Tjarnarkvartettinn – sagan öll frá 1989 til 2000

Staðlað

Kvartett kenndur við bæinn Tjörn í Svarfaðardal varð landsþekktur, afar vinsæll, virkur og afkastamikill á þeim liðlega áratug sem hann starfaði.

Tjarnarkvartettinn

  • kom margoft fram á tónleikum í öllum landshlutum að Vestfjörðum undanskildum.
  • var eftirsóttur á mannamótum af öllu mögulegu tagi; söng fyrir togarasjómenn og seðlabankastjóra, bændur og ráðherra, gesti í forsetaveislum á Bessastöðum og á þorrablótum, hámenningarsamkomum, meðalmenningarlegum mannamótum og allt þar á milli.
  • söng í brúðkaupum, afmælisveislum og við útfarir, á norrænum vinabæjarmótum, árshátíðum
  • söng á Sumartónleikum í Skálholti 9. ágúst 1997. Ríkisútvarpið hljóðritaði tónleikana og sendi út 1997 en nú er hægt að hlýða á þá hér á Svarfdælasýsli. Leitið og þér munið finna í ágúst 1997, aftar í þessu sagnaskjali.
  • kom fram á tónleikum á Hrauni í Aðaldal í janúar 1994 fyrir einn áheyranda, Kjartan bónda Sigtryggsson níræðan. Hann langaði til að hlusta á kvartettinn syngja á Húsavík en þegar til kom treysti gamli maðurinn sér ekki til að fara vegna óveðurs og erfiðrar færðar. Kvartettinn leit þá einfaldlega inn á Hrauni á heimleið í Svarfaðardal og söng fyrir Kjartan.
  • tók þátt í verkefninu Tónlist fyrir alla á Vesturlandi, Snæfellsnesi, í Hafnarfirði og á Suðurlandi og hélt til að mynda 25 tónleika á fimm dögunum á Suðurlandi um mánaðarmótin október/nóvember 1995!
  • kom nokkrum sinnum fram í þáttum í Ríkisútvarpinu og í sjónvarpsþáttum á RÚV og Stöð tvö.
    • Manstu gamla daga, fimmtíu mínútna langur sjónvarpsþáttur sem Helgi Pétursson stjórnaði um kvartetta á Íslandi fyrr og síðar. Á dagskrá RÚV í október 1992 en áhugasömum er vísað á dagsetninguna 26. september 1992 síðar í þessu skjali.
    • Á tali hjá Hemma Gunn. Aðalgestur þáttarins Jóhanna Sigurðardóttir. Á dagskrá RÚV-sjónvarps 5. nóvember 1994.
    • Bingólottó. Afar sérkennilegir þættir sem SAGA-film gerði um hríð fyrir Stöð 2, stjórnandi Ingvi Hrafn Jónsson. Tjarnarkvartettinn var í þætti sem sendur var út í janúar 1995.
    • Tjarnarkvartettinn. Fimmtíu mínútna langur heimildarþáttur sem kvikmyndafyrirtækið Nýja bíó gerði fyrir RÚV, stjórnandi Sonja B. Jónsdóttir.  Þáttinn er að finna aftar í þessu skjali, nánar tiltekið við dagsetninguna 4. maí 1996 í „dagbókaryfirlitinu“. Þann dag var hann á dagskrá Sjónvarpsins.
    • Fólk og firnindi, sjónvarpsþáttur Ómars Ragnarsson árið 1999. Kvartettinn söng lag sem Youtube hefur að geyma og í kjölfar kvartettsins siglir Ríótríóið.
  • fékk sex sinnum boð um að syngja á samkomum erlendis og vakti alls staðar athygli og lukku.
    • Alþjóðleg leiklistarhátíð í Tampere í Finnlandi, september 1995.
    • Norrænir menningardagar í Kaupmannahöfn, nóvember 1996.
    • Íslendingadagur í furstadæminu Liechtenstein, júlí 1997.
    • Sýningin Expo 98 í Lissabon í Portúgal, júní 1998.
    • Keltnesk hátíð á Bretaníuskaga í Frakklandi, ágúst 1998.
    • Tónlistarhátíð í Gooile í Belgíu, júlí 1999.

Upphafið

Tjarnarkvartettinn var fyrst og fremst þekktur fyrir fágaðan söng án undirleiks (a cappella) en sérstaðan var líkja sú að hann skipuðu tvenn hjón, bræður frá Tjörn og eiginkonur þeirra. Þau bjuggu meira að segja á sömu torfunni í Tjarnarsókn í Svarfaðardal í upphafi, Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson á ættaróðalinu Tjörn með kindur, kýr og 100 þúsund lítra mjólkurkvóta en Rósa Kristín Baldursdóttir og Hjörleifur Hjartarson í Laugahlíð, kennarabústað spottakorn frá Tjörn og nær fjallshlíðinni. Þau hin síðarnefndu fluttu frá Reykjavík í Svarfaðardal 1989 þegar Hjörleifur fór að kenna í Húsabakkaskóla og Rósa Kristín að kenna í Tónlistarskóla Dalvíkur.

Scan 13

Upphaf samstarfs þeirra fjögurra í söng er rakið til brúðkaups Hjörleifs og Rósu Kristínar sumarið 1989. Í veislunni sungu systkini Hjörleifs, þau Kristján Eldjárn, Þórarinn og Sigrún Hjartarbörn, og svo Kristjana, eiginkona Kristjáns. Þau kölluðu sig Tjarnarkvartettinn.

Skömmu eftir brúðkaupið stakk Rósa Kristín (sópran) upp á því að þau Hjörleifur (tenór), Kristján (bassi) og Kristjana (alt) færu að æfa saman söng. Þá varð til sá Tjarnarkvartett sem hér er umfjöllunarefni. Hann kom fyrst fram á Slægjum, uppskeruhátíð svarfdælskra bænda og búaliðs, síðsumars 1990 á Þinghúsinu Grund, nær áttræðu samkomuhúsi Svarfdælinga sem varð eldi að bráð í lok janúar 2004.

TK-3

Hjörleifur, Rósa Kristín, Kristjana og Kristján.

Bakgrunnur í tónlist

rosaRósa Kristín var stjórnandi kvartettsins alla tíð og eini liðsmaður hans sem hafði tónlist að atvinnu. Hún hafði áður stundað nám í píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík, var síðan í tónmenntadeild Kennaraháskóla Íslands og fór þaðan í Söngskólann í Reykjavík. Hún söng í Mótettukórnum. Eftir að Rósa flutti norður var hún í söngnámi hjá Michael Jóni Clarke í Tónlistarskólanum á Akureyri, hún stjórnaði kórum og stofnaði reyndar suma þeirra og hún var um árabil organisti í kirkjum í Svarfaðardal.

kristjanaKristjana söng í fyrsta sinn opinberlega í uppfærslu Leikfélags Dalvíkur á Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson. Fyrir daga Tjarnarkvartettsins söng hún í Samkórnum á Dalvík og í Kirkjukór Dalvíkur. Hún sótti söngtíma hjá Rósu Kristínu og Jóni Þorsteinssyni á fyrstu árum kvartettsins.

kristjanKristján hafði sungið í Samkórnum á  Dalvík og Karlakór Dalvíkur en var annars á kafi í starfi Leikfélags Dalvíkur árum saman, fyrir tíð Tjarnarkvartettsins og eftir að kvartettinn varð til.

hjorleifurHjörleifur var í tónmenntadeild Kennaraháskóla Íslands og lærði þar meðal annars söng. Hann söng um hríð í Dómkórnum syðra og í MK-kvartettinum 1987-1989. Hann sótti síðar söngtíma hjá Margréti Bóasdóttur í Tónlistarskólanum á Akureyri.

Aríusöngur á mjaltatíma

Fyrstu æfingar Tjarnarkvartettsins áttu sér stað í íbúð á efstu hæð í norðurenda Húsabakkaskóla haustið 1989. Fyrsta lag á fyrstu æfingu var Till There Was You  úr söngleiknum The Music Man  eftir Meredith Willson frá árinu 1957. Bítlarnir tóku þetta lag á öðru albúmi sínu, With the Beatles, 1963. Tjarnarkvartettinum reyndist lagið erfitt og það var aldrei flutt.

Annað lag úr smiðju Bítlanna sjálfra var hins vegar tekið á dagskrá síðar og það rataði á fyrsta hljómdisk kvartettsins 1994, Can’t buy me love eftir Paul McCartney. Lennon&McCartney eru samt báðir skrifaðir fyrir laginu og það kom fyrst út á tveggja laga plötu í mars 1964 og svo á þriðja bítlaalbúminu, A Hard Day’s Night, í júlí 1964.

Æfingar voru á Húsabakka, í Laugahlíð, á Tjörn og síðar líka á Laugalandi á Þelamörk þegar Rósa Kristín og Hjörleifur fluttu þangað til kennslustarfa. Markmiðið var að æfa reglulega tvisvar í viku en við það reyndist á köflum snúið að standa. Fjóstímar á Tjörn, barnastúss og alls kyns amstur í tilverunni hafði auðvitað áhrif á hvenær hægt var að æfa og hvar.

Við hæfi er að geta hér barnanna sem oft koma við sögu í upprifjun sögu Tjarnarkvartettsins.

  • Börn Kristjönu og Kristjáns: Örn f. 1982, Ösp f. 1985 og Björk f. 1990.
  • Börn Rósu Kristínar og Hjörleifs: Baldur f. 1988, Árni og Hjörtur f. 1991 (tvíburar). Fyrir átti Rósa Andra Bjarnason og Hjörleifur átti fyrir Ásu Helgu.

Barnasýsl

Kýrnar á Tjörn undu sér vel við að sungnar væru aríur hástöfum í fjósinu á mjaltatímum, enda á klassísk tónlist víst vel við heimilisdýr. Íslenski dýraatferlisfræðingurinn Hanna María Arnórsdóttir segir til að mynda að Mozart hafi jákvæð á kýr í fjósi og klassískir tónar losi um streitu hrossa.

Stór og fjölbreyttur lager laga

Tjarnarkvartettinn setti sér upphaflega markmið um fjölbreytt lagaval og stóð við það. Vorið 1994, þegar hafinn var undirbúningur að fyrsta hljómdiskinum, átti kvartettinn 70-80 æfð lög „á lager“ og þeim fjölgaði þegar fram í sótti. Það var líka nauðsynlegt að geta valið úr stóru safni fyrir mismunandi „gigg“ því til að mynda gekk ekki að bjóða upp á svipaða dagskrá í veislu forsetaembættisins á Bessastöðum og á  baráttusamkomu verkalýðsfélaga, hvað þá að brúka sama efni á þorrablóti og við hjónavígslu.

Á lager kvartettsins voru íslensk og erlend þjóðlög, klassísk kórlög, vísnasöngur, sálmar úr söngbókmenntum blökkumanna, djass, bítlalög og íslensk dægurlög frá fyrri tíð. Snemma á ferlinum fór kvartettinn að fá valinkunna tónlistarmenn til að útsetja fyrir sig og á seinni árum var talsvert efni frumsamið, einkum eftir að Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson gerðist einskonar hirðmaður kvartettsins við tónsmíðar og raddsetningar.

Af öðrum sem sömdu eða raddsettu fyrir kvartettinn má nefna Heimi Sindrason, Jón Hlöðver Áskelsson, Ríkharð Örn Pálsson, Elías Davíðsson, Hildigunni Rúnarsdóttur og Sigurð Halldórsson.

Skarðið verður ekki fyllt

Tjarnarkvartettinn starfaði með hléum fyrstu árin eftir stofnun hans 1990 en það var ekki fyrr en 1992 sem hjólin fóru að snúast svo um munaði og hróður hópsins fór að berast um allar landsins byggðir og út fyrir landssteinana.

Í ársbyrjun 1992 byrjaði Hjörleifur að skrá færslur í Gjörðabók Tjarnarkvartettsins og 29. nóvember 1992 efndi kvartettinn til fyrstu opinberu tónleika sinna, í Dalvíkurkirkju. Fregnmiða um konsertinn var dreift á bæi í sveitinni og auglýsingar festar á veggi á fjölförnum stöðum Dalvíkur.

Fáeinum vikum áður hafði kvartettinn komið fram í sjónvarpsþætti hjá Helga Pé. Það það þótti staðfesta fullkomlega að kvartettinn hefði „meikað’ða“.

Tjarnarkvartettinn fékk jafnan lofsamlega tóma fyrir söng sinn á tónleikum og á hljómdiskum. Hann skildi eftirsig skarð sem ekki hefur verið fyllt og verður tæplega fyllt því margt var svo sérstakt við þennan hóp að aldrei verður farið í föt liðsmanna hans.

Líf kvartetts fjarar út …

Líf kvartettsins fjaraði smám saman út þegar leið á árið 1999. Í mars og apríl það ár sýndi Leikfélag Akureyrar Systur í syndinni. Kvartettinn lék þar og söng og gaf út samnefndan hljómdisk. Sýningar urðu færri en vonast var eftir, diskurinn var of seint á ferðinni og seldist lítið, mun minna reyndar en hann á skilið.

Í júlímánuði 1999 þáði kvartettinn boð um að syngja á tónlistarhátíð í Belgíu og eftir heimkomuna voru skráð í Gjörðabókina nokkur „gigg“, meðal annars tónleikar í Mývatnssveit og á Akureyri.

Síðasta færslan er skráð 2. október 1999: söngur á samkomu hjá VISA-Íslandi á Hóteli KEA.

Rökstuddur grunur er um að Tjarnarkvartettinn hafi komið fram síðar á árinu 1999, jafnvel á jólaföstunni en engar heimildir finnast um það. Liðsmenn kvartettsins rámar í eitthvað en það liggur ekkert handfast fyrir um hvar og hvenær lokatónleikarnir áttu sér stað. Á meðan ekkert annað kemur í ljós var þá punktur settur aftan við söguna á Hóteli KEA.

Leiðir Rósu Kristínar og Hjörleifs skildu snemma árs 2000 og Kristjana og Kristján ákváðu að flytja til Danmerkur þá um sumarið, árið 2000.

Sögulok Tjarnarkvartettsins skrifuðu sig þannig sjálf.

Orð eru óþörf

 

Gjörðabók I og II, söguþræðir raktir

Scan 1 copy

Hjörleifur Hjartarson skrásetur og hefur orðið. Svarfdælasýsl byggir samantektina að miklu leyti á skrifum HjHj en bætir við og útfærir á eigin ábyrgð.

Ársbyrjun 1992

Þetta er kvartettbókin. Í hana verða færð helstu afrek Tjarnarkvartettsins í tali og tónum og þá ef til vill fyrst og fremst hvaða lög eru æfð og hver sungin á uppákomum ýmiskonar.

31. janúar

Sungið í Dalbæ.

2. febrúar

Æfing kl. 13, síðan fórum við bræður í útvarpsútsendingu og Lísa Páls klúðraði öllu fyrir okkur.

8. febrúar

Félag eldri borgara á Akureyri. Undirtektir ágætar.

22. febrúar

Ríkharður Örn Pálsson hringdi, búinn að setja útsetningu á Vori í Vaglaskógi í póst.

22. febrúar

KEA kona

Kona með hrífu í flekknum. Myndskreyting Hjörleifs með færslu um árshátíð KEA í gjörðabók kvartettsins.

Árshátíð KEA. Kl. 16 lagt af stað til Akureyrar. Börnum dreift í pössun víðs vegar um sveitina. Þórarinn fenginn í fjósið og spýtt í lófana. Þegar inn í KA-heimilið kom blasti við ógurlegt gímald með borðum og stólum fyrir 700 manns. Við æfðum okkur í hátalarakerfinu og vöndum okkur við það.

 

29. febrúar

Sungum fyrir Alþýðubandalagið.

12. apríl

Í gær barst oss sú frétt til eyrna að Menningarsjóður Sparisjóðs Svarfdæla hefði af náð sinni veitt okkur óverðskulduðum 100 þúsund krónur til ráðstöfunar til útsetninga eftir behag. Húrra.

Vernharður Linnet hringdi og bar undir okkur upptroðslu í RÚREK 14. eða 15. maí. Við erum til í það, er það ekki?

16. apríl

Komu þau hjón K(ristjana) og K(ristján) upp brekkuna og fórum við strax að syngja. Norræna félagið vill fá okkur á vísnakvöld á Akureyri.

Siggi Halldórs kemur á morgun með útsetningar.

19. apríl – páskadagur

Æfðum Moon River og Vor í Vaglaskógi. Lærðum When I fall in love.

29. apríl

Tilboðum rignir inn. 1. maí syngjum við hjá verkalýðsfélögunum. Fram þjáðir menn!

3. maí

Sungum í skírn um daginn og síðan um kvöldið á vísnakvöldi á KEA ásamt Hanne Juul og Jan Olav Andersen.

25. júlí

Æfing á Tjörn. Eftir viku er söngur fyrir norræna verkalýðsforingja, brúðkaup um miðjan ágúst og síðan Hólahátíð.

30. ágúst

Tvöfaldur Tjarnarkvartett söng verk eftir Scarlatti við endurvígslu Tjarnarkirkju eftir umfangsmiklar viðgerðir.

Scan 4

Hinn tvöfaldi kvartett í Tjarnarkirkju. Frá vinstri: Ragnheiður Ólafsdóttir, Þórarinn Hjartarson, Hjörleifur Hjartarson, Kristjana Arngrímsdóttir, Steinunn Hjartardóttir, Kristján Hjartarson, Rósa Kristín Baldursdóttir og Þröstur Haraldsson.

15. september

Kvartettinn hefur undirgengist það að syngja í sjónvarpinu og æfir stíft að undanskilinni gangnahelginni þegar helmingur söngflokksins tapaði röddinni.

tungurétt

Tjarnarbræður önnum kafnir við að tapa röddum í Tungurétt.

18. september

Þrátt fyrir gólandi börn og kálfa sem komast þurfa í sláturhús, að ógleymdum símanum – óvini kvartettsins nr. 1, var æfing.

26. september

Jæja, kvartettinn fór sem sagt suður í Sjónvarpið hjá Helga P. og Tage og söng Vorvísur og Vakna Dísa.

[Hér er vísað til þáttar sem sendur var út í Sjónvarpinu 17. október 1992 og var í þáttaröðinni Manstu gamla daga? Í þáttunum var fjallað um sögu íslenskrar dægurtónlistar og 17. október var tekinn fyrir kvartettsöngur á Íslandi fyrr og síðar. Umsjón höfðu Helgi Pétursson og Jónatan Garðarsson. Tage Ammendrup var dagskrárstjóri].

Manstu gamla daga

21. október

Æfing í Laugahlíð. Nú, nú, við sungum fyrir UMSE og BSE sl. laugardagskvöld. Mikil hálka og mikið stress hjá sumum. Sama kvöld var sendur út þátturinn hans Helga Pé í Sjónvarpinu.

30. október

RÚVAK-stúdíó á Akureyri. Tekin upp þrjú lög með harmkvælum nokkrum og þau síðan flutt 31. október, á Íslenskum tónlistardegi.

17. nóvember

Tónleikar í Tjarnarkirkju. Undirleikarar Daníel Hilmarsson og Einar Arngrímsson.

22. nóvember

Menningarhátíð við utanverðan Eyjafjörð.  Fyrstu opinberu tónleikar Tjarnarkvartettsins í Dalvíkurkirkju auglýstir kl. 16 í dag (sunnudag) en kvartettinn hefur samt sungið saman frá 1989 og komið fram allvíða,  meðal annars í útvarpi og sjónvarpi.

Á efnisskrá (samkvæmt frétt Morgunblaðsins) eru „íslensk og erlend þjóðlög, negrasálmar, dægurlög og djasslög“.

Undirleikarar í nokkrum laganna eru Daníel Hilmarsson á gítar og Einar Arngrímsson á bassa.

Scan 2

Tónleikunum var svo frestað til 29. nóvember vegna heilsubrests í kvartettinum. Í dreifimiða á bæi í sveitinni stendur: „Týndar raddir eru óðum að koma í leitirnar og heilsan batnar dag frá degi.“

Fyrstu tónleikarnir – myndir Heimis

12. desember

Jólin koma, kertaljós og klæðin rauð. Kristján og Kristjana komu hingað í Laugahlíð, borðuðu spaghetti carbonara og horfðu á Morse lögreglufulltrúa. Æfing á eftir.

1993

30. janúar

Sungum á tveimur árshátíðum á Akureyri, fyrst hjá Lífi og fjöri og síðan hjá áhöfninni á Margréti EA. Vægast sagt mikil glæfraför með tenórinn raddlausan.

11. febrúar

Vikublaðið, umfjöllun eftir Þröst Haraldsson.

11. febrúar

Hæsi, hæsi, hæsi. Urðum að afboða okkur á þorrablót á Dalvík og í Ólafsfirði. Ætlum á þorrablót í Varmahlíð um helgina og nú æfum við.

25. febrúar

Búin  að fá nótur frá Jóni Áskeli Hlöðverssyni og síðbúna sendingu frá Tónverkamiðstöð. Lærðum Þú ert yndi mitt yngsta og besta.

2. apríl

Sungum heilan konsert fyrir 50-60 manns á Löngumýri í Skagafirði. Ágætt.

4. apríl

Sungið fyrir Mentor og Dag í verðlaunaafhendingu fyrir ljóðasamkeppni.

23.-30. apríl

Konsertar á Blönduósi, á Skagaströnd og í Freyvangi .

Verkalýðsdagurinn 1. maí

Sungum á sameiningarfundi sparisjóðanna og fengum heldur hlýjar móttökur, einkum frá sparisjóðsstjóra frá Siglufirði sem sá sig knúinn til að standa upp og þakka sérstaklega fyrir sönginn.

Scan 55. maí

Kvartettinn kom, sá og sigraði í stjórn og bankaráði Seðlabankans án teljandi erfiðleika, í kokkteilboði Sparisjóðs Svarfdæla. Þar grétu menn á borð við Jóhannes Nordal og Birgi Ísleif en aðrir gátu haldið aftur af tárunum en ekki bundist orðum af hrifningu.

husabakkasongur

Oft afgreiddi Hjörleifur dagbókarfærslur í þessum dúr …

Scan 328.  júní

Nú, nú! Við sungum á sjómannadaginn fyrir 900 fulla togarasjómenn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Höfðum þá áður sungið fyrir breskan leikhóp í Lambhaga.

Í dag vorum við í Blómahúsinu (blaðaauglýsing: „hinn stórgóði Tjarnarkvartett í fyrsta sinn á Akureyri“).

Núna æfum við fyrir brúðkaup Elíasar og Gunnhildar næsta laugardag.

7. júlí

Enn bíðum við bræður eftir þurrkinum. Allt er klárt undir heyskap en vantar rétta veðrið.

18. júlí

Sungum á ættarmóti við ágætar undirtektir.

23. júlí

Æfum fyrir brúðkaup Steinunnar Jóhannsdóttur og Leifs Harðar á morgun

28.ágúst.1993

Norðurslóð 28. ágúst 1993

20.-21. ágúst

Sungum í brúðkaupi Sigríðar Árnadóttur og Helga Más Arthurssonar í Tjarnarkirkju og Þorgerðar Hafdísar Þorgilsdóttur og Kristjáns Þorsteinssonar í Dalvíkurkirkju.

23. október

Æfðum í Tjarnarkirkju fyrir hádegi.

Eftir hádegi vendum við okkar kvæði í kross og slátrum nokkrum lömbum okkur til skemmtunar.

Um kvöldið: Áttum ágætan leik í Ólafsfirði með Fílapenslunum frá Siglufirði.

28. október

Sungum fyrir landsþing sparisjóða á menningarvöku á Dalvík ásamt Leikfélagi Dalvíkur. Undirtektir hreint frábærar enda sungum við betur en oft áður.

9. desember

Æfðum eftir aðventukvöld í Tjarnarkirkju. Annað kvöld syngjum við í Listagilinu á Akureyri.

19. desember

Sungum eins og englar í Deiglunni í kvöld. Áheyrendur tæplega 40 talsins og gerðu góðan róm að söngnum.

Hefðum viljað sjá fleiri úr tónlistarkreðsunni eða menningarelítunni svona heilt yfir en af því liði sást hvorki haus né sporður.

Ánægjulegt að sjá þarna þó nokkuð af venjulegu fólki sem við ekki þekktum. Við viljum meina að sjaldan höfum við sungið betur.

Umsögn í Degi 19. desember 1993

1_19.des.1993, Haukur Ág

30. desember

des.93

ungoaugl 94

1994

Scan 72. janúar

Tónleikar á Húsavík. Í Víkurskarði var ógurlegt kóf og vorum við nokkurn tíma þar yfir en áfallalaust komumst við til Húsavíkur. Þar var reyndar varla stætt í norðaustanáttinni en tekið á móti okkur með tei og kexi í leikhúsinu. Áheyrendur samtals 14 auk þeirra sem við lögðum á borð með okkur.

20. janúar

Sungum leikhúsprógramm í afmælishófi Leikfélags Dalvíkur.

2. febrúar

Frissi Þórlaugar Friðriksson Spar kom að máli við kvartettinn í dag og vill ólmur standa að plötu. Þetta höfum við spjallað um ásamt öðru.

friðrikri

Friðrik Friðriksson, fyrsti útgefandi tónlistar Tjarnarkvartettsins, með „bláa diskinn“ góða.

5. febrúar

Þorrablót á Grenivík. Sungum við ágætar undirtektir heimamanna í góðu stuði.

17. febrúar

Kaffisamsæti á Hóteli KEA til heiðurs Guðmundi Knudsen dýralækni.

23. apríl

Dagur, umfjöllun eftir Óskar Þór Halldórsson..

28. apríl

Alltof lítið að gerast hjá þessum kvartett. Þó var hann í viðtal hjá Degi um síðustu helgi. Þar voru allir gleiðir og miklir tónlistarmenn.

17. júní – þjóðhátíð

Kvartettinn söng á lýðveldishátíð á Dalvík. Atti þar kappi við norðannæðing, náði yfirhöndinni og hafði að endingu fullan sigur.

laugahl.gardur

Söngæfing í garðinum í Laugahlíð sumarið 1994.

19. júní

Fjölskylduhátíð í Kjarnaskógi á Akureyri.

29. júní

Sungum fyrir norræna byggingarmenn í Bláhvammi á Akureyri.

1 júlí

Norrænt vinabæjamót á Skagaströnd. Söngurinn gekk vel.

16. júlí

Hjónavígsla í Dalvíkurkirkju. Guðbjörg Halldórsdóttir og Þórbergur Egilsson.

17. ágúst

Tónleikar í Deiglunni á Akureyri.

sólon24. ágúst

Tónleikar á Sólon Íslandus í Reykjavík. Troðfylltum Sólon og margir þurftu frá að hverfa.

Viðtökurnar ólýsanlegar enda sungum við eins og við getum best efni sem við kunnum í þaula.

Hvað var gaman!

solon2-

solonaugl

Frétt og umsögn Jóns Ásgeirssonar

25. ágúst

Áfram haldið við að taka upp fyrir diskinn í Fella- og Hólakirkju. Kristján þurfti að bregða sér frá til að setja leiklistarhátíð í Mosfellsbæ með lafandi tungu og reyndi að teygja lopann í setningarræðunni á meðan hann beið eftir afgangi kvartettsins.

Kristjana söng, Kristján söng en ekki kom afgangurinn af kvartettinum fyrr en á síðustu stundu, rétt mátulega til að raula lögin fyrir menntamálaráðherrann og hitt liðið á bekkjum íþróttahússins.

Svo var svínkeyrt aftur í Fella- og Hóla þar sem þeir biðu blessaðir karlarnir, Gerrit og Hreinn, þolinmóðir eins og bílar á bílaplani. Við tókum til við að hlusta á upptökur og komumst að því að taka varð aftur upp Hjá lygnri móðu og Moon River.

upptaka

Upptaka í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík.

bassi

Það gengur auðvitað ekki að bassinn mæti rámur til upptöku á söng. Kristján var settur yfir gufu.

26. ágúst 

Norrænn ráðherrafundur í Laxdalshúsi á Akureyri.

27. ágúst

Varmahlíð í Skagafirði. Sungið fyrir framsóknarmenn.

15. október

Yfirlýsing útgefanda disksins (sem hann svo aldeilis ekki stóð við)

16. október

Dagur sem lengi verður í minnum hafður því í kvöld var nýi diskurinn frumspilaður í Laugahlíð að kvartettum viðstöddum og Gerrit að auki.

22. október

Dagur, útgáfuteiti á Akureyri.

27. október

Árshátíð frystihúss KEA á Dalvík.

5. nóvember

Á tali hjá Hemma Gunn sendur út í Sjónvarpinu. Aðalgesturinn var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Tjarnarkvartettinn tók lagið.

[Gestir í sjónvarpssal voru giska skrautlegir, klæddir leðurgöllum með keðjur, merki og tákn af ýmsu tagi. Þetta voru liðsmenn Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna. Sjálfur stjórnandinn, Hemmi Gunn, kom meira að segja brunandi inn í myndverið í upphafi þáttar sem farþegi á mótorhjóli eins leðursnigilsins].

Sama kvöld: útgáfutónleikar í Þjóðleikhúskjallaranum.

19. nóvember

Morgunblaðið, umfjöllun eftir Sverri Pál Erlendsson.

??. desember

Aðventukvöld í Möðruvallakirkju en söngur á aðventukvöldi í Dalvíkurkirkju og jólakonsert á Dalvík féll niður vegna raddleysis og heilsubrests.

1995

 14. janúar

Tónleikar til styrktar séra Pétri Þórarinssyni í Laufási í Glerárkirkju á Akureyri.

21. janúar

Sungið á samkomu í Möðruvallakirkju í Hörgársveit í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Davíðs skálds Stefánssonar frá Fagraskógi. Við sungum eins vel og við gátum en enginn klappaði frekar en fyrri daginn í þessari kirkju. Á eftir á létu menn samt eins og þeim hefði líkað söngurinn.

22.  janúar

Fullt að ske, eins og börnin segja. Tvö þorrablót á KEA og eitt í Ýdölum. Stöð 2 um næstu helgi.

Svo kom símtalið sem við höfum beðið eftir. Sigrún Valbergs hringdi og bauð okkur á leiklistarhátíð í Tampere í Finnlandi.

Gratís ferð og uppihald.

Jess, JESS!

28. janúar

Mætt í upptöku hjá SAGA-film í Reykjavík vegna bingólottóþáttar á Stöð 2. Ingvi Hrafn Jónsson stormaði í salinn og lék á alls oddi. Svo þegar lukkuhjól höfðu snúist um stund kom röðin að okkur. Við sungum Muze eins og okkur einum er lagið og eignuðumst í það minnsta einn aðdáanda, söngkonu hljómsveitarinnar Ununar sem söng þarna síðar um kvöldið.

Heimferðin daginn eftir var lengri en til stóð.  Ófært yfir Öxnadalsheiði og urðum því að gista í Hávík í Skagafirði og væsti ekki um okkur þar.

Heimferðar- og ófærðarmyndir

11. febrúar

Árshátíð á KEA.

17. febrúar

Það er aldeilis að kvartettinn æfir stíft!

18. febrúar

Sungum á KEA fyrir KEA. Fórum á staðinn með  sama prógramm  og síðast en okkur varð ljóst að áheyrendur voru af allt öðrum toga og búnir að gera víni staðarins góð skil.

Við ákváðum að venda kvæði okkar í kross og gjörbreyttum söngskránni til samræmis við aðstæður. Byrjuðum á Andskoti full og létum svo hvern smellinn á fætur öðrum ríða á mannskapnum. Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna.

13. mars

Þursabit + ófærð + verkfall. Hvar endar þetta?

20. mars

Útvarpsmenn komu frá Akureyri og tóku upp Davíðslög í kirkjunni fyrir þátt sem Yngvi Kjartansson ætlar að gera um Davíðssamkomuna á Möðruvöllum. Með í för var Lísa Páls sem sömuleiðis fékk afnot af upptökunum fyrir helgarútgáfu Rásar 2.

26. mars

Tónleikar í Logalandi í Borgarfirði, 120 manns og auk þess kvenfélagskonur sem seldu kaffi. Fólkið gerði aldeilis frábærlega góðan róm að söngnum og fagnaðarlátum ætlaði seint að linna.

Scan 4

 

29. apríl

Hvað er að gerast í lífi okkar?

Japaninn Arikawa vill ólmur bjóða okkur til Japans. Einhver Sólveig reynir að plata okkur til Stokkhólms 17. júní. Nú æfum við sálma fyrir leikritið GUÐ/jón á Akureyri. Það er býsna gaman.

Á morgun syngjum við á tónleikum í Íþróttaskemmunni á Akureyri í tilefni af  því að liðin eru 100 ár frá fæðingu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Hinn daginn er 1. maí á Húsavík.

Svo hringdi Sonja B. Jónsdóttir frá Nýja bíói og ætlar að gera um okkur þátt að beiðni Sjónvarpsins.

Ekki veit ég hvar þetta endar.

26. maí

Kvikmyndamenn komu og filmuðu í erg og gríð fyrir heimildarmynd um hinn annálaða Tjarnarkvartett.

Liðið frá Nýja bíói í Svarfaðardal

17. júní – þjóðhátíð

Söngur í Borgarnesi. Mikill fjöldi áheyrenda.

Tjarnarkvartettinn á miklum vinsældum að fagna í Borgarfjarðarhéraði.

21. júní

Sungum fyrir 170 norræna bankalögfræðinga á KEA og gersamlega lögðum þá hundflata, alla með tölu.

3. júlí

Mánudagskvöld. Bjartviðri en fremur kalt. Kvenfélagskonur púla eins og maurar á Húsabakka.

Í dag voru fjárhúsin á Tjörn jöfnuð við jörðu og margt fleira skemmtilegt skeði.

Kvöldæfing.

Geta má þess að kvartettinn flaug til Reykjavíkur glaðbeittur og söng fyrir 600 skandinavíska hugvísindamenn á Hóteli Sögu.

23. júlí

Tjarnarkvartettinn  söng síðasta lag fyrir hádegisfréttir í dag.

4. ágúst

Sumartónleikar á Norðurlandi. Sungum í Raufarhafnarkirkju sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Þar mættu heimamenn og fólk úr nágrannabyggðum, allt frá Þistilfirði til Húsavíkur. Við sungum eins og englar. Mannskapurinn ætlaði bara ekki að sleppa okkur, klappaði mikið.

5. ágúst

Tókum á okkur krók á leið í Mývatnssveit og heimsóttum Óttar Einars og Jóhönnu Þorsteins í Svalbarðsskóla.

5_5. ágúst.1995.johanna og óttar

5. ágúst

Sumartónleikar á Norðurlandi. Troðfylltum Reykjahlíðarkirkju og það svo mjög að fólk nánast hékk í loftbitum til að missa af sem minnstu.

6. ágúst

Sumartónleikar á Norðurlandi. Fjölsóttir tónleikar í Akureyrarkirkju og ágætlega látið af söngnum.

Á Akureyri líf og fjör, Halló Akureyri, og 10.000 manns á götunum. Veðrið afskaplega gott.

11. ágúst

Nýja bíó hefur undanfarna þrjá daga skotið á Tjarnarkvartettinn við hin margvíslegu daglegu störf í heyskap og barnauppeldi í yndislegu veðri og mestu vinsemd.

13. ágúst

Tónleikar í Kaffileikhúsinu í Reykjavík.

Kaffileikhús 13. ág.95

Blaðaauglýsing:

Á efnisskránni eru íslensk sönglög, dægurlög og leikhústónlist. Kvartettinn er nýkominn úr sumarferð um Norðurland og heldur að tónleikunum loknum áleiðis til Finnlands þar sem hann tekur þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð í Tampere.

tk-og-sigrun

Finnlandsreisan undirbúin með Sigrúnu Valbergsdóttur, væntanlegum kynni á tónleikunum ytra. Undir myndina skrifaði Hjörleifur í gjörðabókina: „Þessi hópur er alls ekki svo ólíklegur til að geta borið hróður íslenskrar menningar vítt um lönd.“

Scan

12. september

Fullt, fullt hefur skeð sem m.a. er skráð í sérstaka reisubók kvartettsins vegna Finnlandsfarar.

Finnlandsreisa í máli og myndum

Portúgal nafnspjaldKA

Nú lærum við og æfum jólalög fyrir væntanlegan jóladisk og margt fleira er i bígerð, meðal annars tónleikaferð um Suðurland, tónleikar á Hvammstanga og afmæli Kjarnafæðis.

Scan 19

5.-8. október

Upptaka söngs í Dalvíkurkirkju til útgáfu á væntanlegum jóladiski kvartettsins.

Verkefnið Tónlist fyrir alla á Suðurlandi

30. október

Flúðir.

31. október

Hveragerði.

Hverag.31.okt.95

1. nóvember

Þorlákshöfn.

3. nóvember

Selfoss.

Tónlist fyrir alla – fréttir, frásagnir, myndir

19. nóvember

Tónleikar til styrktar Flateyringum eftir snjóflóðin. Íþróttahöllin á Akureyri.

flateyri 17

Scan 2018. desember 

Tvennir tónleikar að baki, alveg ágætir. Fyrst í Deiglunni og svo í Dalvíkurkirkju. Við sungum eins og mýs en á hvorugum tónleikanna var þó diskur til sölu.

Nú er ég við skrif. Jólakort.

1996

3. febrúar

Þorrablót í Ýdölum.

17. febrúar

Hvernig dó mamma þín? Höfundasmiðja í Borgarleikhúsinu og kvartettinn sló á eftir létta strengi í anddyrinu.

Hvernig dó mamma þín?

27. febrúar

Æfing í Laugahlíð. Alþingisveislan um næstu helgi.

4. mars

Gerðum góða ferð til Reykjavíkur eins og fyrir hálfum mánuði þegar við sungum fyrir starfsfólk Alþingis.

Í þetta skiptið sungum við fyrir sjálfa höfuðpaurana, alþingismenn, ráðherra og Vigdísi forseta, í þingveislu á Hóteli Sögu. Það gekk áfallalaust fyrir sig.

6. apríl

Útför Hjartar E. Þórarinssonar, bónda á Tjörn, frá Dalvíkurkirkju. Jarðsett heima á Tjörn.

Tjarnarkvartettinn söng Heyr himnasmiður.

Frétt í Degi 9. apríl 1996

9_6. apríl.1996. Útför Hjartar á Tjörn

16. apríl

Æft fyrir Austurlandsferð í apríl. Áfangastaðir: Húsavíkurkirkja, Egilsstaðakirkja, Seyðisfjarðarkirkja, safnaðarheimilið í Neskaupstað.

30. apríl

Aðalfundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á Akureyri.

4. maí

[RÚV-sjónvarp sýnir 55 mínútna langa heimildamynd um Tjarnarkvartettinn á besta sýningartíma, eftir fréttir á laugardagskvöldi.

Kvikmyndafyrirtækið Nýja bíó gerði myndina fyrir RÚV og aflaði efnis í Svarfaðardal vorið og sumarið 1995].

15. maí

Sjóvá-Almennar, árshátíð.

23. maí

Tónleikar í Dalvíkurkirkju.

18. maí

Tónleikar í Gerðubergi í Reykjavík.

Dagur 12. júní. 96

Dagur 12. júní 1996

19. maí

Aukatónleikar í Gerðubergi í Reykjavík.

4. júní

Kvöldverður utanríkisráðherra vegna ráðherrafundar EFTA.

14. júní

Stjórn Norræna menningarmálasjóðsins á Hótel KEA. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Bjarni Daníelsson læknissonur frá Árgerði.

29. ágúst

Nýtt starfsár kvartettsins hefst. Framundan:

    • september, Vestnorræna ráðið.
    • september, Oddfellowreglan.
    • september, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna, FAO.
    • október, Rauði krossinn.
    • október, minningartónleikar um Ingimar Eydal.
    • október, Vopnafjörður.
    • október, Mývatnssveit.
    • nóvember, Danmerkurferð.
    • desember, Sauðárkrókur.
    • desember, Deiglan á Akureyri.
Scan 32

Kvartettinn á Vopnafirði, í eldhúsi hjá menningarvalkyrjunni Sigríði Dóru Sverrisdóttur.

1. september

Þá er hafið nýtt kvótaár hjá bændum. Búið að raða niður göngum í Svarfaðardal.

2. nóvember

Alltaf eitthvað að ske. Í fyrrinótt brann Vallakirkja og fólk í Dalnum situr agndofa og lamað yfir þeim tíðindum.

6. nóvember

Kaffihúsið Hlaðvarpinn. Hitað upp fyrir gamanleikritið Hinar kýrnar.

9. nóvember

Scan 33

Scan 31

Nordiske dage í Kaupmannahöfn á vegum danska menningarmálaráðuneytisins og Norrænu ráðherrahefndarinnar. Tjarnarkvartettinn auglýstur sem svar Íslands við ABBA!

Á þessum norrænu dögum komu líka fram sænska söngkonan Monica Zetterlund, Egill Ólafsson og sænski a cappella hópurinn The Real Group.

Vigdís Finnbogadóttir forseti og danski rithöfundurinn Suzanne Brögger ræddu um bókmenntir og menningu og þarna var líka Einar Már Guðmundsson rithöfundur + margir fleiri.

21. nóvember

Ferðin til Danmerkur var afskaplega vel heppnuð og menningarleg. Við sungum eins og englar, svo sem við var að búast og jukum enn á hróður okkar.

Um síðustu helgi var Dagur íslenskrar tungu og kvartettinn söng í menningarhúsinu á Dalvík í dagskrá helgaðri Jónasi Hallgrímssyni.

1 desember

Sungum á Kaffi Krók á Sauðárkróki fyrir 24 Skagfirðinga á meðan Íslendingar lögðu Dani að velli í handbolta. Afgangurinn af Skagfirðingum lá yfir leiknum með hljóðum sem heyrðust alla leið inn í konsertsalinn á viðkvæmum augnablikum.

1997

19. janúar

Styrktartónleikar vegna Ólafs Helga Gíslasonar frá Brúum í Aðaldal. Glerárkirkja. Áheyrendur um 600.

Scan 24

15. febrúar

Félagsheimilið Rimar í Svarfaðardal tekið í gagnið við hátíðlega athöfn.

Myndir frá Rimum

18. febrúar

Náttúruöflin hafa oft gert kvartetti þessum erfitt fyrir en aldrei eins og 29. janúar þegar snarpur sunnanvindur hrifsaði úr höndum mér allar nótur sem við höfðum haft til æfinga að undanförnu eða ætluðum að fara að æfa.

Ég hafði gengið í að koma á einn stað öllum nótum sem okkur höfðu borist, bæði þeim sem menn hafa sent okkur og við höfum fengið útsettar sérstaklega.

Á þessum bunka hélt ég stoltur niður í Tjörn en þegar við vorum að fara gerðist óhappið og allt fauk út í veður og vind.

 

Scan 38

Kvartettinn gekk aldrei í klaustur en komst næst því á Snæfellsnesi. Nunnur glaðbeittar.

9.-15. mars

Tónlist fyrir alla á Vesturlandi.

Tónlist fyrir alla – myndir af Vesturlandi og Snæfellsnesi

19. apríl

Kútmagakvöld í Valaskjálf á Egilsstöðum.

11_19.apríl.1997.kúttmagar

20. apríl

Almennir tónleikar í Valaskjálf.

27. apríl

Tónleikar í Borgarnesi.

28. apríl

Tónleikar í Grundarfirði.

21. maí

Sungið fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

10. júlí

Íslendingadagur á kvikmyndahátíð í furstadæminu Liechtenstein. Tjarnarkvartettinn fékk boð um að koma þangað og syngja.

[Aðdragandann mátti rekja til kvöldverðarveislu á EFTA-fundi á Akureyri ári áður (sjá færslu 4. júní 1996) þar sem kvartettinn söng. Meðal gesta var ráðherra frá Liechtenstein. Sá hreifst mjög af Svarfdælingunum og beitti sér fyrir því að þeir yrðu fengnir til að koma út og troða upp á kvikmyndahátíðinni.

Að heiman komu líka Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands, Hilmar Oddsson kvikmyndagerðarmaður og Geir H. Haarde þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann varð fjármálaráðherra ári síðar og samdi fljótlega við fimm helstu hagsmunafélög í kvikmyndagerð um aukið ríkisframlag til Kvikmyndasjóðs …].

Myndir frá Lichtenstein

7.-10. ágúst

[Dvöl í Skálholti og sumartónleikar í Skálholtskirkju sem sendir voru út í Ríkisútvarpinu. Upptakan er varðveitt í safni RÚV á hljóðböndum en Svarfdælasýsl fékk hana yfirfærða í stafrænt form til að geta birt hér.

Tónleikarnir voru sendir út á Rás eitt haustið 1997 og síðan ekki söguna meir, hvorki að hluta eða í heild sinni. Þeir sem þekktu til Tjarnarkvartettsins og á hlýddu telja að Skálholtstónleikarnir hafi verið með því besta eða jafnvel það besta sem eftir hann liggur af mörgu góðu!

Hreinn Valdimarsson, hljóðmeistari Ríkisútvarpsins, tók upp sönginn á þremur fyrstu diskum kvartettsins og hljóðritaði sömuleiðis þessa tónleika. Hann er á því að í Skálholti hafi Tjarnarkvartettinn náð listrænum hátindi í söng og túlkun í þéttsetinni kirkju og rafmögnuðu andrúmslofti!

Hér eru Skálholtstónleikarnir sem sagt aðgengilegir í fyrsta sinn í heild sinni – eða næstum því. Kvartettinn flytur 18 lög af alls 20 á efnisskránni. Einhverra hluta vegna vantar í upptökur RÚV tvö lög eftir Heimi Sindrason við ljóð eftir Halldór Laxness: Þótt form þín hjúpi graflín og Hjarta mitt].

Söngskráin í Skálholti

Scan 42

3. september

Sungið fyrir samgönguráðherra Kanada og Íslands á Akureyri, mest þjóðlög.

6. september

Hjónavígsla í Stærri-Árskógskirkju, Berglind Sigurpálsdóttir og Jónas Ingi Sigurðsson.

25. september

Portúgal. How about that? Expó ’98 er fyrirbæri sem við sóttum um og erum líkleg að fá, heyrist okkur sunnan úr menntamálaráðuneyti.

16. október

Æfing í Laugasteini fyrir Svarfdælinga fyrir sunnan. Allt komið af stað fyrir Portúgal næsta sumar.

18. október

Svarfdælingamót í Reykjavík.

16. nóvember

Dagur íslenskrar tungu. Fórum í sparifötum og sungum í Menntaskólanum á Akureyri.

28. nóvember

Sungum við kynningu á bókinni Spor eftir göngumann í kaffihúsinu Súfistanum við Laugaveg í Reykjavík. Framundan samskonar kynning/söngur á Akureyri 5. desember og í Húnaveri 7. desember.

[Spor eftir göngumann er ævisaga Hjartar Eldjárns Þórarinssonar á Tjörn í Svarfaðardal, skráð af tveimur barna hans, Ingibjörgu og Þórarni.

Hjörtur var bóndi á Tjörn í fjóra áratugi og jafnframt landsþekktur félagsmálamaður, náttúruunnandi og náttúruverndarmaður].

30. desember

Tónleikar í Akureyrarkirkju. Áheyrendur 60-70 og góður rómur gerður að söngnum. Eitthvað var auglýsingamennskan ómarkviss og margir sem kvörtuðu undan því að illa hafi verið staðið að þeim málum.

Umsögn í DV 3. janúar 1998

14_3. jan.1998

1998

25. janúar 

Aldrei neitt að frétta af þessum kvartett. Syngjum þó í stúdíói fyrir Ómar Ragnarsson í dag. Svo er söngur 27. janúar við útskrift á Akureyri, sömuleiðis 6. febrúar.

12. mars

Skólatónleikar í Hafnarfirði. Tónlist fyrir alla.

19. mars

Skólatónleikar í Hafnarfirði. Tónlist fyrir alla.

6. júní

Sitjum í flugvél fyrir utan flugstöðina á Akureyri. Þá dettur mér í hug flugið suður til að syngja í Hafnarfirði í seinna skiptið. Þá var höggvindur og manni leið eins og málningardós í hristara. Flugmaðurinn sagðist í hátalarakerfinu aldrei hafa lent í öðru eins.

[Rósa Kristín var flughrædd og fór helst ekki um borð í flugvél í innanlandsflugi nema hafa áður samband við Unni Ólafsdóttur, veðurfræðing og þáverandi starfsmann Veðurstofu Íslands, til að fá upplýsingar um veðurskilyrði í háloftunum.

Í þetta skipti sagði Unnur að það hlyti að vera ófært flugleiðis milli Akureyrar og Reykjavíkur og Rósa segir sjálf svo frá að í ljósi ummæla Unnar hafi ferðafélagar hennar í kvartettinum nánast þurft að draga hana út í vél á Akureyrarvelli. Þegar upp úr Eyjafirðinum kom lenti flugvélin í höggvindi og hentist harkalega til og frá og farþegar görguðu af skelfingu.

Í raun og veru var ófært og atvikið var rannsakað sem „alvarlegt flugatvik“].

7. júní

Sjómannadagurinn í Grindavík.

24. júní

Flugvélin Tri Star-flykkið er komin í loftið áleiðis á EXPO ’98. Loksins. Undanfarna tvo daga höfum við smíðað og málað leikmynd með alls kyns tilfæringum.

Nú liggur sá svarti kassi í farangursgeymslunni og sér ekki sólina fyrr en í Portúgal. Það má vel geyma í honum mann en við gerum það nú samt ekki enda ferðin borguð af menntamálaráðuneytinu og óþarfi að vera með laumufarþega.

[EXPO er heimssýning á fimm ára fresti og var í Portúgal sumarið 1998. Kjörorð EXPO ’98 voru Hafið, arfleifð til framtíðar og var sýningunni ætlað að beina athygli manna að lífríki hafsins, varðveislu þess og auðlindanýtingu.

Íslensk stjórnvöld ákváðu að taka þátt í sýningunni og kynna þar sjávarútveg og sjávarafurðir Íslendinga. Sérstakur Íslendingadagur var laugardaginn 27. júní. Fjölmennt lið tónlistarmanna, leikara, dansara og annarra sviðslistamanna mætti til Lissabon af því tilefni og kom fram á tíu sýningarsviðum og í leikhúsum í Lissabon.

Þarna var Tjarnarkvartettinn en einnig Frú Emilía leikhús, Þjóðdansafélag Reykjavíkur, Skari skrípó, leikhópurinn Ormstunga, Kammersveit Reykjavíkur, Blásarakvintett Reykjavíkur, Íslenski dansflokkurinn, GusGus hópurinn, Örn Árnason og Jónas Þórir.]

Expo

Kvartettinn og Sigrún Valbergs á sviði í Lissabon.

28. júní

Nú er maður lúinn og búinn enda tekur á að sigra heiminn. Í gær var dagurinn bjartur og fagur. Við vöknuðum eftir frekar stuttan svefn til morgunmatar, fórum svo á EXPO-svæðið til að æfa.

Kl. 9:45 stundvíslega byrjuðum við að syngja. Fullt af fólki. Allt gekk alveg frábærlega vel. Síðan var öllum boðið í veislu mikla og þar var nú fjör og flottheit.

Gleðskapnum haldið til streitu og þá fór nú fyrst að verða verulega gaman. Barmenn drógu það að loka barnum og sungið var, hlegið og grátið af gleði.

EXPO í máli og myndum

Is i Portugal

Ísveisla Kristjönu í Portúgal. Hjörleifur teiknaði.

 

29. júní

ferdaminning

Nú liggjum við á sundlaugarbarmi við hliðina á Hreini Halldórssyni, fyrrverandi Evrópumeistara í kúluvarpi, og Íslenska dansflokknum. Sólin skín beint ofan við hausinn á okkur.

Við sundlaugina hittum við Alla Rúts. Hann talaði um síldina á Siglufirði.

6. ágúst

Sitjum í Boeing 737 á leið til Parísar.

8. ágúst

Tónleikar á árlegri, keltneskri hátíð á Bretaníuskaga. Sungum fyrir 1.500 manns í stærðar tjaldi, troðfullu. Þarna var mikið stuð og miðað við aðstæður má segja að okkur hafi gengið alveg bærilega.

Þetta var villimannahátíð og mikil læti í mannskapnum í nótt á hótelinu, framan við það og allt um kring.

Sigrún Valbergsdóttir var með og kynnti.

Myndir frá Bretaníuskaga

16. ágúst

Hólahátíð.

6. september

Já, við æfum reglulega þessa dagana enda diskur á leiðinni.

17.-20. október

Upptaka í Reykholtskirkju í Borgarfirði fyrir diskinn Í fíflúlpum.

Upptökudagar í Reykholtskirkju

29. október

Davíðsvaka Stefánssonar á Akureyri.

30. október

Tónleikar í Ýdölum.

9. nóvember

Nordisk humör á Akureyri.

18. nóvember

Háskólatónleikar.

nóv.98.jpg

21. nóvember

Útgáfutónleikar í Tjarnarbíói í Reykjavík.

27. nóvember

Útgáfutónleikar á Akureyri.

29. nóvember

Útgáfutónleikar á Dalvík.

1999

Nýársdagur 1. janúar

Galaball á Hóteli KEA.

17. janúar

Hratt flýgur stund, RÚV-útvarp.

5. febrúar

Stjórnarráð Íslands, árshátíð.

19. mars

Systur í syndinni, leikrit Iðunnar og Kristínar Steinsdætra, frumsýning á Akureyri.

Umfjöllun Morgunblaðsins

LA samningar

Samningaviðræður Leikfélags Akureyrar og Tjarnarkvartettsins. Það sem vantaði upp á ljósmyndina,  og öllu máli skiptir, teiknaði Hjörleifur í gjörðabókina.

8. apríl

Tónleikar á Hvammstanga.

 

25. apríl

Kosningavaka Samfylkingarinnar.

3. júlí

Tónlistarhátíð í Gooik (borg miðja vegu milli Brussel og Gent í Belgíu). Tjarnarkvartettinum var boðið þangað og öðrum ekki frá Íslandi.

Hátíðin stóð yfir í þrjá daga og þar komu fram tónlistarmenn víða að úr Evrópu.

Sigrún Valbergsdóttir kynnti kvartettinn og tónlistina sem hann flutti.

Gooik í Belgíu, myndir

24. júlí

Brúðkaup í Ólafsfirði.

25. júlí

Tónleikar í Akureyrarkirkju.

30. júlí

Tónleikar í Reykjahlíðarkirkju.

31. júlí

Tvær hjónavígsluathafnir á Akureyri.

31. júlí

Davíðsvaka í Deiglunni á Akureyri.

5. ágúst

Sungið fyrir göngufólk á Húsabakka í Svarfaðardal.

14. september

Forsetaveisla á Bessastöðum.

28. september

Veisla Norðurlandaráðs á Hóteli KEA.

2. október

VISA-Ísland á Hóteli KEA.

 

tk-1

TK-2

Við hæfi er að slá botn í samantektina með mynd af Tjarnarkvartettinum með blómvendi í lok tónleika í Logalandi í Borgarfirði. Kvartettinn naut líklega hvergi meiri vinsælda en á þeim slóðum.

Borgfirðingar bókstaflega elskuðu þennan söngglaða og tónvissa hóp og klöppuðu hann upp aftur, aftur og aftur á tónleikum!

Hjörleifur sagnaritari teiknaði blómaafhendinguna á sinn hátt og lét teikninguna fylgja færslu sinni í gjörðabók Tjarnarkvartettsins.

 

neydarmyv

Neyðaráætlun Tjarnarkvartettsins vegna tónleika í Mývatnssveit. Ódagsett. Er ekki við hæfi  í heimsfaraldstímum að enda á almannavarnaáætlun?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s