Anna Dóra með bókartíðindi af skagfirska ófriðarsvæðinu

Staðlað

Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja, ég vil lifa lengur, hrópaði hún svo heyrðist um allan skálann og inn að klefanum þar sem við Láki stóðum og biðum eftir einhverju, við vissum ekki hverju við biðum eftir. Þá tók Gróa utan um hana og sagði: Eitt skal yfir okkur báðar ganga. Það varð samt ekki svo að þær slyppu báðar …

Þessi örvæntingarorð leggur Anna Dóra Antonsdóttir, Dalvíkingur og rithöfundur, Ingibjörgu Sturludóttur í munn í nýrri bók sinni, Brennan á Flugumýri. Brúðkaupsveisla Ingibjargar af Sturlungaætt og Halls Gissurarsonar af Haukdælaætt var þá nýafstaðin og ekki allir gestir farnir til síns heima þegar flokk manna, með Eyjólf ofsa í fararbroddi, bar að garði seint að kvöldi 21. október 1253. Komumenn kveiktu í bænum og brenndu inni 25 manns í hefndarskyni fyrir Sturlu Sighvatsson.

Brúðkaupinu var ætlað að vera friðartákn í samskiptum Sturlunga og Haukdæla en samkoman endaði með einu af mestu voðaverkum Íslandssögunnar, Flugumýrarbrennu.

Anna Dóra lætur 12 ára dreng, Þorvald, segja söguna heima á grannbænum Kirkjugrund hálfri öld síðar. Valdi brenndist illa á Flugumýri og ber þess merki í andliti.

Bókin er ætluð unglingum og því er ritstíllinn aðgengilegur, kaflar stuttir og letrið stórt. Orðaskýringar eru hér og þar neðanmáls. Teikningar eftir Elísabet Kolbrá Úlfarsdóttur og Mio Soråsen auka við upplifun lesandans og undirstrika dramatíkina.

Ég er sérkennari og set bókina upp eftir kúnstarinnar reglum til að gera hana sem læsilegasta fyrir ungt fólk,“ segir Anna Dóra.

Á vef forlagsins Espólín er meira að segja að finna ókeypis vinnubækur með nýju bókinni og með systurbók hennar, Bardaginn á Örlygsstöðum. Hana skrifaði ég og gaf út 2013. Upplagðar bækur til að nota líka í skólakerfinu ef svo ber undir.“

Anna Dóra hefur ekki sagt skilið við skagfirska ófriðarsvæðið því hún hyggst klára þríleikinn með bók um mannskæðasta bardaga Íslandssögunnar sem háður var á Dalsáreyrum í Blönduhlíð 19. apríl 1246. Í Haugsnesbardaga áttust við Sturlungar og Ásbirningar og þar féllu á annað hundrað manns.

Sigurður Hansen, bóndi í Kringlumýri, hefur komið upp mögnuðu minnismerki um Haugsnesbardaga og stillt upp fylkingum Ásbirninga og Sturlunga með yfir þúsund grjóthnullungum. Hann opnaði líka safn um bardagann og Þórð kakala Sighvatsson, foringja Sturlunga. Ég skrifaði texta ætlaðan ungmennum til að hlýða á í heyrnartólum þegar þau skoða safnið. Þar með er ég komin með grind að nýrri bók.“

Espólín forlag, sem Anna Dóra Antonsdóttir og Teitur Már Sveinsson, stofnuðu 2018, gaf sömuleiðis út á dögunum ljóðabókina Ráf í Reykjavík eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur. Ljóðin eru tilbrigði við smásögu Ástu Sigurðardóttur, Götu í rigningu.

Þá má rifja upp að Espólín gaf í fyrra út matreiðslubókina Uppskriftir stríðsáranna sem fengnar voru frá systrunum Sigurlaugu og Guðbjörgu Sveinsdætrum frá Tjörn á Skaga. Sú fyrrnefnda er móðir Önnu Dóru, betur þekkt á Dalvík og í nágrenni sem Lauga í Lundi.

Sögusviðið í Skagafirðil.
Flugumýrarbærinn brennur.
Skagfirskar + ástleitnar vofur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s