Botn sleginn í gönguárið í frumskógum Heiðmerkur

Staðlað

Getur hundur ársins verið tík? Áleitinni spurningu varpað fram snemma morguns í gönguklúbbnum og líknarfélaginu Sporinu í anda dólgafemínismans sem gekk að manni ársins dauðum. Svars er beðið.

Fimm Sporverjar (manneskjur á mannbroddum) mættu á borgarstjórabílaplanið í Heiðmörk um áttaleytið í morgun í frosti og svarta myrkri. Planið er kennt við Gunnar Thoroddsen. Vala var heimavinnandi.

Geisli mætti líka. Hann er hundur ársins 2017 hjá Sporinu. Heppinn að vera ekki tík, leitar jafnt á karla og konur í Sporinu en lítur ekki við karlhundum og því síður tíkum. Hvað segja dólgafemínistar við því?

Reynir Geisli við mig í dag? Nagandi spurning liðsmanna Sporsins á hverjum laugardagsmorgni frá upphafi til enda árs 2017.

Hópurinn stækkar oftast í brauðhúsinu efst á Grafarholtshæðum. Þar enda laugardagsgönguferðir Sporsins ævinlega og oftar en ekki er fjölmennara þar um tíuleytið en á astraltertuplani kl. 8. Eðli máls samkvæmt. Það hafa ekki allir tök á því að ganga alltaf og ævinlega.

Göngumenn dagsins áðu að sjálfsögðu við Dalvíkurgrenitréð sem Sporið fóstrar í sjálfboðavinnu fyrir Dalvíkurbyggð og reyndar heimsbyggðina alla ef út í það er farið.

Traðkið í kringum tréð benti til þess að fjölmennt hafi verið þar í rjóðrinu um jólin. Til dæmis kom þarna í heimsókn gönguhópurinn Vesen og vergangur. Hann birti myndir af Dalvíkurtrénu á fésbókarsíðunni sinni en vék engu myndmáli að Hríseyjarhríslunni, enda lítur hún út eins og slánalegur unglingur sem fékk að fara á Þorláksmessuskrall er enn að leita að dyrabjöllunni heima, kominn aðfangadagur og allt í volli.

Gönguárið er liðið í aldanna skaut en það kemur alltaf nýtt ár í staðinn. Og Geisli verður á sínum slóðum 2018, leitandi hundur sem tæplega getur orðið tík næsta árs. Hefðin í Sporinu er samt að útiloka ekkert í tilverunni, hvorki mannlegt né dýrslegt.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s