Fósturtré Sporsins fært í jólaskrúða við upphaf aðventu

Staðlað

Liðsmenn Sporsins risu árla úr rekkju að morgni fyrsta sunnudags jólaföstu og söfnuðust saman við gælutré hópsins í Heiðmörk til að færa það í jólaskrúðann.

Það hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2004 til að koma Mörkinni og gestum hennar í jólaskap með því að skreyta Dalvíkurtréð í skóginum á viðeigandi hátt.

Í Sporinu, sem fullu nafni heitir Gönguhópurinn Sporið – líknarfélag og saumaklúbbur, eru aðallega brottfluttir Dalvíkingar og viðhengi þeirra úr ýmsum öðrum menningarkimum landsins. Tiltekið tré við vikulega gönguleið hópsins á laugardagsmorgnum var tekið í fóstur fyrir mörgum árum og dafnar vel, reyndar svo vel að á næsta ári þarf að kaupa nýja tröppu til að ná upp á toppinn.

Dalvíkurtréð samsvarar sér vel en í sama lundi er tré sem tileinkað er Hrísey, eyju á Eyjafirði sem er þar sem hún er, við þröskuld Dalvíkurbyggðar. Íbúarnir kusu samt að vera frekar hluti af Akureyri og þeir um það.

Sporverjar eru fólk fyrirgefningar að svarfdælskum sið og hlúa stöðugt að Hríseyjartrénu. Þetta tiltekna tré samsvarar sér afar illa. Það vex til himins en hirðir ekki um að koma sér upp myndarlegu greinasafni líka og gildna við hæfi. Þetta er ekki lífsmáti til fyrirmyndar í frumskógi.

Svo eigum við líka Grímseyjarhríslu í lundinum en henni hefur hrakað mjög. Eiginlega blasir við að hún visni og lognist út af. Jólaskraut bjargar litlu úr því sem komið er. Sveitarstjórnarsamband við Akureyri ekki heldur.

Jólin eru sem sagt komin í Dalvíkurlundi Heiðmerkur og verða þar um kyrrt fram á Þrettándann. Þá mæta Sporverjar á ný með tröppu og föndurkassa sem Jón Magg, gæslumaður jólabúnaðar, hefur kúlusafnið í milli hátíða.

Að sjálfsögðu var sett upp borð í lundinum í morgun og á það borið heitt súkkulaði og smákökur. Sumar tegundir bakaðar í gær í tilefni skreytingardagsins.

Laufabrauð sást ekki að þessu sinni. Sporverjar sinna ekki laufabrauðssteikingum áður en jólafastan brestur á.

 

perifa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s