Svarfdælasýsl á Lokakaffi

Staðlað

Hallur Steingrímsson frá Ingvörum, Karl Sævaldsson, Júlli Jónasar og Hrönn, vert og textílhönnuður, á samkomunni á Loka 9. mars.

Svarfdælingar á höfuðborgarsvæðinu og viðhengi þeirra koma gjarnan saman að kveldi fyrsta föstudags í mánuði yfir vetrartímann, sötra öl eða kaffi, og ræða málin. Þetta hófst á krá í Kópavogi veturin 2010-2011, að frumkvæði Hauks Sigvalda og Sindra Más Heimissonar, en í vetur hefur vettvangurinn verið Café Loki – þetta notalega veitingahús efst á Skólavörðuholtinu undir vegg sjálfrar Hallgrímskirkju. Það á auðvitað sérlega vel við að Svarfdælir komi saman einmitt þarna, því Svarfdælingurinn Þórólfur Antonsson rekur staðinn ásamt eiginkonunni, Hrönn Vilhelmsdóttur textílhönnuði. Og undir þessu sama þaki starfar Hrönn að listsköpun sinni og list hennar setur svip á staðinn, sem og auðvitað það sem á borð er borið í nafni matargerðarlistarinnar. Lesa meira