Góð ráð til að halda hestaheilsu við lestur Hesta

Staðlað

Bókin Hestar er heilsusamleg ef lesendur gæta þess að njóta hennar í áföngum og taka út áhrif í samræmi við það. Sá sem hér skráir lífsreynslu sína fór of geyst og fékk ákafan hósta upp úr drynjandi hláturrokum. Mundi þá eftir gesti á Fiskideginum mikla á Dalvík sem fékk sér bita af hvalkjöti á bryggjukantinum, smurði á hann þykkt lag af einhverju eiturgrænu sem hann ekki þekkti og gleypti allt saman. Hann var fluttur rifbrotinn á heilsugæsluna eftir gríðarlegt hóstakast og vaktlæknir skráði í sjúkraskýrslu: Tvö bein í sundur eftir ofneyslu Wasabi.

Hvernig hefði læknir á bráðavakt Landspítala í Fossvogi tekið því síðastliðið sunnudagskvöld ef inn hefði læðst þar lúpulegur náungi og gefið skýringu á brotnu og löskuðu rifjahylki: Líkamleg viðbrögð við lestri Hesta eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring?

Í alvöru talað, gætið ykkar.

Angústúra forlag sendi í fyrra frá sér bókina Fugla eftir Hjörleif og Rán, í ár eru það Hestar. Hann skrifar, hún er hugmyndasmiður, teiknari og málari. Þau eru gott par og skila firnaskemmtilegu verki.

Það kemur reyndar strax á daginn að Hestar er fjarri því að vera bara glaumur og gleði því verkið er býsna kröfuhart gagnvart lesandanum. Bókin er ekki öll þar sem hún er séð. Því dugar ekki að standa í neinum hundavaðsflettingum heldur taka sér góðan tíma. Fletta og lesa. Lesa aftur og fletta. Rýna, stúdera og fatta.

Hjörleifur og Rán þeysast með lesandann aftur á bak og áfram um heimsbyggðina frá upphafi mannkyns til vorra daga, drepa niður fæti í norrænni goðafræði og Íslendingasögum, þjóðsögum, flökkusögum, lygasögum og sönnum sögum.

Þarna er kveðskapur um hesta, heilmikill fróðleikur um hrossaliti, óborganlegur kafli um hrossamálfræði fyrir byrjendur og meira að segja uppskrift að folaldagúllasi eftir Írisi í Laugasteini.

Þetta er því eldhúshandbók líka og meira að segja fylgir með litabók handa ungum og öldnum til að gefa hrossum líf og lit að eigin vali.

Hjörleifur og Rán kynntu bókina sína í Ásmundarsal um síðastliðna helgi, bæði laugardag og sunnudag. Forlagið þeirra var bæði með belti og axlabönd í smitvörnum, höfundar grímuklæddir handan við glerplötu, sprittgufa fyllti salinn og gestir sættu þriggja metra reglu.

Þarna var vitavonlaust að smitast.

Þegar heim var komið tóku við veikindi af hlátri yfir Hestum en sá sjúkdómur er víst utan þjónustusvæðis Þórólfs & Co.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s