Tjarnarkvartettinn gaf út þriðja hljómdiskinn sinn síðla árs 1998 og það í bókstaflegri merkingu. Friðrik Friðriksson gaf út fyrsta diskinn 1994 og Japis þann næsta 1995. Báðir fengu góða dóma og seldust vel. Nú gerðist kvartettinn sjálfur útgefandi líka og tók fjárhagslega áhættu af verkefninu.
Guðmundur Óli Gunnarsson var fenginn til að annast þjálfun og listræna leiðsögn. Hann kom í stað Hollendingsins Gerrit Schuil, sem titlaður var þjálfari í fyrsta diskinum en listrænn ráðunautur á þeim næsta, jóladiskinum. Við blasti eftir vinnuna við jóladiskinn að kvartettinn myndi ekki sækjast eftir frekara samstarfi við Gerrit. Hollendingurinn þótti býsna sérlundaður á köflum og tilteknar ákvarðanir hans varðandi upptökur og eftirvinnslu efnisins vöktu ekki lukku, alla vega ekki hjá öllum í hópnum.
Í fíflúlpum þeir flaksast
Hreinn Valdimarsson, hljóðmeistari knái á Ríkisútvarpinu, sá um upptöku og eftirvinnslu. Hann þekkti liðsmenn kvartettsins vel frá fyrri verkefnum og þeir hann.
Fyrsti diskurinn var tekinn upp í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík, jóladiskurinn í Dalvíkurkirkju en sá þriðji var hins vegar tekinn upp í Reykholtskirkju í Borgarfirði. Kvartettinn hafði sungið í kirkjunni á ferð um Vestland og líkaði vel hljómburður og aðstæður.
Titill disksins, Í fíflúlpum, var sóttur í ljóðið Fegin í fangi mínu eftir Jónas Hallgrímsson sem þar er að finna við lag Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar:
Í fíflúlpum þeir flaksast
og finnast, og allt í einu
hlaupast á eins og hrútar
svo höfuðin verða’ ekki’ að neinu.
Hróðmar Ingi var þarna orðinn eins konar hirðtónskáld Tjarnarkvartettsins. Hann hafði árin á undan samið og útsett mörg lög fyrir kvartettinn og átti eftir að koma enn frekar við sögu þegar kvartettinn gaf út fjórða og síðasta diskinn. Meira um það síðar.
Íslensk lög og ljóð
Á nýja diskinum bar annars helst til tíðinda að þar voru eingöngu flutt íslensk lög við íslensk ljóð. Nokkrir tónlistarmenn sömdu sérstaklega eða útsettu fyrir kvartettinn, þeirra umsvifamestur var Hróðmar Ingi.

Þröstur Haraldsson var aðalhönnuður plötuumlags líkt og á fyrri diskunum tveimur. Hann fylgdi Í fíflúlpum auk þess úr hlaði með inngangi heftis í plötuumslagi þar sem segir að titill disksins undirstriki „sterkan þátt í fari þessa svarfdælska kvartetts sem er leikgleðin, enda eiga þau öll sér bæði fortíð, nútíð og vafalaust langa framtíð í leikhúsinu, innan um aðra arftaka hirðfíflanna.“
Hjörleifur Hjartarson teiknaði myndina góðu af kvartettinum á forsíðu textabókar/disksins og eftir hann eru líka nokkrar teikningar í textabókinni. Hanna Valdís Guðmundsdóttir tók ljósmyndina á baksíðu textabókar.
Diskurinn var tekinn upp í október og út kom hann fyrir útgáfutónleika í Reykjavík, á Akureyri og Dalvík. Það er allur munur á því og 1995 þegar jóladiskurinn kom ekki út fyrr en EFTIR kynningartónleikana og raunar ekki fyrr en Þorláksmessa var fast við sjóndeildarhringinn!
Kvartettinn kynnti Í fíflúlpum á tónleikum í Tjarnarbíói í Reykjavík 21. nóvember 1998. Morgunblaðið fjallaði um viðburðinn daginn áður og sagði meðal annars:
Rósa Kristín Baldursdóttir, stjórnandi kvartettsins, var nýbúin að fá geislaplötuna í hendur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar. Hún segir plötuna hafa mjög þjóðleg einkenni. „Þetta er músík grundvölluð á íslenskri sönghefð en fyrst og fremst eru þetta yndisleg sönglög sem við vonum að eigi eftir að lifa.
Diskurinn Í fíflúlpum hefur einhverra hluta vegna ekki fengið þann sess í sögunni sem honum ber. Fyrstu tveir diskarnir eru þekktari manna á meðal, sérstaklega á það við um jóladiskinn sígilda.
Flosi mærði séra Waage
Hreinn Valdimarsson tók upp þrjá diska af fjórum sem Tjarnarkvartettinn sendi frá sér á ferlinum og reyndar tók hann líka upp söng kvartettsins á sumartónleikum í Skálholti 1997. Tónleikarnir voru sendir út þá í Ríkisútvarpinu en síðan ekki söguna meir. Upptakan er varðveitt í safni RÚV.
Þegar liðsmenn kvartettsins eru beðnir um að nefna það sem þeir sjálfir telji að hópurinn hafi gert hvað best á ferlinum er diskurinn Í fíflúlpum gjarnan nefndur og/eða sumartónleikarnir í Skálholti.

Hreinn Valdimarsson rifjar upp októberdaga í Borgarfirði 1998:
Það fylgdi því alltaf ákveðin stemning að vinna með Tjarnarkvartettinum. Ákveðin stemning í Fella- og Hólakirkju en annars konar stemning á Dalvík og í Skálholti.
Svo kom Reykholt og enn ein stemningin. Þar vann ég með Guðmundi Óla Gunnarssyni, góðum dreng og eðalfínum en ákveðnum eins og góðir stjórnendur eiga auðvitað að vera. Svo var Hróðmar Ingi þarna í kringum okkur, enn eitt ljúfmennið …
Ég þekkti Guðmund Óla frá fyrri tíð og þurfti ekki að prófa mig áfram með samstarf við hann eins og við Gerrit þann hollenska á fyrsta upptökudegi með Tjarnarkvartettinum í Reykjavík forðum.
Samstarfið við Guðmund Óla gekk afar vel og svo hefur alltaf verið. Við bjuggum í sumarbústað og lágum þar á fletum á loftskör í grennd við heimili Flosa Ólafssonar leikara og fjölskyldu hans!
Heimsókn til Flosa er skýr í minningunni. Hesthúsið hans var flísalagt í hólf og gólf eins og fínasta baðherbergi í híbýlum manna. Allt stál í innréttingum pússað og glansandi fínt. Slíkt hef ég bara ekki séð, hvorki fyrr né síðar.
Sögurnar runnu að vanda viðstöðulaust upp úr Flosa, ekki síst sögur af séra Geir Waage Reykholtspresti. Þeir Flosi voru auðheyrilega miklir mátar þótt bil milli pólitískra skoðana væri breitt. Flosi sagði að margar líkræður séra Geirs mætti telja til bókmenntaafreka.
Sjálfar upptökurnar í kirkjunni voru í snarpri törn og gengu að flestu leyti betur en á fyrri diskum. Kvartettinn mætti til leiks vel þjálfaður og skólaður og kunni vinnubrögðin mun betur en áður. Fagmennskan var meiri og sjálfstraustið líka. Það varð líka til þess að söngfólkið leyfði sér alveg að taka á móti mér í rökræðum um álitamál í upptökunum. Þau voru alveg köld að hjóla í mig ef svo bar undir og það fannst mér bara fínt!
Fágaður og vandaður söngur, sterkir karakterar

Guðmundur Óli Gunnarsson, hljómsveitarstjóri og kórstjóri, var fenginn til að þjálfa og veita listræna leiðsögn á æfingum og í upptöku söngsins á diskinum Í fíflúlpum í Reykholtskirkju. Hann hafði verið skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri til 1997 og Rósa Kristín Baldursdóttir úr kvartettinum var nemandi hans í kórstjórn. Hinum þremur kynntist hann á æfingum og enn betur í upptökutörninni í Borgarfirði í október 1998.
Fágaður og vandaður söngur einkenndi Tjarnarkvartettinn. Fáir aðrir hérlendis fengust við svipaða hluti á þessum tíma. Liðsskipanin vakti auðvitað sérstaka athygli, tvenn hjón í sömu fjölskyldu og allt sterkir en ólíkir persónuleikar. Sjarmi þeirra og húmor spillti heldur ekki fyrir.
Rósa Kristín var sér á báti sem menntuð klassísk söngkona og nálgaðist verkefnið sem slík. Hún kenndi hinum raddirnar, stjórnaði kvartettinum og lagði mikla og agaða vinnu í þetta. Svona krefjandi starf getur augljóslega verið mjög flókið og kallað á einhverja spennu í samstarfi þegar hópurinn er fjölskylda og þarf jafnframt að sinna búskap, barnauppeldi og öllu sem tilheyrir. Þess vegna var fyrir margra hluta sakir skynsamlegt hjá Rósu að hafa frumkvæði að því að fá utanaðkomandi þjálfara og ráðgjafa vegna diskanna, fyrst Gerrit og svo mig.
Ég kom ekkert að lagavalinu, það sá kvartettinn um sjálfur. Þarna er mörg góð lög að finna og sum þeirra hef ég notað í kórum síðar. Til dæmis er Kammerkór Norðurlands með Ekkilinn, ljóð Davíðs Stefánssonar, á efnisskrá hjá sér en það var reyndar ekki á dagskránni í Hofi á Akureyri 10. nóvember 2019 í tilefni af því að hundrað ár voru liðin frá því skáldið frá Fagraskógi gaf út ljóðabókina Svartar fjaðrir.
Samstarfið við Tjarnarkvartettinn var snurðulaust, gekk ljómandi vel og var skemmtilegt. Ekkert sérstakt kemur upp í hugann … og þó. Þegar ég nú horfi á lagalistann á bakhlið disksins staldra ég við lag númer tólf, Alan, eftir Hilmar Oddsson og Hallgrím Helgason. Það tekur 4:10 mínútur í flutningi, langlengsta lagið á diskinum og telst óvenju langt fyrir kór að syngja.
Mig rámar í að sérstaklega Kristján á Tjörn hafi kvartað yfir því að geta ekki kyngt munnvatni á meðan söngurinn varði. Það mátti til sanns vegar færa. Þarna var hvorki önnur rödd né hljóðfæraleikur til að „skýla“ bassanum á meðan hann kyngdi. Kristján varð því bara að láta þetta ástand yfir sig ganga!

Áleitin spurning fyrir liðsmenn kvartettsins …
Hvað kemur upp í hugann þegar diskurinn Í fíflúlpum er nefndur?

Kristján
Kristjana
Mér er það mjög minnistætt að við fengum Guðmund Óla Gunnarsson til þess að stjórna okkur í fyrsta skipti í upptökum á Í fíflúlpum. Það var í senn mjög lærdómsríkt, krefjandi og gott fyrir liðsandann. Sjálfstraust mitt jókst til muna. Síðar átti ég eftir að kynnast Guðmundi Óla enn betur, bæði sem persónu og stjórnanda Kammerkórs Norðurlands sem ég söng í um tíma og sá kór á sérstakan stað í hjarta mínu. Þar hafði ég reyndar forskot á aðra í kórnum því Guðmundur valdi einmitt lög af diskinum okkar fyrir kammerkórinn sinn sem seinna rötuðu svo á hljómdisk, lög eins og Fegin í fangi mínu, La belle, og Vögguvísa, allt frábærar lagasmíðar eftir hirðtónskáldið okkar góða hann Hróðmar Inga Sigurbjörnsson sem við áttum í mjög góðu samstarfi við.
Annað sem kemur upp í huga minn í þessari upptöku og vinnu er heimsókn okkar til Flosa Ólafssonar leikara og Lilju Margeirsdóttur, eiginkonu hans. Bústaðurinn sem við bjuggum í var í túnfætinum hjá þeim. Hjónin buðu okkur í morgunkaffi sem var ógleymanleg stund. Flosi fór auðvitað á kostum en ekki síður Lilja. Hún var mjög skemmtileg og fróð.
Heitur pottur, stjörnubjartur himinn og örlítil brjóstbirta gerði svo útslagið eftir strangan dag. Botninn datt ekki úr okkur þarna suður í Borgarfirði eins og hjá sumum öðrum Svarfdælingum. Eitthvað lengur átti Tjarnarkvartettinn eftir að vinna saman.

Rósa
Í fíflúlpum var bráðskemmtilegt verkefni og sennilega það allra mest krefjandi í sögu kvartettsins. Ég man sérlega vel eftir þykkum og þungum höfuðverk sem plagaði mig einn af þessum fínu dögum í Reykholti. Guðmundur Óli kenndi mér trikk til að vinna gegn verknum, nefnilega það að þrýsta þéttingsfast á punkt milli þumals og vísifingurs. Nota þetta enn í dag þegar hnúkaþeyrinn í Salzburg ætlar mig lifandi að drepa.
Sennilega stafaði höfuðverkurinn af streitu, kannski varð mér bara allt í einu ljóst hvað við við færðumst þarna í fang! Tónlistina höfðum við að stórum hluta fengið í hendur frá íslenskum tónskáldum; sum laganna höfðum við pantað eða látið útsetja sérstaklega.
Verkefnið var metnaðarfullt og við bárum ómælda virðingu fyrir því. Söngurinn reyndi mun meira á tækni heldur en á öllum hinum diskunum til samans eða svo finnst mér allavega nú þegar ég hugsa til baka. Lögin vorum mörg hver flóknari og allar úsetningar sömuleiðis. Að syngja eingöngu á íslensku er heldur ekki alveg einfalt. Tungumálið okkar fallega er til dæmis uppfullt af tvíhljóðum. Þá þarf að kunna þokkaleg skil á því hvernig hægt er að búa til fínar streymandi línur, það sem á tónlistarmáli er kallað legato.
Ég hafði á þessum tíma loksins lokið framhaldsnámi í söng til hliðar við vinnu og barnauppeldi og var á kafi í alls kyns raddpælingum enda nýtti ég hvert tækifæri til að sækja námskeið hingað og þangað um heiminn. Mér hafði alltaf tekist að syngja með tærri, mér liggur við að segja, ,,drengjarödd” og valdi mér meðvitað raddlegu sem ekki krafðist þess að ég syngi alltof hátt. Þetta mótaði auðvitað að einhverju leyti hljóm kvartettsins en varð erfiðara og erfiðara eftir því sem röddin þroskaðist og stækkaði. Að syngja Mimi, lýrískt óperuhlutverk, krefst þess að röddin, hljóðfærið góða, sé notað að fullu. Þá verður erfitt að bakka og reyna að láta ekki of mikið í sér heyrast! Þetta var streituvaldandi fyrir mig á þessum tíma en þá var frábært og mikill stuðningur í því fólginn að hafa snillinga eins og Hrein og Guðmund Óla með okkur í vinnunni.
Ég vildi óska þess að diskurinn Í Fíflúlpum fengi þann sess sem honum í raun og veru ber í íslensku tónlistarlífi. Þetta er að mörgu leyti stórmerkileg plata og þar er að finna mörg íslensk sönglög sem ættu skilið að heyrast sem oftast.
Myndin sem prýðir umslagið er frábær; teikning eftir Hjöra sem sýnir okkur öll, bara svona eins og við í raun erum!
Hjörleifur
Mér er minnistætt að við vorum þarna í einhverju orlofshúsi með heitum potti til að baka okkur í eftir langa upptökudaga, undir stjörnuhimni í frosti og snjó.
Ég man líka eftir hundinum hans séra Geirs Waage í Reykholti. Sá var mikill hávaðabelgur og eyðilagði nokkrar upptökur þar til við fengum hann lokaðan inni í gömlu kirkjunni.
Annars eru fíflúlpurnar merkisdiskur. Við frumfluttum þarna lög og útsetningar sem síðan hafa flogið víða. Einkum lögin hans Hróðmars.
Við riðum hins vegar ekki feitum hesti frá útgáfunni. Enn eru til diskar í kassavís á Tjörn og í Laugasteini, ef einhver hefur áhuga. Okkur Tjarnarmönnum er margt betur lagið en verslun og viðskipti. Við sömdum við eitthvert dreifingarfyrirtæki, Senu ehf. minnir mig, um að koma diskinum í verslanir en Senumenn voru nú ekkert að leggja of hart að sér í þeim efnum.
Það sýndi sig reyndar í öllu þessu vafstri okkar í kvartettinum að mikill aðstöðumunur er fólginn í því að búa í Svarfaðardal annars vegar og í Reykjavík hins vegar. Ekki er auðhlaupið að norðan í fjölmiðlaviðtöl eða gigg og erfitt að fylgjast með hvort diskar séu til í búðum. Öll eftirfylgni með svona útgáfu er þung, ekki síst fyrir fjölskyldur með börn og bú.

Annáll disksins Í fíflúlpum
Hjörleifur Hjartarson skráði í Gerðabók Tjarnarkvartettsins
Gerðabók II hafði verið tekin í gagnið þegar Tjarnarkvartettinn bjó sig undir að koma út þriðja diski sínum. Gerðabók I var nánast fullskrifuð en hún var auk þess orðin þreytt og þvæld, hékk eiginlega saman af gömlum vana.
Eftirfarandi
kom fram í fyrstu færslu í Gerðabók II.
6. september 1997
Þessi nýja gerðabók er keypt í IKEA ásamt eldhúsinnréttingu og fleiru smálegu þar sem gamla gerðabókin eða gjörðabókin er öll að detta úr spjöldunum og þolir ekki mikið meira álag.
Þann 1. september hefst nýtt kvótaár og þá hefst líka nýtt starfsár hjá Tjarnarkvartettinum. Gleðilegt nýtt ár!
Fyrstu merki um væntanlega útgáfu Í fíflúlpum sjást í færslu frá 15. ágúst 1998. Þar eru skráðir 19 titlar laga sem til greina þykja koma til æfinga og útgáfu. Þegar að er gáð kemur í ljós að 13 lög á listanum er að finna á diskinum.
Skrásetjari Gerðabókar II er ekki sérlega margorður um æfinga- og framleiðsluferli disksins næstu vikur og mánuði. Honum er kannski vorkunn því þá um sumarið hafði hann skrifað síður upp og síður niður um ferðalag kvartettsins til Parísar og trúlega fyllst skráningardoða í kjölfarið.
Í fyrstu færslu ferðasögunnar, í fluginu frá Íslandi til Frakklands, rifjast upp minning drengs á Tjörn úr afmælisveislu á næsta bæ, Laugahlíð. Tilefnið var augljóslega að flugfreyja um borð var Jófríður Björnsdóttir frá Laugahlíð (hún lést 8. júlí 2019). Jófý var flugfreyja hjá Loftleiðum, Flugleiðum og Icelandair í samtals 43 ár og formaður Flugfreyjufélags Íslands í 5 ár.
6. ágúst
Við sitjum í farþegaflugvél Boeing 737 á leið til Parísar. Flugfreyjan er Jófý í Laugahlíð og það minnir mig á afmælisboðið góða, stórkostlegasta veisla sem ég hef lent í.
Ekki man ég hvor það var Árni eða Úlli [bræður Jófríðar] sem átti afmæli en það man ég að allir gestirnir voru leystir út með gjöfum sem Jófý hafði komið með frá Ameríku. Þetta voru fallega innpakkaðar gjafir, sitt lítið af hverju. Ég man að ég fékk glas úr plasti sem ég átti lengi síðan. Þórarinn fékk líka glas en það var skrautlegra og var lengi notað undir tannbursta á klósettinu uppi.
Þá var eitthvað sælgæti í pökkunum og enn eru mér minnisstæðar tyggjósígarettur sem Kristján og Árni Stef. fengu.
13. ágúst
Og núna er flugvélin á leiðinni heim og það er alveg ágætt. Maður nennir ekki að vera í París endalaust. Harla gott. Við erum í aftasta sæti vélarinnar og ég hef þrjú sæti fyrir mig þversum.
Það eru tvær klukkustundir þangað til við lendum. Í Mogganum er sagt frá því að við syngjum á Hólahátíð eftir þrjá daga.
6. september
Við æfum reglulega þessa dagana enda diskur á leiðinni. Í dag var stutt æfing á Tjörn.
15. september
Æfing í Tónlistarskólanum á Akureyri með Guðmundi Óla. Þar var lagt á ráðin varðandi disk.
16. september
Æfing í Laugasteini. Lærðum Eftir barn Heimis Sindra og Friðriks Guðna. Æfðum Delg jó dárni eftir Ríkharð Örn Pálsson.
Göngur voru í Svarfaðardal um síðustu helgi og sumir hásir.
27. september – sunnudagur
Löng og góð æfing í Laugasteini (því mikla og merka sauðbúi).
Hingað voru mættir Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Heimir Sindrason og hlýddu gagnrýnum eyrum á söng okkar.
Ýmsu var breytt til batnaðar og allir harla glaðir.
28. október
Jæja, sannarlega höfum við ekki setið auðum höndum þennan mánuð. Við æfðum og æfðum og tókum svo upp disk í Reykholti 17.-20. október og það er nú farið að sjá fyrir enda á því öllu. Diskurinn fer í pressun ekki á morgun heldur hinn og framundan er
- 29. okt. Davíðsvaka.
- 30. okt. Jarðarför + söngur í Ýdölum.
- 9. nóv. Nordisk humør á Amtsbókasafni.
- 18. nóv. Háskólatónleikar.
2. febrúar 1999
Ekki gengur þetta slór. Það verður í það minnsta að gefa skýrslu:
- 20. nóv. Sungum við útför.
- 21. nóv. Útgáfutónleikar í Tjarnarbíói.
- 27. nóv. Útgáfutónleikar á Akureyri.
- 29. nóv. Útgáfutónleikar á Dalvík.
- 1. jan. Galaball á KEA, Akureyri.
- 17. jan. Komum fram í þættinum Hratt flýgur stund.
- 25. jan. Fyrsti samlestur á Systrum í syndinni hjá Leikfélagi Akureyrar, leikritiu eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur.
Listi laga og ljóða á Í fíflúlpum
- Ó jómfrú fín – þjóðkvæði. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Ektamakinn elskulegi – Tryggvi M. Baldvinsson/Hallgrímur Pétursson.
- Krummi – Tryggvi M. Baldvinsson/Davíð Stefánsson.
- Ekkillinn – Íslenskt þjóðlag/Davíð Stefánsson. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Delg jó dárni – lag & texti: Ríkharður Örn Pálsson.
- Hjarta mitt – Heimir Sindrason/Halldór Laxness. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Eftir barn – Heimir Sindrason/Friðrik Guðni Þorleifsson Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Þótt form þín hjúpi graflín – Heimir Sindrason/Halldór Laxness. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Í grænum mó – Sigfús Halldórsson/Gestur Guðfinnsson. Raddsetning: Elías Davíðsson.
- Kata í Koti – Sigvaldi Kaldalóns/Gestur. Raddsetning: Hildigunnur Rúnarsdóttir.
- Maður hefur nú – lag & texti: Gunnar Reynir Sveinsson. Raddsetning: Sigurður Halldórsson.
- Alan – Hilmar Oddsson/Hallgrímur Helgason. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Fröken Reykjavík – Jón Múli og Jónas Árnasynir. Raddsetning: Elías Davíðsson.
- Fegin í fangi mínu – Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson/Jónas Hallgrímsson.
- Íslands minni – Atli Heimir Sveinsson/Jónas Hallgrímsson.
- Idyll – Atli Heimir Sveinsson/Halldór Blöndal.
- Vögguvísa – Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson/Jóhann Jónsson.
- La Belle – Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson/Jónas Hallgrímsson.
- Amma kvað – Sigríður Hafstað/Örn Arnarson. Raddsetning: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson.
- Sofðu svanur á heiði – Ingibjörg Bergþórsdóttir/Halldór Helgason frá Ásbjarnarstöðum. Raddsetning: Þorkell Sigurbjörnsson.















