Nýskreytt Dalvíkurtré fagnar fullveldisafmæli

Staðlað

Þjóðin fagnar aldarafmæli fullveldisins og eitt tré í Heiðmerkurskógi tók daginn snemma og skrýddist jóladressi í tilefni upphafs aðventunnar. Gönguhópurinn Sporið ­– líknarfélag tók þetta tiltekna tré í fóstur á sínum tíma og hefur passað upp á það eftir mætti. Upphafsmenn Sporsins eru brottfluttir Dalvíkingar, búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þeir tóku í fóstur tré í grennd við  svokallaða vígsluflöt í Heiðmörk og bílaplanið kennt við borgarstjórann (reyndar upphaflega Gunnar Thoroddsen borgarstjóra). Fljótlega tóku þeir upp á því að flikka upp á tréð í tilefni jóla.

Ögn er á kreiki nákvæmlega hvenær Dalvíkurtréð fékk í fyrsta sinn jóladress en það gerðist fyrir fjórtán til fimmtán árum, það er að að segja á aðventunni 2003 eða 2004.

Sporverjar ganga jafnan í Heiðmörk á laugardagsmorgnum árið um kring, stoppa fram hjá Dalvíkurtrénu og hneigja sig. Ganga hring í skóginum og steðja síðan bakarí í Grafarholtshverfi (á fagmáli hópsins nefnist það brauðhúsið á Grafarvogshæðum) til að fá sér hressingu og ræða málin.

IMG_8484

Fyrstu Heiðmerkurhlaupararnir komu að Dalvíkurtrénu strax eftir að það stóð fullskreytt og dáðust mjög að framtakinu!

Í upphafi aðventu er fastur liður í starfsemi Sporsins að skreyta fósturtré Dalvíkur og í lok aðventu er skrautið tekið niður. Í millitíðinni er fagurskreytt Dalvíkurtréð í algjörum sérflokki í skóginum og til yndisauka öllum sem ganga eða hlaupa um Heiðmörk á jólaföstunni og fram yfir nýár. Strax í morgun kom hópur hlaupandi vinkvenna að nýskreyttu trénu og snarstoppuðu að sjálfsögðu, virtu undrandi fyrir sér fyrirbærið, tóku myndir af sér og hlupu svo sína leið í óvæntri jólastemningu.

Til hægri á meðfylgjandi myndum sést mjóslegin hrísla, öll á hæðina. Á henni neðanverðri hanga nokkrar kúlur. Í Sporinu eru líka Hríseyingar að uppruna og þeir fengu góðfúslega að tileinka Hrísey granna og hávaxna hríslu í grennd við Dalvíkurtréð. Hríseyingar halla sér eðlilega meira að Dalvík en Akureyri þegar mikið liggur við.

Eftir því er tekið að öll þessi ár hefur Dalvíkurtréð fengið að vera í friði, laust við áreiti skemmdarvarga og þjófóttra sem vilja ná sér í ókeypis jólaskraut. Stundum hrynja af því kúlur í illviðrum en göngufólk hefur þá tínt upp skrautið og skilað því á sinn stað. Dalvíkurtréð nýtur þannig virðingar og þannig á það að vera.

Það tekur hátt í klukkutíma að skrýða tréð og samkomunni lýkur með því að borð er dekkað með kökum, norðlensku laufabrauði, sætindum, kaffi og súkkulaði með rjóma.

Stór dagur með öðrum orðum. Jólin komin í Heiðmörk og má fagna fullveldinu í leiðinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s