Nýir eigendur tóku við rekstri Kaffi Loka á Skólavörðuholti núna um áramótin. Formleg eigendaskipti áttu sér stað síðdegis á gamlársdag.
Nýir eigendur Loka eru hjónin Perla Rúnardóttir og Bjarni Björnsson og Valdimar Hilmarsson. Sá síðastnefndi er sjóaður í bransanum og á og rekur veitingahúsið Sölku Völku að Skólavörðustíg 23. Perla og Bjarni eru hins vegar mætt á nýjan starfsvettvang, hún hefur starfað við útflutning á fiski, hann er bifvélavirki. Perla verður framkvæmdastjóri Loka.
Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson keyptu húsið að Lokastíg 28 fyrir tólf árum og opnuðu þar Kaffi Loka fyrir tíu árum. Þau færðu síðar út kvíar og voru með veitingareksturinn á tveimur hæðum síðustu árin. Á gamlársdag var hvert einasta sæti skipað frá því opnað var og dugði ekki til svo eftirspurn yrði annað. Erlendir áramótaferðamenn í höfuðborginni fjölmenntu á Loka, staðurinn nýtur mjög góðs af nálægð við Hallgrímskirkju, fjölsóttasta áningarstað ferðafólks á Íslandi.
Ætlunin var að loka Loka kl. 16 á lokadegi ársins en fráfarandi eigendur kviðu því nokkuð að glíma við gestastrauminn til að geta þá skellt í lás og farið að undirbúa áramótagleði heima hjá sér í nýrri tilveru. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef þurft hefði að ræsa út lögreglulið til að rýma húsið á síðustu stundu rekstrar á vegum Hrannar og Þórólfs!
Húslyklar skiptu um eigendur á fjórða tímanum á gamlársdag. Athöfnin var þannig í anda þess sem gerist þegar nýtt fólk tyllir sér í ráðherrastóla í Stjórnarráðinu. Svo var skálað kampavíni á Loka en slíkt er reyndar ekki gert í Stjórnarráðinu fyrr en fréttafólk með myndavélagræjur er horfið úr ráðherrakontórunum.
Nýir eigendur Loka segjast taka við góðu búi og ætla að reka staðinn á svipuðum nótum áfram. Enda sé óþarfi að breyta formúlu sem gefist hafi vel.
Perla framkvæmdastjóri tók það sérstaklega fram að gefnu tilefni að Svarfdælingar væru áfram sérstaklega velkomnir og allir aðrir viðskiptavinir sem haldið hafi tryggð við Loka undanfarin ár.
Því skal komið á framfæri hér og nú um leið og Hrönn og Þórólfi er óskað velfarnað í því sem þau taka sér fyrir hendur í framhaldinu, hvað svo sem það nú kann að verða!

Lyklar + hús og rekstur skipta um eigendur. Frá vinstri: Þórólfur Antonsson, Valdimar Hilmarsson, Hrönn Vilhelmsdóttir, Bjarni Björnsson og Perla Rúnarsdóttir.