Úr Loka í Þykkvabæ

Staðlað

Mótorhjól urruðu áður í hlaði en nú ríkir kyrrðin ein, lognið á undan framkvæmdastormi. Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson seldu veitingahúsið Loka á Skólavörðuholti og hafa nú keypt jörðina Oddspart í Þykkvabæ, elsta sveitaþorpi á Íslandi og því eina í þúsund ár.

í Oddsparti var um hríð starfrækt miðstöð mótorhjólafólks, rekið verkstæði og mótorhjólasafn. Helsta stolt safnsins var Harley Davidson árgerð 1931 sem fannst í slæmu ásigkomulagi í Reykhólasveit og var gert upp.

Í húsinu þar sem áður var föndrað við mótorhjól hefur Hrönn textílhönnuður þegar komið sér fyrir og er byrjuð að skapa list sína. Þau Þórólfur buðu um helgina til sín hópi fólks úr fjölskyldum sínum, vinum og vandamönnum, til að líta á landareignina og húsakostinn. Þarna urðu óformlega til hollvinasamtök Oddsparts.

Jörðin Oddspartur er sjö hektarar og á henni er 100 fermetra íbúðarhús og tæplega 500 fermetra útihús, upphaflega hlaða og fjárhús og tvær kartöflugeymslur og bogaskemma. Útihúsin hafa á seinni árum gegnt allt öðrum hlutverkum en til var stofnað í upphafi.

Rekið var stórt tjaldsvæði á jörðinni og hlöðu og fjárhúsi breytt til að þjóna tjaldstæðinu en einnig til að unnt væri að taka á móti stórum hópum gesta. Engin tilviljun var því að einmitt þarna voru til dæmis  fjölskyldusamkomur Harley Davidson mótorhjólaklúbbsins og fleiri hópsamkomur mótorhjólafólks. Þá drundi vel í mótorfákum og kartöflubændur létu sér vel líka.

Öllu minni mótorskellir fylgja nýjum ábúendum í Oddsparti og Þykkbæingar taka afar vel á móti þeim. Hrönn er meira að segja gengin í kvenfélagið og Þórólfur vængjar sig við veiðifélagið. Hann er líka kominn með öfluga sláttudráttarvél til að rista niður gras á landareigninni og hlýtur þar með að vera gjaldgengur bæði í Ræktunarsambandið og Búnaðarfélagið. Það á reyndar vel við því Yngvi Markússon, formaður Búnaðarfélags Djúpárhrepps, átti fyrr á árum einmitt heima í Oddsparti. Í hann hringdu fjölmiðlamenn í Reykjavík gjarnan til að fregna af gangi mála á kartöfluökrum Þykkbæinga.

Það stefnir því í að fiskifræðingurinn og fisksalasonurinn frá Dalvík verði tilnefndur fulltrúi Þykkvabæjar á Búnaðarþingi fyrir sunnan. Svona getur tilveran verið sviptingasöm og óvænt.

Endurbætur og breytingar hafa átt sér stað á húsum, ekki síst þeim sem upprunalega voru fjárhús og hlaða. Þar verður tekið til hendinni enn frekar því áform eru uppi um að geta tekið við hópum í mat og gleðskap og hafa þarna aðstöðu til námskeiðahalds.

Miklar framkvæmdir eru á prjónum og fyrr en varir verður Oddspartur orðinn annálað lista og menningarsetur, svona einn komma sex kílómetra frá sænum.

Það vita þeir best sem fylgdust með Hrönn og Þórólfi á Skólavörðuholti að þau létu hlutina gerast og það svo um munaði.

Oddspartur verður ekki síðra ævintýri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s