Fiskidagurinn litli og gulldrengir frá Dalvík

Staðlað

„Þið viljið rokk og ról frekar en harmóníku og ræla, enda eru Mick Jagger og Paul McCartney ykkar menn og jafnaldrar margra hér inni!“ sagði KK – Kristján Kristjánsson við heimilisfólk og gesti í troðfullum matsal hjúkrunarheimilisins Markar í dag í tilefni Fiskidagsins litla. Hann fór á kostum og fékk góðan hljómgrunn, ekkert síðri en Bubbi við Dalvíkurhöfn á laugardagskvöldið.

Ófáir veitingamenn og veislujarlar eru ólmir í að fá að selja fiskborgara eins og þá sem renna í þúsundavís af risagrillinu við Dalvík ár eftir ár og vilja auglýsa þá sem „Fiskidagsborgara“. Það fá þeir alls ekki, hvernig svo sem ólmast er í Júlla í Höfn og öðrum úr innsta kjarna Fiskidagsins mikla.

Eina leiðin til að komast í fiskborgarana er að mæta til Dalvíkur og fá svo allt hitt í bónus, mat, menningu og hitting. Undantekning er samt frá reglunni. Íbúar og starfsfólk í Mörk, glæsilegu hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut í Reykjavík, fá fiskisúpu og fiskborgara frá Fiskideginum mikla og Samherja í vikunni eftir stóra daginn á Dalvík. Það gerðist í fjórða sinn á jafnmörgum árum í dag og er ábyggilega orðin hefð eins og svo ótal margt annað.

Fiskidagurinn litli er stór stund í Mörk, mjög stór stund.  Undirbúningur stóð yfir svo vikum skipti og salurinn var skreyttur sérstaklega í tilefni dagsins.

Samkoman stóð yfir frá kl. 9:30 til 13:30 og ekkert gefið eftir. Fyrst var sýnd upptaka frá Fiskidagstónleikunum í fyrra (tónleikarnir frá því á laugardagskvöldið var verða hins vegar frumsýndir landsmönnum öllum á N4 laugardagskvöldið 27. október – merkja við á dagatalinu).

Svo brast á fiskidagsveisla í Mörk og KK kom, sá og sigraði. Hann fór á kostum. Gleymdi reyndar að slökkva á farsímanum sínum og þegar grandalaus dóttir hans hringdi, opnaði kappinn einfaldlega fyrir hátalarann og lét bráðum fertugt afkvæmið ávarpa sig og samkomuna í leiðinni án þess að Sóley KKdóttir vissi af því. Ekki leiðinlegt upphaf á framlagi KK.

Upphafið að Fiskideginum litla í Mörk má rekja til þess að Júlíus Júlíusson Fiskidagsforstjóri og Gísli Páll Pálsson Markarforstjóri störfuðu báðir samtímis um árabil í umönnunar- og þjónustugeira eldri borgara. Fyrir fjórum árum kom upp sú hugmynd í Mörk að gera eitthvað sniðugt og öðru vísi í tilefni afmælis hjúkrunarheimilisins. Fiskidagurinn mikli og Samherji slógu til og þetta er orðinn fastur liður, öllum til mikillar ánægju og gleði. Stemningin í dag var einlæg og þakklætið eftir því. Þarna búa um 240 manns og starfsmenn eru um 200.

Júlli í Höfn mætti, sömuleiðis yfirkokkur Fiskidagsins, Friðrik V. Sá síðarnefndi hafði með sér barnabarnið Markús Óskarsson sem greinilega er með kokk í genum og kominn strax á námssamning hjá afanum. Gestirnir voru kynntir til leiks sem „gulldrengirnir frá Dalvík“ og standa auðvitað fyllilega undir því að vera kenndir við eðalmálm allra málma.

Í Reykjavík var glaðasólskin í dag, ekta Fiskidagsveður. Engin tilviljun.

Júlli sagði frá Fiskideginum mikla þar sem allt er ofurstórt í sniðum. Fiskborgarar í þúsundavís, fiskipizza á við þriggja herbergja íbúð að flatarmáli, sundlaugarfylli af drukknu appelsíni og annað eftir því. Hann sagði mörg dæmi um að í gestabækur heimila á Dalvík hefðu skrifað sig 700 til 900 manns á fiskisúpukvöldinu mikla. Það þóttu mikil tíðindi í Mörk.

Lýsing Fiskidagsforstjórans á umferðarteppu að loknum risatónleikum á laugardagskvöldið var líka giska myndræn. Bílaröðin náði samfellt frá Dalvík til Akureyrar um nóttina. Á Dalvík eru engin umferðarljós en umferðin þar hreyfðist í takt við fyrstu umferðarljós sem komið var að á Akureyri.

Stopp á rauðu, áfram á grænu. Bylgjan innan að var auðvitað talsverðan tíma að ná út með Eyjafirði en víst er að þegar kom grænt á Hörgárbraut á Akureyri hreyfðist bílalestin um nokkur hök á Moldhaugnahálsi, við Fagraskóg, á Hámundarstaðahálsi, við Árgerði og loks á Skíðabraut á Dalvík. Allir skiluðu sér heim og mæta að ári.

Þeir sem sóttu Fiskidaginn litla í Mörk í dag mæta örugglega líka aftur að ári enda allir á grænu ljósi, alltaf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s