Af skíðanýbúum og uppgerðri Jónínubúð í kaupfélagskápu

Staðlað

Góð reynsla af ferðum með menntskælinga af höfuðborgarsvæðinu til skíðaæfinga í Böggvistaðafjalli ofan Dalvíkur leiddi til þess að Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Helgi Geirharðsson verkfræðingur keyptu Jónínubúð við Skíðabraut á Dalvík árið 2011. Húsið var þá niðurnítt og það svo mjög að fæstum hefði líklega dottið í hug að það yrði aftur boðlegur mannabústaður.

Núna sjö árum og fjórum rekaviðartonnum síðar hefur Jónínubúð endurheimt æruna sem hluti af bæjarandlitinu við „hlið“  Dalvíkur Svarfaðardalsmegin. Endurbótaferlinu er ekki hreint ekki lokið og breytingar innan og utan dyra eru staðfastlega í anda hugmyndafræði endurvinnslu.

Annað eins og þarna gerist sést hvergi nokkurs staðar í heimsóknum og umfjöllun í tímariti á borð við Hús og hýbýli eða í sjónvarpsþáttum á svipaðri bylgjulengd: Heimsókn, Innlit og útlit, Gulli byggir og hvað þetta nú allt heitir allt saman þar sem þemað er íbúðir fyrir og eftir stórfelldar framkvæmdir.

Kristín Helga og Helgi eru miklir reynsluboltar í skíðaíþróttinni og voru meira að segja gefin saman í hjónaband í skíðaskála í Bláfjöllum. Þau eiga þrjár dætur, Birtu Kristínu, Erlu Guðný og Soffíu Sóleyju.

Helgi var keppnismaður á skíðum og síðar þjálfari íslenska skíðalandsliðsins og Reykjavíkurliðsins í alpagreinum. Hann sat í stjórn Skíðasambands Íslands og hefur starfað sem ráðgjafi við hönnun og framkvæmdir á skíðasvæðum.

Þau hafa rennt sér í hlíðum fjalla um alla Evrópu og í Bandaríkjunum og eru í vetur fararstjórar fyrir Úrval Útsýn í Madonna, þorpi í ítölsku Ölpunum. Ritstjóri Svarfdælasýsls getur af eigin reynslu frá í janúar 2020 vitnað um að þar eru þau hjón aldeilis á réttri hillu í tilverunni, reynsluríkt og umhyggjusamt fagfólk með sterka og notalega nærveru. Hún er lærður leiðsögumaður á Íslandi og hefur starfað sem slíkur en var líka á árum áður fararstjóri Úrvals Útsýnar í sólarlandaferðum.

Kristín Helga og Helgi í Madonna í janúar 2020.. Mikill snjór, rennifæri, heiður himinn og sólskin. Draumadæmi fyrir fararstjóra Úrvals Útsýnar og skíðafélaga þeirra …

Kristín Helga er samt fyrst og fremst þekkt sem afkastamikill, vinsæll og margverðlaunaður rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands þar til í fyrra. Hún hefur skrifað hátt í þrjátíu skáldverk, hvorki meira né minna, og upplýsir að fjórar síðustu bækurnar hafi að miklu leyti orðið til á Dalvík. Þar þykir henni gott að skrifa og gott að vera. Ekki fór á milli mála í Madonna hve sterkar taugar eigendur  Jónínubúðar hafa til byggðarlagsins síns nyrðra.

Kristín Helga, kölluð Dinna, lýsir aðdraganda þess að þau Helgi festu sér hús á Dalvík.

Stelpan á Vegamótum reddaði málum

„Helgi þjálfaði skíðakrakka úr Ármanni og KR. Á árunum 2007-’10 festi varla snjó í fjöllum á skíðasvæðum fyrir sunnan og þá þurfti að leita annað með hópana, líka með dætur okkar þrjár sem við vildum að fengju reynslu og þjálfun á skíðum.

Við fórum þá norður helgi eftir helgi, aðallega til Siglufjarðar, Dalvíkur eða Sauðárkróks en líka til Akureyrar. Einn veturinn voru þessar æfingaferðir 14 talsins og stundum vorum við auðvitað óheppin með veður eins og gengur.

Fljótlega tókum við eftir því að veðurlag á Dalvík var þannig að opið var í Böggvistaðafjalli þegar lokað var annars staðar. Þar féll bara ekki niður einn einasti æfingadagur! Við ákváðum því að æfa alltaf þarna ef nokkur kostur væri.

Það spillti heldur ekki fyrir að við fengum höfðinglegar móttökur á Dalvík og Einar Hjörleifsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins, sinnti okkur alltaf svo glæsilega og ljúfmannlega. Ég sá um kokkamennsku í ferðunum og aðstæður eru þannig á Dalvík að ég gat slegið öllu saman fyrirhafnarlaust: skrifað í skíðaskálanum, skroppið á skíði líka og eldað matinn!

Einu sinni var skíðaskálinn frátekinn um helgi og við gátum hvorki verið þar yfir daginn né gist á nóttunni. Þá voru góð ráð dýr, raunar rándýr því kostnaður við að gista á hótelinu hefði sett útgerð hópsins fjárhagslega á hliðina. Mér var þá bent á að hringja í „stelpuna á Vegamótum“ og kanna hvort hún gæti hjálpað okkur. Það reyndist vera Kristín Aðalheiður Símonardóttir, Heiða Sím. Hún sagðist ekkert geta gert okkur til bjargar og við vorum orðin býsna stressuð.  Þá hringdi stelpan á Vegamótum og spurði hvort við gætum hugsað okkur að búa í skátahúsinu sem stæði tómt. Þar væri eldhúskrókur og hún myndi redda dýnum til að við gætum sofið á gólfinu, ef við gætum hugsað okkur það. Auðvitað! Í skátahúsinu vorum við í tíu daga samfleytt við fínar aðstæður.“

Vonlaust greni við fyrstu sýn

„Þarna kynntumst við því hvernig Dalvíkingar eru í raun. Þeir leggja sig eftir því að leysa hvers manns vanda og gera það! Þetta var jafnframt upphafið að yndislegu vinasambandi okkar Helga við hjónin Heiðu og Bjarna sem reka gistiþjónustu og veitingahúsið Gísla, Eirík og Helga.

Heiða spurði einu sinni:

– Hvers vegna kaupið þið ekki hús á Dalvík fyrst þið eruð hvort eð er með annan fótinn hérna?

Hún lét þar ekki staðar numið og hringdi nokkru síðar til að láta vita að til sölu væri hús sem gæti hentað okkar. Þar þyrfti að vísu að taka til hendinni, sem reyndust engar ýkjur.

Við fórum norður til að kanna málið. Helgi og Heiða gengu um flissandi og hlæjandi og sáu hina og þessa möguleika til að breyta og bæta. Ég stóð á meðan í hálfgerðu áfalli og hélt fyrir munn og nef. Lyktin var hryllilegt, drasl og dót þarna inni og húsið hriplegt. Mér fannst þetta vera vonlaust greni!“

Jónínubúð 4. febrúar 2020. Mynd: Bjarni Gunnarsson umboðsmaður Bakkabræðra.

Dramatísk saga Lambhaga/Jónínubúðar

Húsið sem nú heitir Jónínubúð var hinn upphaflegi Lambhagi og fór illa í  Dalvíkurskjálftanum 2. júní 1934. Svo vildi til að í þann mund er hamfarirnar dundu yfir ól Petrína Jónsdóttir frá Nýabæ stúlkubarn þeirra Sigurðar Þorgilssonar frá Sökku. Mikil mildi þótti að móðir og barn skyldu sleppa heil og ósködduð þegar norðurstafn hússins hrundi, reykháfur féll og allt lauslegt datt af veggjum. Petrína var borin út í undirsænginni en Albína Jónsdóttir ljósmóðir greip barnið nýfætt, vafði í sæng og hljóp með það heim í Nýabæ.

Eftir jarðskjálftann var efri hæð hússins rifin en neðri hæðin látin standa og á hana sett skúrþak. Nýtt hús, núverandi Lambhagi, var síðan byggt rétt sunnan við hið hálfhrunda hús. Nýrra húsið var tengt hinu eldra með því að loka portinu á milli þeirra. Aldrei hefur samt verið innarngengt milli húsanna tveggja (heimild: skrá Dalvíkurbyggðar yfir hús sem reist voru fyrir 1950).  

Samkvæmt íbúaskrá var búið í Lambhaga frá 1930. Á árunum 1949 til 1966 bjó í eldri hlutanum Jónína Jónsdóttir, ekkja Júlíusar Jóhanns Björnssonar útgerðarmanns. Þau reistu Sunnuhvol á Dalvík árið 1910 og bjuggu þar til 1945. Þá seldu þau húsið og Júlíus dó ári síðar.

Slysavarnafélag Íslands eignaðist eldri hluta Lambhaga 1977 og var með starfsemi sína þar til 1991 þegar það seldi Leikfélagi Dalvíkur eignina. Slysavarnafélagið nefndi húsið Jónínubúð til heiðurs Jónínu Jónsdóttur, eiganda og húsráðanda þar í liðlega tvo áratugi.

Sumir Dalvíkingar töluðu samt áfram um Lambhaga 1 og 2 en á slíkt vilja núverandi eigendur eldra húshlutans ekki heyra minnst. Jónínubúð skal húsið heita. Mynd af Jónínu er á vegg í forstofunni því til áréttingar.

Smíðaefni sjórekið, hirt á haugum eða næstumstolið

Kristín Helga og Helgi keyptu Jónínubúð af Leikfélagi Dalvíkur 2011. Hilmar heitinn Daníelsson annaðist samskipti við þau af hálfu félagsins. Húsið var auglýst til sölu og þrjú kauptilboð bárust. Miklu máli skipti fyrir seljendur að heyra að þessir tilteknu bjóðendur ætluðu að „vera og gera“, það er að segja að breyta húsinu og koma því í stand sem allra fyrst þannig að það myndi sóma sér vel í bæjarmyndinni. Þegar svo leikfélagsfólk ákvað taka tilboðinu stóð ekki á nýjum eigendum að hefjast handa og í þeim efnum var ekki farið í troðna slóð, svo mikið er víst. Kristín Helga fer hér yfir það helsta sem gerst hefur í Jónínubúð, „handavinnuhúsinu“ þeirra við Skíðabraut.

  • Sjórekið innréttingaefni. „Við byrjuðum á því að fá hálft fjórða tonn af rekaviði hjá Vigni vini okkar á Skagaströnd og flytja til Dalvíkur. Helgi minn breytist í óstöðvandi smíðaberserk þegar hann kemst í rekavið. Hann breytti rekanum í gólfefni, kojur, innréttingar og fleira. Sólpall og heita potta á bak við hús smíðaði hann líka úr sjóreknum viði frá Skagaströnd en við pallinn er veggur úr rekaviði af Sandinum á Dalvík.“
  • Kaupfélagskápa. „Þakið var alveg ónýtt en þegar við veltum vöngum yfir því hvað bæri að gera í þeim efnum var á sama tíma skipt um þak á kaupfélagshúsinu á Dalvík. Við fengum leyfi til að hirða það úr gamla þakinu sem við vildum. Verkfræðingurinn Helgi sýndi enn einu sinni hvað í honum býr. Hann sá sér þann leik á borði að setja langbönd ofan á gamla þakið og lagði járnplötur kaupfélaginu þar ofan á. Plöturnar voru svo langar að þær náðu yfir skyggni beggja. Þannig varð til veðurhlíf fyrir húsið og síðan þá hefur ekki lekið dropi af vatni inn til okkar. Jafnframt hlýnaði verulega í kotinu.“
  • Ungóspýtur fengu framhaldslíf. „Skipt var um þak á Ungó á Dalvík. Þar náðum við í fínustu spýtur til að smíða úr bekki og fleira í nýjan eldhúskrók. Úr þessum efnivið bjuggum við líka til nafnskilti fyrir Gísla, Eirík og Helga og hengdum utan á húsið fyrir fyrsta Fiskidaginn mikla eftir að veitingastaðurinn var opnaður. Heiða og Bjarni máttu ekkert vera að slíku stússi.“
  • Næstumstolin eldhúsinnrétting. „Hér um árið höfðum við ákveðið að renna norður annan dag jóla og smíða eldhúsinnréttingu fyrir áramót. Á Þorláksmessu uppgötvaðist að við áttum ekki efnivið til slíks og renndum í Heiðmörk, að sögunarmyllu Skógræktarfélags Reykjavíkur, til að kaupa við. Þar var ekki nokkur sála og athafnasvæðið lokað með keðju og hengilás í hliðinu.

Við skriðum undir girðinguna og fórum að snuðra. Þarna var álitlegur trjáviður, greinilega afgangar, og fleira gott fundum við í skóginum í grenndinni. Við komum þessu út fyrir girðingu og hlóðum í kerru.

Þá loksins náði ég símasambandi við framkvæmdastjóra Skógræktarfélagsins. Hann var staddur í Kringlunni að kaupa jólagjafir. Ég sagði honum hvar við færum og í hvaða erindum. Maðurinn varð steinhissa og ég spurði:

– Eru spýturnar ekki örugglega til sölu?

– Það getur vel verið. Ertu kannski búin að taka þær?

– Já.

– Ertu þá að segja mér að þú viljir kaupa það sem þú hefur stolið nú þegar?

– Já.

­– Jæja þá, taktu mynd af farminum í kerrunni á símann þinn og sendu mér. Ég finn einhverja tölu og sendi reikning.

Svona var nú maðurinn elskulegur og við gátum farið glöð norður og smíðað innréttingu í eldhúsið milli jóla og nýárs.“

  • Flísabrot á gólfum. „Á gólfum eru flísar og flísabrot sem ég fékk að hirða úr gámum við gólfflísaverslanir.“
  • Gluggar úr Kálfskinni. „Við rákumst á Svein í Kálfskinni á Árskógsströnd á förnum vegi og hann sagðist eiga fína, franska glugga í hlöðunni sinni og þá gætum við fengið ef við vildum. Þarf ekki að orðlengja að gluggana þáðum við með þökkum og þeim var komið fyrir á sínum stað.“

Veggfóðrað með Hjemmet Bo og Íslandskortum. „Arnar Símonarson, Addi Sím – bróðir Heiðu, er fjölsnillingur á Dalvík og á meðal annars heilan helling af „dönsku blöðunum“: Familie Journal, Hjemmet, Tidens Kvinder, Billedbladet, Bo Bedre, Femina og Dansk Familie Blad. Hann kom með fullan kassa og gaf mér til að veggfóðra með alla forstofuna. Þetta var svo töff að ég ákvað að veggfóðra líka í skíðastofunni sem áður var tækjasalur björgunarsveitarinnar á Dalvík. Til þess notaði ég gömul landakort frá því pabbi var í landmælingum og fékk til viðbótar Íslandskort frá Forlaginu.

Á meðan ég fékkst við þetta bjástraði Helgi minn úti í skítakulda við að smíða heita pottinn. Hann kom annað slagið inn til að biðja um hjálp. Ég sagðist réttilega vera algjörlega upptekin við að veggfóðra og hann yrði að bjarga sér.

Ólíkt  geðslegra var líka að veggfóðra inni í hlýju en smíða úti í hríðarhraglanda og frosti.“

Helgi Geirharðsson og Lotta við Jónínubúð. Lambhagi fjær.

Hús með ríka sögu

„Mér leist ekkert á blikuna við fyrstu kynni af Jónínubúð en nú þykir mér afskaplega vænt um húsið og sögu þess. Jónínubúð er nefnilega í hæsta máta söguleg þrátt fyrir að teljast ekki með reisulegri húsum á Dalvík. Þarna starfaði leikfélagið og þarna hafði björgunarsveit Slysavarnafélagsins aðsetur. Björgunarsveitir eru svo mikilvægur og fallegur þráður í íslenskri sögu og þá um leið í sögu Jónínubúðar. Svo þykir mér  lofsvert af Slysavarnafélagi Íslands að heiðra öflugar konur með því til dæmis að nefna aðsetur sín og skýli eftir þeim; Sesseljubúð, Þuríðarbúð, Jónínubúð.

Okkur er afskaplega vel tekið á Dalvík. Dalvíkingar eru gott fólk og þar eru snillingar og áhugaverðir karakterar á hverju strái. Ég hef dundað mér í Madonna við að lesa um ítölsku þorpin í Ölpunum. Þar er alltaf verið að lýsa sérstökum karakterum meðal íbúanna. Lýsingar er auðveldlega hægt að heimfæra á Dalvík.

Við hlökkum til að fara norður þegar dvölinni á Ítalíu lýkur í mars. Alltaf er gott að renna yfir Hámundarstaðaháls og sjá Dalvíkina blasa við. Þá er bara spölkorn eftir heim í Jónínubúð.“

Bændur í Jónínubúð veittu Svarfdælasýsli góðfúslegt leyfi til að birta myndir sem sýna undraheiminn sem skapaður hefur verið þarna innan dyra við Skíðabraut. Hugmyndafræði endurvinnslu er svo rík í heimafólkinu að þegar þar að kom í búskapnum að drukkið hafði verið úr níu flöskum rauðvíns var botninn sargaður af bokkunum og þeim breytt í ljósakrónu!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s