Laugardagurinn varð til lukku. Magnaðir og ljúfir tónleikar Kristjönu Arngríms og liðssveitar hennar í Fríkirkjunni síðdegis og strax á eftir stuð- og fræðasamkoma Svarfdælinga á Loka á Skólavörðuholtinu.
Jólatónleikar Kristjönu eru hefðbundin athöfn í desember og óbrigðult tákn um hvað í vændum er á dagatalinu. Söngur mæðgnanna Kristjönu og Aspar Eldjárn er meira en einnar messu virði og þegar með þeim eru svo Örn Eldjárn með gítarinn, Hjörtur Yngi Jóhannsson á píanó og Jón Rafnsson á kontrabassa, ja þá þarf ekki að biðja um meira.
Guðrún Gunnarsdóttir var áður kynnt sem sérstakur gestur tónleikanna en hún vaknaði með ráma rödd að morgni laugardags og varð að halda sig heima. Þær Kristjana munu í staðinn mæta tvíefldar til leiks á sameiginlegum tónleikum á nýju ári.
Svo barst leikurinn á veitingastaðinn Loka þar sem Þórólfur og Hrönn ráða ríkjum – ennþá. Þau hafa selt húsið og reksturinn og hverfa á braut um áramótin. Það var afar vel viðeigandi að auglýsa opið hús á efri hæðinni á loka strax eftir Fríkirkjutónleikana. Húsið troðfylltist og afkomendur og viðhengi Dalsins áttu ljúfar stundir í framhaldinu.
Maður er manns gaman og Svarfdælingar komast gjarnan langt á því einu saman. Það kryddaði tilveruna alveg sérstaklega að Júlli Jónasar sýndi myndir úr menningarsjóði föður síns, Jónasar á bílaverkstæðinu Hallgrímssonar. Það sem menn skemmtu sér yfir þessum myndum.
Meira að segja farandkonan Stutta-Stína birtist eins ljóslifandi og kostur var á veggnum. Og þegar hún er kominn líka er þétt setinn Svarfaðardalur í alla staði.