Af GUÐ/jóni og Systrum í syndinni – Tjarnarkvartettinn, 4. sögubrot

Staðlað

Tjarnarkvartettinn steig í tvígang syngjandi á leikhúsfjalir á Akureyri á síðari hluta ferils síns.

Í maí 1995 frumsýndi Leikfélag Akureyrar verkið GUÐ/jón í í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir stjórn Viðars Eggertssonar leikhússtjóra. Verkefnið var liður í Kirkjulistaviku. Viðar felldi þar saman texta úr verkum Samuels Becketts í eina heild og þar komu sömuleiðis við sögu verk íslenskra rithöfunda og tónskálda frá ýmsum tímaskeiðum.

Kvartettinn annaðist tónlistarflutning og hlaut góða dóma fyrir. Haukur Ágústsson skrifaði til að mynda í leiklistardómi í Degi að hlutur Tjarnarkvartettsins hefði verið vel hendi leystur:

Innkomur kvartettsins, sem iðulega hefjast fyrir lok flutnings talaðs máls, eru hnitmiðaðar og fínlegar og með hóflegum styrk. Söngur er jafn og fallegur og fellur vel að texta.

Bolli Gústavsson skrifaði í leiklistardómi í Morgunblaðinu:

Það er ekki rétt að segja, að tónlist flutt af Tjarnarkvartettinum fléttist inn í verkið. Hlutverk hennar er miklu veigameira, oftar en ekki veita hún og ljóðin skýlaus svör við átakanlegu hjálparkalli; eða koma eins og styrk og hlý hönd sem grípur um handlegg þess sem er að sökkva í fen einsemdar, tómleika og jafnvel örvæntingar …

Þessi einstæði kvartett úr Svarfaðardal hefur náð langt í listrænni túlkun tónlistar , sem einkennist jafnt af sönggleði og aga og hefur yfir sér tæran, hógværan menningarsvip … Þá er leiktjáning þessa fólks vel af hendi leyst.

gudjon1

Undirbúningsfundur með leikstjóranum, Viðari Eggertssyni.

gudjon2

Systur í syndinni

Leiðir Tjarnarkvartettsins og Leikfélags Akureyrar lágu saman á nýjan leik á leikárinu 1998-’99 í leikritinu Systrum í syndinni eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Kolbrún Halldórsdóttir leikstýrði verkinu. Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson frumsamdi tónlistina og útsetti líka eldri lög fyrir sýninguna.

Kvartettinn bar uppi tónlistarflutninginn en þar komu aðrir leikarar við sögu líka.  Leikarar, já. Liðsmenn kvartettsins voru nefnilega þarna í ýmsum hlutverkum og syngjandi sviðsmenn líka.

Þegar langt var liðið á æfingartímann hreyfði Kolbrún leikstjóri þeirri hugmynd að taka tónlistina upp og gefa út á diski. Jafnframt var tekið fram af hálfu Leikfélags Akureyrar að það tæki ekki þátt í slíkri útgáfu vegna fjárhagsörðugleika.

Liðsmenn Tjarnarkvartettsins og Hróðmar Ingi tónskáld ákváðu að láta til skarar skríða í útgáfumálum en svo seint var hugmyndinni hrundið í framkvæmd að búið var að frumsýna leikritið þegar tónlistin var tekin upp.

Diskurinn kom ekki út fyrr en seint og um síðir og varð því ekki sú söluvara í tengslum við sýningarhaldið sem ella hefði orðið. Diskurinn seldist minna en hann átti skilið og fólk flest þekkir minna til hans en hinna þriggja diska kvartettsins. Það er synd!

Söngur kvartettsins var tekinn upp í Minjasafnskirkjunni í Innbænum á Akureyri en tekið var líka upp Samkomuhúsinu á Akureyri. Kristján Edelstein, gítarleikari og upptökumaður, annaðist hljóðritunina.

Góð stílfinning, smitandi sönggleði

Hlutur Tjarnarkvartettsins í sýningunni fékk góða dóma og diskurinn sömuleiðis.

Auður Eydal um sýninguna í DV:

… ekki má gleyma Tjarnarkvartettinum sem gegnir stóru hlutverki og mun áreiðanlega draga marga að sýningunni.

Oddur Björnsson um diskinn í Morgunblaðinu:

Hlutur tónskáldsins og flutningur Tjarnarkvartettsins er í einu orði sagt frábær, allt flutt af miklu og músíkölsku öryggi, góðri stíltilfinningu og smitandi sönggleði.

Og allt er þetta án undirleiks, enda „sér kvartettinn sjálfur um hann“ (og tónskáldið, að sjálfsögðu!) og fer létt með það og með miklum elegans, ef því er að skipta. En allt er þetta raunar fjölbreytt, litríkt og harla gott. Hljóðritun er fín og lifandi og í takt við annað.

Scan 5

Hirðskáld kvartettsins leysir frá skjóðunni

„Ég hreifst af söngnum á fyrsta diski Tjarnarkvartettsins 1994 en kynntist liðsmönnum hans ekki fyrr en síðar. Það voru góð og gefandi kynni, þvílíkt hæfileikafólk!“

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, tónskáld og fagstjóri tónsmíða og tónfræða í Listaháskóla Íslands, kom mjög við sögu á seinni tveimur diskum Tjarnarkvartettsins. Hann samdi fjölda laga fyrir kvartettinn og raddsetti mörg önnur.

Hróðmar Ingi var oft kallaður „hirðtónskáld Tjarnarkvartettsins“ og stóð fyllilega undir þeirri nafnbót á síðustu árum kvartettsins.

IMG_4883

„Við hjón fluttum til Akureyrar 1994 og vorum þar til 1998 vegna starfa eiginkonunnar, Helgu Haraldsdóttur, á vettvangi Ferðamálaráðs. Ég hafði áður kennt í Reykjavík og hélt því áfram að nokkru leyti en tók annars að mér ýmis verkefni á eigin vegum.

Eftir á að hyggja gerði Akureyrardvölin mér mjög gott. Ég kom heim frá námi í Hollandi 1988 og sökkti mér á kaf í kennslu sem gaf ekki færi á mikilli tónlistarsköpun jafnhliða brauðstritinu. Á Akureyri hófst ákveðið og vel þegið endurnýjunarferli. Þar samdi ég meðal annars fimm lög við ljóð Ísaks Harðarsonar úr ljóðabókinni Stokkseyri sem Einar Kristján Einarsson gítarleikari og Sverrir Guðjónsson söngvari fluttu á gítarhátíð á Akureyri 1994. Síðar varð verkið mun stærra í sniðum, útsett fyrir stóra kammersveit og Sverri Guðjónsson, frumflutt 1998 af Caput undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar og gefið út á diski 2000.“

Fyrsta verkefnið var að raddsetja lag eftir Sigríði á Tjörn

„Aðdragandi þess að leiðir mínar og Tjarnarkvartettsins lágu saman var reyndar sá að Ragnheiður Ólafsdóttir hafði samband við mig vegna verkefnis sem þau Þórarinn Hjartarson frá Tjörn unnu að og tengdist ljóðum Páls Ólafssonar. Ég samdi fimm lög við ljóð Páls og raddsetti hið sjötta fyrir diskinn Söngur riddarans sem Ragnheiður og Þórarinn gáfu út 2001. Þau eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa staðið vel og fagmannlega að því að koma ljóðum Páls á framfæri.

Nokkru síðar hafði Tjarnarkvartettinn samband og ég fór að semja og útsetja fyrir hann. Það samstarf varð mikið og náið, einkum við uppfærslu á leikritinu Systrum í syndinni hjá Leikfélagi Akureyrar veturinn 1998-’99. Þá var ég reyndar fluttur aftur suður en dvaldi á Akureyri í þrjá mánuði á æfingartímanum.

Fyrsta verkefnið fyrir diskinn Í fíflúlpum var að raddsetja lag sem húsfreyjan á Tjörn, Sigríður Hafstað, gerði við ljóðið Amma kvað eftir Örn Arnarson.

Í framhaldinu samdi ég lag við Vögguvísu Jóhanns Jónssonar og það hef ég notað víða, meðal annars í kvikmyndinni Desember sem Hilmar Oddsson gerði og frumsýndi í nóvember 2009.

Ég samdi líka lag fyrir kvartettinn við La Belle eftir Jónas Hallgrímsson og raddsetti þjóðkvæðið Ó jómfrú fín, fyrsta lagið á diskinum. Fleiri hafa spreytt sig á að syngja Ó jómfrú fín en engum tekst að skila því eins og Tjarnarkvartettinum. Flutningur hans er einstakur og ómetanlegur

Á þessum diski er líka Fegin í fangi mínu, lag sem ég samdi upphaflega fyrir Hamrahlíðarkórinn við ljóð Jónasar Hallgrímssonar.

Kvartettinn tók líka Ekkilinn, þjóðlag við ljóð Davíðs Stefánssonar sem ég raddsetti upphaflega fyrir Kór Akureyrarkirkju.

Söngurinn á diskinum Í fíflúlpum er metnaðarfyllsta verkefnið sem Tjarnarkvartettinn glímdi við á ferlinum. Þar eru lög sem hreint ekki er auðvelt að syngja. Í heildina tekið er þessi diskur líklega ekki eins aðgengilegur almenningi við hlustun og til dæmis sá fyrsti, „blái diskurinn“. Með honum sló kvartettinn líka í gegn.“

Tónlistin í Systrunum vanmetin í flórunni

„Leikritið Systur í syndinni var allt öðru vísi verkefni, eðlilega. Frumsamið leikverk þar sem ég samdi tónlistina fyrir kvartettinn og liðsmenn hans sem voru á sviðinu allan tímann. Þetta eftirminnilegt ferli og afar skemmtilegt. Þarna varð Tjarnarkvartettinn beinlínis áhrifavaldur og kveikti hjá mér hugmyndir til að vinna með.

Við tókum upp tónlistina í leikritinu og gáfum út á diski. Það var af vanefnum gert og diskurinn kom auk þess of seint út til að hægt væri að selja hann í leikhúsinu í tengslum við sýningarnar. Hann stendur samt fyrir sínu, er skemmtilegur og sannarlega vanmetinn gripur í íslenskri tónlistarflóru. Þarna eru lög sem ég hef notað annars staðar, til dæmis eru lög úr Systrum í syndinni á dagskrá Kórs Breiðholtskirkju þar sem ég syng sjálfur undir stjórn Ólafsfirðingsins Arnar Magnússonar.“

Kvartettinn bestur á tónleikum

„Vissulega voru liðsmenn Tjarnarkvartettsins misjafnlega á vegi staddir með þjálfun í söng og tónlist. Rósa var auðvitað sér á báti með þekkingu sína og reynslu. Hún var atvinnumaður í faginu og þjálfaði hópinn. Nefnum svo Kristjönu, þessa ótrúlegu altsöngkonu, Hjörleif tenór og Kristján bassa. Þeir bræður höfðu ekki þá reynslu sem konurnar bjuggu að en bættu það upp og gott betur með leikhæfileikum, líflegri sviðsframkomu og hugmyndaauðgi. Tjarnarkvartettinn var alltaf bestur á tónleikum. Útgáfutónleikum vegna disksins Í fíflúlpum gleymi ég til dæmis aldrei. Þeir voru einfaldlega frábærir.

Ég hlýt að rifja upp fyrsta leiklestur Systra í syndinni. Þar voru saman komnir leikarar frá Akureyri og að sunnan og venjulega fara menn sér rólega á slíkum stundum. Þegar hins vegar kom að Kristjáni brast hann strax í söng og tók hlutverkið sitt alla leið á fyrstu æfingu!

Tjarnarbræður virkuðu á mig sem hógværir menn og lítillátir við fyrstu kynni en þegar þeir fóru á svið sprungu þeir út og umturnuðust gjörsamlega!“

Áleitin spurning:

Hvað kemur upp í hugann þegar diskurinn Systur í syndinni er nefndur?

 

kristjana

Kristjana

Ég, Kristján og Hjörleifur tókum þátt í söngleiknum Land míns föður forðum daga hjá Leikfélagi Dalvíkur undir styrkri stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur. Við vorum því heldur betur heit og til í slaginn  þegar Tjarnarkvartettinn var beðinn um að taka þátt í sýningunni Systur í syndinni enda einn besti leikstjóri landsins fenginn í verkið, nefnilega Kolbrún Halldórsdóttir!

Systur í syndinni er frábært leikrit eftir þær systur Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Uppsetningin vel hugsuð og með einvalalið leikara innanborðs, Þráinn Karlsson, einn besta leikara landsins á þeim tíma, og Margréti Ákadóttur, þá dásamlegu leikkonu. Hún fór á kostum í sýningunni, ég gleymi seint senunni þar sem hún söng og túlkaði svo fallega ljóð Bólu Hjálmars, Húmar að mitt hinsta kvöld.

Þarna voru nokkrir nýútskrifaðir  leikarar, til dæmis  Katla Margrét Þorgeirsdóttir, sú frábæra leikkona sem er að gera það gott í listinni, einnig Helga Vala Helgadóttir, nú lögfræðingur og þingmaður. Ég kynntist  þeim tveimur sérstaklega vel og enn í dag föðmumst við þegar við rekumst hverjar á aðra og minnumst þessara tíma með mikilli hlýju.

Tjarnarkvartettinn stóð sig frábærlega vel að mínu mati og hlaut góða dóma.

Guð/Jón: Ég skemmti mér konunglega í fallegri og listrænnni uppfærslu Viðars Eggertssonar. Þetta var svo heilandi og gefandi að það uxu á okkur vængir! Án gríns, við vorum með þessa líka flottu vængi enda sungum við eins og englar. Svo vorum við með gráhvítt hár og ég man hvað mér fannst það töff. Mér finnst það enn töff enda sjálf orðin gráhvíthærð en með enga vængi. Þeir koma seinna.

hjöri

Hjörleifur

Varðandi Systur í syndinni þá erum við ekki ein á þeim diski. Þar koma líka við sögu leikarar í sýningunni, sumir gamalreyndir eins og Þráinn Karls og Alli Bergdal. Sumir að stíga sín fyrstu skref eins og Katla Margrét og sumir urðu nafnkunnir á öðrum vettvangi eins og Helga Vala sem fór síðar í lögfræði og lætur nú að sér kveða á Alþingi.

Á þessum diski er kvartettinn í sínu besta formi og betur undirbúinn en nokkru sinni fyrir upptökur enda tóku þær bara dagspart að mig minnir, í gömlu minjasafnskirkjunni. Því er margt þarna með því allra besta sem við gerðum á ferlinum.

Samstarf Tjarnarkvartettsins við Hróðmar Inga var sérlega gjöfult og komu út úr því margar frábærar tónsmíðar, hreinir gullmolar í íslenskri tónlist fyrir fjórar raddir. Gallinn var bara  sá að sýningin gekk ekkert sérlega lengi. Við seldum sárafáa diska í leikhúsinu og líklega jafn lítið í verslunum. Það er því líka nóg til af diskum í kössum og handröðum ef einhver hefur áhuga.

kristjan

Kristján

Þegar Tjarnarkvartettinn tók þátt í sýningunum Guð/Jón árið 1995 og Systrum í syndinni 1998 var það ekki í fyrsta skiptið sem ég starfaði með Leikfélagi Akureyrar. Á árunum 1984-’86 tók ég þátt í nokkrum sýningum hjá félaginu. Má þar nefna Ég er gull og gersemi um Sölva Helgason 1984, Jólaævintýri Dickens 1985, Silfurtunglið og Blóðbræður 1986. Þann vetur var ég sviðstjóri hjá LA.

Á þessum tíma kynntist ég vel mörgum af öflugustu leikurum leikfélagsins sem þá voru starfandi, má þar nefna Þráinn Karlsson sem ég hafði reyndar kynnst og starfað með nokkrum árum áður við kvikmyndir og átti eftir að eiga sem góðan vin alla tíð eftir það, Aðalstein Bergdal, Sunnu Borg, Gest Einar og fleiri.

Það var því óskaplega gaman að koma aftur til starfa þarna og hitta fyrir gömlu félagana í leikhúsinu. Ekki var það heldur til að skemma fyrir að  í Systrum í syndinni voru líka margir ungir, nýútskrifaðir leikarar sem áttu eftir að gera garðinn frægan í íslensku leikhúsi og víðar.

Enn eitt var það líka sem gerði þetta verkefni eftirsóknarvert fyrir mig, leikstjórinn Kolbrún Halldórsdóttir, Kolla frænka mín. Ég hafði kynnst henni vel þegar ég var formaður Bandalags íslenskra leikfélaga og hún framkvæmdarstjóri þess bandalags. Hún hafði líka leikstýrt okkur Kristjönu og Hjörleifi veturinn 1994 þegar Leikfélag Dalvíkur setti upp söngleikinn Land míns föður eftir Kjartan Ragnarsson.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tími við æfingar og sýningar á Systrunum var eitthvað það skemmtilegasta og lærdómsríkasta verkefni sem ég hef tekið þátt í. Og hana nú.

roisa

Rósa Kristín

Leiksýningin Systur í syndinni er mér í fersku minni. Verulega gott og skemmtilegt leikrit eftir þær systur, rithöfundana Iðunni og Kristínu Steinsdætur, sem við fengum að taka þátt í ásamt mörgum ógleymanlegum snillingum. Þarna var saman komið frábært og hæfileikaríkt fólk og það er bagalegt að sýningin skyldi ekki vera betur sótt.

Tónlistin er algjört konfekt, ekki bara sá hluti hennar sem kom í okkar hlut að flytja. Það má nefna Michael Clarke, Þráin Karlsson heitinn, Aðalstein Bergdal, Kötlu Margréti, Helgu Völu Helgadóttur og fleiri og fleiri. Fantagóðir tónlistamenn og konur!

Ég man ekkert eftir upptökum á þessu efni, skringilegt en satt. Diskurinn náði því miður alltof lítilli útbreiðslu. Tónlistin dásamlega samin og útsett af Hróðmari ,,okkar” var kannski of tengd leikverkinu sjálfu til að verða nokkru sinni söluvara. Mikil synd!

Screenshot 2020-01-04 at 13.23.59

Screenshot 2020-01-04 at 13.21.36

Scan 52

Scan 21

Scan 19

Scan 18Scan 4

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s