Ólíkt hafast þau nú að afkvæmi Tona í fiskbúðinni. Á meðan Anna Dóra upplýsir um hórdóm, barnamorð, útburð, hjónaskilnaði, kindadráp, sauðaþjófnað og rán á bæjum í Miðfjarðardölum upp úr miðri nítjándu öld hamast bróðir Þórólfur Antonsson við að reisa matarmenningarmusteri í Oddsparti í Þykkvabæ ásamt Spúsu sinni Hrönn Vilhelmsdóttur. Gleymum ekki atvinnusmiðnum í sögunni og meðeiganda í ævintýrinu, Hauki Sigvalda.
Þetta sómafólk á að heita fullgilt í Heiðmerkursöfnuðinum Sporinu en hefur talið sig hafa löglega afsökun fyrir því að mæta slaklega til göngu að morgni laugardaga. Gönguverjar dagsins í Heiðmörk stofnuðu til hópferðar í Þykkvabæ til að kanna hvort síendurtekin forföll væru fullgild og lögleg. Nú er staðfest og vottað að svo sé.
Fjárhús og hlaða í Oddsparti breytast óðum í sérlega glæsilegt matarmenningarsetur með stóru og tæknivæddu eldhúsi þar sem margir athafna sig samtímis í hópum við matarstúss og eldamennsku. Þar voru áður krær og garðar fyrir ær og ker til að baða í sauðfé til að verjast kláða.
Breyttir búskaparhættir í Oddsparti með öðrum orðum. Í hlöðunni verður glæsilegur borð- og veislusalur.
Mörg eru handtökin við að koma húsakynnum í gagnið. Meiningin er að í Oddsparti verði tekið við hópum fólks á matreiðslunámskeið og gert ráð fyrir því líka að hópar geti leigt húsið gjöra góðar veislur fyrir sig og sína.
Spennandi verður að fylgjast með gangi mála og frá því var auðvitað gengið í dag að fjárhúsinu yrði breytt í safnaðarheimili Sporsins eina kvöldstund eða svo þegar rekstur magarmusterisins verður kominn í fullan gang.
Heimilisfólk í Oddsparti bar hrossakjötsbollur á borð fyrir gesti í dag. Skilyrt er að nýbúar í Þykkvabæ tileinki sér strax siði og venjur innfæddra til að vera almennilega gjaldgengir í samfélaginu. Þykkbæingar ríða til dæmis helst ekki hrossum heldur éta þau frekar.
Hrossakjötsát hefur um aldir verið talið til helstu einkenna Þykkbæinga, herma fornar heimildir Svarfdælasýsls. Svo er enn á 21. öldinni eftir því sem næst verður komist.
Í Þykkvabæ eru til að mynda ekki þorrablót heldur kartöfluböll á góu eða í einmánuði. Þar er að sjálfsögðu borðað hrossakjöt með kartöflum. Hvers vegna hefur sá góði siður ekki breiðst út um allar landsins byggðir?
Aðfluttir í Oddsparti tileinkuðu sér ofurfljótt að líta á hesta sem mat en ekki leikföng og njóta mikillar virðingar í samfélagi sínu fyrir vikið. Grannarnir fylgjast líka spenntir með atganginum í fjárhúsinu og hlöðunni og væntanlegum atvinnurekstri þar.
Í öðru útihúsi hefur Hrönn texíllistamaður komið sér vel fyrir við að hanna, handmála og þrykkja rúmföt, púða, teppi og fleira fagurt og flott.
Margt er að gerast í Oddsparti og meira stendur til.
Svarfdælasýsl fylgist með. Áreiðanlegri miðlum er ekki til að dreifa um vaxtarsprota atvinnulífs við suðurströndina.