Píanóstillingameistarinn Sindri Már gerist innflytjandi gæðavína

Staðlað

Þeir gerast ekki öllu búsældarlegri bílskúrarnir í höfuðborginni en sá sem Sindri Már Heimisson opnaði vínáhugafólki heima hjá sér í Víðihlíð á síðasta sunnudegi jólaföstunnar. Þar kynnti hann ítölsk freyðivín til að njóta um áramótin, hvít vín og rauð úr Napa dalnum í Kaliforníu og frá Bordeaux í Frakklandi. Margir þáðu boðið, lögðu sína í Víðihlíð og sneru þaðan heim aftur, nestaðir flöskum af eðalvínum til hátíðanna.

Vínin flytur fyrirtæki í eigu Sindra Más og fjölskyldu inn, milliliðalaust eða í gegnum birgja ytra. Fæst af þessum vínum hafa nokkru sinni sést á markaði á Íslandi. Sindra tókst að komast rækilega á kortið hjá íslenskum vínspekingum þegar hann náði í 60 flöskur af Bourdaux-víninu Château Siran 2018 Margaux sem var valið besta vínið 2021 af alls hundrað vínmerkjum á lista á vefnum Wine Enthusiast. Sérfræðingar á vegum þess fyrirtækisins smökkuðu sig í gegnum einar 22.000 víntegundir áleiðis að niðurstöðunni. Og flöskurnar sem Sindri komst yfir af toppvíninu franska seldust á augnabliki og meira kemur ekki hingað til lands af svo góðu fyrr en þá í fyrsta lagi að lokinni framleiðslu úr nýrri uppskeru.

Freyðandi vín fyrir áramótagleðina

„Núna otum við mjög að fólki ítölskum freyðivínum sem framleidd eru í héraðinu Franciacorta skammt austan við Mílanó. Þarna eru hátt í 40 vínframleiðendur en engin vín þaðan hafa fengist hérlendis fyrr en nú.

Freyðivínin vekja verðskuldaðan áhuga og eru kjörin til að rífa upp stemningu í áramótaveislum og hægt að fá þau líka í býsna stórum flöskum ef svo ber undir! Þau gefa frönskum kampavínum ekkert eftir, eru búin til á sama hátt og kampavínin, úr sömu þrúgum. Jarðvegurinn er hins vegar annar og annað veðurfar ríkir í vínræktarhéruðunum á Ítalíu en í Frakklandi.

Svo sakar ekki að geta þess að menn gera hér góð kaup, ítalska freyðivínið okkar er á hálfvirði saman borið við kampavín. Ítalir drekka þau ekki úr mjóum og háum glösum heldur belgvíðari vínglösum til að fanga betur ilminn og karakterinn.“

Dagur, Sindri Már, Valborg Sunna og Sindri Rafn tóku gestum fagnandi á vínkynningunni.

Vínklúbbur kominn á laggir

Sindri Már vinnur að píanóstillingum og viðgerðum á píanóum og flyglum í nafni fjölskyldufyrirtækisins. Hann heldur þeirri iðju áfram af krafti en víninnflutningurinn bætist nú við á verkefnaskrána og synir hans, Sindri Rafn og Dagur, eru liðtækir samstarfsmenn í þeim efnum, báðir miklir vínáhugamenn. Dóttirin Valborg Sunna er liðtæk líka en hún er aðallega í því að skipuleggja markaðssetningu og kynningu á innflutta varningnum enda í námi í viðskiptahönnun í Barcelona á Spáni.

Á vefnum usavin.is er annars ýmislegt að finna um fjölskyldufyrirtækið í Víðihlíð og víninnflutninginn. Þar er líka vakin athygli á vínklúbbi sem augljóslega áhugafólk um eðalvökva hlýtur að horfa mjög til. Gegn tilteknu mánaðargjaldi fá liðsmenn klúbbsins heimsendar tvær flöskur einu sinni í mánuði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en annars með Póstinum.

Strandamaðurinn Steve Matthiasson

„Við byrjuðum á innflutningnum í febrúar í ár, meira til gamans í upphafi. Öllu gamni fylgir nokkur alvara og þetta vatt hratt upp á sig. Fyrst horfðum við til vína í Bandaríkjunum eins og heiti vefsins okkar gefur til kynna, usavin.is, og raunar má rekja upphafið til óvæntrar Íslandstengingar. Við feðgar vorum á veitingastað í Bretlandi og fengum þar vín frá framleiðanda sem skráður var Matthiasson

Við fórum að grúska og röktun slóðina til hjóna og vínbænda í Napa dalnum í Kaliforníu, Jill og Steve Matthiasson. Hann er Vestur-Íslendingur og á ættir að rekja til bæjar á Ströndum, Skriðnesennis í Bitrufirði. Það þóttu okkur mikil tíðindi því konan mín, Matthildur Aradóttir, á líka ættir að rekja til Skriðnesennis. Á daginn komað ekki svo ýkja langt aftur í aldir fundust bræður, forfeður Matthildar og Steve!

Steve Matthiasson

Steve veðraðist svo upp við þessi tíðindi að við lá að hann tæki næstu flugvél til Reykjavíkur til að heilsa upp á frænku sína og fjölskyldu hennar sem orðin var innflytjandi Matthiasson-vína á Ísland. Þau hjón munu örugglega birtast hér einn góðan veðurdag.

Steve er mikill vínræktarsérfræðingur og kemur víða við í Napa dalnum. Honum er mjög lagið að þroska vínvið og þróa náttúrulega ræktun á eigin ekrum og annarra líka. Þau hjón framleiða nokkrar tegundir rauðvína og hvítvína sem við munum flytja inn og vonandi sjást þau líka í hillum Vínbúða ríkisins. Við höfum lagt inn umsókn þar að lútandi og bíðum niðurstöðunnar. Umsóknarferlið tekur eitt ár eða svo.

Matthiasson-vínið vekur áhuga þeirra sem á því bragða og það er til að mynda komið á vínlista Grillmarkaðarins í Reykjavík og Reykjavík Edition, hótels sem er hluti af Marriott-keðjunni. Þess er að vænta að fleiri veitingahús verði með þetta frísklega og góða vín á boðstólum.

Arnot, Roberts og hvuttarnir.

Svo gerðist það að vínáhugamaður nokkur benti mér á annan áhugaverðan framleiðanda í Napa dalnum, Arnot-Roberts, og við flytjum líka inn vín frá þeim. Að baki vörumerkinu standa félagarnir Duncan Arnot Meyers og Nathan Lee Roberts. Þeir hófu samstarf um vínframleiðslu 2001 og náðu skjótum árangri. San Fransisco Chronicle útnefndi þá til dæmis framleiðendur ársins 2013. Vinsældir vínsins þeirra eru slíkar að eftirspurnin er mun meiri en framboðið.

Svo kom á daginn að Arnot og Roberts eru vinir og samstarfsmenn Steve Matthiassons. Þegar þeir heyrðu af því að við flyttum inn vín frá Matthiasson kom ekki annað til greina en að við yrðum líka umboðsmenn fyrir vín frá Arnot & Roberts.“

Vín frá Arnot og Roberts

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s