Í bókinni Svarfdælasýsli er fjalla um Land og syni, Húsabakkaskóla og Göngustaðaættina. Bókin er í prentun og útgáfusamkomur verða í Bergi á Dalvík fimmtudaginn 12. október kl. 20:30, í Norðurslóðasetrinu á Akureyri föstudaginn 13. október kl. 17 og í Salnum í Kópavogi laugardaginn 21. október kl. 16.
Útgefandi er Svarfdælasýsl forlag sf. sem systkinin frá Jarðbrú í Svarfaðardal stofnuðu af þessu tilefni; Atli Rúnar, Jón Baldvin, Helgi Már, Óskar Þór, Jóhann Ólafur og Inga Dóra Ingibjargar- og Halldórsbörn.
Svarfdælasýsl forlag sf. og vefurinn svarfdaelasysl.com eru tvær aðskildar rekstrareiningar en vissulega frændsystkin að ætt og uppruna.
Óskar Þór er höfundur bókarinnar að stórum hluta, Atli Rúnar er einnig höfundur efnis í tveimur köflum.
Bókin er 560 blaðsíður og þar eru birtar um 500 ljósmyndir. Fæstar myndanna hafa sést opinberlega fyrr og margar reyndar komið ekki fyrir fárra manna augu þar til nú.
Vinnsla bókarinnar hefur staðið yfir í þrjú ár og vel er vandað til útgáfunnar. Hún er að sjálfsögðu innbundin og á bókarkápu er ljósmynd af Svarfaðardalsmálverki eftir Kristin G. Jóhannsson myndlistarmann af Göngustaðaætt.
Skagamaðurinn og grafíski hönnuðurinn Þorleifur Rúnar Örnólfsson hannaði bókina, braut um og bjó hana til prentunar. Prentvinnslan var á köflum flókin en Tolli leysti alla hnúta með sóma enda sjóaður vel í bransanum og mikill fagmaður.
- Forlagsverð bókarinnar verður 9.879 krónur með virðisaukaskatti.
Bókin verður kynnt og seld á samkomunum þremur á Dalvík, Akureyri og í Kópavogi. Jarðbrúarsyskinin selja síðan bókina sjálf til að byrja með en stefnt er að því að hún verði líka seld í bókaverslunum. Meira um það síðar.
Hér á vefnum Svarfdælasýsli verður opnaður undirvefur í nafni Svarfdælasýsls forlags sf. þar sem hægt verður að panta bókina og fá hana senda að sendingarkostnaði viðbættum.
Á forlagsvefnum verða sögð tíðindi af útgáfunni eftir því sem tilefni gefast og þar verða birtar ljósmyndir sem tengjast efni bókarinnar. Útgefendur nutu mikils velvilja fjölda fólks sem átti ljósmyndir í fórum sínum og veitti góðfúslega leyfi til að birta þær. Mun fleiri myndir bárust en hægt var að koma að í bókinni og þær verða birtar á forlagsvefnum. Enn eru reyndar að koma í leitirnar myndir og fleiri eiga örugglega eftir að finnast!
Göngustaðaættin

Göngustaðasystkin. Aftari röð frá vinstri: Páll, Jonni, Jóhann, Davíð. Fremri röð frá vinstri: Engilráð, Steinunn, Rannveig.
Fjallað er um systkinin sjö sem kennd eru við Göngustaði í Svarfaðardal og sum urðu goðsagnir í lifanda lífi. Þau voru öll miklir karakterar og af þeim eru sagðar sögur og tilsvörin lifa.
Nunna í Dröfn og Jonni smiður á Sigurhæðum á Dalvík, Engilráð á Bakka og Rannveig á Jarðbrú í Svarfaðardal, Davíð smiður og harmónikuleikari á Dalvík og Páll málari í Laxamýri á Dalvík og Jóhann smiður á Akureyri.
Margt er þarna skrifað sem á eftir að koma lesendum á óvart, jafnvel þeim sem telja sig þekkja býsna vel til systkinanna og sögu þeirra. Þetta er saga um birtu og rökkur í tilverunni, gleði og sorgir, velgengni og basl en fyrst og fremst saga um áhugavert og skemmtilegt fólk sem setti sterkan svip á mannlífið og markaði spor í byggðarlaginu.
Land og synir

Frumsýning Lands og sona í Austurbæjarbíói í janúar 1980. Sigmar B. Hauksson á skrafi við forsetahjónin, Halldóru og Kristján Eldjárn. Aftan við forsetafrúna sést í Pálma Jónsson alþingismann á Akri. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.
Land og synir telst fyrir löngu til kvikmyndagoðsagnar. Myndin markar upphaf „vorsins“ sem gjarnan er talað um í íslenskri kvikmyndagerð. Hún var að mestu tekin upp í Svarfaðardal sumarið og haustið 1979 og að hluta á Hjalteyri.
Í kvikmyndinni bregður fyrir mörgum leikurum og áhugaleikurum sem fallnir eru frá og hún er sömuleiðis heimild um Þinghúsið Grund sem varð eldi að bráð.
Hér er rakin sagan á bak við söguna eða öllu heldur myndina. Skemmst er frá að segja að aldrei áður hefur verið fjallað um íslenska kvikmynd á þann hátt sem gert er í bókinni. Kvikmyndasögusvið Háskóla Íslands hefur nú þegar gefið sig fram sem væntanlegan kaupanda bókarinnar!
Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri, Jón Hermannsson kvikmyndaframleiðandi og Arnaldur Indriðason rithöfundur (G. Þorsteinssonar), eiga sýningarréttinn að Landi og sonum. Þeir ætla í tilefni af útgáfu bókarinnar að efna til sýninga á Landi og sonum í Bíói Paradís í Reykjavík. Þar verður sýnd stafræn útgáfa myndarinnar í fyrsta sinn. Myndgæðin eru önnur og meiri en menn hafa áður séð. Meira um það síðar.
Húsabakkaskóli

Húsbekkingar veturinn 1960-1961. Mynd: Júlíus J. Daníelsson.
Saga Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er rakin í máli og myndum frá upphafi 1955 til enda 2005 – í bókstaflegum skilningi!
Þessi skóli er ekki aðeins merkilegur kafli svarfdælskrar sögu. Hann er líka merkilegur hluti sjálfrar skóla- og menningarsögu landsins.
Það gekk talsvert á þegar skólinn var reistur á Húsabakka í landi Laugahlíðar og Tjarnar. Sumir vildu að menntasetrið yrði framar í dalnum, á Tungunum. Deilt var um staðarvalið.
Enn meira gekk á þegar ákveðið var að leggja niður skólastarf á Húsabakka og harkalegar deilur um málið urðu fréttaefni fjölmiðla hvað eftir annað.
Á milli upphafs og endis var sjálft skóla- og menningarstarfið farsælt og friðsælt. Það er aðalumfjöllunarefni bókarinnar og nemendalífið sömuleiðis.
Margir fyrrverandi nemendur eiga við lesturinn eftir að rifja upp minningar frá Húsabakka og sjá myndir af sér sem þeir hafa aldrei augum litið og jafnvel ekki vitað að væru til.
Birt er skrá með nöfnum allra nemenda í Húsabakkaskóla allan starfstímann frá 1955 til 2005, nöfn allra starfsmanna skólans og allra aðalfulltrúa í skólanefndum Svarfaðardalshrepps 1955-1998.