Hann hefur um árabil verið manna sæknastur í að ylja sér um kropp og slaka á vöðvum í heitum potti heima við. Nú er hann kominn í heita pottinn í vinnunni líka og það á greinilega vel við kappann. Hann brosir út að eyrum, sýnir og selur. Líka á krepputímum veirunnar eða líklega einmitt vegna hennar að einhverju leyti.
Dalvíkingurinn Orri Stefánsson hefur tekið við starfi verslunar- og markaðsstjóra hjá NormX, fertugu og rótgrónu fyrirtæki sem framleiðir heita potta (eða kalda ef menn vilja frekar) í verksmiðju í Vogum á Vatnsleysuströnd og selur í verslun við Auðbrekku í Kópavogi. Hann er sonur Ingibjargar Ásgeirsdóttur og Stefáns Jónssonar. Hún var kennari á Dalvík en hann gjaldkeri Kaupfélags Eyfirðinga á Dalvík. Þau búa nú í Reykjavík.
Nærtækt væri að álykta að á þessum síðustu og verstu veirufárstímum hefðu landsmenn hugann við eitthvað allt annað en að fá sér heitan pott í garðana sína en það er nú öðru nær. Nýi sölustjórinn hjá NormX hefur skýringar á reiðum höndum.
„Núna í marsmánuði var greinilega meira um að vera hér en á sama tíma í fyrra. Margir hafa samband símleiðis eftir að hafa kíkt á vefinn okkar eða Fésbókina til að afla frekari upplýsinga eða óska eftir tilboðum. Það kemur oft á daginn í samtölum að viðkomandi eru í sóttkví eða einangrun vegna veirunnar. Þeir komast ekki hingað til að líta pottana eigin augum en nýta tímann heima hjá sér með samskiptum í síma eða tölvu til að láta draum um pott rætast í sumar.
Við verðum þess líka vör að það hefur áhrif á mannskapinn að sundlaugar eru lokaðar. Fastagestir í laugunum eru friðlausir. Þeir komast hvorki í sund né potta og fara að spá í eigin potta heima fyrir. Þá kemur þeim oft á óvart að þetta er minna mál en margur hyggur. Við framleiðum sjálfa pottana, getum látið smíðað grindur utan um þá ef svo ber undir og seljum annað sem til þarf. Viðskiptavinurinn þarf ekki annað en að útvega pípara til að tengja græjuna og þá er allt klárt.“
Rækja, Björgvin EA, Sæplast
Víst má til sanns vegar færa að Orri sneri við blaðinu á vinnumarkaði. Áður starfaði hann sem framleiðslustjóri í aldarfjórðung hjá fyrirtæki sem framleiðir fosfatblöndur fyrir rækjuverksmiðjur hérlendis og erlendis. Rækjan er látin liggja í ísvatni með þessum efnum hátt í sólarhring til að mýkja skelina svo auðveldara sé að pilla. Fosfatið gengur líka inn í vöðva rækjunnar og bindur þar vatn svo hún þoli frekar vélahnjask í framleiðsluferlinu og hráefnið nýtist betur en ella.
Sé horft enn lengra um öxl var Orri í nokkur ár á sjó á Dalvíkurtogaranum Björgvin EA. Þar áður vann hann í Sæplasti á Dalvík við að steypa fiskikör, reyndar með sömu aðferð og NormX notar við að búa til „skeljar“ heitra potta í verksmiðjunni sinni á Vatnsleysuströnd.
„Ég tók myndir í verksmiðjunni í Vogum, sendi Daða Valdimars, Friðriki Vilhelms og Hilmari Guðmunds, vinum mínum og fyrrverandi vinnufélögum í Sæplasti, og lét fylgja með að nú væri ég kominn í heilan hring í tilverunni. Farinn að selja vörur sem framleiddar væru nákvæmlega eins og kerin sem ég tók þátt í að búa til með þeim fyrir þremur áratugum.
Ég hef sem sagt tekið ýmsa snúninga til lands og sjávar á 30 árum en drengirnir haldið ómældri tryggð við Dalvík og Sæplast allan tímann!“
Svo er við hæfi að nefna hér að undir sama þaki og NormX í Vogum er fyrirtækið Húseining. Á vegum NormX eru þar smíðaðar grindur handa þeim kaupendum potta sem það vilja á annað borð. Því skal þá haldið til haga að framkvæmdastjóri Húseininga er gegnheill Svarfdælingur, Hlynur Sigursveinsson. Foreldrar hans eru Sigursveinn Friðriksson (Sissi frá Hánefsstöðum) og Margrét Vallý Jóhannsdóttur. Hún var dóttir Friðrikku Óskarsdóttur frá Kóngsstöðum og Jóhanns Jónssonar í Arnarhóli á Dalvík.
Fangaklefar baka til í pottaverslun
Verslunar- og sýningarsalur NormX við Auðbrekku er bjartur og fínn. Húsakynnin eiga sér litríka og óvenjulega sögu því þarna var áður aðsetur Rannsóknarlögreglu ríkisins og „viðskiptavinirnir“ ábyggilega ekki með heita potta ofarlega í huga.
Baka til, inni af kaffistofu Orra & félaga, má sjá vitnisburð um þennan tíma: tvo eins manns fangaklefa með rammgerðum stálhurðum, ískrandi lokum og gægjulúgum. Kunnuglegur húsbúnaður fangelsa í bandarískum hasarmyndum. Hurðirnar eru dældaðar innan frá eftir spörk gesta og nokkrir þeirra skildu líka eftir sig gælunöfn sín, dagsetningu innlits og fleira krot.
Einn krotarinn tók meira að segja fram að hann væri þarna tíður klefagestur. Kannski birtist hann einn góðan veðurdag, betri maður og löghlýðinn, til að kaupa heitan pott og rifja upp fyrri heimsóknir í fyrri tilveru. Honum yrði vel og vinsamlega tekið.
Sú tíð er þannig löngu liðin að gestir í Auðbrekku 6 geti búist við að vera hnepptir í gæsluvarðhald og allra síst eftir að Orri Stefáns er orðinn þar verslunarstjóri. Hann kann enda ekkert með fanga að fara en hefur hins vegar stundað nám undanfarin misseri í sölu- og markaðsmálum í fræðslufyrirtækinu Proment í Skeifunni í Reykjavík. Sú þekking smellhæfir nýja starfinu og karakternum. Orri er nefnilega hárrétt týpa í sölu- og markaðsstarf. Því kynnast þeir af eigin raun sem sitja nú í sóttkví og spá í potta.