Loki skiptir um eigendur um áramótin eftir að Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson seldu veitingahúsið virta og dáða núna í október. Þetta hlýtur að sæta umtalsverðum tíðindum meðal Sunnansvarfdælinga enda lítum við jafnan með stolti á Loka sem svarfdælskan stað í ljósi Dalvíkurróta Þórólfs.
Hrönn og Þórólfur hafa rekið Loka í hálft tíunda ár og byggt hann upp sem sérlega notalegt og geysivinsælt veitingahús sem ítrekað er lofsungið í netmiðlum og fjölmiðlum hvers konar um víða veröld. Matseðillinn hefur klára sérstöðu í veitingaflórunni og fellur gestum vel í geð hvort heldur þeir eru íslenskir eða erlendir. Ótal dæmi eru til að mynda um að sama erlenda ferðafólkið komi aftur og aftur til að borða á Loka í stuttri Íslandsheimsókn. Það segir sína sögu.
Kaupandinn er Valdimar Hilmarsson. Hann á veitingastað við Skólavörðustíg og hyggst reka Loka áfram á svipuðum nótum og verið hefur.
Hrönn og Þórólfur verða vertar á Loka til gamlársdags en hvað við tekur hjá þeim á nýju ári er óráðið eða alla vega ekki gefið upp að sinni. Núna eru þau farin til Marokkó í stutt frí og eiga inni hjá sér helling uppsafnaðs sumarleyfis frá heilum áratug í veitingabransanum til að ganga á þegar Lokatímanum lýkur.
Afar ólíklegt er að þau verði lengi aðgerðarlaus. Hún er menntaður textílhönnuður og hann er fiskifræðingur + afburða góður flatbrauðsbakari. Það má lengi komast þokkalega af með fisk, flatbrauð og textíl í handraðanum.
Loki hefur um árabil verið óformlegt félagsheimili Svarfdælinga á höfuðborgarsvæðinu. Þar hittist fólk til að ræða málin og um hríð voru reglubundnar Svarfdælasamkomur á Loka af ýmsu tilefni eða engu sérstöku tilefni.
Minnisstæðasta Svarfdælasamkoman er tvímælalaust útgáfuveisla gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt síðla árs 2013. Bókinni Krosshólshlátri var fagnað á viðeigandi hátt í bókaverslun Máls og menningar og þaðan barst leikurinn á Loka. Meðfylgjandi upptaka úr því teiti telst til menningarverðmæta.
Vefurinn Svarfdælasýsl er á sinn hátt skáættuð afurð Loka. Föstudagskvöldið 9. mars 2012 komu Svarfdælingar þar saman og sötruðu öl eða kaffi eftir atvikum. Að samsætinu loknu var puðað við það nóttina á enda að setja upp nýjan vef og þar birtust myndir af Lokasamkomunni og fleira að morgni laugardags 10. mars.
Síðan þá hafa leiðir Loka og Sýslsins legið saman oft og mörgum sinnum. Annáll þeirra samskipta er hér tekinn saman í stórum dráttum í tilefni þess að Loki Laufeyjarson hefur vistaskipti um áramót.
Kynningarmyndband sem matvinnsludeild Svarfdælasýsls gerði fyrir Loka með tæknilegri aðstoð Júlla Jónasar. Jón Páll Vilhelmsson ljósmyndaði dýrindis rétti á Loka og Guitar Islancio lagði til tónlistina (Björn Thoroddsen, Gunnar Þórðarson, Jón Rafnsson, Hjörtur Steinarsson).
Ljósmyndir úr gangnamanna- og útgáfuteitinu 2013.
Hrönn og Þórólfur urðu fyrst til að styrkja gerð heimildarmyndarinnar Brotsins. Aðstandendur myndarinnar tóku við gjöfinni, María, Stefán og Haukur.
Lokafréttir á Svarfdælasýsli
- Vorkaffi Svarfdælinga 2012
- Guðbjörg Viðja á Loka
- Loki en ekki lok
- Skötuveisla
- Ásgeir í kengúrulandi
- Málverkasýning Vigga
- Stöðugt rennerí á Loka
- Myndagleði á Loka
- Öldrykkjunámskeið í boði Kalda
- Bjórkvöld í mars 2012
- Hafgolufólk Önnu Dóru

Lokaliðið kynnir sig á vef fyrirtækisins með mynd og texta: Hér erum við fjölskyldan, Embla Sól fædd 1992 hefur unnið mikið á Loka frá upphafi og gengur í öll störf á milli þess sem hún ferðast um heiminn og lærir bókmenntir.
Anton Heiðar fæddur 1986 hefur hjálpað okkur við tölur og pælingar í kringum bókhald og rekstur. Hann er einnig liðtækur þegar kemur að viðhaldi Loka o.fl.