Aldarfjórðungur frá því Tjarnarkvartettinn sendi frá sér „bláa diskinn“

Staðlað

Tíminn ólmast áfram eins og stórfljót í vorleysingum. Kemur ekki á daginn að nú eru liðin nákvæmlega 25 ár frá því Tjarnarkvartettinn sendi frá sér samnefndan tóndisk með 22 lögum. Skrifuð hefur verið afmælisgrein af minna tilefni.

Reyndar blasir við að rifja í framhaldinu upp fleira úr sögu þessa merkilega tónlistarhóps sem starfaði á árunum 1992-2000. Kvartettinn var og er stolt Svarfdælinga og kom dalnum sínum rækilega á kortið hérlendis og erlendis.

Scan 1

Hér skal staldrað við diskinn Tjarnarkvartettinn sem út kom í október 1994, gerði strax stormandi lukku, seldist upp og er ófáanlegur (nema á kassettum!).

Kvartettinn skipuðu Hjörleifur Hjartarson tenór, Kristjana Arngrímsdóttir alt, Kristján Hjartarson bassi og Rósa Kristín Baldursdóttir, sópran og stjórnandi hópsins. Bræðurnir Hjörleifur og Kristján eru frá Tjörn í Svarfaðardal.

Kvartettinn var í ákveðnum skilningi svar Svarfdælinga við ABBA-(hjóna)flokknum sænska. Kristjana og Kristján voru og eru hjón, Rósa og Hjörleifur voru líka hjón en leiðir þeirra skildu.

Þessi umfjöllun er bara byrjunin. Á vettvangi Svarfdælasýsls verður í vetur fjallað frekar um starfsemi Tjarnarkvartettsins frá upphafi til enda og aðra diska hans, Á jólanótt (1995), Í fíflúlpum (1998) og Systur í syndinni (1999).

Þetta grúsk er með vitund og ljúfum samstarfsvilja allra liðsmanna kvartettsins og Hjörleifur lagði til verkefnisins Gerðabækur Tjarnarkvartettsins í tveimur bindum og úrklippumöppur. Hjörleifur var ritari hópsins og skráði ýmislegt um æfingar, tónleika og margt fleira sem á dagana dreif.

  • Síðar í þessari samantekt er vitnað í Gerðabók Tjarnarkvartettsins og þar á eftir er birt albúm með myndum og úrklippum

 

Scan

Gerrit þjálfaði, Hreinn hljóðritaði

Vörumerki Tjarnarkvartettsins var söngur án undirleiks, oftast íslensk lög. Útsetningar laganna voru úr ýmsum áttum en þegar fram liðu stundir leitaði kvartettinn stundum til útsetjara í tiltekin verkefni. Fyrir kom líka að tónskáld hefðu samband og létu kvartettinum í té lög eftir sig. Þá kom fyrir að kvartettinn bæði tónskáld um að semja fyrir sig.

Á fjórða og síðasta diskinum eru einvörðungu lög sem Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson samdi sérstaklega fyrir  Systur í syndinni, leikrit eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Leikfélag Akureyrar setti verkið á svið og liðsmenn Tjarnarkvartettsins tóku þátt í sýningunni syngjandi í hlutverkum sínum.

downloadLög á fyrsta diskinum voru tekin upp í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík síðla ágústmánaðar 1994. Hollenski hljómsveitarstjórinn og tónlistarmaðurinn Gerrit Schuil (mynd) stjórnaði upptökum og er titlaður þjálfari á umslagi disksins. Hann var þá nýlega fluttur til Íslands með þáverandi eiginmanni sínum, Jóni Þorsteinssyni óperusöngvara. Þeir bjuggu á Svalbarðsströnd. Gerrit bjó á Íslandi áfram eftir að leiðir þeirra Jóns skildu, var í fremstu röð í tónlistarlífinu og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2010. Hann lést 18. september 2019.

Hreinn Valdimarsson annaðist upptöku söngsins, þrautreyndur og sjóaður hljóðmeistari á Ríkisútvarpinu.

Sparisjóðsstjóri brá sér í útgáfubransann

Liðsmenn Tjarnarkvartettsins höfðu af og til minnst á það sín á milli að gaman væri að gefa út disk með söng sínum. Slíkt var á þeim tíma mikið fyrirtæki og dýrt eftir því, miklu meira mál en síðar varð. Kvartettinn hætti sér því ekki út í útgáfuævintýri einn og óstuddur með tilheyrandi áhættu. Þá kom til skjalanna Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík. Hann hafði skömmu áður gefið út á diski söng Karlakórs Dalvíkur á ófáanlegri vinylplötu og hafði því öðlast nokkra reynslu í útgáfubransanum.

Friðrik stakk upp á því við Tjarnarkvartettinn að tekin yrðu upp lög og að hann (Friðrik) myndi síðan gefa út disk á eigin vegum.

Málið komst á hreyfingu í febrúar 1994, samkvæmt færslu Hjörleifs í gerðabókinni góðu.

Friðrik rifjar upp söguna um „bláa diskinn“ heima í stofu í Laugagerði í Svarfaðardal.

friðrikri

Ég hafði auðvitað margoft heyrt Tjarnarkvartettinn syngja og dáðist að honum. Liðsmenn hans sungu líka á samkomum á vegum Sparisjóðs Svarfdæla og í tal barst einu sinni að gefa út disk. Kvartettinn óttaðist auðheyrilega að kljúfa ekki slíkt dæmi fjárhagslega og ég sagði þá: „Ég skal sjá um að gefa diskinn út prívat og persónulega. Í staðinn treysti ég því að þið syngið eins og englar í upptökunum!“

Útgáfa disksins með karlakórnum kostaði sitt en þetta verkefni var margfalt stærra og umfangsmeira, eðlilega. Það þurfti auðvitað að borga fyrir upptökur og tilheyrandi. Diskinn sjálfan varð að framleiða í Hollandi og kaupa líka plasthulstrin erlendis frá. Fleira týndist til og kynningin kostaði sitt.

Upplagið var 1.500 diskar og ég ákvað að senda öllum sparisjóðsstjórum landsins erindi og bjóða þeim að kaupa 25 diska hverjum til að dreifa til vildarvina í viðskiptum hjá sér. Það gekk eftir enda hafði ég leikið svipaðan leik við útgáfu disksins með Karlakór Dalvíkur og í ljós kom að sparisjóðsstjórarnir kunnu vel að meta svarfdælskan söng.

Með þessu móti losnaði ég við hátt í 600 diska Tjarnarkvartettsins á einu bretti og fékk þannig vel upp í kostnað. Sem betur fer voru sparisjóðir landsins margfalt fleiri þá en nú og tekjurnar eftir því!

Diskurinn kom út í október 1994 og var kynntur með bravúr í Deiglunni í Gilinu á Akureyri og í kjölfarið í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir sunnan. Fjöldi fólks þáði boð um að mæta í útgáfupartíin á báðum stöðum. Gerrit þjálfari var að sjálfsögðu á vettvangi og útgefandinn skipulagði teitin. Diskar seldust drjúgt og allir glaðir.

Friðrik hafði samband við Hermann Gunnarsson og kvartettinn birtist á skjánum í vinsælasta sjónvarpsþætti landsmanna á þessum tíma, Á tali hjá Hemma Gunn. Aðalviðmælandinn í þættinum var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Um þetta leyti urðu pólitísk vinslit með þeim Jóhönnu og Jóni Baldvin Hannibalssyni. Einmitt á árinu 1994 bauð hún sig fram gegn Jóni Baldvin í formannskosningum í Alþýðuflokknum, tapaði, skildi við flokkinn og stofnaði Þjóðvaka.

Tjarnarkvartettinn var kynntur til leiks í sjónvarpsþættinum strax eftir að viðtali Hemma við Jóhönnu lauk.

Friðriki útgefanda er minnisstætt hverjir sátu í sjónvarpssal sem gestir þáttarins.

Gerrit hinn hollenski taldi að við værum á leið í upptöku fyrir einhvers konar tónlistarþátt en rak upp stór augu þegar við gengum inn í sjónvarpsalinn. Þar var fyrir fólk í leðurgöllum skreytt keðjum, merkjum og táknum. Þetta reyndust vera liðsmenn Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna. Þeir voru heiðursgestir og hlýddu áhugasamir á Tjarnarkvartettinn og Jóhönnu. Hemmi kom meira að segja brunandi inn í myndverið í upphafi þáttar sem farþegi á mótorhjóli eins leðursnigilsins.

Suðurferðin tókst annars afskaplega vel. Kvartettinn fékk feiknarlega kynningu í fjölmiðlum og varð þjóðareign á stundinni.

Við bjuggum á Sögu og borðuðum eitt kvöldið á Grillinu. Eftir þáttinn með Hemma Gunn gerðu starfsmenn hótelsins sér fyrst glögga grein fyrir því að þarna voru ekki á ferð neinir venjulegir sveitamenn að norðan!

Stórt er spurt, ágætu liðsmenn kvartettsins:

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar „blái diskurinn“ er nefndur til sögunnar?

 

Hjörleifur

Hj0erleifurMér er minnisstæðust upptakan í Fella- og Hólakirkju þegar við sungum inn Sofðu unga ástin mín. Það stóð alls ekki til að hafa það lag á diskinum en seint um kveld byrjaði að rigna og við þurftum að bíða af okkur regnið. Til að drepa tímann sungum við lagið og Hreinn var með upptökuna í gangi.

Þetta er náttúrulega lag og kórútsetning eftir Jón Ásgeirsson sem allir kunna sem eitthvað hafa sungið í kórum. Það voru allir orðnir mjög þreyttir þegar þarna var komið sögu en viti menn – þetta var svo ágæt upptaka að Hreinn taldi okkur á að hafa hana með. Ef maður hækkar í græjunum og hlustar vel má heyra regndropana bylja á þaki kirkjunnar.

Kristjana

kristjanaÞað kom nokkuð oft fyrir þegar við vorum í miðri upptöku að rödd heyrðist að utan og sagði: „Flugvél, bíðum aðeins“.  Röddina átti upptökustjórinn okkar, Hreinn Valdimarsson,  sem sat úti í upptökubílnum og reyndi að fanga söng okkar án umhverfishljóða en þarna í kring var æfingarsvæði einhvers flugskóla.

Í einni slíkri töku þar sem við biðum af okkur rigningu, þetta var að mig minnir undir lokin og við orðinn örþreytt. Meðan við biðum eftir uppstyttu fórum að raula „Sofðu unga ástin mín. Regnið buldi á þakinu og stemningin notaleg og falleg. Þetta lag átti ekki að vera með á diskinum en rann inn í einni töku af því Hreinn var með upptökuna á.

Mér leið vel í upptökunum og fannst þetta allt spennandi en um leið mjög krefjandi. Að syngja raddaðan söng  án undirleiks krefst mikillar ögunar. Ég þakka góða samstillingu kvartettsins stjórnandanum, Rósu Kristín,  sem með sínu fullkomna tóneyra þjálfaði raddirnar og slípaði.

Það var mikil sæla þegar heim var komið og öll börnin sem biðu spennt eftir foreldrum sínum, loksins var þetta búið. En þetta var bara byrjunin.

Kristján

kristjanMér er það kannski mest minnisstætt hvað mér fannst þetta mikið alvörumál að vera í upptökum og syngja eitthvað inn sem væri eftir það óbreytanlegt.

Við komum mjög vel undirbúinn í upptökurnar, kunnum allt prógrammið inn og út og vorum búin að syngja það á mörgum tónleikum missirin á undan. Samt er það allt öðru vísi að syngja fyrir fullum sal af fólki heldur enn fyrir míkrófóna og mjög kröfuharða tónstjóra og upptökumeistara.

Allt var  þetta mikil lífsreynsla og ótrúlega gaman og gefandi.

Rósa Kristín

rosaUpptökutíminn er minnisstæður og glíman við umhverfishljóð sem máttu auðvitað ekki heyrast. Við urðum að stoppa þegar flugvélar fóru yfir Reykjavík og drunur frá þeim heyrðust inn í Fella- og Hólakirkju. Hljóðritað var fram á kvöld og jafnvel fram á nótt til að forðast hljóð frá bílaumferð eða flugvélum.

Eftir á að hyggja var djarft að ætla okkur sem söngvurum að nota raddirnar, þessi viðkvæmu hljóðfæri, í viðkvæmum upptökum á þeim tíma sólarhrings sem líkamsklukkan mælir frekar með að söngraddir hvílist!

Svo nefni ég að hægt hefði verið að vinna mikið tæknilega með upptökurnar í hljóðstofu áður en þær voru settar á disk og það er gjarnan gert en ekki í okkar tilviki. Þess vegna eru upptökurnar í raun „lifandi“ líkt og þær væru frá tónleikum. Þau áhrif eru „fersk“ og skila sér vel við spilun.

Úr Gerðabók Tjarnarkvartettsins

Hjörleifur Hjartarson skráði

Sumaráætlun kvartettsins 1994 leit þannig út i júníbyrjun:

  • 17. júní – Dalvík
  • 17. júní – Akureyri
  • júní – Trésmiðafélag Eyjafjarðar
  • júlí – vinabæjarmót á Skagaströnd
  • 12. júlí – danskir landfræðingar í skíðaskálanum á Dalvík
  • 9. ágúst – félagsmálaráðuneytið, Kópavogi
  • 13. ágúst – brúðkaup
  • 16. ágúst – brúðkaup
  • 17. ágúst – Deiglan Akureyri, tónleikar
  • 20. ágúst – Kiwanismenn á Akureyri
  • 22.-27. ágúst – upptökur í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík
  • 26. ágúst – norrænn ráðherrafundur í Laxdalshúsi á Akureyri
  • 27. ágúst – framsóknarmenn á Sauðárkróki
  • 3. sept. – sjúkrahúsforstjórar í skógarreitnum í Hánefsstöðum
  • 8. sept. – norrænt þing í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Dagbókarfærslur um „bláa diskinn“

  • 2. febrúar 1994

Frissi Þórlaugar Friðriksson spar kom að máli við kvartettinn í dag og vill ólmur standa að plötu. Þetta höfum við verð að spjalla um ásamt öðru.

  • 27. febrúar

Fundur að Tröðum hjá Gerrit. Mætt: Kvartettinn og Frissi sparisjóðs.

Ræddum málin af kurteisi og drukkum kaffi.

Ákváðum að taka frá vikuna 22.-27. ágúst fyrir plötuupptöku, annað hvort á Dalvík eða í Reykjavík.

Gerrit var gerður að pródúser plötunnar og allt er klappað og klárt.

Ræddum dálítið um hvaða efni ætti að vera á plötunni. Höllumst helst að því að hafa sitt lítið af hverju, alla vega lögin sem útsett hafa verið sérstaklega fyrir okkur.

  • 6. mars

Æfing á Tjörn. Fyrst drukkum við te og fengum nýbakað brauð og ræddum málin ítarlega. Svo fórum við að syngja.

Settum teiknimynd í vídeótækið til að gera börnin óvirk.

  • 1. júlí

Vinabæjamót á Skagaströnd. Söngurinn gekk vel og allir afar glaðir. Páll á Höllustöðum, Sigrún borgarfulltrúi, Pálmi á Akri og allir Skandínavarnir.

Á eftir komum við við hjá Hallbirni í Kántríbæ en ókum síðan fyrir Skaga. Stoppuðum á Ketubjörgum og sungum Enn syngur vornóttin fyrir fuglinn og ærnar sem lágu undir rofabörðum og létu fara vel um sig.

  • 5. júlí

Sól og blíða. Góð æfing með Gerrit í Tónlistarskólanum á Dalvík.

Ég vil hafa Svarfaðardal og Þú ert á disknum!!

  • 9. ágúst

Sungum í Gerðarsafni í Kópavogi fyrir glaðhlakkalega félagsráðgjafa frá öllum Norðurlöndum við ágætar undirtektir.

  • 16. ágúst

Höfum æft af dugnaði það sem af er mánuði. Á morgun er konsert í Deiglunni og nánast allt klárt fyrir hann. Í morgun æfðum við á Tjörn, sungum t.a.m. Enn syngur vornóttin eins og mýs að míga í bómull.

Í kjallaranum æfðu Andri og Örn þungarokk á rafmagnsgítara. Þeir voru á endanum teknir úr sambandi og látnir fara með afganginn af ómegðinni út í hlöðu því það rigndi heil ósköp og erfitt að hemja liðið í sandkassanum.

  • 23. ágúst

Kvartettinn alveg búinn að vera eftir 2ja daga upptökusessjón í Fella- og Hólakirkju.

Hreinn Valdimarsson er mikill indælismaður og góður upptökumaður. Í gær tókum við upp Skandinavíulögin + leikhústónlistina, samtals 8 lög. Í dag bættust við Katarina, Daisy, Muse + vorlögin = 6 lög.

  • 26.  ágúst

Endanlega búin að vera en komin heil heim úr Reykjavíkinni eftir vægast sagt annasama ferð. Varla hægt að segja að við höfum sér heiðan himin. Þann 24. ágúst þustum við á milli sjónvarps og útvarps og höfðum það af að koma fram á Stöð 2, í Ríkissjónvarpinu og á Rás 2.

Troðfylltum Sólon og margir urðu frá að hverfa. Viðtökurnar ólýsanlegar, enda sungum við eins og við gátum, mest efni sem við kunnum í þaula.

Guð, hvað var gaman!

  • 29. ágúst

Myndataka fyrir plötuumslag.

Vegfarendur ráku upp stór augu þegar kjólklæddir karlar og konur sprönguðu um þar sem þeirra var síst von: niður við Steypustöð, á Sandinum og úti í Múla.

Hvað gerir maður ekki fyrir frægðina?

  • 15. október

Kvartettinn staddur á Tjörn seint á laugardagskvöldi. Nú þarf að skrapa upp raddbönd fyrir útgáfukonsert á fimmtudagskvöldið.

  • 16. október

Dagur sem lengi verður í minnum hafður því nú í kvöld kl. 22:10 var diskurinn frumspilaður hér í Laugahlíð að kvartettinum viðstöddum og Gerrit að auki.

Kertaljós og rauðvín með heitri ferskjuböku og við eins og litlu börnin á aðfangadagskvöldi, búin að halda niðri í okkur andanum síðan seinni partinn í dag.

Og hér sitjum við loksins öll saman, agndofa yfir þessu undri öllu saman, vitandi ekki alveg hvernig við áttum að vera. Öll eitt eyra.

Svei mér þá, ég held að þetta sé mikill ágætisdiskur.

  • 20. október

Útgáfudagur disksins. Yfir hundrað manns var boðið að koma til útgáfugleði í Deiglunni og svei mér ef langflestir hafi ekki komið. Auk þeirra einhverjar boðflennur.

Frissi spar mætti með bíl og bílstjóra í Laugahlíð og Tjörn og hirti upp kvartettinn sem klæddur var í kjól og hvítt. Svo var ekið til Akureyrar þar sem Lóa [Ólöf K. Sigurðardóttir, þáverandi starfsmaður Listagils á Akureyri, nú forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur] og Ragnheiður Ólafsdóttir voru í óða önn að blanda drykki.

Hafliði á Urðum spilaði á nikkuna á meðan fólk var að tínast inn og byrja að súpa á veigunum.

Síðan startaði Lóa geiminu og gaf Friðriki orðið. Hann talaði og lauk máli sínu með því að afhenda hann okkur diskana. Við létum sem við hefðum aldrei séð þá áður.

Við gáfum Gerrit blóm og fórum svo að syngja.

  • 8. nóvember

Allt fram streymir endalaust og svo framvegis. Alltaf nóg að gera.

Á morgun leggjum við land undir væng og stormum suður til að syngja hjá Hemma Gunn. Nú erum við orðin fræg. Þetta er mælikvarðinn.

Síðan verðum við með útgáfuteiti í Þjóðleikhúskjallaranum kvöldið þar á eftir og syngjum þar eins og við getum.

Ekki veit ég hvað selst hefur af diskinum en hann er mikið spilaður í Útvarpinu þessa dagana.

  • 13. nóvember

Þáttur Hemma Gunn var tekinn upp kl. 5 á laugardaginn og sýndur landsmönnum um kvöldið. Var það tiltölulega skammlaust af okkar hálfu.

Það fór vel um okkur á Hótel Sögu. Kvöldið eftir var útgáfukonsert í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem saman var kominn mökkur af fólki svo út úr flóði. Mest voru þetta ættingjar og vinir að því er mér sýndist.

Við sungum eins og okkur einum er lagið og seldum marga diska.

  • 22. desember 1994

jólasalaLíður að jólum og Tjarnarkvartettinn hefur lítið látið á sér kræla að undanförnu. Menn eru í vinnu og uppteknir í hinu og þessu. Við sungum þó á aðventukvöldi í Möðruvallakirkju og til stóð að syngja á öðru slíku í Dalvíkurkirkju en Rósa missti röddina og ekkert varð úr því.

Í versluninni Sogni á Dalvík selst Tjarnarkvartettinn best allra diska fyrir jólin. Þar á eftir koma Bubbi Morthens, Björgvin Halldórs og Diddú.

 

 

forsida-stor

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s