Manni úr kengúrulandi fagnað ákaflega í tveimur landsfjórðungum

Staðlað

Ásgeir Þorsteinsson – Geiri Steina Kidda er á förum heim til Ástralíu og á bara þrjá bjóra eftir ódrukkna á Íslandi fyrir brottför þegar þetta er skrifað. Honum heiðurs var efnt til sérstaks Geirakvölds á Kaffi Loka á dögunum og í kjölfarið var hópferð velunnara og fyrrum samstarfsmanna frá Dalvík til Siglufjarðar. Hvorug samkoman þótti áberandi leiðinleg.

Myndirnar tala sínu máli. Á Loka var mannval mikið og léttist nú lundin gestanna frekar en hitt þegar vertarnir Þórólfur og Hrönn deildu út harðfiski og brennivíni í staupum. Maturinn hjá þeim stóð svo fyrir sínu eins og fyrri daginn.

Æstist svo enn leikurinn við Eyjafjörð fáeinum dögum síðar þegar nokkrir fyrrum vinnufélagar Geira á Tréverksárunum og fleiri glaðir riddarar hittust á Gregorsbar á Dalvík til upphitunar fyrir menningarferð til Siglufjarðar um Ólafsfjörð og áfram gegnum Héðinsfjörð þveran.

Dobbi var við stýrið og þarf ekki fjölyrða um aksturslagið þann daginn, enda einn öflugasti og reyndasti atvinnubílstjóri byggðarlagsins.

Fyrsti viðkomustaðurinn var reyndar Hótel Dalvík, sem var reist sem heimavist Dalvíkurskóla sumarið 1973 og nokkrir úr hópnum höfðu komið að – þar á meðal Geiri frá kengúrulandi. Hann var verkstjóri á svæðinu.

Rósa Matt, nýbakaður hótelstjóri, var afskaplega lukkuleg með að fá að hitta og snerta menn sem höfðu slegið upp mótum, steypt og bardúsað í þessu húsi. Þarna eignaðist heimavistin góða sál sem aldrei hefur dvínað þrátt fyrir breyttan rekstur og eigendaskipti.

  • Eftirtaldir skipuðu ferðahópinn með Geira og Dobba í forystusætum: Halli Hreins , Ómar Arnbjörns, Óskar Pálma, Kalli Sævaldar, Palli Kristins, Haukssynirnir Valur og Kiddi, Jón í Grímsnesi og Atli Rúnar sýslari. Á Siglufirði bættist Ingó í hópinn, ekki veðurguðinn heldur Magnússon.

Á Siglufirði snæddu ferðalangarnir í ranni Róberts ríka, þess sem á og rekur Siglufjörð ehf. Svo var farið í Síldarminjasafnið til að súpa í sig atvinnumenninguna, enda menningarferð.

Hluti af aðgangseyrinum fór í sjóð til að kaupa nýjan líkbíl fyrir Siglfirðinga, það sagði að minnsta kosti lurkurinn við innganginn. Róbert kaupir víst allt nema líkbíla og alls ekki líkbíl handa Ólafsfirðingum. Þess vegna verður að safna fyrir drossíu til að aka síðasta spölinn. Geirahópurinn lagði glaður sitt af mörkum, enda nær alkunnugt hjartalag hans langt út fyrir gröf og dauða.

Ferðalagið var að stórum hluta neðanjarðar því aka þarf um þrenn göng til að komast frá Dalvík til Sigló og Strákagöng bættust svo við á heimleiðinni þegar ekið var um Fljót og Lágheiði til Ólafsfjarðar og endað við barborð á Gísla, Eiríki og Helga. Í millitíðinni var stuðst við baukaöl og rökkur í göngum var ekki hægt að nota til annars en að súpa á.

Staldrað var við í fjárrétt í Fljótum til að taka upp söngatriði með Jóni í Grímsnesi sem verður frumflutt í Landanum á RÚV á komandi vetri.

Ferðalangar virtu fyrir sér Depla, heimavist milljarðamæringa í Fljótum. Granni í sveitinni sagði að meirihluti gesta þá stundina væru Íslendingar, enda lággjaldatími. Sólarhringurinn kostar ekki nema á bilinu þrjú til fjögur hundruð þúsund en ef allt er með felldu þarf að reiða fram fimm til sex hundruð þúsund kall fyrir dvöl í sólarhring.

Ferðalangar í rútu hjá Dobba vildu ekki láta spyrjast um sig að þeir snöpuðu uppi afsláttar- og undirmálskjör og héldu því áfram för. Ef hins vegar hefst hist á hágjaldatíma á Deplum er líklegra en hitt að áð hefði verið þar í sólarhring hið minnsta. Að því kemur síðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s