Fuglarnir eru komnir út úr skápnum

Staðlað

Jóhanna Sigurðardóttir kemur formlega út úr skápum núna í jólabókaflóðinu. Það gera fuglar landsins líka – í bók Hjörleifs Hjartarsonar og Ránar Flygenring. Svo segir Hjöri alla vega.

Bókin Fuglarnir var kynnt í fjölmenni, tali og tónum í miðborginni og hún lofar góður. Sýslarinn las fyrri hlutann undir svefn síðastliðna nótt, fræddist heil ósköp um fuglalíf og fuglastofna, hló margoft innra með sér og nokkrum sinnum í rokum upphátt.

Þetta er hunda-í-óskilum nálgun í náttúruvísindum, óskilafuglavísindi.

Afskaplega fínar, lýsandi og spaugilegar teikningar eftir Rán, bráðskemmtilegur og vel stílaður texti Hjöra á Tjörn.

Fuglarnir eru hvorki vísindarit né reyfari, hvorki alvörubók né grínbók. Þetta er alvörugrínbók. Alls kyns fróðleikur um fugla og meira að segja uppskrift að grágæsarbringu með sósu. Það nýtist Sýslara að vísu ekki en skítt með það.

Hins vegar var fengur að þeim upplýsingum að súlan væri með „þennan ómótstæðilega augnskugga, alltaf eins og nýkomin af árshátíð.“

Fengur er líka að upplýsingum um stormsvölur. Þær eru minnsti sjófugl sem verpir hérlendis og er svo sjaldgæf að hún verpir nánast hvergi. Sýslari hefur aldrei fyrr heyrt minnst á stormsvölu, heldur ekki í Vestmannaeyjum. Samt poppar úr henni eitt og eitt egg í hreiður þar.

Í bókinn er stormsvalan sögð

„ …kátur lítill næturfugl sem líður vel í glöðum hópi, masandi og syngjandi í holum sínum langt fram eftir nóttu. Sjósvalan og skrofan mega gjarnan vera með í boðinu. Því fleiri, því betra. Svona hressilegt partístand er raunar dæmigert fyrir Vestmannaeyinga.“

Veit ekki um útstáelsi á stormsvölum en staðfesti að í Eyjum eru ein bestu partí landsins og standa bæði lengi og ítarlega.

Meðal gesta í útgáfuteitinu var Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og Svarfdælingur. Forlagið Angústúra gefur út Fuglabókina en einnig sígilda ævintýrið Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll með teikningum eftir japanska listakonu, Yayoi Kusama. Listaverk. Þórarinn Eldjárn þýddi. Gáum að því.

Hér fylgja myndir úr útgáfuteitinu og upptaka líka af atriði Söngfjelagsins í Reykjavík. Hjöri og Daníel Þorsteinsson sömdu Fuglakabarett fyrir Barnakór Akureyrarkirkju og hvað var meira viðeigandi en að syngja valda kafla úr honum af þessu tilefni.

Í lokin, hjörleifskur texti úr kynningartæklingi forlagsins, Angústúra:

Þetta er ekki góð fuglagreiningarbók. Fuglarnir í henni eru illa teiknaðir og textinn fullur af fordómum og tilgerð. Vert er að hafa það í huga við lesturinn. Hafir þú hins vegar áhuga á krassandi sögum af áhættusækni, skrautfíkn og ástarlífi íslenskra fugla, og hvers kyns sérvisku sem tengist þeim, þá er þetta rétta bókin fyrir þig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s