Gesti á þorrablóti rak Svarfdælinga í rogastans við komuna í félagsheimilið Rimar þegar á móti þeim tóku stríplar, það er að segja sjálf blótsnefndin áberandi fáklædd og sumir fulltrúar hennar reyndar nær því að vera naktir í sundskýlupjötlum til málamynda. Sannarlega súrrealískt að koma inn úr hörkufrosti, snjó og klaka og mæta glaðbeittum embættismönnum blótsins útlítandi eins og þeir hefðu frosið andlega en vel hífaðir í leikþætti á sólarströndum Tenerife.
Svo kom á daginn að þorrablótið í ár var eins og það lagði sig til heiðurs Sundskála Svarfdæla og hefði reyndar verið við hæfi að gera það að skyldu allra gestanna að mæta í sundpjötlum til blóts. Það hefði þótt saga til næstu byggðarlaga, gott ef ekki orðið heimsfrétt.
Annars var blótið með hefðbundnum hætti og gleðin öll sömuleiðis með tilheyrandi áti, drykkju, söng, annál ársins í flutningi Sölva á Hreiðarsstöðum og dansi fram á rauða nótt.
- Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af blótinu. Þær voru í þetta sinn teknar á Æfón og án leifturljóss. Sjaldan er flas til fagnaðar. Flass er líka sjaldan til fagnaðar.