskáld. Út kom eftir hana ljóðabókin Grýtt var gönguleiðin árið 1995, skáldsaga í bundnu máli um ævi förukonu. Í bókinni eru yfir eitt þúsund ferhendur, mismunandi að formi.

Afmæli og jólum fagnað við Dalvíkurtréð

Staðlað

Fjölskylda Ingunnar Hauksdóttur söng henni til heiðurs í Heiðmörk í blíðviðrinu á öðrum degi jóla. Hún á afmæli 26. desember og í þetta sinn var tímamótanna minnst sérstaklega með því að staldra við í lundinum þar sem skjólstæðingur göngufélagsins Sporsins kúrir, fagurskreytt grenitré í tilefni jólahátíðar.

Þetta var í það minnsta önnur heimsókn heiðurshjónanna Ingunnar og Valdimars Sverrissonar að trénu. Hún aflaði snemma á aðventunni upplýsinga um hvar grenið góða væri að finna og Valdimar var svo elskulegur að senda myndir af fyrsta fundi Ingunnar og trésins og svo af afmælishópnum samankomnum á sama stað á öðrum degi jóla.

Takk fyrir myndirnar og til hamingju, Ingunn!

Orri Stefánsson, liðsmaður Sporsins, var líka í Heiðmörk á öðrum degi jóla og greinir frá því að fleiri hafi verið þar á rölti samtímis en hann hafi séð áður. Rennirí og margmenni á öllum stígum.

Margir námu staðar við Dalvíkurtréð,  mjög og veltu fyrir sér hvernig á skreyttu grenitré stæði á þessum stað. Þóra Leósdóttir birti til að mynda flotta mynd á Fésbókarsíðu sinni og hefur nú fengið meira að vita um tréð.

Litið um öxl

Ómaksins vert er að nota tækifærið og rifja upp söguna í samræmi við bestu fáanlegar heimildir.

Á vefnum Svarfdælasýsli er fyrst getið um Dalvíkurtréð í tilefni skreytingar fyrir jólin 2012. Þar er því slegið föstu að Haukur Sigvaldason, Dalvíkingur af Böggvistaðaætt, hafi tekið upp á því að rölta einn í Heiðmörk árið 2000. Svo varð hann hundleiður á sjálfum sér og tók með sér frænda sinn Böggvistaðaættar, Jón Magg Magnússon. Þeir frændur gengu jafnan fram hjá væskilslegu grenitré við einn gangstíganna, ákváðu af annálaðri hjartagæsku að kasta í það hrossaskít til næringar, taka væskilinn í fóstur og tileinka hann Dalvík og Dalvíkingum.

Þannig byrjaði þetta allt saman en síðan fjölgaði í gönguhópnum og nú er kjarni hans þetta 8 til 12 manns í eðlilegu árferði og eftir því við hvað er miðað.

Heiðmerkurtré hækka frekar en hitt ár frá ári og það á líka við Dalvíkurtréð. Helsta vandamál við skreytingu þess í ár og í fyrra að hæsti heimilisstigi Sporsins dugar ekki til að brúkunar nema sá leggi sig í umtalsverða hættu sem tekjur að sér að setja rauðu slaufuna á toppinn. Fyrir jólin 2021 verður líklega að óska eftir körfubíl frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Haukur og Jón ákváðu sem sagt að skreyta Dalvíkurtréð. Á Svarfdælasýsli 2012 var varpað fram spurningu: sem ekki fékkst eindregið svar við:

Hvenær byrjaði þetta?

„Svörin voru ekki sérlega skýr þegar safnast var saman til skreytingar á fimmtudagskvöldið var, 29. nóvember. „Þetta er í áttunda skiptið,“ sagði einn. „Nei, þetta er ábyggilega í níunda skiptið,“ sagði annar. „Áttunda eða níunda skiptið án virðisaukaskatts, tíunda skiptið með vaski,“ mælti þá sá þriðji.“

Á mannamáli þýðir þetta að jólaskreytingar í Dalvíkurrjóðri Heiðmerkur byrjuðu 2003 eða 2004 án virðisaukaskatts en 2002 með skatti.

Böggvistaðaættin hefur víst til siðs að mæla tíma í árum, með eða án vasks. Það er ekki hið eina sem gerir hana giska sérstæða í svarfdælsku samhengi.

Afmælis- og jólabarnið Ingunn, þriðja frá vinstri í aftari röð, og fjölskylda við Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Ingunn við Dalvíkurtréð fyrr á aðventunni 2020. Hún hugsar örugglega: Hvernig fer þetta lið að því að skreyta þetta allt til topps? Svar: Við vitum það eiginlega ekki sjálf. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Dalvíkurtréð í jólasnjónum 26. desember 2020. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Þóra Leósdóttir.

Andrea Ingibjörg, Sandra Sif og Geisli við Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Orri Stefánsson.

Frumkvöðullinn að gönguhópnum Sporinu, Haukur Sigvaldason, á tali við Pál Bergþórsson veðurfræðing í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ sumarið 2020. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.

Sporfélagarnir Jón Magg Magnússon og Guðrún Marinósdóttir í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ 2020. Hann er varaforseti Sporsins og handhafi félagsskírteinis númer 2. Þeir Haukur eilífðarforseti Sporsins tóku grenitréð í fóstur forðum. Guðrún er myndlistardeild Sporsins. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.

Nokkrir Sporfélagar sumarið 2013. Orri, Jón Magg, Stína, Öddi, Guðrún Marinós, Haukur, Atli Rúnar. Geisli fjórfætti er sjálfskipaður liðsmaður. Mynd: Haukur Sigvaldason.

Lýsandi geimverur á vegum Sporsins spariklæða heiðurstré Dalvíkur

Staðlað

Þá er það afstaðið hið árlega skreytingamannamót í Heiðmörk þegar gönguliðar í Sporinu fagna upphafi jólaaðventu með því að færa fósturtré Dalvíkur í sparigallann. Þetta höfum við gert í mörg ár og alltaf vekur hlýlega furðu göngumanna og hlaupara á nálægum stíg þegar þeir verða vitni að dularfullu brölti og príli fólks í tröppum í rökkri eða myrkri, meira að segja í brunagaddi eins og var nú.

Lesa meira

Sjónarhóll Sigríðar á Tjörn

Staðlað

Ýmislegt hafa Svarfdælingar vitað um fortíð Sigríðar Hafstað á Tjörn en örugglega ekki að hún hafi gert sjálfum Halldóri Laxness þann greiða að fara í leiðangur frá Kaupmannahöfn til Svíþjóðar haustið 1947, velja og kaupa kápu á Auði Laxness og koma flíkinni gegnum danska tollinn á bakaleiðinni.

Lesa meira

Góð ráð til að halda hestaheilsu við lestur Hesta

Staðlað

Bókin Hestar er heilsusamleg ef lesendur gæta þess að njóta hennar í áföngum og taka út áhrif í samræmi við það. Sá sem hér skráir lífsreynslu sína fór of geyst og fékk ákafan hósta upp úr drynjandi hláturrokum. Mundi þá eftir gesti á Fiskideginum mikla á Dalvík sem fékk sér bita af hvalkjöti á bryggjukantinum, smurði á hann þykkt lag af einhverju eiturgrænu sem hann ekki þekkti og gleypti allt saman. Hann var fluttur rifbrotinn á heilsugæsluna eftir gríðarlegt hóstakast og vaktlæknir skráði í sjúkraskýrslu: Tvö bein í sundur eftir ofneyslu Wasabi.

Lesa meira

Anna Dóra með bókartíðindi af skagfirska ófriðarsvæðinu

Staðlað

Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja, ég vil lifa lengur, hrópaði hún svo heyrðist um allan skálann og inn að klefanum þar sem við Láki stóðum og biðum eftir einhverju, við vissum ekki hverju við biðum eftir. Þá tók Gróa utan um hana og sagði: Eitt skal yfir okkur báðar ganga. Það varð samt ekki svo að þær slyppu báðar …

Lesa meira

Ánægjustund í eldhúsi í Þykkvabæ

Staðlað

Eldhús getur hæglega verið skemmtistaður og eldamennskan gleðistund í góðum hópi.  Hlöðueldhúsið í Oddsparti í Þykkvabæ hefur hlotið eldskírn sína. Það stóðst prófraunina með glæsibrag og rekstrarleyfi fyrirtækisins er væntanlegt á hverri stundu. Þá geta Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson ýtt úr vör með frumkvöðlastarfsemi sína undir þaki þar sem fyrr á árum var hýst sauðfé í fjárhúskróm og hey í sambyggðri hlöðu. Lesa meira

Þar verður hvör pottur að standa sem settur er

Staðlað

Hann hefur um árabil verið manna sæknastur í að ylja sér um kropp og slaka á vöðvum í heitum potti heima við. Nú er hann kominn í heita pottinn í vinnunni líka og það á greinilega vel við kappann. Hann brosir út að eyrum, sýnir og selur. Líka á krepputímum veirunnar eða líklega einmitt vegna hennar að einhverju leyti. Lesa meira