Hún óx úr grasi í við Lágina á Dalvík og er núna önnum kafinn við að undirbúa tónleika 14. mars til styrktar sumarorlofsdvöl eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði.
Hún kom víða við á vinnumarkaði í höfuðborginni, byrjaði meira að segja sem klósettvörður á skemmtistaðnum Broadway.
Áfallið var mikið þegar hún greindist með MS-sjúkdóminn 1992 og varð til þess að hún leitaði eftir liðsinni guðs almáttugs í lífsbaráttunni.
Þórey Dögg Jónsdóttir söðlaði um, nam guðfræði og starfar sem djákni og framkvæmdastjóri eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma með aðsetur í Breiðholtskirkju.
Hún telur fullvíst að almættið sé sér sammála um að Liverpool verði enskur meistari í fótbolta í ár.
„Við höfum efnt til orlofsdvalar eldri borgara í Skagafirði undanfarin ár og í aðdraganda þeirra efnt til stuðningstónleika. Í ár kemur fram þekkt og lítt þekkt tónlistarfólk og til að kynna verkefnið á Skagfirska gamlingjanum. Þannig öflum við tekna til að greiða dvalarkostnað í orlofsbúðunum ögn niður. Þessa dagana ræðir þú helst ekki við mig um annað en konsertinn hér í Breiðholtskirkju 14. mars og orlof á Löngumýri!“
Sex orlofshópar verða á Löngumýri frá maí til júlí í sumar og dvelja fimm eða sex nætur hver. Alls voru þarna 180 manns sumarið 2018 af báðum kynjum. Konur hafa samt alltaf verið í miklum meirihluta.
Það hallar á karlpeninginn en alveg óhætt að hvetja hann til þess að sýna þessum góða kosti áhuga í orði og verki.
- Nánar um orlof á Löngumýri og skráningu hér.
Vendipunkturinn 1992
Fögur sumarmynd af Láginni á Dalvík og nágrenni beggja vegna hangir uppi á vegg á kontór djáknans í Breiðholtskirkju. Fjærst sést rauðlitað hús nr. 24 við Karlsrauðatorg. Það var reist 1946-’48 á vegum byggingafélags verkamanna.
Þórey Dögg getur aldrei vanist því að sjá æskuheimilið sitt knallrautt. Afi hennar og amma í föðurætt byggðu húsið, foreldrar hennar tóku síðar við, Guðríður Bogadóttir og Jón Tryggvason, Gúrý og Nonni Tryggva.
Árið 1984 kvaddi hún heimahagana og flutti suður.
„Ég bjó fyrst hjá Sigrúnu systur minni og hún fékk mig með sér í að gæta snyrtinga á Broadway á kvöldin. Klósettvarsla var vissulega vinna eins og hver önnur og skapaði tekjur.
Svo vann ég á nokkrum stöðum næstu árin, meðal annars hjá borgarfógeta, aðstoðaði á tannlæknastofu og var dagmamma á einkareknum leikskóla sem kennarar í Öskjuhlíðarskóla ráku.
Raunar var ég leitandi í ýmsum skilningi, bæði á vinnumarkaði og í andlegum efnum og spáði í allt mögulegt. Hafði til dæmis um hríð áhuga á starfi miðla og sambandi við framliðna.
Vendipunktur í lífinu varð árið 1992 þegar ég greindist með MS, taugasjúkdóminn sem kallaður er heila- og mænusigg.“
Trúarlegur styrkur og léttir
Þórey Dögg og eiginmaður hennar, Erlendur Ólason, rafmagnstæknifræðingur á Eflu verkfræðistofu, eignuðust dótturina Ólöfu Rún 1995 (fyrir átti Þórey Dögg tvö börn, Tinnu Dögg og Elvar Frey).
Sjúkdómurinn sótti að Þóru Dögg án miskunnar með tilheyrandi köstum og sjúkrahúsvist. Þrisvar sinnum þurfti hún að vera í hjólastól heima hjá sér en reis jafnoft upp úr honum! Það eru satt best að segja undur og stórmerki. Hún segist vera í hópi ótrúlegra heppinna MS-sjúklinga.
„Einu sinni þyrmdi yfir mig þegar dóttir mín bað um aðstoð heima og ég gat ekki sinnt erindinu, sitjandi í hjólastól. Vanlíðan ágerðist og ég leitaði til guðs og bað um stuðning og hjálp.
Þá gerðist nokkuð sem ég hafði aldrei fundið fyrir fyrr. Ég upplifði trúarlegan styrk og létti.
Öryrki vildi ég ekki vera til lengdar og ákvað að fara í menntaskóla og klára stúdentspróf. Þaðan lá leiðin guðfræði í Háskóla Íslands. Ég útskrifaðist sem djákni 2010 og vígðist ári síðar til Fella- og Hólakirkju í Breiðholti.“
Boðar trú með verkum sínum

Breiðholtskirkja, aðsetur Þóreyjar Daggar djákna. Gárungar kalla guðshúsið gjarnan indjánatjaldið. Þeim er fyrirgefið í kristilegum kærleiksanda þegar horft er á bygginguna.
Djákni er samstarfsmaður presta og gegnir ákveðnum skyldum undir stjórn sóknarprests og í samráði við hann. Verkefni umönnunar, líknar og fræðslu eru þar í fyrirrúmi. Þetta geta verið húsvitjanir á heimili eða stofnanir, æskulýðs- og öldrunarstarf. Djáknar annast sálgæslu og fyrirbænaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt.
Hvers vegna ekki að fara alla leið og læra til prests?
Þórey Dögg er sýnilega viðbúin spurningunni og svarar að bragði.
„Þú ert hvorki sá fyrsti né síðasti sem spyr hvort ég ætli ekki að „klára námið“ og verða prestur. Það stendur ekki til. Ég lærði til djákna og vígðist til starfa sem djákni. Ég hef enga köllun til að ritrýna stöðugt Biblíuna, heldur vil ég boða trúna með verkum mínum.
Um tíma var ég í hálfu starfi í Fella- og Hólakirkju en efnahagshrunið kom þar við sögu, eins og víðast annars staðar. Sóknin hafði ekki efni á að hafa mig lengur í vinnu og ég tók þá að mér sameiginlegt barna- og öldrunarstarf í Breiðholts- og Hjallakirkjum þar til ég sótti um og fékk núverandi framkvæmdastjórastarf eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.
Ég þjóna sem sérþjónustudjákni í mörgum söfnuðum og fæst við fjölbreytt viðfangsefni, allt frá sálgæslu og fyrirbænum til þess að stjórna bingói eða skipuleggja tónleika til stuðnings góðum málefnum!“
Þórey Dögg og Erlendur voru á Fiskideginum mikla í fyrra og stefna þangað nú í ár. Hún hefur miklar taugar til gömlu heimahaganna.
„Árin líða og alltaf fjölgar leiðunum í Dalvíkurkirkjugarði sem ég blessa yfir þegar ég kem þangað.
Þannig er tímans rás og hana flýjum við aldrei.
Þjóðvegurinn til Dalvíkur er og verður leiðin heim.“
Gott svar Þóreyjar Daggar við spurningunni hvers vegna hún varð ekki prestur! – Alltaf gaman af að frétta af Svarfdælum heima og heiman. Takk fyrir Sýslið,bb16