Mikil gleði og ánægja ríkti með þorrablót Svarfdælinga á Rimum á laugardagskvöldið var, enda vel að því staðið á allan hátt og vandað til verka af hálfu þorrablótsnefndar.
Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir var veislustjóri og kætti gesti mjög með athugasemdum og sögum sem áttu rætur bæði ofan þindar og neðan á mannslíkamanum. Hann hafði með sér fleiri framlínumenn í tónlist til að leika undir í fjöldasöng og eigin söng skagfirska tenórsins: Sindra Má Heimisson skólastjóra Kristinssonar á Húsabakka og Styrmi Traustason á Hofsá. Frammistaða píanóleikarans unga verðskuldar að hann hljóti útnefningu sem senuþjófur þorrablótsins í ár. Styrmir er vel að þeirri nafnbót kominn. Hann er nú þegar orðinn miklu meira en efnilegur tónlistarmaður.
Atli Þór Friðriksson í Koti gerði líka sterkt tilkall til útnefningar sem senuþjófur. Hann sýndi eftirminnilega takta sem leikari, bæði á sviði og í myndböndum sem voru sýnd sem hluti af fréttaannálnum, hápunkti kvöldsins. Þarna er ábyggilega kominn efniviður handa Leikfélagi Dalvíkur til að vinna með.
Annar kandídat hefði líka verðskuldað útnefningu sem senuþjófur kvöldsins: Einar Hafliðason á Urðum, höfundur vel samins og skemmtilegs brags um þorrablótsnefndina. Það var til siðs á þorrablótum áður fyrr að fluttur væri skemmtibragur um undirbúningsnefndirnar og vel til fundið að koma þessum lið á dagskrá á nýjan leik. Einar á Urðum er hagmæltur vel og hnyttinn spaugari. Skraddarasaumaður í hlutverkið.
Styrmir hlýtur samt nafnbótina, með fullri og mikilli virðingu fyrir frammistöðu hinna.
Sölvi Hjaltason á Hreiðarsstöðum og huldumaðurinn eða huldumennirnir að baki annál kvöldsins stóðust allar kröfur um efni og flutning. Linnulausar hláturrokur í salnum jafngiltu sex stjörnum af fimm mögulegum í kvikmyndaumsögn. Skemmtiatriði á sviði og sér í lagi myndbandsbrot í annálnum voru skemmtileg og vel útfærð.
Síðast en ekki síst ber að nefna sjálfa umgjörð þorrablótsins: fjósbyggingafaraldur og róbótavæðingu mjólkurframleiðslu í Svarfaðardal. Þetta birtist í annálnum, í skreytingum á borðum og víðar á Rimum. Karlarnir í þorrablótsnefndinni voru uppáklæddir í merktum göllum helstu framleiðenda lausagöngufjósa og mjólkurróbóta sem höfðu verið tilsniðnir sem lafafrakkar. Svarfdælingar ættu að sækja um einkarétt á þessum flíkum. Erlendu fyrirtækin munu ella hirða hugmyndina, gera í hvelli að sinni og fara út í fataframleiðslu á grundvelli hönnunar á Rimablóti 2018.
Svo var dansað fram á rauða nótt. Hljómsveitin góða var enn að klukkan hálf fjögur og margir á dansgólfi. Það skipti líka engu máli hvað klukkunni leið, þeim fjölgar stöðugt kúabúunum þar sem tölvustýrðar maskínur sjá um mjaltirnar allan sólarhringinn og bændur fylgjast með í farsímum, hvort sem þeir eru á blóti eða á Tenerife.
Róbótar voru vel upplagðir að morgni sunnudags og mjólkuðu möglunarlaust sem aldrei fyrr á meðan bændur sváfu úr sér blótið. Þannig er Svarfaðardalur í dag.
Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson
Birtist fyrst í DB-blaðinu í Dalvíkurbyggð 1. febrúar 2018