Gestir Fiskidagsins mikla, sem á annað borð rata að súpupotti Vallabænda & Nings við Dalvíkurhöfn og smakka, koma aftur og aftur. Enn á ný á næsta ári og svo því þarnæsta. Níu hundruð lítrar kláruðust í ár hálftíma áður en dagskránni á hafnarsvæðinu lauk. Það segir sína sögu.
Tælenska Valla- og Ningssúpan á sér sögu og hefðir tengdar Fiskideginum mikla frá því hún varð fyrst til í stórum stíl og boðin Dalvíkingum og gestum þeirra sumarið 2006.
„Þetta er okkar útfærsla á tælenskri fiskisúpu en hún er aldrei alveg eins frá ári til árs. Við undirbúum hráefnið daginn áður en lögum súpuna við höfnina snemma að morgni Fiskidagsins mikla. Það er ákveðinn spuni í þessu í hvert sinn á staðnum.“
Bjarni Óskarsson er yfirsúpugerðarmeistari. Annars athafnamaður og bóndi á kirkjustaðnum Völlum í Svarfaðardal. Þau Hrafnhildur Ingimarsdóttir hafa þar byggt upp afskaplega skemmtilega og áhugaverða lífræna framleiðslu með berja- og grænmetrisökrum, eldisbleikju í heimatjörn og tilheyrandi verslun með vörur býlisins.
Hægt að ná sér í sólber og grænmeti beint af ökrunum
Hrafnhildur og Bjarni eiga Nings og reka þrjá veitingastaði undir því nafni í Reykjavík og í Kópavogi, veisluþjónustu og sushigerð. Þau eru og hluthafar í fleiri veitingahúsum ásamt sonum sínum og fleirum. Sigurgísli sonur þeirra er framkvæmdastjóri Nings og sér um reksturinn á meðal foreldrarnir sinna lífrænni frumkvöðlastarfsemi í Svarfaðardal.
Nú eru sólberin á Völlum orðin þroskuð og grænmetið sömuleiðis. Aðalbláberin berast í hús í tugkílóavís frá fólki sem selur búinu þau til sultu- og sósugerðar.
Fólk er annars boðið velkomið í Velli til að tína sólber handa sjálfu sér og borga fyrir eða tína fyrir búið og fá greitt fyrir verkið. Sama fyrirkomulag gildir fyrir grænmetið.
Atgangur í súpugerðinni
Föstudaginn fyrir Fiskidaginn mikla fjölgar snarlega í heimili á Völlum. Þá mæta synirnir, tengdadætur, vinir og fleiri á svæðið, bretta upp ermar og hella sér í stórsúpugerðina.
Svarfdælasýsl gerðist fluga á vegg og fylgdist með.
Hráefnislisti í ættleidda Valla- og Ningssúpuna frá Tælandi
- Eldisbleikja, rækja, þorskur, ýsa.
- Kókosmjólk.
- Engifer.
- Hvítlaukur.
- Sítrónugras.
- Lime.
- Chili.
- Kóríander.
- Tómatar.
- Fiskikraftur.
Nokkur fyrirtæki leggja verkefninu til hráefni, til dæmis Samherji, Sælkeradreifing og Bananar.
Seint að kvöldi er ílátum með öllu þessu komið fyrir á stórri jeppakerru. Snemma að morgni Fiskidagsins mikla er farmurinn dreginn til Dalvíkur, þar á meðal risapotturinn sem upprunalega var mjólkurgeymir í Vallafjósinu.
Pottinum er komið fyrir á „hlóðum“ sem í raun eru nokkrir gashitarar, hráefninu sturtað í og suðan látin koma upp.
Það getur tekið þrjár til fjórar klukkustundir, allt eftir veðri. Í ár var logn og hlýtt við Dalvíkurhöfn og þá kom sauð í pottinum áður en hátíðarsvæðið var opnað kl. 11. Oftast gerist það síðar, jafnvel ekki fyrr en um hádegi.
Svo streymdu gestir að til að smakka. Potturinn tekur um 1.200 lítra og er þá fylltur til randa. Í honum eru jafnan um 900 súpulítrar í upphafi Fiskidagssamkomu, sem dugar fyrir 8.000 manns hið minnsta. Fimm og hálfri klukkustund síðar var botninn skrapaður og þúsundir manna góðu, bragðmiklu og krassandi súpubragði ríkari.
Þannig er gangur lífsins hjá Vallabændum og samherjum þeirra um Fiskidagshelgina.
Vel er hugsað um súpugerðarfólkið og að kvöldi laugardag til dæmis slegið upp hlöðuveislu á Völlum með veislumat, söng, hljóðfæraslætti og glensi. Víst er á sig leggjandi og rúmlega það að undirbúa súpu til fá að njóta hlöðulífs þá kvöldstundina.
Stöðugur straumur í verslunina
Vöruval í litlu versluninni er ótrúlega mikið og fjölbreytt. Þar eru afurðir búsins seldar og aðrar vörur með Vallaívafi.
Mjög er sótt í heimareykta osta enda hreinasta lostæti. Reykt Vallableikja er eftirsótt líka og reyktur Arnarlax að vestan. Svo fást þarna berjavöru af ýmsu tagi, grænmeti og margt fleira sem tæki tíma og pláss í að tíunda.
„Við höfum aldrei haft meira að gera en í sumar og sölumet voru slegin um Fiskidagshelgina. Straumur viðskiptavina var stríður þá og reyndar er með ólíkindum hve margir koma hingað á hverjum einasta degi.
Framleiðslan eykst og vörum fjölgar. Við getum líka tekið á móti allt að 30 manna hópum sem panta veislur í hlöðunni. Svo á ég mér draum um að færa út kvíar enn frekar og breyta fjósinu til að geta stundað þar veitingarekstur. Það er bara hugmynd sem óvíst er að komist nokkurn tíma til framkvæmda.“
Það voru orð Bjarna á Völlum. Tilfinningin er samt sú að það sem hann lætur sig dreyma um verði hrint í framkvæmd fyrr eða síðar. Helst fyrr.
Reyktir ostar í gamla fjósinu á Völlum, sólberjaakur neðan við bæinn og þjóðsagnasveitunginn Bakka-Baldur veiðandi bleikjur á flugu úr polli í heimilisgarðinum.
Þurft hefði sérlega ólyginn mann til að segja fyrir um að slíkt myndi yfirleitt gerast í náinni framtíð á prestsetri Svarfdælinga og fá bændur og búalið í dalnum til að trúa því. Þannig fór nú samt og áberandi vel er staðið að verki hjá Vallabændum.