Vigdís Rún Jónsdóttur var nýlega ráðin í starf verkefnisstjóra menningarmála hjá Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum. Hún bjó í Reykjavík en nýja starfinu fylgdu vistaskipti, enda er Eyþing með aðsetur á Akureyri og þangað flutti Vigdís og fjölskylda og festi kaup á einu af virðulegustu eldri húsum Akureyrar, Hafnarstræti 3. Húsið er sannarlega glæsilegt og sögufrægt en kallar á miklar endurbætur.
Á dögunum tók Vigdís fram kúbeinið og hófst handa við niðurrif innanhúss í Hafnarstrætinu. Á vesturvegg í stigauppgangi var veggfóður sem Vigdís vildi losna við. Við nánari skoðun reyndist það vera límt á plötu sem hafði verið fest á eldri þilplötur.
Veggfóðursplatan fékk að fjúka og viti menn. Við blasti stórt olíumálverk sem hafði verið málað beint á vegginn, af Svarfaðardal. Það var Vigdísi reyndar ekki ljóst þegar málverkið blasti við henni. Dalinn þekkti hún ekki en sýndi samstarfsfólki ljósmynd af verkinu á kaffistofunni í vinnunni og þá fóru hjólin að snúast.
Hafnarstræti 3
Áður en lengra er haldið er ástæða til að gera hér í stuttu máli grein fyrir umræddu húsi, Hafnarstræti 3 á Akureyri. Í fróðlegri bók Hjörleifs Stefánssonar um Fjöruna og Innbæinn á Akureyri segir hann að á lóð þessa húss hafi áður staðið hús Havsteensverslunarinnar sem brunnu 19. desember 1901.
Johann Gottfeld Havsteen eignaðist húsin eftir föður sinn og bjó þar meðan hann var amtmaður á Norðurlandi. Hann fluttist síðan suður og gerðist amtmaður fyrir Suður- og Vesturland og seldi þá húsið til Klemensar Jónssonar sýslumanns og bæjarfógeta.
Klemens var eigandi húsanna þegar þau brunnu 1901. Hann fór þá til Noregs og keypti efni í nýtt hús og er tilgátan sú að húsið hafi komið tilsniðið til landsins, eins og vel var þekkt í þá daga.
Sigtryggur Jónsson byggði nýja húsið á lóðinni og má ljóst vera að vandað var til verka og er það hið glæsilegasta í alla staði. Klemens bjó ekki lengi í húsinu, því hann flutti suður til Reykjavíkur árið 1905.
Margir hafa búið í húsinu frá því það reis. Um miðja tuttugustu öldina var húsinu skipt í tvær íbúðir, önnur á miðhæð og hin í risi. Á árunum 1914-1924 var símstöð í húsinu.
Áhugasamur listfræðingur
Það er skemmtileg tilviljun að Vigdís Rún Jónsdóttir er listfræðingur að mennt og því hafði hún strax áhuga á að grafast fyrir um tilurð málverksins, hversu gamalt það gæti verið, af hverju myndefnið væri Svarfaðardalur o.s.frv. Hún nýtti sér leitarvélar á Netinu en komst ekki að neinni niðurstöðu.
Eftir krókaleiðum rataði málið inn á borð undirritaðs og það fyrsta sem mér datt í hug var að hafa samband við frænda og listmálara af Göngustaðaætt, Kristin G. Jóhannsson. Hann sýndi málinu strax áhuga og úr varð að við sóttum húseigandann í Hafnarstræti 3 heim til þess að skoða málverkið og reyna að gera okkur í hugarlund hvernig á þessu öllu gæti staðið.
Óleyst gáta
Ekki þarf að orðlengja að við erum engu nær um leyndardóm olíumálverksins af Svarfaðardal.
Erfitt er að fullyrða með nokkurri vissu hvenær það hefur verið málað en þó er ýmislegt sem bendir til þess að það hafi ekki verið gert fyrir miðja síðustu öld. Hringurinn um málarann hefur ekki þrengst. Kristinn G. þekkti ekki handbragðið og treysti sér ekki til þess að setja fram tilgátu um þann sem málaði.
Málarinn er sem sagt óþekktur og ekki síður er allt á huldu um af hverju viðkomandi málaði Svarfaðardal á vegginn. Ýmsar spurningar vakna vissulega í þessum efnum.
Var málarinn tengdur Svarfaðardal?
Bjó hann sjálfur í húsinu eða var hann tengdur fólkinu sem þar bjó?
Gæti mögulega verið að húsamálarinn sem málaði Hafnarstræti 3 einhvern tímann – annað hvort að utan eða innan – hafi fengið að spreyta sig í leiðinni í listsköpun og málað Svarfaðardal?
Væntanlega hefur málarinn haft einhverja fyrirmynd, kannski ljósmynd eða ef til vill póstkort af málverki? Hvað með verk Ásgríms Jónssonar af Svarfaðardal? Var það mögulega fyrirmyndin þegar málverkið var málað í Hafnarstræti 3?
Í forgrunni myndar Ásgríms eru kýr en þær að vísu hvergi sjáanlegar í málverkinu í Hafnarstræti en í þeirra stað er kominn skurður.
Framræsla mýrlendis á Íslandi hófst að marki upp úr síðari heimsstyrjöld. Kannski staðfestir skurðurinn í málverkinu að það hafi verið málað eftir að skurðagröftur hófst af krafti til sveita fyrir um sjö áratugum?
Eigendasaga Hafnarstrætis 3
Til fróðleiks skal þess getið að í bók Hjörleifs Stefánssonar kemur fram eigendasaga Hafnarstrætis 3 til um 1980.
Á neðri hæðinni var Hermann Hermannsson skráður þar eigandi frá 1952-1958, Jóhann Gunnar Raguels 1958-1967, Sigurður Anton Friðþjófsson 1966-1968, Ármann Guðjónsson 1968-1970 og Björn Sveinsson frá 1970.
Á efri hæðinni voru skráð til heimilis 1952-1980 Þorgrímur Friðriksson og Brekkhildur Bogadóttir og Eiríkur Stefánsson frá 1980.
Allar upplýsingar eru vel þegnar!
Þessi skemmtilega gáta um málverkið af Svarfaðardal er sem sagt óleyst!
Vigdís húseigandi og fjölskylda hennar hafa ekki í hyggju að mála yfir verkið, heldur miklu frekar að búa því fallegri umgjörð með því að setja um það ramma sem hæfir.
Allar upplýsingar og getgátur eru vel þegnar!
Texti og myndir: Óskar Þór Halldórsson
894 4294 – reynilundur6@gmail.com
Flott hús sem Vigdís hefur krækt í, en ekki þekki ég þennan listamann enda er ég að sunnan.
Það er erfitt að vera viss en ýmislegt mundi ég telja benda á Hauk Stefánsson. Hann bjó á Akureyri og málaði einmitt beint á veggi í mörgum húsum þar. Þá er sumt í handbragðinu sem mér þykir minna á hann: Skörp teikning í fjöllunum, örlítið ýktir litir, en kannski sérstaklega pensilskriftin á börðunum í holtinu neðst til vinstri. Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, hefur rannsakað Hauk manna best og hjá honum mætti leita ráða. Hér má finna minningargrein Hauks í Degi: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2649389
Guddi Kristins var mjög vel að sér til munns og handa, en mér finnst miklu sennilegra að Haukur Stefánsson hafi gert myndina, vegna aldursmunar beggja listamannanna
og Haukur var þekktur listamaður á Akureyri á sinni tíð.