Músíkforleggjari í Laugagerði lítur um öxl

Staðlað

Friðrik Friðriksson er sjö diska maður þegar að er gáð. Giska drjúgt af manni sem þekktastur er fyrir það í byggðarlagi sínu að hafa starfað í Sparisjóði Svarfdæla áratugum saman. Reyndar eru þessi tengsl svo rík í hugum sveitunganna að hann er enn kallaður Frissi Spar á heimavelli tíu árum eftir að hann lét af störfum sem sparisjóðsstjóri og sjö árum eftir að Sparisjóður Svarfdæla var lagður niður.

Hér skal fyrst og fremst fjallað um frumkvæði Friðriks að því að koma tónlist Svarfdælinga og annarra á framfæri sem útgefandi í eigin nafni, með eigin fjárstuðningi eða stuðningi Sparisjóðs Svarfdæla þar sem hann fékk samþykki stjórnar til styrkja fólk eða félög til góðra verka.

Útgáfan hans hófst með Karlakór Dalvíkur 1993 og endaði með Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara 2017. Þar á milli komu fimm diskar, flestir með svarfdælskar tengingar.

Eftir að diskur nr. 2 kom út lýsti Friðrik því opinberlega yfir að plötuútgáfu væri þar með lokið af hans hálfu (viðtal í Degi) . Það var verulega ofmælt. Hann var bara rétt að byrja.

Friðrik fjallar hér um „fjöllin sjö“, diskana sem hann var viðriðinn á einn eða annan hátt sem útgefandi eða bakhjarl.

Trommaði með Pálma Gunnars í Foxes

Friðrik var á sínum tíma trommuleikari í skólahljómsveitinni Foxes í héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal. Í bandinu var líka náungi sem átti heldur betur eftir að láta að sér kveða í tónlist og efndi nú síðast til jólatónleika í Hörpu í desember 2019, sjálfur Pálmi Gunnarsson, söngvari og bassaleikari.

Hinir tveir í Foxes voru Sæmundur Harðarson frá Höfn í Hornafirði og Mývetningurinn Sigfús Illugason. „Refirnir“ störfuðu í tvo vetur og voru meira en skólahljómsveit því þeir gerðu víðreist um Þingeyjarsýslur og komu fram á þorrablótum og fleiri mannamótum.

Fyrir kom að strákarnir í Foxes keyrðu heim í Laugar úr giggi utan skólans, enginn þeirra samt kominn á bílprófsaldur. Ekki orð um það meir. Málin eru fyrnd.

Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal spilaði gjarnan á harmóníku með Foxes á böllum. Hann var söngkennari á Laugum, tónskáld og kirkjuorganisti í nær hálfa öld. Árið 1995 kom út sönglagaheftið Við gengum tvö með 19 lögum eftir Friðrik og kennt við eitt af þeim þekktari. Önnur þekkt eru til að mynda Rósin, Svanahjónin og Fölnuð er liljan.

Böll í Mývatnssveit borguðu eldhúsinnréttingu

fridrikogpalmio

Félagarnir Pálmi og Friðrik flýttu Þorláksmessu um hálfan mánuð 2019 og fengu sér skötu snemma í desember. Fyrir lá að húsráðendur í Laugagerði yrðu á Kanaríeyjum um jól og áramót. Skötuveislan var EKKI  leiðinleg!

Friðrik Friðriksson og Pálmi Gunnars hafa alla tíð haldið góðu sambandi gegnum súrt og sætt og eru ævivinir.

Eftir samveruna á Laugum  héldu félagarnir til Danmerkur og voru þar í einn vetur í lýðskóla. Tengslin við Ísland voru brotakennd. Þeir fengu nokkur eintök af Morgunblaðinu og Degi send einu sinni í mánuði og heyrðu í mæðrum sínum tvisvar í síma, um jól og páska. Mömmurnar notuðu drjúgan tíma samtalanna til að ítreka við synina að vera nú stuttorðir og gagnorðir því símtölin væru svo dýr!

Friðriki er annars minnisstæðust Spánarferð þeirra Pálma þarna um veturinn í Danmörku.

„Við lögðum á okkur að sofa á Kastrupflugvelli til að ná ódýrustu flugmiðunum til Spánar með Spies Rejser. Á leiðinni kynntumst við nokkrum grænlenskum verslunarskólanemum sem sumir hverjir voru í músík. Úr varð að við mynduðum hóp til að flytja íslenska og grænlenska tónlist á börum gegn því að fá mat og eitthvað drekka líka í viku á Spáni!

FB_IMG_1577744077663-2

Laugaskólabandið Foxes – Refirnir.  Friðrik Friðriksson fremstur með trommukjuða, Pálmi Gunnarsson til hægri, Sæmundur Harðarson til vinstri og Sigfús Illugason aftast með bassann sinn.

Pálmi hélt út á tónlistarbrautina sem atvinnumaður en ég sneri mér að allt öðru en hef alltaf haft gaman af tónlist og hlusta mikið á tónlist. Trommukjuðana lagði ég samt ekki á hilluna fyrr en mörgum árum síðar. Ég var til dæmis í hljómsveitinni Safír í Mývatnssveit sem starfrækt var sumarið 1969 og spilaði víða á Norðurlandi, meðal annars í Víkurröst á Dalvík.  Heima á Dalvík var ég í hljómsveitinni Hugsjón sem við nefndum síðar Safír. Mannskapurinn var sá sami í Hugsjón og Safír. Þar voru með mér Hafliði Ólafsson á harmóníku, Einar Arngrímsson á bassa og Rúnar Rósmundson og Sigurpáll Gestsson á gítara.

Safír fór víða um Norðurland og spilaði á sveitaböllum sem voru þá og hétu. Einu sinni vorum við til dæmis á böllum þrjú kvöld í röð um verslunarmannahelgi í Mývatnssveit og alltaf var uppselt klukkan hálf tólf. Við fórum heim með fulla ferðatösku af seðlum og ávísunum og eftir helgina gat ég staðgreitt eldhúsinnréttingu sem Jón Björnsson smíðaði í nýja húsið sem Hallgrímur Antonsson var að smíða fyrir okkur Marín Jónsdóttur að Hjarðarslóð 3b!

safir2

Dalvíkurhljómsveitin Safír. Frá vinstri: Palli Gests, Hafliði Ólafs, Friðrik, Einar Arngríms og Rúnar Rósmunds.

Árum saman spiluðum við Hafliði Ólafs og Einar Arngríms fyrir svarfdælskum marsi í Svarfaðardal. Eftir það hætti ég spilamennskunni.

Þegar ég varð sparisjóðsstjóri komst ég í aðstöðu til að geta aðstoðað tónlistarfólk og styrkt margvísleg verkefni sem tengdust menningu, íþróttastarfsemi og velferðarmálum af ýmsu tagi í byggðarlaginu. Þetta ræddi ég að sjálfsögðu í stjórn Sparisjóðs Svardæla sem studdi mig alltaf heils hugar og veitti mér umboð til að styðja og styrkja verkefnin í nafni sjóðsins.

Í öðrum tilvikum ákvað ég að gerast sjálfur útgefandi og standa að málum á eigin vegum.

Mér eru sérstaklega minnisstæð viðbrögð við fyrsta diski Tjarnarkvartettsins. Þá sá ég hve marga tónlistarunnendur og menningarsinna á Íslandi var unnt að gleðja með því að koma listafólki á borð við liðsmenn kvartettsins á framfæri.“

1 Karlakór Dalvíkur 1993

KarlakorDalvikur„Karlakór Dalvíkur gaf út hljómplötuna Svarfaðardalur árið 1975, þá undir stjórn Gests Hjörleifssonar. Hún seldist vel og var mikið spiluð í Ríkisútvarpinu en algjörlega ófáanleg. Mér datt í hug að endurútgefa plötuna á geisladiski og fékk leyfi kórsins til þess. Pálmi Stefánsson í  Tónabúðinni á Akureyri átti böndin með upprunalegum upptökum og ég fékk Óskar Pál Sveinsson til að annast hljóðvinnslu.

Diskinn gaf ég út í eigin nafni 1993, skráði útgáfuna sem FF 001 CD og sendi síðan kollegum mínum, sparisjóðsstjórum um allt land, erindi og nánast skipaði þeim að kaupa diska til að gauka að viðskiptavinum sínum eða öðrum. Það gerðu þeir með glöðu geði og voru reyndar svo ánægðir með svarfdælska sönginn að þeir samþykktu umsvifalaust ári síðar að kaupa líka samtals nokkur hundruð eintök af fyrsta diski Tjarnarkvartettsins sem ég gaf þá út.

Karlakórsfélagar seldu kórdiskinn líka og það gekk vel. Þegar núllinu var náð afsalaði ég Dalvíkurkirkju útgáfuréttinum.

Fyrri helmingur upplagsins hefur ákveðið safnaragildi því Svarfaðardalur er err-laus á diskinum sjálfum og bæði á forsíðu og bakhlið umslagsins. Þar stendur Svarfaðadalur en merkilega fáir tóku eftir því!“

Og svo vill til að Svarfdælasýslari á einmitt eintak af err-lausa diskinum líkt og meðfylgjandi mynd sýnir …

2 Tjarnarkvartettinn 1995

TjarnarkvartettFjallað hefur verið sérstaklega um fyrsta disk kvartettsins hér á þessum vettvangi í tilefni af því að aldarfjórðungur er liðinn frá útgáfu hans. Hér er fjallað um diskinn og þátt Friðriks í útgáfunni sem skráð er FF 002 CD.

 

3 Barnakór Húsabakkaskóla í Svarfaðardal 2002

KorHusabakka„Þessi diskur, Góðir hálsar, var gefinn út skömmu áður en skólahaldi var hætt á Húsabakka. Skólinn er skráður útgefandi og skuldaði nokkra upphæð vegna disksins þegar skellt var í lás fyrir fullt og allt í skólanum. Skólastjórinn leitaði eftir aðstoð vegna þessa og ég tók að mér að gera upp skuldir en fékk í staðinn lagerinn til eignar og sölu.

Það verður að segjast að diskurinn seldist minna en hann átti skilið. Kórinn var flottur og mjög vandað til flutnings og útgáfu. Rósa Kristín Baldursdóttir, söngkona í Tjarnarkvartettinum, stjórnaði kórnum og Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanó. Sigurður Rúnar Jónsson – Diddi fiðla annaðist upptökur í Dalvíkurkirkju og sá um eftirvinnslu ásamt Rósu Kristínu. Allt framlínufólk á sínum sviðum.“

Gestur Guðmundsson 2002

GesturGudm„Gestur er tenórsöngvari, búsettur á Blönduósi en gegnheill Svarfdælingur, ættaður frá Gullbringu og Karlsá. Ættingja Gests langaði til að gefa út disk í tilefni sjötugsafmælis hans og leituðu eftir stuðningi í gömlu átthögunum. Ég tók útgáfuna að mér.

Enn og aftur keyptu sparisjóðsstjórar hringinn í kringum landið af mér diska. Það bjargaði miklu en sýnir jafnframt að þeir kunnu vel að meta tónlistina sem rak á fjörur þeirra úr Svarfaðardal, aftur og aftur!

Diskur Gests var aðallega seldur í Húnavatnssýslum, hér í Svarfaðardal og á Dalvík. Þegar núllinu var náð afhenti ég Gesti það sem eftir var af upplaginu og útgáfuréttinn með.“

 5 Jóhann Már Jóhannsson 2004

JohannMzar„Jóhann Már er skagfirskur sauðfjárbóndi á bænum Keflavík í Hegranesi í Skagafirði og söngmaður góður enda á hann kyn til þess. Hann er sonur Jóhanns Konráðssonar á Akureyri, eins fremsta söngvara á Íslandi um árabil, og þar með bróðir Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara.

Jóhann Már leitaði eftir aðstoð við útgáfu disksins. Ég hafði milligöngu um að hann gæti tekið upp sönginn í Dalvíkurkirkju í ágúst 2004 og útvegaði hópnum mat og gistingu. Með honum var einvalalið tónlistarmanna, til dæmis Helga Bryndís Magnúsdóttir á píanó, Magnús Kjartansson á harmóníku og hljómborð, Vilhjálmur Guðjónsson á gítar og mandólín og fleiri. Sömuleiðis aðstoðaði ég við að selja diskinn. Útgefandi var Skífan.“

6 Jóhann Daníelsson 2010

JohannDanEnn syngur vornóttin er titillinn á þessum diski stórsöngvarans og öðlingsins sem komst á hvers manns varir þegar hann stóð á steini við Skeiðsvatn og söng Við fjallavötnin fagurblá í ógleymanlegu atriði í kvikmyndinni Landi og sonum. Sá flutningur er fyrsta lagið á diskinum.

Við söfnuðum saman öllum upptökum sem finnanlegar voru, í safni Ríkisútvarpsins og annars staðar. Því miður kom í ljós að glatast hafði tiltekið efni sem við töldum víst að Ríkisútvarpið varðveitti en kom aldrei í leitirnar. Það er menningarskaði sem ekki verður bættur.

Þarna koma við sögu margir kórar, stjórnendur og einleikarar. Stúdíó Sýrland sá um hljóðvinnslu og samsetningu.

Tónlistarfélag Dalvíkur gaf diskinn út. Við Jóhann Antonsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, og Jóhann Daníelsson söngvari stofnuðum félagið í apríl 1995 og höfum frá upphafi skipað stjórn þess. Tónlistarfélag Dalvíkur er enn til og skráð til heimilis hjá mér í Laugagerði í Svarfaðardal.

Jóhann Daníelsson lést 23. nóvember 2015. Hann er samt áfram skráður stjórnarmaður Tónlistarfélags Dalvíkur og verður svo lengi sem sjálft félagið verður til!“

7 Helga Bryndís Magnúsdóttir 2017

HelgaBryndis„Helga Bryndís átti heima og starfaði hér um skeið í byggðarlaginu, afar fær og fágaður píanóleikari sem komið hefur um dagana að ótal verkefnum af ýmsu tagi. Á diskinum leikur hún verk eftir Robert Schumann, Carnaval op. 9 (grímudansleik) og fantasíu op. 17 í þremur þáttum.

Þetta var metnaðarfullt verkefni sem Jón Rafnsson bassaleikari sá um fyrir Tónlistarfélag Dalvíkur, útgefanda disksins.

Sveinn Kjartansson og Vigfús Ingvarsson tóku píanóleikinn upp í Salnum í Kópavogi og við fengum styrki úr Hljómdiskasjóði FÍT og Menningarsjóði KEA.

Ég er stoltur af öllum diskunum sem ég kom nálægt, ekki síst þessum. Við náðum að selja fyrir kostnaði, diskurinn fékk mikla umfjöllun fjölmiðla og góða dóma sem Helga Bryndís átti auðvitað margfaldlega skilið.“

68753672_10217264143147905_4233593901262307328_n

Bændur í Laugagerði, Marín Jónsdóttir og Friðrik Friðriksson, á ferð í Noregi sumarið 2019.

72685754_10217746289481262_4067414684502851584_n

Friðrik og dóttursonurinn Össur Áskelsson hoppandi kátir í Friðlandi Svarfdæla.

 

forsida

Laugagerði í Svarfaðardal í vetrarskrúða á aðventunni 2019. Ingvar Kristinsson tók myndina. Á innfelldu myndinni (og hér fyrir neðan) eru Friðrik og dóttursynirnir Áki og Össur Áskelssynir með heimafengið jólatré 2018.

25354069_10212932857868480_703894152941359959_n

barnamynd

Heimafengin jólatré 2018 II. Skógarhöggsmennirnir Magnea og Kári, afa- og ömmubörn í Laugagerði, með Kolbeini pabba. 

IMG_1344

Marín og Friðrik við Berg, menningarhúsið sem Sparisjóður Svarfdæla reisti og færði byggðarlaginu sínu að gjöf.

IMG_1337

Sparisjóðsstjórinn stoltur við menningarhúsið þegar það var tekið í notkun í ágúst 2009.

IMG_0556

Fyrsta skóflustungan að menningarhúsinu Bergi 2007. Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, við hljóðnemann. Hjá honum standa Fanney Hauksdóttir arkitekt, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Friðrik Friðriksson sparisjóðsstjóri.IMG_0572

IMG_0579

IMG_1423

Jóhann Daníelsson, öðlingur og stórsöngvari, og Ólafur Ragnar Grímsson forseti hittust og ræddu málin þegar Berg var tekið í notkun 2009.

IMG_6813

Aðalfundur Sparisjóðs Svarfdæla 2007. Friðrik kynnir niðurstöður ársreiknings. Hilmar Daníelsson og Jóhann Antonsson fjær.

IMG_6886

Menningarsjóður Sparisjóðs Svarfdæla veitti að vanda styrki til þjóðþrifa- og velferðarmála að loknum aðalfundi sínum 2007. Í það skiptið námu styrkirnir samtals 5 milljónum króna til yfir 20 verkefna. Þar við bættust gjafir Sparisjóðsins til Urðakirkju, 3 milljónir króna, og til hákarlasafnsins í Hrísey, 7 milljónir króna. Þeir fjármunir dugðu til að ljúka framkvæmdum við kirkjuna og safnahúsið. Síðast en ekki síst ákvað Sparisjóðurinn að reisa menningarhúsið Berg. Áætlaður byggingarkostnaður þá var um 200 milljónir króna. Nefna má að tveimur árum áður hafði Sparisjóðurinn kostað bygg­ingu sparkvall­ar á Dal­vík og ári áður keypt snjó­fram­leiðslu­búnað fyr­ir skíðasvæðið í Bögg­v­isstaðafjalli. Svanfríður Jónasdóttir, þáverandi bæjarstjóri, orðaði það svo á aðalfundinum 2007 að  Sparisjóður Svarfdæla hefði ekki aðeins skrifað sögu byggðarlagsins heldur landsins alls með þeirri fordæmalausu ákvörðun að færa íbúunum heilt menningarhús að gjöf.

81110418_2812748195435064_4275343410035949568_n

Nokkrar töffaramyndir af Dalvíkurhljómsveitinni Safír …

81601749_903201433468004_701260733714792448_n

81645697_853798958387192_666650688947748864_n

81819516_611752349586968_3454981953302822912_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s