Lýsandi geimverur á vegum Sporsins spariklæða heiðurstré Dalvíkur

Staðlað

Þá er það afstaðið hið árlega skreytingamannamót í Heiðmörk þegar gönguliðar í Sporinu fagna upphafi jólaaðventu með því að færa fósturtré Dalvíkur í sparigallann. Þetta höfum við gert í mörg ár og alltaf vekur hlýlega furðu göngumanna og hlaupara á nálægum stíg þegar þeir verða vitni að dularfullu brölti og príli fólks í tröppum í rökkri eða myrkri, meira að segja í brunagaddi eins og var nú.

Vá, eruð þið að skreyta tréð?“ kallaði furðu lostinn stelpa í spurnartón á hlaupum. Hún snarstoppaði og góndi. Vinkonan líka.

Ætlið þið að kannski skreyta alla Heiðmörk“?

Nei, Sporverjar kváðust nú ekki getað helgað Dalvík alla Heiðmörkina þótt gustukaverki væri reyndar að friða þannig skóginn allan og setja um leið manninn með sagarblaðið í haft. Sporverjar upplifa alltaf aukaslög í hjartanu og kvíðahnút í maganum þegar borgarstjórinn fer á kreik með vélsögina á þessum árstíma til að komast í fjölmiðla.

Dalvíkurtréð sleppur blessunarlega lifandi við sagarmanninn – enn sem komið er að minnsta kosti.

Fjári kalt í Heiðmörk í kvöld en verkefnið göfugt. Vonlaust við slíkar aðstæður að viðhafa tveggja metra fjarlægðarreglu í sóttvarnaskyni. Við reyndum hins vegar eins og  mögulegt var að hafa norsku fjarlægðina í heiðri. Hún er bara einn metri.

Okkur er hlýtt til Norðmanna enda göngum við alltaf fram hjá húsi í skóginum sem norska ríkið á og sendiráðið Noregs gætir. Erna Solberg er líka vingjarnleg kona og færi aldrei að ógna friðhelgu Dalvíkurtré eða grönnum þess með vélsög í pólitískum tilgangi.

Svo bætist hér við sá kjarni máls í sóttvarnarumræðunni að Sporið er skilgreint sem fjölskylda hjá Þjóðskrá Íslands. Fjölskyldufólk getur eðli máls samkvæmt kúrt saman grímulaust og klæðafátt ef út í það er farið. Þannig fólk er Sporið að vísu ekki.

Í venjulegu árferði hefði athöfnin í kvöld verið mun fjölmennari en raun ber vitni og meira tilstand: heitt kakó, piparkökur og laufabrauð með Hríseyjarívafi (Stína okkar tekur alltaf nokkrar laufabrauðstarnir frá miðjum nóvember til jóla og ekki bregst við skrýðingu Dalvíkurtrésins að upp þurrkast laufabrauðslagerinn hennar á veisluborði að tré skrýddu).

Svo hefjast steikingar á nýjan leik eins og ekkert sé sjálfsagðara. Tóm kökubox fyllast á ný.

Í kvöld voru á vettvangi bræðurnir Ásgeir og Orri Stefánssynir frá Dalvík, Kristín Anna Alfreðsdóttur úr Hrísey, Sigurlína Steinsdóttir frá Dalvík, Guðrún Valtýsdóttir frá Siglufirði og Atli Rúnar úr Tjarnarsókn Svarfaðardals.

Góðmennt auðvitað en engin veisluhöld. Landfræðileg dreifing við Eyjafjörð tryggð og allir með hugann við að gæta hagsmuna Dalvíkurgrenisins sem mest og best.

Göngufólk og aðrir gestir og vinir Heiðmerkur sýna Dalvíkurtrénu alltaf áberandi mikla vinsemd og virðingu á aðventunni og alveg fram á þrettánda dag jóla þegar það er afklætt hátíðarbúningi.

Engin skemmdarverk og aldrei er stolið skrauti af trénu, síður en svo. Oft kemur fyrir, ef eitthvað fýkur af trénu, að ókunnugt fólk grípur fallnar kúlur og hengir aftur á grein.

Sannur hátíðarandi og víst er að Dalvíkurtréð kemur alltaf með jólin til okkar. Vonandi til ykkar líka.

Gleðilega aðventu gott fólk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s