Jurtir, líffæri, forystufé, útfarar- og greftrunarsiðir. Viðfangsefni Bjarna Daníelssonar myndlistarmanns eru úr óvæntum áttum. Spennandi eru þau og áhugaverð, sér í lagi þegar með fylgir fyrirlestur fagmannsins sjálfs um verkin og hugmyndaheim þeirra.
Vinnustofan er bjart og fínt skot á yfirbyggðum svölum heima á Seltjarnarnesi. Þar er sjónauki innan seilingar til að grípa til ef vart verður umferðar úti fyrir ströndinni. Læknissonurinn frá Dalvík leggur þá frá sér pensil og stúderar skip og báta á siglingu heim eða heiman.
Hvernig á ekki að deyja

Árgerði í september 2018.
Bjarni ólst upp í læknisbústaðnum Árgerði við vesturenda brúar yfir Svarfaðardalsá. Hann fór ýmsar krókaleiðir hérlendis og erlendis í lífi, námi og starfi. Tók svo til við að mála myndir fyrir fáeinum árum eftir hlé svo áratugum skipti.
Nú sýnir hann akrýlmálverk í Galleríi Gróttu á Seltjarnarnesi. Sýningin var opnuð síðar en til stóð vegna veirufaraldursins en nú standa þar galopnar dyr kl. 10-17 á virkum dögum og 11-14 á laugardögum til 30. maí.
Þetta er fyrsta einkasýning Bjarna Dan. frá árinu 1985 en þær verða fleiri því nóg er til á lager og meira bætist við á næstu vikum og mánuðum. Hann hefur nefnilega lofað sjálfum sér því að verða afkastamikill við trönurnar í sumarbirtunni og ekki verða skemmtiferðaskipin til að tefja hann eða trufla. Heimsfaraldurinn heldur þeim frá landinu og mun minni erill verður því en ella á sjóferðavaktinni á Nesinu. Penslar verða meira brúkaðir en sjónaukinn.
Myndirnar í Galleríi Gróttu eru afrakstur vinnu í Luxemborg sumarið 2018. Þar dvöldu þau hjón, Valgerður Gunnarsdóttir Schram og Bjarni, um hríð vegna starfs hennar. Þá gerðist það að hann keypti trönur, liti og pensla og fór að mála fyrir alvöru.
Sýningin heitir Hvernig á ekki að deyja. Titillinn vísar til bókar eftir bandarískan lækni, Michael Greger. Sá var ákafur talsmaður jurtafæðis og hollustu í mataræði. Hver mynd vísar til ákveðinna jurta eða líffæra en eru þetta málverk en ekki myndir af líffærum eða jurtum, svo því sé til haga haldið. Sjón er sögu ríkari.

Bræðurnir frá Árgerði og eiginkonur þeirra. Frá vinstri: Ingibjörg Benediktsdóttir, Friðrik Daníelsson, Bjarni Daníelsson og Valgerður Gunnarsdóttir Schram.
Ætlaði upphaflega að verða skúlptúristi
Bjarni fæddist árið 1949, sonur Dýrleifar Friðriksdóttur ljósmóður og Daníels Á. Daníelssonar héraðslæknis á Dalvík í áratugi. Í bekk með honum í Dalvíkurskóla voru kanónur í byggðarlaginu á borð við Ómar Arnbjörns, Óskar Pálma og Svanhildi Árna. Þau eru reyndar ári eldri en Bjarni og skýringin er sú að Bjarni var færður upp um bekk til að geta verið samferða Friðriki bróður sínum í og úr skóla. Drjúgur spölur var fyrir grunnskóladrengi að rölta í skólann úr Árgerði og heim aftur. Læknishjónunum þótti öryggi í því og praktískt að koma því svo fyrir að synirnir væru á sama tíma á skólabekkjum.
Bjarni er menntaður myndlistarkennari, hann lauk síðar meistaranámi í myndlist og kennslufræði frá Winconsin-háskólanum í Madison í Bandaríkjunum og meistaraprófi í stjórnsýslufræði frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Þá er hann menntaður leiðsögumaður.
Hann var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1986-1994, framkvæmdastjóri Norræna menningarsjóðsins 1994-1996, skrifstofustjóri menningarmála hjá Norrænu ráðherranefndinni 1996-1999, óperustjóri Íslensku óperunnar 1999-2007 og starfaði líka um árabil sem kennari í myndlist og kennslufræði hér heima og um skeið í Bandaríkjunum.
„Þegar ég lærði myndlist snerist allt um skúlptúr. Ég ætlaði að verða skúlptúristi og sinnti þeirri grein nokkuð áður en ég lenti á bak við skrifborð. Svo gerðist ekkert markvert í myndsköpun hjá mér í nokkra áratugi eða þar til við Vala dvöldum í Luxemborg. Þá fór ég að mála og ekki varð aftur snúið frá trönunum.
Fróðir menn sögðu mér í gamla daga að málarar yrðu betri eftir því sem aldur færðist yfir þá. Nú skil ég hvað það þýðir og er sannfærður um að það sé hárrétt! Mér var líka sagt að menn yrðu að kynnast heimi litanna og vinna sig inn í hann. Nú veit ég að það er sömuleiðis satt og rétt.
Í verslunum eru seld óteljandi litabrigði í túbum en þegar ég hafði málað um hríð fékk ég nóg af tilbúnum litum, sérstaklega akrýllitum. Þeir eru flatir og ráðríkir, blandast ekki vel, þekja mikið og eru hreinlega erfiðir að vinna með.
Nú nota ég bara sex liti; tvo rauða, tvo bláa, tvo gula, og hvítt að auki og blanda á staðnum. Þannig fæ ég öll afbrigði lita sem ég þarf og vil nota.
Blöndun á staðnum er lykill að farsælu og litríku lífi við trönurnar.
Þegar ég byrjaði að búa til eigin litbrigði opnaðist veröld litanna. Ég fór að skilja, sjá og skynja þá mun betur en áður.“
Ær á leið niður fjallshlíð
Sérstaka athygli vekur að í stofu og víðar hjá Valgerði og Bjarna Dan. hanga á veggjum málaðar myndir húsbóndans af sauðfé. Næsta víst er að hvergi á landi hér séu fleiri hrútar og ær í einum mannabústað en einmitt þarna við strönd Seltjarnarness. Kemur þá ekki á daginn að Bjarni er genetískur áhugamaður um forystufé en hefur ekki komið út úr skápnum sem slíkur fyrr en á allra síðustu árum.
„Blessaður vertu, ég er kominn af sauðfjárbændum í marga ættliði móðurmegin. Friðrik afi minn á Efri-Hólum í Núpasveit átti afburðagott forystufé og slíkt taldist til kjörgripa!
Ég las bók Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp um forystufé og hafði gríðarlega gaman af. Myndirnar málaði ég annars vegar til heiðurs afa og hins vegar sótti ég áhrif í eitt frægasta málverk 20. aldar, Nakin kona gengur niður stiga eftir Frakkann Marcel Duchamp. Myndaserían mín heitir hins vegar Ær á leið niður fjallshlíð.
Hérna sérðu svo enn eina myndaröðina. Sú er í vinnslu og úr allt annarri átt en sauðfé, sex hálfkláraðar myndir sem ég hef allar í takinu samtímis og veit ekki hve margar verða á endanum.
Viðfangsefnið er greftrunar- og útfararsiðir mismunandi trúarbragða. Öll eiga trúarbrögð sameiginlegt að eftirlifendur senda hina látnu í ferðalag, á staði sem eru betri en þeir þekktu í jarðvistinni fyrir andlátið. Ríkt er að einhvers konar sæluríki bíði manna, með öðrum orðum að lífinu ljúki ekki með dauðanum heldur sé eitthvað framundan fyrir sálina þegar líkaminn gefst upp. Meira að segja Neanderdalsmenn bjuggu um sína látnu með sérstökum hætti til undirbúnings ferðinni í eilífðarlandið.“
Djass- og gammaveisla dauðans
Á einni mynd Bjarna í útfararseríunni er hljómsveit á djassútför í New Orleans. Þar er fjör, djamm og djús og gleði. Á annarri eru gammar tveir langt komnir með að úrbeina lík í Tíbet. Þar þekktist, og þekkist kannski enn, að lík séu borin til fjalla og gammar sjái um að sálarflutninginn áfram í sæluheima þegar hafa nagað kjöt að beini.
Þetta fyrirkomulag kunna ránfuglarnir vel að meta, ættingjar spara sér útgjöld vegna útfarar og sálin kemst í sæluna. Allir glaðir, allir hagnast.
„Ég klára enga mynd í seríu fyrr en hafið er verk við þá síðustu. Það er ófrávíkjanleg vinnuregla. Svo gerist það að myndirnar taka af mér völdin og tala saman. Sjálfur er ég bara með í hópnum og fylgist með því sem verða vill. Myndirnar eru gjarnan ráðríkar, taka völdin og ráða því sjálfar hvenær og hvernig þær klárast.
Ég upplifi gjarnan í níu mynda röð að einhverjar sex myndir móta heildina og ráða ferðinni. Hinar þrjár eru á hliðarlínu og láta sér fátt um finnast.
Málverk eru eins og fólk í samfélaginu, misjafnlega virk. Sumar myndir trana sér fram, aðrar láta lítið fyrir sér fara eða vilja helst ekki vera með.
Þannig veita myndirnar mér í senn aðhald og félagsskap.“