„Snjóaveturinn mikli“ í Eyjum varði í þrjá daga

Staðlað

Snjólaug Elín Árnadóttir fór á sínum tíma að heiman frá Dalvík til kennaranáms í Reykjavík og setti sig síðar niður til fulls í Vestmannaeyjum með millilendingu á Hvolsvelli. „Mér líkar hrikalega vel í Eyjum og hef ekki nokkurn áhuga á að flytja þaðan.“

„Í Vestmannaeyjum er gott mannlíf og hlýlegt fólk sem stendur saman, til dæmis í íþróttastarfinu. Íþróttabandalag Vestmannaeyja – ÍBV er kjarninn í Eyjasamfélaginu og líkist helst samstæðri fjölskyldu.

Sá sem hefur farið á leik í meistaraflokki í handbolta í Íþróttamiðstöðinni í Eyjum annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar veit hvað ég á við.  Á áhorfendapöllum fyrir sunnan er ekkert fútt en í Eyjum fyllist hins vegar húsið af brjáluðu fólki löngu fyrir leik!

Það er ómögulegt að lýsa þessu. Þú verður bara að prófa sjálfur.“

Þá bætist það við á verkefnalistann í næstu Eyjaferð; handboltaleikur í hópi gargandi heimamanna til að vera viðræðuhæfur.

Kennari, kokkur og börnin þrjú

Snjólaug er annar tveggja þvottekta Dalvíkinga sem búa í Vestmannaeyjum. Hinn er Finnur – Arnfinnur Friðriksson. Þau eru hvort af sinni kynslóðinni að norðan.

Snjólaug er dóttir Ingibjargar Björnsdóttur (Böddu) frá Ölduhrygg og Árna Reynis Óskarssonar frá Kóngsstöðum. Hún er yngst sex systkina, þar af eru fimm á lífi.

Snjólaug fékk vinnu við kennslu á Hvolsvelli eftir útskrift úr Kennaraskóla Íslands árið 1995. Hún var á Suðurlandi í 6 ár og kynntist þar mannsefni sínu, Ingólfi Ingvarssyni, heimamanni á Hvolsvelli sem hafði flust á unglingsaldri til Eyja en var kominn aftur á heimaslóðir.

Þau Snjólaug fluttu til Eyja 2001 og skutu þar fjölskyldurótum. Hún er kennari í Grunnskóla Vestmannaeyja en hann kokkur til sjós. Þau eiga þrjú börn; Ingvar, Þorbjörgu Júlíu og Árna Þór. Ingvar flutti til Reykjavíkur núna í haust til að  halda áfram í vélstjórnarnámi en hin eru heima. Þorbjörg er í Framhaldsskóla Vestmannaeyja, Árni Þór æfir fótbolta, handbolta og lærir söng, móðirin er í unglingaráði ÍBV í handbolta.

Þrjú ólík samfélög

Ingólfur var á Gullbergi VE, skipi sem Vinnslustöðin gerði út en seldi nýlega. Núna er hann á Sindra VE, áður Páli Pálssyni ÍS, en er fljótlega á förum til Kína með fleirum úr væntanlegri áhöfn til að sækja splunkunýjan togara, Breka VE, væntanlegt flaggskip í flota Vinnslustöðvarinnar. Siglingin heim til Eyja tekur 52 daga og kokkurinn hefur því nægan tíma til að kynnast eldunargræjum og allri aðstöðu um borð.

„Dalvík, Hvolsvöllur og Vestmannaeyjar eru um margt ólík samfélög en eðlilega sker Hvolsvöllur sig úr, sjávarbyggðirnar tvær eiga meira sameiginlegt.

Ég kynntist því strax að veðurfarið er mjög ólíkt í Eyjum og fyrir norðan. Þá sjaldan að snjó festir í Vestmannaeyjum verða börnin að fara strax út að renna sér í brekkunum því gera má ráð fyrir að snjóa leysi samdægurs.

Einu sinni fyrir þó nokkrum árum hríðaði meira eða minna í heila þrjá daga. Ein sem vinnur með mér talar um þann tíma sem „snjóaveturinn mikla“!

Lognið á lögheimili á Dalvík

– Hvað með samgöngurnar? Finnurðu fyrir einangrun í Eyjum?

„Við búum á eyju og vitum að ef til stendur að fara til útlanda er oft öruggast að taka aukafrídag og fara suður degi fyrr til að ná fluginu örugglega. Sjálf er ég ekki mikið á ferðinni og ég reyni að láta það ekki fara í taugarnar á mér að vera bundin við ferju eða flug til að fara upp á meginlandið og heim aftur.

Herjólfur, Landeyjahöfn og Þorlákshöfn skapa Eyjamönnum endalaust umræðuefni. Kemst ég í land með eða án bíls? Kemst ég aftur heim, hvenær og hvernig? Fæ ég koju?

Ég læt samgöngurnar ekki pirra mig, ég bý í Eyjum og vil búa í Eyjum. Samgönguvandann leysi ég einfaldlega með því að vera lítið á ferðinni yfir háveturinn.“

– Eru Eyjamenn öðru vísi fólk en Dalvíkingar?

(Þögn í stundarkorn).

„Helga systir segist taka eftir því að í Eyjum séu allir svo glaðir og kátir! Ábyggilega sannleikskorn í því. Gæti trúað því að Eyjamenn séu léttari og fjörugri en gerist og gengur. Kannski hefur snjóleysið létt þeim svona lundina. Ég kann því alla vega ágætlega að þurfa aldrei að moka mig út úr húsinu að vetrarlagi og sakna ekki vetrarveðra á Dalvík þegar allt fór á kaf, jafnvel oft á vetri.

Kannski frekar að ég sakni lognsins. Eins og allir vita á lognið nefnilega lögheimili á Dalvík rétt eins og Fiskidagurinn mikli.

Ég bý í Vestmannaeyjum og er auðvitað Eyjamaður í þeim skilningi. Í hjartanu er ég samt trú upprunanum, er og verð Dalvíkingur og kynni mig jafnan þannig.“

Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s