Mynda- og afmælisveisla Heimis í Bergi

Staðlað

Menn með myndavélar skrá sögu. Séu þeir bæði búnir brúkhæfum græjum og fréttaþyrstum myndaugum verða þeir óhjákvæmilega góðir sögumenn. Þar í hópi er Heimir Kristinsson á Húsabakka. Einhverjir kenna manninn sjálfsagt við Dalsmynni á Dalvík. Þeir um það. Hann verður áttræður í júní og fagnar tímamótunum með því að opna sýningu á ljósmyndum sínum í Bergi á Dalvík á laugardaginn kemur, 7. mars, klukkan 14.

Heimir_sýningaskrá_2.darft.pdfLjósmyndir í safni Heimis skipta ótal þúsundum og hann hefur unnið að því með eiginkonunni, Gunni Ringsted, að skanna þær og skrá. Stórfjölskyldan hefur svo undirbúið sýninguna og tilheyrandi húllumhæ því við opnun sýningar verða sungin og spiluð lög eftir kappann, sum hafa ekki heyrst opinberlega fyrr. Ljósmyndasýningin verður opin í fjórar vikur.

Heimir var kennari á Dalvík en síðar skólastjóri í Húsabakkaskóla sálugum. Hann var oft á ferðinni í skólanum og í sveitinni með myndavélina sína dinglandi fram á sér. Þökk sé honum fyrir að leyfa okkur að birta nokkrar myndir sínar úr lífi og starfi á Húsabakka í bókinni Svarfdælasýsli.

Margar myndir Heimis eru ljóslifandi í minningunni. Hann var alls staðar og hvergi á ferð með myndavélina eins og góðir fréttaljósmyndar gjarnan gera. Þeir láta sem minnst fara fyrir sér á vettvangi en laumast í skotstöðu og smella af á réttu augnabliki. Oftar en ekki frysta þeir þannig augnablik sem enginn annar á vettvangi sér eða verður var við.

Síðla árs 2012 var auglýst samkoma hjá Svarfdælingum sunnan heiða á Kaffi Loka á Skólavörðuholti og fylgdi sögu að tveir synir byggðarlagsins nyrðra myndu sýna myndir á vegg úr fórum feðra sinna. Sindri mætti með myndir úr safni Heimis og Júlli með myndir úr safni Jónasar á bílaverkstæðinu Hallgrímssonar. Sjaldan var svo þétt setinn Svarfaðardalur á Loka sem í þetta skiptið og margt var um að tala, maður minn. Menn sátu og stóðu í meira en tvo tíma og hefðu gjarnan viljað vera lengur. Þetta var nánast helgistund.

Ég var heima á Jarðbrú veturinn 1974-’75 og kom þá oft í Húsabakka í ýmsum erindagjörðum. Því miður hafði ég þá ekki þroskast nógu mikið til að hafa umtalsverðan áhuga á ljósmyndum og ljósmyndun. Það gerðist síðar.

Samt gerðist það einu sinni þegar ég hringdi bjöllu við útidyr skólastjórahjónanna að til dyra kom frú Valborg, sú ljúfa og sposka kona sem fór alltof, alltof snemma. „Jæja, ertu kominn til að vinna í myrkrakompunni?“ spurði hún glottandi.

Jarðbrúardrengur varð kjaftstopp. Eitt allsherjar spurningamerki.

Þarna reyndist Valborg vísa til þess að í gluggalausri kompu á jarðhæðinni föndraði skólastjórinn að vísu við að framkalla myndir og kópíera. Hann þreifaði þar reyndar líka fyrir sér í myrkrinu að brugga öl. Í þeim efnum þóttist ég geta miðlað af reynslu úr bruggverksmiðju sem ég setti upp í eldhúsi Rannveigar ömmu á Jarðbrú og gerði mér margar kvöldferðir í Húsabakka undir því yfirskini.

Eftir á að hyggja hefði ég betur notað í það minnsta hluta tímans sem bruggnámskeiðið tók til að fá tilsögn í ljósmyndun hjá meistara Heimi.

Gott var samt ölið og ljúf er minningin um heimsóknirnar til Valborgar og Heimis.

Hamingjuóskir með stórafmælið, myndasýninguna og samkomuna í Bergi. Þetta verður nú eitthvað …  -arh

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s