Ýmislegt hafa Svarfdælingar vitað um fortíð Sigríðar Hafstað á Tjörn en örugglega ekki að hún hafi gert sjálfum Halldóri Laxness þann greiða að fara í leiðangur frá Kaupmannahöfn til Svíþjóðar haustið 1947, velja og kaupa kápu á Auði Laxness og koma flíkinni gegnum danska tollinn á bakaleiðinni.
Verðlag í Danmörku var mun hærra en í Svíþjóð og Danir skruppu því gjarnan yfir Eyrarsund til að gera góð kaup. Svo varð að treysta á lukkuna og sakleysislegt yfirbragð til að komast hjá því að vera hirtur í tollinum fyrir smygl.
Laxness átti aura í Svíþjóð, ritlaun fyrir Íslandsklukkuna. Hann vildi nota þá til að kaupa kápu handa frúnni. Sigríður á Tjörn fór til Malmö ásamt Fríðu, mágkonu Halldórs, og rölti gegnum hlið tollheimtumanna í Kaupmannahöfn í nýrri ljósgulri kápu utan yfir eigin kápu.
Allir glöddust yfir árangursríkri innkaupaferð Sigríðar og Fríðu og Auður gekk víst í flíkinni sinni í mörg ár. Laxness hélt áfram að skrifa Atómstöðina á Hóteli d’Angleterre.
Kápusagan er einn af mörgum áhugaverðum minningarmolum í nýju bókinni hennar Sigríðar á Tjörn sem hún skrifar að miklu leyti sjálf. Textinn er að að stærstum hluta sendibréf en einnig kaflar úr viðtölum áður birtum og óbirtum.
Sérstaklega forvitnilegur er fyrri hluti bókarinnar þegar fjallað er um uppvöxt og æskuár í Skagafirði, ferð Sigríðar með Lagarfossi til Svíþjóðar og dvöl þar, heimferð gegnum Kaupmannahöfn, kynni og ástir þeirra Hjartar E. Þórarinssonar á Tjörn, hjónaband og fyrstu búskaparárin í Svarfaðardal. Hún segir að mannlífið í Dalnum hafi verið „töluvert öðru vísi en í Skagafirði“ og bregður upp mynd frá því um miðjan vetur þegar hún fagnaði 25 ára afmæli sínu á Tjörn.
„Ég er að baka pönnukökur, ætla að gefa eiginmanni og börnum eitthvað betra með kaffinu. Þá verður mér litið út um gluggann, og hvað sé ég þarna á veginum, einhverja prósessíu? Hvert er þetta fólk að fara, hugsa ég. Þetta eru fimm gangandi konur. Þegar þær koma nær sé ég að þetta eru grannkonur mínar, Þórlaug og Sigurlaug í Brekku, Rannveig á Jarðbrú og Steinunn í Laugahlíð. Þær koma og færa mér gjafir, og ég er bara 25 ára, nýkomin í sveitina! Þetta hefði ekki getað skeð í Skagafirði, ekki í þá daga. Ég varð ekki vör við að Skagfirðingar ættu afmæli fyrr en þeir urðu sextugir að minnsta kosti, og þá aðallega karlmenn.“
Í bókinni er skotið inn nokkrum afmörkuðum köflum hér og þar sem Sigríður skrifar sjálf, börn hennar eða tengdabörn. Þar er til að mynda kostuleg saga af týndu silfurarmbandi og dramatísk frásögn um svaðilför kvenna í Dalnum í stórhríð og ófærð heim á leið af söngæfingu. Nefna ber sérstaklega skilmerkilega pistla sem Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur skrifar um félagsstörf og handverk Sigríðar tengdamóður sinnar. Þeir styrkja heildarmyndina sem dregin er upp.
Raunar býður frásögn Sigríðar í sendibréfunum upp á fleiri slíka pistla eða samantektir, til að mynda um lömunarveikina á Norðurlandi. Margar kynslóðir Svarfdælinga og Dalvíkinga vita lítið sem ekkert um þennan skæða og óhugnanlega faraldur. Sigrún Hjartardóttir á Tjörn veiktist af lömunarveiki haustið 1955, þá þriggja ára gömul. Hún dvaldi á annað ár í Reykjavík vegna þessa en náði sér ótrúlega vel og blessunarlega af veikindum sínum.
Forsetakosningarnar 1968 hefðu sömuleiðis geta verið tilefni sérstaks pistils. Kjör Kristjáns Eldjárns frá Tjörn var meðal stærstu tíðinda á Íslandi á öldinni sem leið og ábyggilega ýmislegt ósagt enn um málið í hans nánustu fjölskyldu.
Mikill fengur er að bók Sigríðar á Tjörn, þess mikla kvenskörungs. Bókin er aðgengileg til lestrar, verðmæt heimild um líf og starf í gleði og sorg í sveit og auðvitað sérlega menningarlegur búhnykkur fyrir Svarfdælinga.
Málverk Þrándar Þórarinssonar af ömmu sinni á kápunni er firnaflott og bókin er einfaldlega falleg. Endurunninn pappír sem bókin er prentuð á skilar myndum ekki alveg eins vel og vera skyldi, einkum litmyndum. Á vefnum sigriduratjorn.is eru hins vegar allar ljósmyndir í bókinni í fullum gæðum og fleiri til. Góð hugmynd og þakkarverður bókarauki.
Á efstu mynd til vinstri er ekki verið að undirbúa bankarán heldur afhenda grímuklæddir afkomendur Sigríðar á Tjörn og selja bækur í húsasundi i miðborg Reykjavíkur.
Aðrar myndir eru úr bókinni góðu, þar á meðal af Tjarnarbænum sem Þórir Jónsson frá Jarðbrú tók að vetrarlagi 1955. Hann var þá vinnumaður á Tjörn. Þórir tók líka mynd af Steinunni Hjartardóttur ársgamalli í garðinum við Tjarnarhúsið sumarið 1955. Sú er ekki í bókinni en er hér birt sem bónus fyrir lesendur Svarfdælasýsls.






