Skötumáltíðin á Loka á Skólavörðustíg var unaðsleg í Þorláksmessuhádeginu og þétt setinn Svarfaðardalur á efri hæðinni. Góðvinir hurfu glaðir á braut en samt með kökk í hálsi af því veitingahaldararnir Hrönn og Þórólfur pakka saman um áramótin. Þau verða ekki yfir skötupottum þar að ári.
Allt er umbreytingum háð, líka rekstur Loka. Meira að segja fiskbúðin hans Tona á Dalvík var ekki eilíf líkt og sárasaklaus drengur úr miðsveitinni hélt um árið. Toni _–Anton fisksali og faðir Þórólfs á Loka, var eftirminnilegur hluti af tilverunni í kaupstaðarferð ungmennis úr Tjarnarsókn.
Skata var þá borðuð af og til í byggðarlaginu árið um kring en lítil sem engin hefð fyrir skötuáti á Þorláksmessu framan af. Skrifari veit til dæmis af bæ í miðsveitinni þar sem rekin var meðvituð sjálfspíningar- og sveltistefna á Þorláksmessu. Heimafólki bauðst þá ekki annað en grjónaglundur og brauðafgangar úr KEA-bakaríi til að tryggja að mannskapurinn yrði kjökrandi af svengd og katólskættuðum guðsótta þegar uppbyggilegur matur yrði loks á borð borinn eftir fjóstíma á aðfangadagskvöld. Skata hefði verið himnasending en kom aldrei til greina.
Á aðfangadagskvöld máttu menn hins vegar rífa í sig stjórnlaust, losa um mittisólar og fá svo biskupinn í eftirrétt eftir að norska Tandberg-sjónvarpið fór að varpa herra Sigurbirni svart-hvítum inn í stofuna.
Einn tiltekinn Dalvíkingur var hins vegar fastur skötukaupandi hjá Tona í fiskbúðinni á þessum árstíma: Daníel Ágúst Daníelsson, héraðslæknir í Árgerði. Hann fæddist og ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð og flutti með sér þann sið að vestan að borða skötu á Þorláksmessu. Toni tryggði að það gengi eftir.
Þegar fram liðu stundir fór vestfisk skötumenning í aðdraganda jóla að breiðast út um allar byggðir landsins, þar á meðal Dalvík og Svarfaðardal. Skatan var hins vegar hluti af genamengi doktorsins í Árgerði líkt og annarra Vestfirðinga.
- Daníel Á. Daníelsson var læknir á Siglufirði 1939 til 1944 en eftir það þjónaði hann Dalvíkurlæknishéraði allt til ársins 1972.
Hrönn og Þórólfur fengu skötuna í fiskbúðinni Hafrúnu og hún fékk fyrstu ágætiseinkunn hjá gestum á Loka. Margir létu eina ferð að pottunum ekki duga og þeir hörðustu fóru oftar. Þarna mátti líka fá alls slags síld, hákarl og silung frá Skútustöðum í Mývatnssveit.
Heiðmerkurgönguhópurinn Sporið fyllti eitt langborð og í grenndinni voru meðal annars Ólaf Adamsdóttir og Hreinn vegamálastjóri Haraldsson, Haraldur Bjarnason blaðamaður og sonur hans Andri Freyr og Svava Aradóttir Dalvíkingur og Jón Rafnsson bassaleikari.
Lið frá Kastljósi RÚV var þarna líka en það er ekki nógu frægt til að vera nafngreint í virðulegum fjölmiðli á borð við Svarfdælasýsl.
Skötumáltíðin á Loka fær 11 stig af 10 mögulegum. Þórólfur og Hrönn hætta á toppnum.