Jarðbúrar sunnan heiða spiluðu brús í stofu Álftalands í dag í tilefni jólahátíðar og létu ekki á sig fá þótt nokkrir spilarar hefðu orðið að boða forföll af ýmsum ástæðum. Brúsakademía afkomenda og viðhengja Ingibjargar og Halldórs á Jarðbrú er ekki virkasti félagsskapurinn á landinu en nógu líflegur samt til að viðhalda brúsmenningunni í fjölskylduarminum syðra og afla henni þar nýrra liðsmanna.
Nám og starfsþjálfun í Brúsakademíunni er bæði bókleg og verkleg. Bóklegi hlutinn felst í því að stúdera gaumgæfilega plagg með sjálfum spilareglunum sem Jarðbrúarbræðurnir Atli Rúnar og Jón Baldvin skráðu í mars 2014. Fregnir bárust suður, af heimsmeistaramótum í brús í félagsheimilinu á Rimum, um spilareglur sem viku í sumum tilvikum frá því regluverki sem staðfastlega var stuðst við í þáverandi hjarta svarfdælskrar brúsmenningar, í Tjarnarsókn í Svarfaðardal.
Jarðbrúarbræður fengu til öryggis Gauju frá Bakka, Björn Dan frá Syðra-Garðshorni og Halla frá Ytra-Garðshorni til að lesa yfir reglurnar. Ætli verði ekki að segjast að brúsmenningin hafi blómstrað hvað mest á þessum bæjum og í Bakkagerði að auki á árum áðum.
Meira að segja er mynd á forsíðu plaggsins af Birni og Jóhanni Dan, Villa Þórssyni á Bakka og Ríkharði í Bakkagerði að spila sumarbrús á nýslegnu túni í Syðra-Garðshorni á sunnudegi.
Um þann síðastnefnda orti sá mikli og snjalli hagyrðingur Björn Þórleifsson á Húsabakka:
Bíddu kátur, komdu í gær!
Karlinn fram í gráðið rær.
Út þá merjum slær hann slyngur,
slettist langur þumalfingur.
Ríkharður hrópaði gjarnan komdu í gær eða bíddu kátur þegar við átti við í spilinu. Hann þumlaði gjarnan slagina. Menn verða sjálfir að leita í meðfylgjandi spilareglum að því hvað sögnin að „þumla“ og nafnorðið „merja“ tákna í brús.
Í dag kom fyrir að spilamaður hugðist voga hjartakóngi í fyrsta hring í spili. Þegar útgefendur hins opinbera regluplaggs bentu kurteislega en ákveðið á að slíkt væri einfaldlega bannað brást spilarinn við með því að fullyrða (réttilega) að bannsins væri hvergi getið í námsefninu sem honum hefði verið gert að stúdera til undirbúnings verklegum hluta spilamennskunnar.
Á daginn kom að í umferð var ekki lokaútgáfa skjalsins frá 2014 heldur eldri útgáfa þar sem ekki var getið banns við vogun í fyrsta spilahring.
Það sem verra var, í plaggið vantaði vísuna Komdu kisa mín! þar sem koma fyrir ljóðlínurnar Ekki er í þér lús, oft þú spilar brús. Þetta ljóð skilja svarfdælskir brússpilarar reyndar ekki frekar en sálminn Heims um ból en njóta samt jóla og spilsins fullkomlega.
Aldrei kom til þess að klórað væri í brússpili dagsins en við lá einu sinni að svo illa færi fyrir frænkum ekki einsömlum. Þá sköpuðust að gefnu tilefni við borðið umræður um hvort vanfærar konur ættu sér skjól í spilareglum gagnvart klórandi andstæðingum sínum ef illa færi í brús.
Klórning í brús getur nefnilega farið úr böndum og orðið þá býsna ofbeldiskennd aðgerð fyrir þolendur. Dæmi voru um það að spilarar í Svarfaðardal reyndu að flýja milli bæja undan klórningu.
Útgefendur spilareglnanna þurftu þá að játa að þeir hefðu aldrei um sérstök reglugerðarákvæði um klórningar og ófrískar konur en að tíðarandinn og gefin tilefni hlytu að kalla viðbrögð.
Í endurskoðuðum brússpilareglum Jarðbúra, útgefnum 29. desember 2018, er nú að finna ákvæði um klórningu á meðgöngu og eftir fæðingu. Ætla verður að embætti landlæknis staðfesti breytinguna og að ákvæðið taki gildi núna um áramótin, um leið og ný lög um líffæragjafir.