Frumraun Tjarnarkvartettsins á hljómplötumarkaði 1994 gekk ágætlega. Diskurinn blái seldist vel og þegar kom fram á árið 1995 var nefndur sá möguleiki innan hópsins að fylgja góðu gengi eftir því að gefa út disk með jólalögum.
Hugmyndin var í deiglunni um hríð og viðruð einnig við ráðamenn tónlistardeildar Japis í Reykjavík. Kvartettinn og Japis gengu frá því munnlega um sumarið að fyrirtækið
myndi gefa jóladiskinn út og þá var ákveðið í Tjarnarsókn að láta til skarar skríða.
Vikur og mánuðir liðu áður en Japis staðfesti að staðið yrði hið munnlega samkomulag og greiða allan kostnað við útgáfuna, þar með talinn útgjöld vegna hljóðritunar og markaðssetningar. Þetta komst ekki á hreint fyrr en fáeinum dögum áður en upptaka söngsins skyldi hefjast í Dalvíkurkirkju. Ekki laust við að titrings væri farið að gæta vegna óvissu um hvort orð myndu standa.
Þegar kom fram í desember fór Japis eðli máls samkvæmt að auglýsa í dagblöðum hljómdiska sem fyrirtækið gaf út, þar á meðal Á jólanótt með Tjarnarkvartettinum: Kvartettinn er kominn saman aftur og syngur í þetta skiptið sígild jólalög í fallega raddsettum útsetningum. Jólaplata með sérstöðu.
Þegar nær dró hátíðum gerðist Japis veraldlegri í blaðaauglýsingum: Hátíðlegur og hugljúfur jóladiskur með Tjarnarkvartettinum með jólasteikinni, pakkaopnuninni og afslöppuninni um hátíðarnar.
Vandinn var bara sá að ekkert bólaði á diski kvartettsins fram eftir öllum desember. Fyrsta sendingin kom ekki til landsins fyrr en 19. desember og 20. desember var byrjað að dreifa diskum í verslanir. Seinagangurinn skaðaði að sjálfsögðu markaðssetninguna. Fjölmiðlaumfjöllun varð mun minni en ætla mátti og kvartettinn efndi til útgáfutónleika á Akureyri og Dalvík án þess að hafa svo mikið sem einn disk til að sýna, hvað þá selja!
Japis gaf á sama tíma út diskinn Drullumall með Botnleðju, nýrri hljómsveit sem stóð uppi sem sigurvegari á Músiktilraunum í Tónabæ 1995. Auglýsingatextinn hljóðaði svo: Tríóið Botnleðja spilar pönkskotið nýbylgjurokk með gamansömum undirtón. Taktu þér frí frá hreingerningunum þessi jól og fáðu þér Drullumall.
Botnleðja lenti í sama seinkunarklúðrinu hjá Japis og Tjarnarkvartettinn. Hreingerningum var löngu lokið á flestum heimilum landsins og jólin sjálf rétt handan við hornið þegar diskarnir tveir sáust loksins á söluborðum. Á jólanótt seldist samt þokkalega miðað við aðstæður en varð meira áberandi í aðdraganda jóla 1996.
- Tjarnarkvartettinn skipuðu Kristjana Arngrímsdóttir alt, Rósa Kristín Baldursdóttir, sópran og stjórnandi, og bræðurnir Hjörleifur Hjartarson tenór og Kristján Hjartarson bassi.
-
Ath.: Neðst í þessu skjali er tengill á ljósmyndir, úrklippur og tenglar á jóladiskinn á Spotify og Soundcloud.
Lögreglan takmarkaði umferð á Dalvík
Kvartettinn bjó til langan lista laga til að velja úr og æfa fyrir upptöku. Á honum voru þrír tugir laga flest sígild, íslensk og ensk jólalög en líka lög frá Danmörku, Frakkland, Spáni, Hollandi, Þýskalandi og Póllandi.
Tjarnarbræður gáfu hinum og þessum lögum vinnuheiti eða gælunöfn við hæfi í undirbúningsferlinu. Skreytum hús með grænum greinum heitir til að mynda Deck the Hall á ensku en manna á milli í kvartettinum var lagið hins vegar þekkt sem Dekkjahöllin!
Valin voru á endanum 20 lög, þau æfð rækilega og tekin upp. Átján lög voru gefin út á diskinum en tvö lög komust ekki í gegnum síu Gerrit Schuil, hollensks hljómsveitarstjóra, og Hreins Valdimarssonar, hljóðmeistara og upptökustjóra. Þeir hlustuðu á allar upptökurnar frá Dalvík í hljóðstofu Ríkisútvarpsins og völdu þær bestu til útgáfu.
Gerrit og Hreinn höfðu báðir unnið að „bláa diskinum“ með Tjarnarkvartettinum ári áður og hittust reyndar þá í fyrsta sinn. Gerrit var titlaður þjálfari á bláa diskinum en listrænn ráðunautur á jóladiskinum. Þeir Hreinn áttu eftir að vinna mikið saman eftir þetta, meðal annars í upptökuverkefnum fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og fjölda einsöngvara.
Sum lögin á lista Tjarnarkvartettsins höfðu komið út á jóladiski Mótettukórs Hallgrímskirkju og Kristins Sigmundssonar, Ég held glaður jól, 1985. Rósa Kristín söng með kórnum og átti nótur fyrir fjölda jólalaga frá þeim tíma. Það einfaldaði undirbúning kvartettsins umtalsvert.
Ákveðið var að taka upp í Dalvíkurkirkju 5. 6. og 7. október. Þegar á reyndi teygðist verkefnið til sunnudagskvölds 8. október. Unnið var til kl. 4 aðfaranótt sunnudagsins en tæki og tól þá tekin saman til að gera kirkjuna sunnudagsmessufæra.
Eftir hádegi var hafist handa að nýju og þá kom lokahnykkurinn.
Kirkjan á Dalvík er viðkvæmt hljóðver gagnvart hvers kyns umhverfishljóðum utan dyra, ekki síst þegar tekinn er upp söngur án undirleiks (a cappella). Kristján Ólafsson meðhjálpari óskaði eftir liðsinni lögreglu til að takmarka bílaumferð nálægt kirkjunni á meðan upptökur stæðu yfir. Felix Jósafatsson, varðstjóri og söngmaður góður, brást vel og ljúfmannlega við erindinu og lét loka Böggvisbraut beggja vegna kirkjunnar, annars vegar við Staðarhól og hins vegar við gatnamót Böggvisbrautar og Hólavegar. Sú ráðstöfun var til góðs og vegfarendur virtu umferðarbann við kirkjuna.
- Ein einasta ljósmynd er til úr Dalvíkurkirkju þegar jóladiskurinn var tekinn upp. Margar myndir voru samt teknar en þegar filman kom úr framköllum var þar aðeins eina mynd að finna. Þetta var sem sagt fyrir daga stafrænna mynda.
Upptökuævintýri á Dalvík
Hreinn Valdimarsson, hljóðmeistari á Ríkisútvarpinu, tók upp sönginn á jóladiskinum á Dalvík. Hann hljóðritaði líka upp sönginn fyrir bláa diskinn og þá lágu leiðir hans og kvartettsins fyrst saman. Hreinn vissi af þessu söngfólki að norðan en hafði ekki heyrt í því fyrr en upptökur hófust í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík 1994. Hreinn vann að verkefninu á vegum Ríkisútvarpsins þar sem hann hafði starfað frá 1974 og starfar enn. Hann er þrautreyndur og sjóaður í upptökum á leikritum og tónlist, lærði á sínum tíma að spila á gítar og flautu í tónlistarskólum, nam tónfræði og hefur ljómandi gott tóneyra.
Hreinn rifjaði fúslega upp vinnutörnina á Dalvík í hljóðstofu 7 þar sem hann heldur til í RÚV-höllinni í Efstaleiti.
„Ég skynjaði strax í upphafi að í Tjarnarkvartettinum voru klárir krakkar, lagvissir tónlistarmenn með raddir sem pössuðu vel saman sem slíkar. Blái diskurinn var frumraun þeirra í upptökum, þá voru þau auðmjúk og slepptu sér ekki lausum, vönduðu sig og voru ljúf í umgengni. Mér leist strax vel á og með okkur tókst vinátta sem styrktist eftir sem leið á samstarfið.
Í upptökunum í Dalvíkurkirkju voru liðsmenn kvartettsins orðnir mun öruggari með sig og slakari, enda á heimavelli. Alltaf var yndisleg ró yfir þeim og við náðum vel saman.
Það tók okkur Gerrit hálfan dag í upphafi í Fella- og Hólakirkju að ná takti í samstarfinu. Við hittumst á ný með Tjarnarkvartettinum nyrðra. Eftir það urðum við samstarfsmenn í mörgum verkefnum árum saman og góðir vinir.
Fella- og Hólakirkju þekkti ég vel og hafði margoft tekið þar upp tónlist. Allt sem á annað borð getur truflað upptökur á einum stað gerist þar. Stanslaus bílaumferð á góðviðrisdögum, rigningarhljóð á þakinu, flugleiðin milli Reykjavíkurflugvallar og Sandskeiðs liggur beint yfir kirkjuna og það skapar oft vandamál. Meira að segja framkalla hitabreytingar smelli í tréverki innan dyra í kirkjunni og slíkt getur auðvitað skaðað upptökur!
Dalvíkurkirkju þekkti ég ekki. Þar er mikið tréverk og ómurinn í henni er minni og öðru vísi en í stærri húsum. Þetta skiptir allt máli við skipulagningu á upptökum.
Verkefnið á Dalvík var mikið ævintýri, barátta við tímaskort, veður og umhverfishljóð, kvef í einhverjum söngvaranna og eðlilega þreytu í hópnum undir lokin. Við tókum sum lögin upp ótal sinnum en aldrei kvartaði kvartettinn!
Í sumum laganna eru mörg erindi og tilhneigingin er að söngur falli um tón eða brot úr tóni. Kúnstin er að ná helst upptöku hvers lags í einu rennsli. Enginn undirleikur er til að styðja við sönginn og við urðum til dæmis að passa að hafa nógu langt bil milli erinda til að ómurinn í kirkjunum næði að deyja út áður en kæmi að næsta erindi. Meiningin var sú að þétta bilin við eftirvinnslu en í nokkrum jólalaganna halda þau sér. Gerrit fannst það koma best út þannig og víst er að þagnirnar auka bara á hátíðleikann í söngnum.
Kvartettinn kom vel æfður og þjálfaður til leiks. Rósa Kristín var öflugur stjórnandi og fagmaður, afar lagviss með ótrúlega næmt tóneyra. Hún hefur ábyggilega pönkast verulega á söngfélögum sínum og reynt á þolrif þeirra. Í upptökunum varð það hins vegar mitt hlutskipti að vera ítrekað leiðinlegur við Rósu og hún var stundum pirruð út í mig. Það skildi ég vel en varð bara að vera með þessi leiðindi! Hún er með háa og sterka rödd og ég varð að láta hana standa fjær hljóðnemum til að ná jafnvægi í söng hópsins alls.
Stundum gekk vel að ná lögunum þannig að við Gerrit værum lukkulegir en í nokkrum tilvikum fannst okkur stemningin í söngnum ekki vera nægilega góð.
Á síðasta sólarhringnum gerðist einhver galdur í kirkjunni. Margt small þá saman sem ekki hafði smollið áður. Við tókum upp á ný nokkur lög sem höfðu ekki heppnast fullkomlega áður með þessum líka fína árangri.
Svona gerist stundum þegar mest á ríður og sýnir að söngfólkið hafði andlegan styrk til að klára verkefnið með stæl undir álagi.“
Við fótskör „Dalai Lama“
Hreinn og Gerrit hlustuðu á allar upptökurnar frá Dalvík syðra og völdu úr það sem fór á diskinn. Hugmyndir höfðu verið uppi í kvartettinum um að nefna diskinn 20 jólalög, 20 jólasöngva eða 20 sígilda jólasöngva en það gekk auðvitað ekki þegar fyrir lá að einungis yrðu gefin út 18 lög!
Farsæl lending var að gera Á jólanótt eftir Jón Ásgeirsson og Gunnar Dal að titillagi disksins, ekki síst eftir að gerð var enn ein atrenna að upptöku þess í lokatörninni. Þá gekk allt upp. Fram að því hafði verið gert ráð fyrir að Hátíð fer að höndum ein yrði fyrsta lagið á diskinum en Á jólanótt nr. 6.
Hreinn Valdimarsson hefur ekki alveg lokið máli sínu:
„Upptakan á jóladiskinum byrjaði brösuglega en endaði vel. Ég kom í flugi til Akureyrar að morgni dags og beið lengi á flugvellinum eftir fari til Dalvíkur. Í ljós kom að Gerrit hafði átt að ná í mig en slasaðist, blessaður karlinn, og gat ekki látið vita af sér. Hann mætti gipsaður á fæti með hækjur í kirkjuna og var ekki sáttur við hlutskipti sitt til að byrja með en sinnti sínu hlutverki fullkomlega.
Eftirminnilegt er að löggan á Dalvík skyldi loka götum næst kirkjunni okkur til stuðnings. Slíkt hef ég aldrei upplifað annars staðar, hvorki fyrr né síðar. Það var hreinlega eins og allur bærinn tæki þátt í verkefninu. Við höfðum meira að segja sterklega á tilfinningu að töffarar í kraftmiklum bílum létu eiga sig að flauta, reykspóla og skransa á rúntinum þessa helgi til þess að við gætum örugglega klárað verkið.
Ég get ekki skilið við jóladiskinn án þess að minnast á kvöldmat sem ég var boðinn í til Sigríðar Hafstað og Hjartar E. Þórarinssonar á Tjörn. Mögnuð og ógleymanleg hjón og reyndar hafði það alveg sérstök áhrif á mig að hitta Hjört.
Fyrir var ég málkunnugur Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands og bróður Hjartar, og hafði nokkrum sinnum tekið upp lestur hans og ávörp fyrir Ríkisútvarpið. Kristján hafði sterka nærveru og það hafði Hjörtur sannarlega líka.
Tjarnarbóndinn hafði sjaldgæfa útgeislun og persónutöfra. Ég kaus að sitja mest þögull og hlusta. Hann virkaði á mig sem maður utan og ofan við samferðamenn sína í hugsun, með mun víðari sjóndeildarhring en gengur og gerist.
Mér leið líkt og ég sæti við fótskör sjálfs Dalai Lama í stofunni á Tjörn!“
Áleitin spurning: Hvað kemur upp í hugann þegar jóladiskurinn Á jólanótt er nefndur?
Rósa Kristín
Ótrúlega notaleg stemning í kirkjunni. Við höfðum kertaljós og reyndum að gera jólalegt í kringum okkur til að skapa rétta stemningu. Úti var myrkur og læti í veðrinu á köflum. Við lögðum mikið á okkur þarna eins og reyndar oft áður og síðar.
Svo get ég upplýst að Á jólanótt er eini hljómdiskurinn sem ég syng á og get sett í spilarann og hlustað á, sátt og áreynslulaust. Á honum er ósvikin jólastemning. Um dagana hef ég hitt fjölda fólks sem segir að ekkert jólahald standi undir nafn á heimilum sínum nema hlustað sé á jóladiskinn frá upphafi til enda. Það eru meðmæli sem mér þykir afar vænt um.
Hjörleifur
Ég ætla að nefna göngurnar í Sveinstaðaafrétt. Kvartettinn æfði jólalögin stíft seint í ágúst og fyrri hluta september fyrir upptökurnar. Um miðjan september var gert hlé á æfingum og undirbúningi fyrir diskinn. Þá fórum við Kristján í göngur og réttir eins og vera bar.
Ég var stöðugt með jólalög í kollinum á hlaupum eftir sauðfénu. Alveg er öruggt mál að engir aðrir gangnamenn í Svarfaðardal voru komnir í jólaskap á þessum árstíma en yngstu bræðurnir frá Tjörn. Meira að segja vorum við ábyggilega einu gangnamennirnir á Íslandi sem rauluðum Hátíð fer að höndum ein til fjalla haustið 1995.
Vissulega var súrrealískt að söngla jólasálma í Afréttinni í september en það var væntanlegum jóladiski kvartettsins að þakka eða kenna.
Kristjana
Við tókum upp í Dalvíkurkirkju sem mér þykir mjög vænt um. Hún er bæði falleg og notaleg og hefur fallegan hljómburð.
Ég man daginn þegar upptökurnar hófust þá sá ég að götum á Dalvík var lokað með vegatálmum og spurði Kristján í bílnum: „Hvað hefur gerst hér?“ Þá svaraði hann: „Tjarnarkvartettinn er að fara í upptökur“! og kímdi.
Eins og fram hefur komið æfðum við jólalögin að sumri og fram á haust sem gerði það að verkum að maður var raulandi þau í tíma og ótíma í miðjum heyskap. Svo þegar að upptökum kom reyndum við að skapa jólastemningu í kirkjunni þarna á haustmánuðum. Lagavalið var krefjandi og sum lögin tóku meira á en önnur. Maður var orðin ansi þreyttur eftir sumar upptökurnar og röddin eftir því. En allt var þetta þess virði og mér þykir vænt um þennan jóladisk sem er í senn sérstakur og mjög hátíðlegur. Oft hef ég fengið að heyra að þetta sé sá jóladiskur sem komi fólki til að finna sannan og réttan jólaanda.
Það gleður mig alltaf að heyra lög af diskinum okkar leikin í RÚV okkar Íslendinga um hátíðar ár hvert, sérstaklega þegar jólakveðjur eru fluttar á Þorláksmessu.
Kristján
Auðvitað var undarlegt og öfugsnúið að syngja og læra hátíðleg jólalög í miðjum heyskap. Syngja bassann í „Oss barn er fætt í Betlehem“ hástöfum í dráttarvélinni á meðan ég var að slá Draumaspilduna. En svona var það nú samt sumarið ’95.
Talsvert átak þurfti til að þvinga sig í jólagírinn þegar upptökurnar fóru svo fram þarna í byrjun október. Okkur gekk misvel að syngja inn þessi jólalög. Mér er minnisstæðast hvað okkur reyndist erfitt að syngja „María syngur við Jesúbarnið“, pólskt jólalag. Við kunnum lagið ágætlega og vorum vön að syngja það með talsvert hressu tempói en Gerrit, okkar listræni ráðgjafi, var ekki sáttur við hraðann og hætti ekki fyrr en hann var búinn að pressa okkur niður í fyrsta gír í lágdrifi. Þannig er það á diskinum.
Annáll jóladisksins
Hjörleifur Hjartarson skráði í Gerðabók Tjarnarkvartettsins
12. september 1995
Fullt, fullt hefur skeð sem meðal annars er skráð í reisubók Tjarnarkvartettsins í Finnlandsför. Núna og í gærkveldi æfðum við og lærðum jólalög fyrir væntanlegan jóladisk sem er í bígerð en það er raunar svo margt í bígerð, til dæmis tónleikaferð um Suðurland í nóvember, tónleikar á Hvammstanga og afmæli Kjarnafæðis sömuleiðis í nóvember. Svona gengur þetta fyrir sig.
Í gær og í dag lærðum við
-
- Hver blundar svo blítt í húmi nætur?
- Hátíð fer að höndum ein
- Hin fyrstu jól
- Nú kemur heimsins hjálparráð
- Ó Jesúbarn blítt.
Talaði lengi við Hrein Valdimarsson og hann bað að heilsa öllum.
14. september
Við æfum og æfum jólalögin í haustblíðunni. Í gær varð Helgi á Þverá 100 ára og þá var veisla. Svo eru göngur um helgina og þá verður fjör.
20. september
Alltaf er verið að æfa og í kvöld æfðum við þrjú lög í fjarveru Kristjáns (veika bassans) og lærðum
-
- Opin standa himins hlið
- Frá ljósanna hásal
- God Rest You Merry Gentlemen
- Syng barnahjörð
Upptökudagar eru ákveðnir 5., 6. og 7. október. Hreinn [Valdimarsson hljóðmeistari RUV] er tilbúinn í slaginn.
Það er líka komið á hreint að við förum í tónleikaferð um skóla á Suðurlandi í nóvember. Síðastliðinn mánudag vorum við í Útvarpinu til að segja frá Finnlandi og því sem framundan er og nú er alls kyns fólk að hringja. Kjarnafæði vill okkur 11. október, tónlistarfélagið í Hveragerði í nóvember, einhverjir á Húsavík í nóvember og tónlistarfélagið á Hvammstanga í desember.
En það er jóladiskurinn sem allt snýst um núna.
22. september
Tillögur að nafni: 20 jólalög, 20 jólasöngvar, 20 sígild jólalög (söngvar).
27. september
Við æfum og æfum og æfum, syfjuð, kvefuð og hás. Þvælumst í gegnum hvern jólasálminn á fætur öðrum kvöld eftir kvöld.
Í dag náðist loksins samband við Ásmund í Japis eftir nokkuð óvissuástand að undanförnu. Það er sem sagt komið inn á planið hjá þeim að gefa út disk með Tjarnarkvartettinum en ekki er um að ræða einhvern samning þar sem við borgum upptökuna heldur alvöru plötusamning.
Og nú er tæp vika til stefnu. Hæ hoppsassí …
4. október
Nú er ekki aftur snúið með það að á morgun hefjast upptökur. Hreinn kemur í bítið og upp úr hádegi verður byrjað að taka upp. Hæ hæ og hó hó.
Gerrit kom í fyrrakvöld og hlustaði á eina hræðilega æfingu þar sem allir voru raddlausir og vitlausir. Í gær æfðum við tvisvar í Húsabakkaskóla þar sem tenórinn [Hjörleifur skrifari gerðarbókar kvartettsins] sat vakt.
Veðrið er hráslagalegt og rignir köttum og hundum til skiptis.
Við æfðum í kvöld í Tónlistarskólanum og í Dalvíkurkirkju eftir að hún losnaði undan kirkjukórnum sem æfði Exullate Deo.
Gerrit datt í skvompu úti í Reiðholti (sumarbústaður í landi Tjarnar) og sneri upp á löpp. Hann gengur núna haltrandi.
Æfðum fram á nótt og það rignir enn.
5. október
Ja þvílíkur dagur! Tenórinn ungi vaknaði snemma og hringdi í Flugfélagið. Hafði reyndar sofið laust um nóttina því stormur gnauðaði og rigningin buldi. Tenór hafði af því áhyggjur að Hreinn tæknimaður kæmist ekki. Viti menn, þeir hjá Flugfélaginu sögðu að allt væri í góðu lagi og tenórinn lagðist glaður til svefns, sannfærður um að Gerrit færi eftir Hreini.
Enn rigndi hundum og köttum og þar að auki var stormur en hið versta var samt enn ekki dunið yfir. Síminn hringdi í Laugahlíð og þar var kominn Hreinn Valdimarsson, sá kurteisi og hógværi maður, búinn að bíða í klukkutíma á flugvellinum með alla yfirvigtina sína. Þá var farið að grennslast fyrir um Gerrit og hið sanna kom brátt í ljós. Hollendingurinn fljúgandi sat með kalt kaffi í bolla og sígarettu í niðurdregnu munnviki og reyndi af veikum mætti með vasaljósi að morsa SOS-merki til bíla sem fóru um þjóðveginn í rokinu og kalla eftir aðstoð. Hann var ósjálfbjarga og kom í ljós að liðbönd voru slitin. Gerrit fékk því tvær hækjur til umráða.
Hreinn fékk aftur á móti Lödubíl Þórarins bróður til ráðstöfunar, fyllti hann með græjum margvíslegum og ók sem leið lá út í Svarfaðardal.
Við hófumst handa eftir hádegið með að taka upp prufur í rokinu og rigningunni, fórum með þær til Akureyrar til að hlusta á árangurinn og síðan til baka í mat á Tjörn.
Um níuleytið um kvöldið byrjuðum við aftur og hafði storminn þá lægt nokkuð.
Um eittleytið komum við heim, Rósa með kvef og hita. Afrakstur kvöldsins var ef til vill eitt lag. Á morgun gengur betur!
6. október
Eftir hádegi hófust upptökur og gengu hægt framan af. Þegar upp var staðið voru komin 8 lög á band sem er nokkuð gott.
7. október
Ekki er tekið út með sældinni að vera alþjóðlegur listamaður. Í dag tókum við upp frá hádegi til kl. 4 þegar Rósa þurfti að bruna til Akureyrar og syngja í brúðkaupi. Við byrjuðum daginn vel með Hátíð fer að höndum ein en svo kárnaði gamanið þegar kom að Nóttin var sú ágæt ein. Hún var ekki kláruð.
Við héldum áfram í kvöld og þá gerðust kraftaverk.
8. október
Áfram var haldið aðfaranótt sunnudagsins 8. október. Rigning hélt að vísu áfram að trufla okkur annað slagið en við efldust við hverja raun og tókum upp hvert lagið öðru betra. Meira að segja Nóttina þá ágætu sem allt í einu þrumaðist inn á bandið.
Um fjögurleytið hættum við og þurftum að fjarlægja græjur svo hægt væri að messa í kirkjunni að morgni sunnudags.
Eftir hádegi tókum við á ný til óspilltra málanna og tókum upp í gríð og erg. Jón Ásgeirsson lá inni [Á jólanótt – titillag disksins] þrátt fyrir að við hefðum kviðið því meira en nokkru öðru. Áður en upp var staðið höfðu hin ólíklegustu lög verið tekið upp, meira að segja pólska lagið María syngur við Jesúbarnið. Við höfðum áður afgreitt lagið sem ónothæft. Við æfðum það á staðnum, Gerrit stjórnaði og teygði laglínuna eins og hann framast gat svo mér er til efs að nokkru sinni hafi lag verið sungið svo hægt.
Við kláruðum klukkan að ganga átta um kvöldið. Gerrit og Hreinn áttu flug klukkan tíu og því var dótinu pakkað saman í hvelli og pizzur borðaðar.
Kristján hraðaði sér í fjós á Tjörn en ég brunaði með vinina tvo inn á flugvöll.
Allir voru svo glaðir, svo glaðir og svo þreyttir, svo þreyttir. Endir.
11. desember
Ó ó ó. Langt er um liðið og ekkert skrifað en miklu lofað!
18. desember
Tvennir tónleikar alveg ágætir að baki, fyrst í Deiglunni. Þar er mér nær að halda að hafi verið um 70 manns en eitthvað færri borguðu sig inn.
Svo var það Dalvíkurkirkja næstum full kl. 10 á laugardagskvöldi og við sungum eins og mýs.
Á hvorugum tónleikunum var jóladiskurinn til sölu.
Í dag, viku fyrir jól, eru diskarnir loksins komnir til landsins og fara í búðir á morgun. Er það vonum seinna.