Lífrænn svefngalsi hleypur í dalvískan söngfugl

Staðlað

Verslun með svarfdælskt ættarívaf hefur bæst við í fyrirtækjaflóru höfuðborgarinnar,

Náttúrurúm ehf. að Grensásvegi 46. Aðaleigendur eru hjónin Matthías Matthíasson tónlistarmaður frá Dalvík og Brynja Ólafsdóttir, félagsráðgjafi.   Þau flytja inn og selja náttúrulegar og lífrænar svefnvörur af ýmsu tagi eftir að hafa fengið umboð á Íslandi fyrir breska svefnvörufyrirtækið Naturalmat sem starfrækt er í Devonskíri í suðvesturhluta Englands.  

Naturalmat vex hratt og dafnar vel. Fyrirtækið fékk árið 2020 verðlaun sjálfrar Elísabetar Englandsdrottningar fyrir trausta siðfræði sjálfbærrar starfsemi í orði og verki. Það rekur verksmiðju í Devon, verslanir og söluskrifstofur í Devon, Cornwall og Lundúnum í heimaríkinu og svo á Spáni, Hollandi og nú á Íslandi.

Og nú bætist Ísland við á kortið því Náttúrurúm eru rekin í nánum tengslum við Naturalmat. Matthías segir að nú þegar hafi verið lögð drög að Íslandstengdri vöruþróun í samstarfi við Naturalmat og hönnuður fyrirtækisins ytra kom til Íslands og aðstoðaði við að koma versluninni í stand áður en hún var opnuð með viðhöfn 22. október 2021 (sjá myndir eftir Mumma Lú ljósyndara úr opnunarteitinu neðst í pistlinum).

– Hvar og hvernig í veröldinni skyldu leiðir Matthíasar og eigenda Naturalmat hafa legið saman sem varð svo til þess að Dalvíkingurinn músíkalski varð fyrsti umboðsmaður breska fyrirtækisins á Norðurlöndum?

Reynsla í svefnbransa og ótrúlegar tilviljanir

„Þetta hófst einfaldlega þannig að ég fór að skyggnast um eftir rúmdýnu og sæng sem gætu aukið eigin lífsgæði því ég átti vanda til þess að svitna í svefni og það svo mjög að stundum var ég að morgni eins og nýdreginn upp úr tjörn! Leitin leiddi mig að Naturalmat og vörum fyrirtækisins. Nú heyrir það sögunni til að ég svitni í svefni og í samtölum ytra leiddi síðan eitt af öðru svo úr varð verslun.“

Sérverslun með svefnvörur … menn hljóta að þurfa að hafa verulega innistæðu í reynslubankanum til að hella sér út í slíkan rekstur eða hvað?

„Já, þá er þess að geta að ég hef víðtæka reynslu í svefnbransanum allt frá árinu 1995. Ég hef ábyggilega selt stórum hluta þjóðarinnar rúmdýnur um dagana og viðmælendur mínir í Naturalmat heyrðu strax að ég var mjög svo viðræðuhæfur um svefnvörur. Við töluðum strax sama tungumálið í faginu og náðum vel saman.

Svo áttaði ég mig fljótlega á því að tengslin við breska fyrirtækið voru engin tilviljun, æðri máttarvöld sáu bókstaflega til þess að þau kæmust á.“

– Þetta kallar nú á frekari skýringar því bissness er nú yfirleitt einfaldlega bissness en ekki yfirnáttúrulegt fyrirbæri?

„Þegar ég fór fyrst til Devon til fundar við Naturalmat áttaði ég mig á því að nákvæmlega á þessum sömu slóðum höfðu tengdaforeldrar mínir búið í eitt ár og með þeim dóttir þeirra og núverandi eiginkona mín, Brynja, þá 15 ára. Foreldrar hennar tóku ársleyfi frá störfum sínum á Íslandi og vildu breyta til með því að búa ytra í eitt ár. Fyrir einskæra tilviljun bjuggu þau einmitt rétt hjá verksmiðju Naturalmat og létu vel af dvölinni enda héraðið gríðarlega fallegt og gott að vera.

Þegar fjölskyldan kom til baka til Íslands kynntumst við Brynja, hún þá sextán ára en ég sautján. Mér fannst ég hafa verið leiddur á gamlar slóðir hennar í Devon í svefnvörupælingunum mínum löngu síðar.

Sumar vendingar í lífinu eru ekki tilviljanir heldur forskrifaðar. Þetta er klárlega dæmi um slíkt.“

Menn spara með því að kaupa náttúrulegar dýnur

Í nýju versluninni við Grensásveg eru öflug rúm af öllum stærðum og gerðum, rúmdýnur, sængur og koddar. Vöggur, ungbarnarúm og jafnvel rúm handa heimilishundinum.

Fyrstu áhrif á gestkomandi í búðinni eru þau að þá langar helst til að leggjast fyrir í næsta rúm og láta líða úr sér. Svo kemur á daginn að það er nákvæmlega nokkuð sem Dalvíkingurinn vill að kúnnarnir geri en búi samt ekki um sig til svefns.

„Allar vörur hér er handgerðar og allt úr náttúrulegum og lífrænt vottuðum efnum sem brotna niður í náttúrunni. Gangverkið í framleiðslunni er að stórum hluta drifið af sólarorku.

Í öllum rúmdýnum Naturalmat er ull af lífrænt ræktuðum kindum í nágrenni Devon, í sumum 100% náttúrulegt latex, og í öðrum ull af kasmírgeitum eða hrosshár. Í sumum dýnum er kókosvafinn kjarni úr trefjum sem framleiddar eru sérstaklega á Sri Lanka fyrir Naturalmat. Öll kókoshnetan er notuð, ekkert fer til spillis.

Ég féll algjörlega fyrir hugmyndafræði Naturalmat og fyrir handbragðinu og rekstrinum sem er í hæsta máta umhverfisvænn hvar sem á er litið. Starfsemin er afar metnaðarfull og hreinlega mannbætandi líka.

Ull af lömbum er keypt á lífrænt vottuðum sauðfjárbúum í Devon, Dorset og Somerset, innan 50 mílna hrings í kringum verksmiðjuna. Þannig er kolefnissporinu haldið í lágmarki.

Ull er mikið notuð enda hefur hún þann eiginleika að vera náttúruleg einangrun og jafna hita á líkamanum í svefni eftir aðstæðum. Hún kælir í sumarhita en hitar í vetrarkulda.

Á dýnunum er ótrúlega gott að liggja en fólk verður að prófa sjálft til að sannfærast. Verslunin sjálf er um 250 fermetrar að gólffleti og innst er svefnskáli sem ber með réttu heitið Griðarstaður, með sérstakri lýsingu og afslöppuðu yfirbragði. Þar ætlast ég til að viðskiptavinir leggist á dýnur og prófi þær í ró og næði, gefi sér tíma til að velja hvað henti þeim best. Það er nefnilega ekki nóg að horfa á dýnurnar og pota í þær. Menn eiga hiklaust að prófa rúmin sín ekkert síður en bílana sem þeir spá í að kaupa. 

Sama á við um heimilishundana. Komi hundaeigendur hingað til að spá í rúm og dýnu handa þeim fjórfættu er ekkert sjálfsagðara en að leyfa hvuttunum að leggjast fyrir og hreiðra um sig til reynslu áður en lengra er haldið.

Þú spyrð um verð og ég les á milli lína í spurningunni að náttúrulegu dýnurnar okkar hljóti að vera dýrari en sambærilegar dýnur úr öðrum efnum á markaðinum. Því er hins vegar þveröfugt farið. Ég sé aftur og aftur dæmi um að handunnin dýna úr hágæðaefni í versluninni okkar er ekki einu sinni hálfdrættingur í verði á við sambærilegar vörur keppinauta.

Svo nefni ég að viðskiptavinir geta sérpantað samsetningu á dýnum, stærðir og hvað eina. Allt er hægt ef að er gáð.“

Rúmgaflar úr gömlum eikarbáti

– Allar vörur hjá þér eru innfluttar, er við sjóndeildarhringinn að selja líka íslenska framleiðslu af einhverju tagi?

„Já, við eigum nú þegar í viðræðum við íslenskt iðnfyrirtæki um að framleiða rúmgafla fyrir okkur. Þeir fyrstu eru endurunnir úr gömlu eikarskipi sem stundaði veiðar við Ísland í tugi ára.

Frekari vöruhönnun og vöruþróun er í bígerð í anda þeirrar hugmyndafræði sem aðstandendur Naturalmat hafa að leiðarljósi ytra og við tileinkum okkur hér.

Einhverjir kunna að velta fyrir sér hvort umtalsvert svigrúm sé fyrir enn eitt svefnvörufyrirtækið á Íslandi. Því svara ég hiklaust játandi. Við viljum skapa okkur sérstöðu með vörum og þjónustu Náttúrurúma, stækka markaðinn og gera hann fjölbreyttari. Fyrstu rekstrardagarnir benda eindregið til þess að einmitt þetta gangi eftir.

Viðbrögðin fara satt best að segja fram úr björtustu vonum. Það er engu líkara en fólk hafi beðið eftir því að opnuð yrði á Íslandi verslun með náttúrulegar og lífrænar svefnvörur!“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s