Fjölskylda Ingunnar Hauksdóttur söng henni til heiðurs í Heiðmörk í blíðviðrinu á öðrum degi jóla. Hún á afmæli 26. desember og í þetta sinn var tímamótanna minnst sérstaklega með því að staldra við í lundinum þar sem skjólstæðingur göngufélagsins Sporsins kúrir, fagurskreytt grenitré í tilefni jólahátíðar.
Þetta var í það minnsta önnur heimsókn heiðurshjónanna Ingunnar og Valdimars Sverrissonar að trénu. Hún aflaði snemma á aðventunni upplýsinga um hvar grenið góða væri að finna og Valdimar var svo elskulegur að senda myndir af fyrsta fundi Ingunnar og trésins og svo af afmælishópnum samankomnum á sama stað á öðrum degi jóla.
Takk fyrir myndirnar og til hamingju, Ingunn!
Orri Stefánsson, liðsmaður Sporsins, var líka í Heiðmörk á öðrum degi jóla og greinir frá því að fleiri hafi verið þar á rölti samtímis en hann hafi séð áður. Rennirí og margmenni á öllum stígum.
Margir námu staðar við Dalvíkurtréð, mjög og veltu fyrir sér hvernig á skreyttu grenitré stæði á þessum stað. Þóra Leósdóttir birti til að mynda flotta mynd á Fésbókarsíðu sinni og hefur nú fengið meira að vita um tréð.
Litið um öxl
Ómaksins vert er að nota tækifærið og rifja upp söguna í samræmi við bestu fáanlegar heimildir.
Á vefnum Svarfdælasýsli er fyrst getið um Dalvíkurtréð í tilefni skreytingar fyrir jólin 2012. Þar er því slegið föstu að Haukur Sigvaldason, Dalvíkingur af Böggvistaðaætt, hafi tekið upp á því að rölta einn í Heiðmörk árið 2000. Svo varð hann hundleiður á sjálfum sér og tók með sér frænda sinn Böggvistaðaættar, Jón Magg Magnússon. Þeir frændur gengu jafnan fram hjá væskilslegu grenitré við einn gangstíganna, ákváðu af annálaðri hjartagæsku að kasta í það hrossaskít til næringar, taka væskilinn í fóstur og tileinka hann Dalvík og Dalvíkingum.
Þannig byrjaði þetta allt saman en síðan fjölgaði í gönguhópnum og nú er kjarni hans þetta 8 til 12 manns í eðlilegu árferði og eftir því við hvað er miðað.
Heiðmerkurtré hækka frekar en hitt ár frá ári og það á líka við Dalvíkurtréð. Helsta vandamál við skreytingu þess í ár og í fyrra að hæsti heimilisstigi Sporsins dugar ekki til að brúkunar nema sá leggi sig í umtalsverða hættu sem tekjur að sér að setja rauðu slaufuna á toppinn. Fyrir jólin 2021 verður líklega að óska eftir körfubíl frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Haukur og Jón ákváðu sem sagt að skreyta Dalvíkurtréð. Á Svarfdælasýsli 2012 var varpað fram spurningu: sem ekki fékkst eindregið svar við:
Hvenær byrjaði þetta?
„Svörin voru ekki sérlega skýr þegar safnast var saman til skreytingar á fimmtudagskvöldið var, 29. nóvember. „Þetta er í áttunda skiptið,“ sagði einn. „Nei, þetta er ábyggilega í níunda skiptið,“ sagði annar. „Áttunda eða níunda skiptið án virðisaukaskatts, tíunda skiptið með vaski,“ mælti þá sá þriðji.“
Á mannamáli þýðir þetta að jólaskreytingar í Dalvíkurrjóðri Heiðmerkur byrjuðu 2003 eða 2004 án virðisaukaskatts en 2002 með skatti.
Böggvistaðaættin hefur víst til siðs að mæla tíma í árum, með eða án vasks. Það er ekki hið eina sem gerir hana giska sérstæða í svarfdælsku samhengi.

Afmælis- og jólabarnið Ingunn, þriðja frá vinstri í aftari röð, og fjölskylda við Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Ingunn við Dalvíkurtréð fyrr á aðventunni 2020. Hún hugsar örugglega: Hvernig fer þetta lið að því að skreyta þetta allt til topps? Svar: Við vitum það eiginlega ekki sjálf. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Dalvíkurtréð í jólasnjónum 26. desember 2020. Mynd: Valdimar Sverrisson.

Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Þóra Leósdóttir.

Andrea Ingibjörg, Sandra Sif og Geisli við Dalvíkurtréð 26. desember 2020. Mynd: Orri Stefánsson.

Frumkvöðullinn að gönguhópnum Sporinu, Haukur Sigvaldason, á tali við Pál Bergþórsson veðurfræðing í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ sumarið 2020. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.

Sporfélagarnir Jón Magg Magnússon og Guðrún Marinósdóttir í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ 2020. Hann er varaforseti Sporsins og handhafi félagsskírteinis númer 2. Þeir Haukur eilífðarforseti Sporsins tóku grenitréð í fóstur forðum. Guðrún er myndlistardeild Sporsins. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.

Nokkrir Sporfélagar sumarið 2013. Orri, Jón Magg, Stína, Öddi, Guðrún Marinós, Haukur, Atli Rúnar. Geisli fjórfætti er sjálfskipaður liðsmaður. Mynd: Haukur Sigvaldason.