Dalvíkurtré í jólaskrúða á björtum laugardegi

Staðlað

Eftir svartan föstudag rann um bjartur og fagur laugardagur. Á meðan kaupmenn sátu enn í dagrenningu við að telja peninga eftir kauptíð gærdagsins – og seðlabankastjórinn fór til öryggis enn einu sinni yfir þverrandi gjaldeyrisforðann – skreyttu velunnarar Dalvíkur og nærsveita tré í Heiðmörk, tré sem tileinkað var byggðarlaginu fyrir margt löngu.

Þar með er aðventa gönguhópsins Sporsins formlega hafin.

Gjörningurinn er árviss og alltaf gleður það röltara og hlaupara í frumskóginum að sjá þetta tré fá á sig kúlur, stjörnur og engla um þetta leyti árs.

Haukur Sigvalda og Jón Magg eiga höfundarrétt að uppátækinu fyrir átján til tuttugu árum. Þeir muna það ekki sjálfir, hvað þá aðrir.

Fyrst var getið um skreytingu Dalvíkurtrésins hér á þessum vettvangi árið 2012. Þá var skrifað:

„Hvenær byrjaði þetta? Svörin voru ekki sérlega skýr þegar safnast var saman til skreytingar á fimmtudagskvöldið var, 29. nóvember. „Þetta er í áttunda skiptið,“ sagði einn. „Nei, þetta er ábyggilega í níunda skiptið,“ sagði annar. „Áttunda eða níunda skiptið án virðisaukaskatts, tíunda skiptið með vaski,“ mælti þá sá þriðji.“

Kannski er bara best að velja upphafsárið 2003. Þá er hægt að fagna vel að ári, á tuttugu ára skreytingarafmælinu. Það er að segja ef Dagur asnast ekki til að fara um þennan hluta Heiðmerkur með keðjusögina. Hann er svo ansi duglegur við að slátra trjám í aðdraganda jólahátíðarinnar en að vísu bara ef sjónvarpsstöðvarnar eru nálægar.

Svo verður spennandi að sjá hvernig gengur að koma rauðu slaufunni á toppinn að ári. Tréð hefur hækkað um hálfan metra frá í fyrra og fari svo sem horfir þarf meiri tilfæringar og enn meiri loftleika næst, hvað þá síðar. Rauða slaufan er nú þegar orðið áhættuatriði.

Til tíðinda heyrir að skreyta í rigningu og snjólausum skógi við upphaf aðventu. Oftast hefur verið snjóföl og meira en það, svell á jörðu og jafnvel hríðarfjúk. Nú eru hins vegar grænir garðar á suðvesturhorninu.

Aldraður fræðaþulur sagði á förnum vegi fyrr í vikunni að svona hefði nákvæmlega verið umhorfs árið 1952, ekki snjókorn sjáanlegt allan nóvember. Sjálfsagt má það til sanns vegar færa en þýðir ekki að spyrja Sporið. Þar er brigðult minni til lengri og skemmri tíma en skylduverkin við upphaf aðventu gleymast samt ekki.

Meðfylgjandi myndir eru líka frá Jóni Magg og Orra. Hreyfimynd Orra vekur sérstaka athygli, sölumaður heitra potta sýnir á sér nýja hlið með myndavélina í farsímanum.