Gangnagleði og brytjaðir kálfar

Staðlað

Réttargleðin á Tungum í Svarfaðardal í ár var svo sem hefðbundin. Þar var fleira fólk en sauðfé og hross, hefðbundinn söngur í almenningi að verki loknu við að draga í dilka og aldrei farið með annað en frumsamið efni í söng. Í öðrum héruðum eru raulaðir slagarar og flökkukviðlingar í réttum en aldrei á Tungum.

Veisluborðið í kvenfélagsskúrnum sveik ekki frekar en fyrri daginn.

Rúta með túristahóp renndi í hlað og  Ameríkanar kynntu sér svarfdælska réttarmenningu. Gestum þótti mikið til koma og enn frekar eftir að Hulda fararstjóri Ólafs veitti brennivín í staup á línuna.

Dráttarvél með birgðavagn í eftirdragi renndi í hlað úr Sveinsstaðaafrétt. Utan á vagninum dingluðu leifar af skóm sem Hjörtur frá Bakka gekk sólana úr í urð og grjóti í leit að kindum hátt til fjalla. Skórnir voru upphaflega ætlaðir til að tipla um gangstéttir og grasbala en voru teknir í misgripum á leið í göngurnar. Hjörtur er fyrsti gangnamaður sögunnar sem kemur berfættur með blóðrisa iljar úr göngum í Svarfaðardal með kindahóp í humátt á eftir sér. Ærnar vorkenndu manninum og ráku hann í raun niður fjallið en ekki öfugt.

Svo lá leiðin í Steindyr þar sem veisluglöðustu bændur sveitarinnar búa, Gunnhildur og Hjálmar. Þau eru eðalfólk heim að sækja.

Svarfdælasaga greinir frá því að Karl hinn rauði hafi riðið til Steindyra mörgum öldum fyrir efnahagshrunið, höggvið Grís bónda í sundur um miðju með sverði Klaufa og mælt í miðri slátrun: „Svo brytjum vér grísina, Grundarmenn.“

Nú er öllu friðsamlegra í Tjarnarsókn, meira að segja í sláturtíðinni.

Steindyrabændur tóku í heilu lagi og breiðbrosandi á móti gestum sínum á réttardaginn og höfðu brytjað niður kálfa úr bæjarhjörðinni, heilsteikt skrokkana og borið á borð í samkvæmistjaldi áföstu íbúðarhúsinu. Þarna var nóg af borða og enn meira að drekka. Þeir sem ekki höfðu rænu á að draga sig eftir björginni í tjaldhorninu voru eltir uppi til brynningar. Steindyrabændur voru gangandi barir og praktískir gestgjafar sem slíkir.

Hefð er fyrir því á Steindyrum að horfa á áramótaskaup Sjónvarpsins frá 1985 á gangnadaginn. Þeir sem koma árlega þangað af Tungurétt kunna Skaupið utan að, hvort heldur er mælt mál, söngtextar og atburðarásin í smæstu atriðum. Því oftar sem menn horfa og hlusta, því betur sem menn kunna, þeim mun hátíðlegri verður stundin þegar sýning Skaupsins hefst í stofu.

Sá sem kemur einu sinni í Steindyr á gangadegi sver við minningu Gríss bónda hins sundurhöggna að koma aftur að ári, sjá Skaup, fá sér kjöt af brytjuðum kálfi og þiggja agnarlista hressingu af stút úr gjöfulum faðmi barbændanna.

Eiginlega er óþægilega langt að bíða eftir veislunni að ári. Það verður bara að viðurkennast.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s