„Ég veit ekki hver andskotinn gengur á hér frammi í Miðfjarðardölum, ef það eru ekki hórdómur og hjónaskilnaður þá eru það barnamorð og útburður, svo ekki sé talað um kindadráp, sauðaþjófnað og rán.“
Hér er nú sem betur fer ekki vitnað í viðtal við einhvern búnaðarráðunautinn í Bændablaðinu á vordögum 2019 heldur leggur Anna Dóra Antonsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur frá Dalvík, þessi orð í munn Kristjáni sýslumanni í Húnavatnssýslu á árinu 1864 í nýútkominni bók sinni, Þar sem skömmin skellur, Skárastaðamál í dómabókum.
Það hlaut líka að vera.
Anna Dóra gefur bókina út sjálf eða öllu heldur Espólín forlag, sem þau Teitur Már Sveinsson stofnuðu á árinu 2018. Hún hefur áður leitað fanga í gömlum og gulnuðum málsskjölum til að efna í bók. Það gerði hún 1998 í sögulegri skáldsögu sinni Voðaskoti, sögu af ólukkutilfelli. Þar er fjallað um óupplýst sakamál á Dalvík þar sem forfaðir hennar, Hans Baldvinsson, kom við sögu.
Annars hefur hún skrifað skáldsögur fyrir fullorðna og börn og gefið líka út smásagnasafn.
Ljótasta dómsmálið árum saman

Áritað í Flórunni …
Nú eru það skelfingaratburðir á bænum Skárastöðum í Miðfirði sem verða Önnu Dóru efni til skrifa. Óhætt er að segja að viðfangsefnið sé í meira lagi dramatískt og sögusviðið með nokkrum ólíkindum.
Eins gott að lesandinn hefji ekki lestur nema tryggja sér fyrir fram að geta farið alla leið, hvort heldur er á nóttu eða degi. Bókina leggja menn nefnilega ekki svo auðveldlega frá sér nema að síðustu málsgrein lesinni.
Hér er ekki aldeilis ekki farið með staðlausa stafi heldur blákaldar og hrollvekjandi staðreyndir. Meira að segja er skrá yfir heimildir aftast í bókinni, bæði útgefnar og óprentaðar.
Svo fór Anna Dóra um héruð Húnvetninga, hitti fólk, spurði og spjallaði. Húnvetningum var ekki öllum um það gefið að hún væri að róta í því sem Páll Melsteð, sækjandi fyrir Landsyfirrétti, kallaði „eitt umfangsmesta og ljótasta mál sem komið hefur fyrir íslenska dómstóla í mörg ár.“
„Þessa bókmenntagrein má kalla skýrslusögu. Ég vinn með staðreyndir og nákvæmar heimildir. Öll nöfn, ártöl og lýsingar á viðburðum eru samkvæmt samtímaheimildum en ég fylli í eyður og set frásagnir í dóma- og þingbókum Húnaþings upp í samtalsform til að gæða textann lífi og láta hann fljóta betur. Í eyfirskum dómabókum vegna Voðaskotsins var framsetningin upphaflega í samtalsformi en ekki hjá Húnvetningum vegna Skárastaðamálsins.
Ég lagði mikla vinnu í bókina og kann dóma- og þingbækurnar varðandi málið nánast utan bókar!“
Rekur Guðbjargarsögu hugsanlega síðar
Við Anna Dóra mæltum okkur mót í kaffihúsinu Flórunni í Laugardal. Á daginn kom að þar var opið en ekkert kaffi að hafa. Veitingarekstur hefst ekki fyrr en 1. maí þegar verkalýðurinn arkar af stað með flögg og fána. Á Flórunni er hins vegar hlýtt og notalegt umhverfi, ögn notalegra en var í baðstofum bæja í Miðfjarðardölum forðum þegar sýslumaður yfirheyrði fólk vegna útburðar barns, dráps annars barns, sauðaþjófnaðar, þjófnaðar af öðru tagi og annarra verka sem kallaði þunga dóma yfir þá sem af sér brutu.
„Það blundaði lengi í mér að skrifa um atburðina á Skárastöðum í Miðfirði, allt frá því ég las þátt um málið eftir Sverri Kristjánsson sagnfræðing. Ég vildi vita meira og veit miklu meira núna. Í bókinni er gengið mun lengra en áður í umfjöllun um Skárastaðamál og þögnin rofin eins og unnt er.
Í eftirmála geri ég grein fyrir því hvað um helstu sögupersónur varð þegar þær höfðu afplánað refsinguna. Slíkt hefur ekki verið gert fyrr og kostaði mikið grúsk.
Skólasystkin mín úr Menntaskólanum á Akureyri, sem búa í Vestur-Húnavatnssýslu, voru mér mjög hjálpleg og ég notfærði mér lipurð þeirra miskunnarlaust!
Svo nefni ég sérstaklega til sögunnar mikla hjálparhellu á tíræðisaldri, Magnús Guðmundsson á Staðarbakka. Bróðir aðalgerandans í sakamálinu dó á Staðarbakka á fjórða áratug síðustu aldar og Magnús man vel eftir honum. Svo nálægt okkur er Skárastaðamálið í tíma! Magnús las yfir handrit að bókinni til að ganga úr skugga um að ég færi rétt með staðháttalýsingu og annað slíkt.
Ég hef þar með skrifað mig frá þessu máli sem slíku en sagan öll hefur ekki endilega verið sögð. Ekki er til dæmis útilokað að ég reki síðar örlagasögu Guðbjargar Guðmundsdóttur, vinnukonu á Skárastöðum, sem afplánaði dóm sinn í fangelsi í Danmörku og var síðar víða í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum. Hún hvílir í kirkjugarðinum á Breiðabólsstað. Saga Guðbjargar gæti orðið efni í heila bók.“
-
Þannig er Anna Dóra kynnt á vefnum is.
Útgáfuhóf
Espólín forlag bauð til útgáfuteitis í Mengi við Óðinsgötu 16. apríl. Þar var góður hópur saman kominn til að fagna með höfundinum og gestir fengu að kynnast bókinni með áhrifamiklum leiklestri á samkomunni!
Anna Dóra hafði áður lesið gestum pistilinn og fjallað um bókina og vinnuna við hana. Svo kvaddi Þórólfur Antonsson/Brói sér hljóðs og flutti niðurstöður útreikninga sinna á bókaþjóð veraldar með því að reikna útgefna titla á hvert hundrað þúsund íbúa. Þar var Páfagarður í sérflokki en Ísland nr. 2.
Einróma niðurstaða samkomunnar var hins vegar sú að dæma Vatíkanið úr leik og setja Ísland á toppinn. Það er líka svo mikið svindl í kringum páfa að ekki einu sinni Íslendingar komast með fremstu tánögl þar sem hann hefur hæla gullskónna sinna, Við ERUM best.
Hið síðasta sem útsendari Svarfdælasýsls heyrði á útleið af útgáfuteitinu góða var hvatning gestgjafans um að viðstaddir hreyfðu oftar og betur við rauðu og hvítu víni á borðinu. Það sem afgangs yrði í teitislok rynni ella í göturæsið utan dyra.
Viðbrögðin lofuðu góðu um að þarna yrði engu sóað. Mesta bókaþjóð heims verður líka að kunna meta til fulls það sem á borð er borið, hvort heldur er sakamálasaga úr Miðfirði eða rauðvín frá Toscana.