Jarðvísindakona deyr á afmælisdegi skapara síns

Staðlað

Þau fórust í fangi hvors annars. Það síðasta sem hún heyrði var þýður rómur hans upp við eyra sér: ­– Átta á Richter.“

Það gengur mikið á í nýrri skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem Salka bókaútgáfa sendi frá sér í vikunni. Höfundur tileinkar eiginmanni sínum söguna, Ragnari Stefánssyni. Sá veit margfalt meira en flestir aðrir um titring í jarðskorpunni.

Dalvíkurskjálftinn 1934 var nálægt 6,3 á Richter og Skagafjarðarskjálftinn 1963 um 7 á Richter. Átta á Richter er því meira en þó nokkuð en rithöfundar geta leyft sér að fara svo ofarlega á jarðskjálftaskalanum án þess að nokkur ljós blikki hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar á bæ gátu menn því einbeitt sér að hópsmituðum Skagfirðingum og kraumandi kvikukatli á Reykjanesi þegar Imba frá Tjörn lét jörð skjálfa í útgáfupartíi undir berum himni í strandhéruðum Reykjavíkur.

Bókin kom út á afmælisdegi höfundarins og tvíburasysturinnar Sigrúnar. Þær fögnuðu tímamótunum hvor í sínu lagi og hvor á sinn hátt. Að ári tjalda Tjarnartvíbbar hins vegar til stórafmælis. Það geta meira að segja máladeildarstúdentar reiknað út frá fæðingarárinu.

Þetta er fimmta skáldsaga Ingibjargar og fjallar í ýmsum tilbrigðum um átök vegna áforma um kísilver í Selvík. Jarðvísindakona deyr á sviplegan hátt og fleiri deyja fyrr og öðru vísi en þeir kærðu sig um fyrir fram. Fleiri týndu svo lífi í jarðskjálftanum mikla.

Þetta er ekki glæpasaga og heldur ekki hamfarasaga. Líf slokknar að vísu aftur og aftur en líf kviknar líka. Í einum kaflanum er til að mynda fjallað um sauðburð.

Sjálf lýsir Ingibjörg bókinni sem „gamansögu með harmrænu ívafi“. Eftir henni er eftirfarandi haft í Fréttablaðinu 22. maí 2021:

„Á yfirborðinu virðist þetta vera sakamálasaga í léttum dúr en undir niðri er þetta háalvarleg samfélagsgagnrýni þar sem pólitískir og efnahagslegir hagsmunir svífast einskis. Þetta er saga um líf í landi, um átök sem felast í eftirfarandi spurningum:

  • Hafa almannavarnir eða aðrir eftirlitsaðilar eitthvert ákvörðunarvald þegar kemur að því að vara almenning við aðsteðjandi hættu ef það stríðir gegn æðri hagsmunum, eins og valdi og gróða?
  • Hvers má sín réttvísi tveggja roskinna kvenna gegn hagsmunum heils byggðarlags, jafnvel þjóðarinnar?
  • Geta vísindamenn yfirleitt gert „hlutlaust“ mat á umhverfisþáttum eins og hamfarahættum?
  • Munu ekki þeir sem réðu þá til verksins alltaf hafa áhrif á niðurstöðuna?“

Hópur vina og vandamanna Ingibjargar fagnaði útgáfunni með henni, langflestir gagnvarðir eftir eina sprautu eða tvær. Bólusetningar var mál málanna í umræðum.

Hófið átti sér að hluta stað innandyra hjá Ingibjörgu og Ragnari. Þá ávarpaði höfundur gesti og því næst var óvænt en afskaplega áhugavert dagskráratriði þegar hópur kvenna kvað ljóð eftir Birnu Guðrúnu Friðriksdóttur frá Melum í Svarfaðardal. Birna var hagyrðingur og ljóðskáld. Út kom eftir hana ljóðabókin Grýtt var gönguleiðin árið 1995, skáldsaga í bundnu máli um ævi förukonu. Í bókinni eru yfir eitt þúsund ferhendur, mismunandi að formi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s