Ánægjustund í eldhúsi í Þykkvabæ

Staðlað

Eldhús getur hæglega verið skemmtistaður og eldamennskan gleðistund í góðum hópi.  Hlöðueldhúsið í Oddsparti í Þykkvabæ hefur hlotið eldskírn sína. Það stóðst prófraunina með glæsibrag og rekstrarleyfi fyrirtækisins er væntanlegt á hverri stundu. Þá geta Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson ýtt úr vör með frumkvöðlastarfsemi sína undir þaki þar sem fyrr á árum var hýst sauðfé í fjárhúskróm og hey í sambyggðri hlöðu.

Hópurinn sem fenginn var til að prófa gæði Hlöðueldhússins er í gönguhópnum og líknarfélaginu Sporinu. Þar eru Svarfdælingar uppistaðan, slæðingur af Hríseyingum og meira að segja Siglfirðingur líka.

Þarna mættu til viðbótar tveir landsþekktir gleðipinnar, matgæðingar og sérfræðingar í borðsiðum, Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson. Þeir höfðu heyrt í Hrönn í útvarpsviðtali, höfðu samband og vildu ólmir koma í heimsókn í Oddspart. Þeim var einfaldlega boðið að elda með Sporinu í Hlöðueldhúsinu og þáðu það snarlega með þökkum og breiðu brosi. Bergþór upplýsti strax á upphafsmínútunum að hann gæti rakið móðurætt sína að Hrísum og Upsum í Svarfaðardal og fyndi því strax góða strauma í selskapnum.

Með þeim í för var Páll Bergþórsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri, faðir Bergþórs og tengdafaðir Alberts. Páll verður 97 ára núna í ágúst 2020 og hélt upp á 95 ára afmælið 2018 með því að kasta sér út úr flugvél og svífa til jarðar í fallhlíf. Hvernig skyldi hann halda upp á aldarafmælið?

IMG_5504

Páll Bergþórsson og Haukur Sigvalda ræða málin.

Völundarsmíð og Víkartindur

Margt og mikið hefur gerst í Oddsparti síðan sauðfé var ræktað þar, ekki síst frá vorinu 2017 þegar Hrönn og Þórólfur höfðu selt veitingahúsið Loka í Reykjavík eftir farsælan rekstur um árabil og fóru að skyggnast um bekki eftir nýjum ævintýrum. Þau keyptu þessa jörð í Þykkvabæ og fengu Hauk Sigvaldason, smið og Dalvíking, til liðs við sig til að koma húsum og hýbýlum í stand. Það þurfti jafnframt að kalla til verka hönnuði, verkfræðinga og sérfræðinga af ýmsu tagi og hvorki var sparað né slegið af kröfum af neinu tagi til að gera væntanlega umgjörð Hlöðueldhússins fullkomna og fína. Og það hefur nú heldur betur tekinn, je minn eini.

Haukur gerðist hluthafi í Hlöðueldhúsinu með þeim hjónum í Oddsparti og húsakynnin úti og inni eru eitt stórt meistarastykki húsasmiðsins og lofar völundinn. Hann er mikill hagleiksmaður og margt er þarna að sjá sem sýnir útsjónarsemi þeirra þriggja, skemmtilega útfærslu hugmynda og nýtni. Til dæmis er barborðið í veislusalnum að uppistöðu voldug bjálkatré sem lágu í haug undir húsvegg þegar nýir eigendur tóku við Oddsparti. Grunur leikur á að þennan góðvið hafi rekið á fjörur við Þykkvabæ sem strandgóss úr Víkartindi sem fór upp í fjöru austan Þjórsárósa 1997.

Þegar svo Haukur smiður hugðist búa til fatahengi í veislusalnum á dögunum sótti hann bjálka í hauginn við húsvegginn, sagaði og boraði. Úr varð einstaklega flott og traust hengi fyrir flíkur.

Víkartindur hefur þannig lagt Hlöðueldhúsinu til bæði barborð og fatahengi án þess að það hafi nú beinlínis verið ætlun hans á sínum tíma.

Grænt í bragga

Sporverjar + Bergþór & Albert skiptu sér í fjögur lið og glímdu samtímis við rétti á matseðli kvöldsins.

  • Einn hópur tók að sér forréttinn, eggaldinhringi með sinneps- og jógúrtchutney.
  • Annar hópur sá um annan aðalréttinn, djúpsteiktar gellur með tartarsósu.
  • Tveir hópar skiptu með sér hinum aðalréttinum, hrossalund með Þykkvabæjar-kartöflusalati og bernaissósu.

Hrönn lagði uppskriftir fyrir hópana og var á vappi, ráðlagði og leiðbeindi ef henni þótti ástæða á meðan liðin stússuðu í matnum af ákefð og áhuga.

Sumt krydd í réttina eða grænt á diskana var sótt út í bragga í Oddsparti. Þar verður umfangsmikil mat- og kryddjurtaræktun eftir að bragginn hefur verið tekinn í gegn í næsta þrepi framkvæmda. Límtrésbogar eru komnir í hús úr verksmiðju á Flúðum. Einhvern næstu daga verða þeir reistir og klæddir með ytra byrði og innréttingum komið fyrir.

Kannski fær Víkartindur líka minnisvarða um sig í bragganum því enn eru til bjálkatré undir vegg.

IMG_5666

Í grænmetisbragganum í Oddsparti. Hér er næsta þrep framkvæmda á staðnum.

Ánægjustund í eldhúsi

Aðstandendur Hlöðueldshússins bjóða hópum að koma til að elda, borða og gleðjast. Eiginlega er ekki réttnefni að kalla þetta námskeið í matargerð heldur miklu frekar matarupplifun eða ánægjustundir í eldhúsi!

Mismunandi viðfangsefni eru í boði, matur sem tilheyrir „gamla Íslandi“ eða „nýja Íslandi“, pönnukökur og flatbrauð, hrossaket eða kartöfluréttir, smáréttir, hlaðborð og margt fleira.

Sumir eru sjóaðir í eldamennsku en aðrir minna eða lítið sem ekkert. Allir geta hins vegar fengið hlutverk við hæfi og haft gagn og umfram allt gaman af samverustundinni. Það var til að mynda eftirtektarvert hve fljótt og vel sá hópur hristist saman sem eldskírði starfsemi Hlöðueldhússins. Bergþór Pálsson sagði á eftir ekki hefði tekið nema korter að kynnast nægilega vel til að menn færu að láta ljósbláar sögur fjúka! Það segir eitthvað.

Mamma Agata og hugmyndafræði hennar í Þykkvabæ

Kveikjuna að því sem orðið er Hlöðueldhús í Þykkvabæ má rekja til ferðar Hrannar og vinkvenna hennar til Ítalíu á árinu 2011. Þær voru heilan dag hjá Mömmu Agötu, ítalskri konu sem ákvað að taka á móti gestum heima hjá sér, elda með þeim úr hráefni sem að hluta var heimafengið. Þetta varð fljótlega umfangsmikill fjölskyldurekstur og afar vinsæll áningarstaður.

Mamma Agata var toppurinn í Ítalíuheimsókn Hrannar og eftir það fór að brjótast í henni að útfæra hugmyndafræði Agötu, jafnvel heima hjá sér í Reykjavík. Þessar pælingar hófust sem sagt löngu áður en þau Þórólfur seldu veitingahúsið Loka.

Matarupplifunin sem Sporið fékk að upplifa er kjarnastarfsemi Hlöðueldhússins, aðalatriðin er nægjustund í eldhúsi.

Svo verður líka tekið á móti hópum og eldað fyrir þá. Það vefst ekki fyrir heimafólkinu þrautreyndu og margsjóuðu frá rekstri Loka. Alla vega er engin hætta á að Þórólfi förlist flatbrauðsgerðin. Hann hnoðaði deig og steikti við gasloga kökur sem telja má í tugum þúsunda um Lokadagana. Hann er enn að.

IMG_5786

Þórólfur með lærling í flatbrauðsbakstri. Lærlingurinn var í „yngra genginu“ sem mætti í Hlöðueldhúsið og lét listir sinar eftir að Sporverjar hurfu á braut. Nokkrar myndir af þessum hluta dagskrár í Oddsparti fylgja hér með.

Sparað stórlega með varmaskiptagöldrum

Heimsókn í Hlöðueldhúsið er upplifun í sjálfu sér en vert er líka að gefa hugmyndafræði staðarins gaum. Hún gengur út á að lifa og starfa í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi í víðasta skilningi. Hráefni til rekstrarins verður keypt af grönnum í Þykkvabæ eða annars staðar á Suðurlandi eins og unnt er. Matjurtir og rótargrænmeti verður ræktað í Oddsparti og lífræn efni sem til falla eru nýtt til moltugerðar og moltan síðan notuð í ræktuninni í bragganum.

Síðast en ekki síst ber að nefna að Oddspartur er hitaður upp með orku úr jörðu þar á lóðinni, ekki samt með heitu vatni úr borholu heldur með varmaskiptum í lokuðu kerfi röra sem plægð voru niður á 1,2 metra dýpi. Fimm gráðu hiti í jörðu er margfaldaður með tæknikúnstum þannig að í veislusalnum er stöðugur hiti upp á 21 gráðu og úr krönum rennur 50-60 gráða heitt vatn. Þetta sparar hellingspening í rekstrinum.

Kartöflufagnaður  frekar en þorrablót

Ábúendur í Oddsparti una sér vel í Þykkvabæ og Þykkbæingar taka þeim vel. Engin tilviljun er að hluti ánægjunnar í Hlöðueldhúsinu er að elda og bera á borð hrossakjöt. Þykkbæingar átu nefnilega hrossakjöt með mestu ánægju um aldir og nutu þess alveg sérstaklega á sama tíma og kirkjunnar forkólfar bannfærðu þá landsmenn sem lögðu sér hross til munns.

Þykkbæingar þrifust vel á meðan margir aðrir landsmenn vildu frekar hlýða kirkjudrjólum og svelta í guðs nafni.

Þykkbæingar blóta heldur ekki þorra á hefðbundinn hátt Íslendinga heldur blása árlega kartöfluhátíðar síðvetrar. Í ár sá kórónuveiran til þess að kartöflufagnaðinum var aflýst en þá verður bara þeim mun meiri glaumur í Þykkvabæ 2021.

Í þessu merkilega menningarumhverfi er matarupplifun Hlöðueldhússins.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s