„Rætur Teigabandsins eru í Teignum í Svarfaðardal. Þar höfum við lengi verið gangnamenn á haustin, elt ær og lömb á daginn en sungið og spilað á Búrfelli að göngum loknum. Hljómsveitin varð til fyrir fimmtán árum, kannski þau nálgist að vera tuttugu. Man það bara ekki. Fátt er skýrt í minningu gangnamanna, allra síst þeirra sem ganga í Teignum.“
Friðrik Vilhelmsson, harmónikuleikari og söngvari Teigabandsins, reynir sem best hann getur að grufla í sögu merkrar hljómsveitar sem varð til í hópi gangnamanna á svæði í framanverðum Svarfaðardal sem kennt er við bæinn Miðbæ eða Teig. Sá stóð sunnanvert í framhluta Svarfaðardals, gegnt Urðum. Skriða tók Teig á sínum tíma þar með var hann úr sögu. Teigurinn lifir hins vegar góðu lífi og Teigsmenn enn frekar og þá helst tiltekna helgardaga að haustlagi.
Árshátíð í Teignum blasir við um helgina
Einmitt núna blasir við árshátíðin í Teignum, sjálf gangnahelgin í Svarfaðardal. Friðrik nikkari er skjálfraddaður af spenningi.
Teigsliðið heimsótti í vikunni Sigga Marinós frá Brekku í bústaðnum hans í landi Laugahlíðar. Það er fastur liður ár eftir ár. Smakka þarf til vín fyrir fleyga og gott að gera það í hópi valinkunnra sem með slíkt kunna að fara.
Ef vel á að vera þarf að smakka kvöld eftir kvöld. Upp á öryggið, eðlilega.
Jólasósu ber enginn á borð nema smakka oft og lengi. Rétt blanda í Teignum er á við bæði steik og sósu á hátíðarborði jóla. Hver maður sér það og skilur.
Giggin snúast um fisk og sauðfé
Stofnendur Teigabandsins eru enn að: Friðrik, Kristinn J. Hauksson bassaleikari, Gunnar Þór Þórisson, gítarleikari og bóndi á Búrfelli, Guðmundur Kristjánsson framlínusöngvari og Júlíus Baldursson, trommuleikari og ásláttarskörungur.
Undanfarin ár hefur Teigabandið komið fram á hafnarsvæðinu á Dalvík á Fiskideginum mikla. Í sumar spilaði með því gestatrommarinn Ingvi Rafn Ingvason frá Akureyri. Brast á með rífandi stuði þegar Teigsmenn stigu á svið, enda ekki boðið upp á neitt annað en rokk & ról af gamalgrónum ættum.
Sannkölluð hljómsveit frumgreina í byggðarlaginu. Að sumarlagi lofsyngur hún sjávarfang á Dalvík, á haustin skemmtir hún dauðvona lömbum, nýsmöluðum af fjalli, og sprelllifandi mannfólki líka.
Óvíst er að af nokkru giggi verði í ár en hver veit.
„Gunnar stórbóndi á Búrfelli smíðaði gríðarstóran pall sérstaklega fyrir Teigabandið og tilheyrandi skemmtanahald um göngur. Messufall hjá okkur þar er ekki algengt en hefur komið fyrir. Helst þarf stórrigningar eða óveður af einhverju tagi til að halda okkur í skefjum. Veðrið var að vísu í góðu lagi í fyrra en þá drógust göngurnar á langinn og okkur vannst ekki tími fyrir gigg.
Spáin fyrir komandi helgi er ekkert sérstök en við getum alla vega sungið og trallað og drögum hvergi af okkur.“
Strætókýr úr Grímsey leysir af rútukálf
Teigsmenn hafa árlega mætt á rútukálfi sínum á Tungurétt daginn eftir eigið skrall. Nú er kálfurinn ónýtur og allur. Þá kemur kýr í kálfs stað.
Júlíus Júlíusson Fiskidagsforstjóri bankaði upp á í Teignum fyrir nokkrum árum og bauðst til að ganga þar um hlíðar til smölunar. Strax næsta haust hafði hann tekið alla stjórn mála í Teignum í sínar hendur.
Júlli fékk heilan strætisvagn frá Grímsey fyrir Teigsmenn að ferðast í um helgina í staðinn fyrir kálfinn sáluga. Rúntað hefur verið með túrista um eyna í kúnni en nú fær hún göfugra hlutverk. Gert er ráð fyrir því að vagninum verði skipað upp í Dalvíkurhöfn í kvöld (fimmtudag 5. september).
Engin bönd halda Teigsmönnum, alla vega ekki Júlla.
Heimsfrægð í Suður-Kóreu
Göngurnar í Teignum, Búrfell, Teigabandið og gangnamannaskrallið, allt varð þetta heimsfrægt í Suður-Kóreu hér um árið. Þá mættu sjónvarpsmenn frá Seoul með allar græjur, dvöldu daglangt í Teignum og á Búrfelli til að mynda bændur, búalið og sauðfé af jörðu sem af himni.
Þeim gangnadegi gleymir ekki Friðrik nikkari en man ýmsa aðra frekar í þoku eða alls ekki.
„Þarna sá ég dróna í fyrsta sinn. Ég heyrði undarlegt suð, leit til himins og taldi mig fyrst sjá þyrlu hátt á lofti en hún reyndist vera lítið flugkvikindi með marga hreyfla, rétt yfir hausunum á sjálfu Teigabandinu. Engar feilnótur samt slegnar frekar en fyrri daginn.
Svo man ég glöggt eftir því að framleiðandi þáttarins át heil ósköp af hákarli og drakk af stút allra fleyga sem að honum voru réttir.
Úr veislunni varð til skínandi góð heimildarmynd í sjónvarpi Suður-Kóreu og varð umtöluð víða um Asíu, jafnvel í Norður-Kóreu líka. Hugsanlega má leita þarna upphafs að þíðu í samskiptum Kóreuríkjanna. Og víst er að ferðamannastraumur frá Suður-Kóreu til Íslands margfaldaðist eftir að Teigsmenn urðu þar heimilisvinir í öllum stofum.
Búrfell leit út eins og stórbúgarður milljarðamærings á háloftamyndunum.
Teigabandið spilaði nokkrum sinnum á böllum áður fyrr og einu sinni fyrir dansi á þorrablóti á Rimum. Nú sinnum við bara föstum liðum, gangnahelginni og Fiskideginum mikla. Það hentar okkur prýðilega.“
Svo endaði nikkarinn blíði símtalið og hvarf á braut. Hann átti annríkt, enda þarf að smakka enn og aftur fyrir fleyginn.
Hvorki er andskotalaust né þrautalaust að búa sig undir göngur í Teignum.
Sögulegur eftirmáli af frumkvöðlum gleðinnar
„Göngurnar í Teignum urðu að stórhátíðardegi Sigga í Hreiðarsstaðakoti og Einars á Urðum. Til þeirrar sælustundar hlökkuðu þeir árið um kring. Í minningunni varð Teigsliðið samheldinn hópur gleðimanna. Féð var rekið í rétt á Búrfelli og þar á bæ hófst hátíðin fyrir alvöru hjá Sveinu og Matta. Hópurinn fór síðan í Klaufabrekkur og endaði í Hreiðarsstaðakoti hjá Maríu og Sigga. Þar skemmtu menn sér lengi, borðuðu vel, smökkuðu’ða og sungu mikið.“
Rósa frá Hreiðarsstaðakoti (Sumarrós Guðjónsdóttir) tengir upphaf gleðigangna í Teignum við það þegar Tungufell fór í eyði og í kjölfarið voru lögð þar gangnaskil á Urðir og Hreiðarsstaðakot.
Bændur og grannar, Sigurður Eiðsson í Hreiðarsstaðakoti og Einar Hallgrímsson á Urðum, urðu Teigs- og gleðimenn. Í hópnum voru líka Hallar tveir, Einarsson á Urðum og Hreinsson á Klaufabrekkum og ýmsir fleiri.
Eina skilyrðið var að hafa mun meira gaman af göngum og réttum en í meðalhófið kvað á um. Sömu kröfur eru gerðar í Teignum enn þann dag í dag og hafa frekar verið hertar en hitt. Allt samt áfram innan skekkju- og velsæmismarka.
Marinó á Búrfelli var gangnaforingi í Teignum árum saman. Að honum gengnum var afhjúpaður bautasteinn til minningar um þann mæta mann Matta. Vel gert hjá Teigsliðinu.