Í þriðja sinn á skurðarborð á hálfu ári eftir mótorhjólaslys

Staðlað

Þröstur Karlsson þáði boð um að koma í stóðréttir í Svarfaðardal 1992. Honum leist vel á sig og nokkrum árum síðar keypti hann þriðjung lands á jörðinni Jarðbrú og byggði þar glæsilegt hús. Hann á fyrirtæki fyrir sunnan en er óvinnufær. Stærsta verkefnið nú er að ná sér sem mest eftir mótorhjólaslys sem var nálægt því að kosta hann lífið.

25440047_1755198248121294_7310291770908041325_o

Þröstur á Landspítala skömmu fyrir jól. Hann er nú kominn heim og bíður enn einnar aðgerðar.

„Slysið átti sér stað 12. júní í sumar. Nú leggst ég undir hnífinn í þriðja sinn og í fjórða sinn í febrúar eða mars til að koma hægri handlegg og úlnlið í eins gott horf og mögulegt er. Varanlegar afleiðingar verða ekki metnar fyrr en að öllum aðgerðum loknum. Núna er ég óvinnufær með mann í vinnu við að reka fyrirtækið mitt. Ég sting í mesta lagi nefinu inn til að fylgjast með og fá mér kaffi frekar en hanga heima yfir engu.“

Þröstur á fyrirtækið Brimco ehf. í Mosfellsbæ og hefur gert frá árinu 1994. Hann var áður verslunarstjóri Samkaupa í Hafnarfirði í áratug og síðar verslunarstjóri í Nettó í Mjódd í fimm ár.

Samtalið átti sér stað í Brimco síðdegis 18. desember. Klukkan sjö að morgni 19. desember var Þröstur svæfður á Landspítala og læknar fóru að krukka í úlnliðnum á honum – einu sinni enn.

Fyrsta kerran fór í Hóla

Á árinu 1994 keypti Þröstur félagið Brimco af hjónum í Kópavogi sem fluttu inn nærfatnað kvenna og fleira. Hann byrjaði að flytja inn hestakerrur frá Þýskalandi í nafni Brimco og gerir enn. Áður flutti hann út íslensk hross til Þýskalands og seldi. Þar kynntist hann hestakerrum sem síðar urðu hluti af lifibrauðinu hans.

Þröstur er hestamaður sjálfur og fyrir honum vakti að stofna til rekstrar í frístundum við hlið verslunarstarfanna. Fyrsti viðskiptavinur Brimco var Hólaskóli í Hjaltadal. Þangað fór fyrsta hestakerran.

Innan tíðar var farið að smíða kerrur hér innanlands á vegum Brimco. Sú fyrsta var fyrir golfklúbbinn Kjöl í Mosfellsbæ, ætluð undir sláttuvél vallarins.

Svo færði Brimco út kvíar með því að flytja inn kerruhluti og varahluti og stofna líka til viðhalds- og viðgerðarþjónustu fyrir kerrurnar.

„Umfangið jókst stöðugt og á árunum 2006 og 2007 blasti ekkert annað við en að ég sneri mér að rekstri Brimco í fullu starfi og segði skilið við Nettó í Mjódd. Það gerði ég en fáeinum mánuðum síðar gerðist það sem engan óraði fyrir. Þrír viðskiptabankar hrundu með tilheyrandi afleiðingum og samdrætti í öllu þjóðfélaginu.

Aðstæðurnar gjörbreyttust á einni nóttu hjá mér, líkt og flestum öðrum. Allir héldu að sér höndum og hættu að kaupa nokkurn skapaðan hlut nema brýnustu lífsnauðsynjar. Skuldir tvöfölduðust en eignirnar ekki. Tekjurnar hurfu að miklu leyti.

Þetta var mjög erfiður tími en mér tókst að sigla í gegnum brimgarðinn uppréttur. Árið 2011 fóru hlutirnir að færast smám saman í eðlilegra horf.“

Hver vegna ekki að óska eftir tilboðum?

Innflutningur á kerrum af öllu tagi er enn stærsti hluti starfseminnar ásamt varahluta- og viðgerðaþjónustu. Brimco selur líka ýmsar vörur fyrir bændur og hestamenn: innréttingar í útihús, hliðgrindur, rafgirðingar, skeifur, undirdýnur fyrir hnakka, hreinsiefni og margt fleira. Meira að segja bílalyftur frá Kína og stórvirkar sláttuvélar með laufsugum. Reykjavíkurborg keypti eina slíka sláttuvél fyrr á árinu og kom í ljós að hún var til fleiri hluta nytsamleg en að tína upp í sig laufblöð. Græjunni var til dæmis leikur einn að sjúga upp öl- og gosdósir sem gestir á Menningarnótt köstuðu frá sér þar sem þeir voru staddir! Þetta er því þjóðþrifavél í bókstaflegri merkingu.

„Ég er með umboð fyrir mjög öflugar og góðar fjósinnréttingar frá Þýskalandi. Þær er til dæmis að finna á Hóli í Svarfaðardal, bæði í nýja fjósinu og því eldra sem tekið var í gegn þegar hitt var risið.

Annars finnst mér bændur ekki velta hlutunum nægilega fyrir sér þegar þeir eru að fara í dýrar stórframkvæmdir á borð við lausagöngufjós með mjaltaþjónum. Þeir ættu að kanna fleiri kosti og fá tilboð úr sem flestum áttum til að vega og meta frekar en að ákveða bara að kaupa eitthvað sem þeim líst vel á!“

Fékk meira en nóg af stjórnmálavafstri

Þröstur var um árabil stjórnmálamaður í heimabyggðinni en hætti pólitískum afskiptum árið 2006 og klippti á alla strengi við þann hluta fortíðar sinnar.

„Ég vildi ekki einu sinni fá sent fréttabréf frá Framsóknarflokknum og gjörhætti allri pólitískri starfsemi. Nú fylgist ég einungis með úr fjarlægð eins og hver annar.

Mér líst annars vel á það sem framsóknarmenn gera núna og óska flokksformanninum til hamingju með ríkisstjórnarsamstarfið og að vera laus við frekjuhundana og fýlupokana sem stofnuðu Miðflokkinn.

Sigurður Ingi Jóhannsson byggir nú flokkinn upp á nýjum grunni, laus við myglu og alkalískemmdir sem voru langt komnar með að eyðileggja allt burðarvirkið í Framsóknarflokknum!

Minn skammtur í pólitík var að vera bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ í tólf ár, þar af í átta ár í meirihlutasamstarfi með Samfylkingunni. Menn sem taka slík trúnaðarstörf að sér gefa í raun sál sína og vinnuþrek fyrir lítið. Allur minn tími í átta ár fór í sveitarstjórnarmálin á meðan við vorum í meirihluta.

Sveitarstjórnarmenn uppskera oft litla velvild en mikla gagnrýni og oft afar ósanngjarna. Fólk endist ekki lengi í þessu. Ég heyrði í fréttum að áberandi margir sveitarstjórnarmenn vildu ekki gefa kost á sér til endurkjörs í kosningunum vorið 2018. Það skil ég vel.“

Reisti yfir sig nýja Snerru

snerra

Nýja Snerruhúsið hans Þrastar ofarlega á Jarðbrúartúninu.

Þröstur er Húnvetningur að uppruna, fæddur og uppalinn á Skaga. Hann á engin skyldmenni í Svarfaðardal og þekkti lítið til á þeim slóðum. Svo var honum boðið í stóðrétt á Tungunum og eitt leiddi af öðru. Hann kynntist öðrum hestamönnum og fleira fólki, leið vel og líkaði vel. Svo fór að hann keypti þriðjungs lands á Jarðbrú og reisti heilsárshús á Gerðistúninu svokallaða ofan vegar þar sem áður stóð sumarbústaðurinn Snerra. Stefán Guðnason læknir byggði bústaðinn á seinni stríðsárunum en Snorri Sigfússon námstjóri keypti skömmu síðar húsið og nefndi Snerru. Enn síðar eignuðust þrír bræður og Jónssynir Snerru: Jón á Jarðbrú, Jóhann á Dalvík og Sigurður í Reykjavík.

Gamla Snerra er horfin fyrir þó nokkrum árum en ný Snerra Þrastar er risin í staðinn. Hann horfði fyrst í kringum sig en valdi fljótlega þennan reit og hóf framkvæmdir árið 2009. Annar staður kom reyndar ekki til greina þegar að var gáð og nú gnæfir Snerruhúsið fína mynduglega yfir miðsveitinni.

„Ég er með hross á Jarðbrú og á hlut í vélum og tækjum þar, enda þarf ég að heyja handa hestunum. Doddi á Jarðbrú (Þorsteinn Hólm Stefánsson) er bústjóri og heldur vel utan reksturinn og starfsemina. Af því þarf minna en engar áhyggjur að hafa.

Mér líður vel í Svarfaðardal, manninum sem er eins mikið aðfluttur þar og mögulegt er!“

 Sekúndubrot frá dauðanum

Svo víkjum við tali að örlagadeginum 12. júní 2017 þegar Þröstur Karlsson horfði eitt augnablik yfir landamæri lífs og dauða en fór sem betur fer ekki yfir þau. Þar munaði samt ekki nema sekúndubroti og sentímetrum.

„Ég fékk áhuga á því að fá mér mótorhjól og prófa að setjast í hnakk á vélfáki. Hefðbundinn hestamaður vildi prófa annars konar reiðmennsku! Ég tók mótorhjólaprófið í maí 2017 og flutti inn nýtt mótorhjól.

Þennan dag, 12. júní, lét ég skrá hjólið hjá Aðalskoðun við Dalshraun í Hafnarfirði. Að því loknu fór ég út á Hafnarfjarðarveg áleiðis til Reykjavíkur og stoppaði við rautt umferðarljós á gatnamótum nálægt íþróttasvæði FH.

Þegar græna ljósið kom lagði ég rólega af stað á ný og beygði til vinstri en sá þá útundan mér að hvítur bíll kom á hvínandi siglingu að gatnamótunum og keyrði mig niður án þess að bílstjórinn hægði á sér, hvað þá hemlaði. Það mældist ekki vottur af bremsuförum. Mótorhjólið brotnaði í tvo hluta sem þeyttust burtu og ég lá eftir í blóði mínu á götunni.

Í hvíta bílnum voru Asíubúar á bílaleigubíl, nýkomnir til Íslands. Þetta voru fyrstu umferðarljósin sem urðu á vegi þeirra frá Keflavíkurflugvelli. Þeir komu að gatnamótunum á mikilli ferð, annað hvort tóku þeir ekki eftir umferðarljósunum eða skeyttu ekki um þau. Þeir stigu út úr bílnum, stóðu yfir mér og spurðu: Are you OK?! Er ekki allt í lagi með þig?

Það átti nú að vera býsna augljóst að ég var víðsfjarri því að vera í lagi!

Hjálmurinn og gallinn björguðu miklu, hvoru tveggja keypti ég að ráðum mótorhjólalöggu sem ég þekki. Ég fótbrotnaði en langverst fór hægri handleggurinn og úlnliðurinn. Þar var opið beinbrot og sjúkraliðar tíndu upp beinhluta og flísar í poka og höfðu með í sjúkrabílnum á slysadeildina til að læknar gætu reynt að púsla brotunum saman.

Beinbrotið var eitt hið ljótasta sem læknar höfðu séð. Samt tókst þeim að negla og spengja furðumikið saman. Nú eru beinin gróin og verkefnið er að styrkja og lagfæra og reyna að fá hreyfingu í úlnliðinn. Hugsanlega þarf að flytja til beinflísar í líkamanum til að ná betri árangri, það fæ ég að vita síðar.

Meðvitund missti ég aldrei. Hjálmurinn varði höfuðið og ég slapp blessunarlega við innvortis blæðingar. Ef bíllinn hefði lent á mér nokkrum sentímetrum lengra til vinstri á hjólinu væri ég örugglega ekki að ræða við þig núna.

Þarna munaði ótrúlega litlu að augnablikið yrði mitt síðasta hérna megin grafar. Vanur mótorhjólamaður hefði trúlega reynt að bjarga sér með því að gefa allt í botn og freista þess að komast frá hvíta bílnum en sem betur fer prófaði ég ekkert slíkt. Ég hefði þá lent í staðinn á einhverjum öðrum bíl eða bílum með jafnvel enn hrikalegri afleiðingum.

Í febrúar eða mars leggst ég á skurðarborð í fjórða sinn og staðan verður metin í framhaldinu. Ég er óvinnufær og næ mér aldrei til fulls. Varanleg örorka verður ekki metin fyrr en sjúkra- og endurhæfingarferli lýkur.

Ég varð að ráða mann til að reka Brimco og er bara gestur í fyrirtækinu mínu af og til, rétt til að fá mér kaffi og fylgjast með.

Auðvelt er það ekki að vera kippt á svipstundu út úr daglegri rútínu. Illt er að venjast því að geta ekki unnið.

Þegar horft er til baka staldrar maður óneitanlega við hve ótrúlega stutt bil getur verið á milli lífs og dauða.

Þegar öllu er á botninn hvolft kann maður betur en áður að meta lífið og ýmis lífsgæði sem ég tæplega tók eftir áður. Það leitar ekki síst á hugann þegar jólin eru í þann veginn að ganga í garð.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s