Stjarna kvöldsins var Jökull Bergmann á Klængshóli. Gestgjafarnir gerðu ráð fyrir 80 gestum, kannski 100. Húsið troðfylltist svo gjörsamlega að ekki var tölu komið á mannskapinn. Engar voru heldur löggur á staðnum til að giska gáfulega á fjöldann eins og embætti lögreglu höfuðborgarsvæðisins reynir frekar af veikum mætti en getu í miðbæ Reykjavíkur á þjóðhátíðardaginn ár hvert.
Staðurinn var sportvöruverslunin Fjallakofinn í Kringlunni í Reykjavík, stundin var 15. nóvember 2017 og tilefnið sameiginleg kynning fyrirtækjanna Bergmanna/Arctic Heli Skiing og Fjallakofans á fjallaskíða- og þyrluskíðaferðum í vetur.
Aðdráttarafl kvöldsins var tvímælalaust fjallaleiðsögumaðurinn og frumkvöðullinn í Skíðadal. Hann byrjaði með því að sýna magnað kynningarmyndband tekið upp á Tröllaskaga. Í salnum heyrðust menn af og til grípa andann á lofti af óttablandinni hrifningu þegar ofurmenni á skíðum blússuðu niður snarbrattar hlíðarnar og stefndu beint í öldurót við ströndina fyrir neðan.
Eitt ofurmennið lét sig meira að segja vaða niður gil í sjálfri Búrfellshyrnunni í Svarfaðardal eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hver hefði nú trúað því? Alla vega ekki Manni á Tungufelli í den tid. Reyndar ekki nokkur kjaftur ef út í það er farið.
Klængshóll – nafli alheimsins í fjallamennsku
Jökull Bergmann er prýðisgóður, fræðandi og áheyrilegur fyrirlesari. Hann hélt athygli safnaðarins í Fjallakofanum gjörsamlega en hefði eiginlega þurft frekar fjallasal en fjallakofa til að ná almennilega til þeirra sem komust ekki inn í innri hluta verslunarinnar þar sem kynningin átti sér stað.
Jökull fór yfir ævi- og starfsferilinn, allt frá barnæsku á Klængshóli þar til hann stundaði fjallamennsku í Kanada, menntaði sig þar sem fjallaleiðsögumaður og flutti heim í Skíðadal 2008 til að byggja upp æskuheimilið sem setur fyrir fjallaskíðamennsku og síðar þyrluskíðamennsku á Tröllaskaga. Hann er frumkvöðull að því sem orðið er að umsvifamiklum og glæsilegum sprotum í ferðaþjónustunni hér á landi.
Heimsnafli fjallaskíðamennsku er í Skíðadal
Suðurskautslandið, Svalbarði, Japan, Marokkó
Á meðan skíðatíðin stendur yfir koma hingað þotur frá Sviss tvisvar í viku fullbókaðar af farþegum á leið á skíði og fjallamennsku á Tröllaskaga. Það segir sína sögu.
Fæstir á kynningarfundinum vissu auðheyrilega áður að fyrirtækið Bergmenn í Skíðadal teygir anga starfseminnar víða um land og um veröldina þvera og endilanga.
Undanfarin tvö ár hafa Bergmenn komið við sögu fjallaskíðamennsku á Austurlandi og gert út frá Mjóeyri við Eskifjörð.
Á Ísafirði koma Bergmenn við sögu seglskútuskíðamennsku og sömuleiðis á Eyjafirði.
Leiti menn eftir enn æsilegri ævintýrum erlendis er til dæmis hægt að bóka sig hjá Bergmönnum í fjallaskíðaferðir til Japans þar sem er víst meiri og dýpri lausamjöll í fjallshlíðum en þekkist víðast annars staðar. Skíðahéruð í Japan eru enn meiri snjóakistur en Skíðadalur. Þar eystra þykir ekki sérstaklega í frásögur færandi að snjódýpt mælist einn metri eftir nóttina.
Bergmenn eru líka með umboð fyrir fjallaskíðaferð til Suðurskautslandsins einu sinni á ári. Þar er einn leiðsögumaður fyrir hverja fjóra skíðamenn og ævintýrin eru ekki til að lýsa í orðum heldur upplifa.
Svalbarði og skútuskíðaferðir með Bergmönnum. Síbería, Alparnir, Kanada. Meira að segja fjallaskíðamennska í Afríkuríkinu Marokkó. Gleymum ekki austurströnd Grænland, granna vorum. Enn eitt skíðasvæðið þar sem Bergmenn drepa niður fæti – á skíðum.
Sömu gestir ár eftir ár
Fjallaskíðamennskan var upphafið, svo bættist við þyrluskíðaleiðsögn hjá Jökli og samstarfsfólki hans. Sá angi starfseminnar hefur heldur betur hlaðið utan á sig. Júnímánuður er að verða annasamasta tíð þyrluskíðamennskunnar en tíð fjallaskíðamennsku lýkur í maí.
Sama fólkið kemur ár eftir ár eftir ár. Það sækist eftir góðum vorsnjó að renna sér á, það sækist eftir að sjá líka norðurljós í skíðaferðinni, það sækist eftir því að renna sér frá fjallstoppum niður í fjöru sem sjaldgæft er í heiminum.
Síðast en ekki síst, segir Jökull Bergmann, eru snjóalög á Íslandi þannig að hér er minni snjóflóðahætta en víðast annars staðar, til dæmis í Ölpunum.
Enginn afsláttur er samt gefinn af öryggiskröfum hér. Það kom skýrt fram hjá Jökli og í upphafi kynningarinnar í Fjallakofanum var sérstaklega kynntur öryggisbúnaður af ýmsu tagi fyrir fjallaskíðamenn, það allra nýjasta á markaðinum í þeim efnum.
Kynnt var líka fjallaskíðamót sem haldið verður í þriðja sinn á Siglufirði 11.-13. maí 2018 – Ofurtröllið/Super Troll Ski Race. Allt gerist sem sagt á Tröllaskaga. Alla vega flest.
Jökull kynnti sérstakt snjóflóðanámskeið í Skíðadal 23.-25. febrúar og fjallaskíðanámskeið 2.-4 og 9.-11. mars 2018. Leiðbeinendur eru faglærðir og með áratugareynslu.
Afar vel var staðið að kynningunni í Fjallakofanum og fagmannlega var líka staðið að því að brynna þeim er þyrstir gerðust í þrengslunum eða af spenningi við að horfa á æsileg myndböndin.
Jólakaldinn stendur alltaf fyrir sínu. Góður til fjalla og ekki síðri á láglendi.