Heyr brúarsmiður

Staðlað

Nýja göngubrúin yfir Svarfaðardalsá við Hánefsstaðaskóg er velkomið þarfaþing handa rölturum í friðlandi Svarfdæla og tengir saman tvo heima, eins og brýr gjarnan gera.

Gönguferð frá Húsabakka yfir í Hánefsstaðaskóg og til baka aftur er skylduverkefni fyrir gesti og gangandi, dásemdarupplifun í fuglaríki friðlandsins og endurmenntun í náttúruvísundum. Svo má meira að segja rölta líka af Austurkjálka vestur yfir og til baka! Skrifari er hins vegar barnfæddur Vesturkjálkamaður og tekur auk þess útgangspunkt í Húsabakka – samkomustað Göngustaðaættar um verslunarmannahelgi 2017.

Hvað um það, meðfram allri gönguleiðinni eru skilti með fróðleik um gróðurfar og fugla. Hér borgar sig að rölta og njóta frekar en ana og spana.

IMG_5253Upphafsmaður og drifkraftur við að brúa Svarfaðardalsá þarna er Hjörleifur fjöllistamaður Hjartarson frá Tjörn. Hann var einmitt staddur við brúarsporðinn Tjarnarmegin í tilverunni þegar Sýslarann bar þar að.

Hjörleifur er lukkulegur með verkið og má vera það. Kristján bróðir hans lagði hönd á plóg og fleiri við tiltekna verkþætti en þarna hefur samt Hjörleifur skilað mestu.

Hjöri barðist líka um við að kría út styrki til verkefnisins og fá leyfi og umsagnir um hengibrúarhugmyndina úr trúlegum og ótrúlegum áttum úr kerfinu. Honum þótti sæta tíðindum að þurfa ekki að leita líka álits landlæknisembættisins. Hefur landlæknir virkilega ekkert um hengibrýr að segja?

Þegar yfir brúna er farið þarf að tileinka sér ákveðið göngulag því brúargólfið er ögn á hreyfingu og upp í hugann kemur: Eftir einn ei gangi neinn. Hvers vegna er ekki skylda að fá álit Áfengisvarnarráðs á hangandi göngubrúm?

Heyr himnasmiður, orti Kolbeinn Tumason fyrir mörgum öldum. Heyr brúarsmiður, tautaði sköpunarverk Hjöra og bætti við úr smiðju sálmaskáldsins: „ … þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn.“

Ferðafólk í miðsveitinni fær hér upp í hendur (og undir fætur) afskaplega áhugaverðan kost, auðvelda en áhugaverða gönguleið um Hánefsstaðaskóg og friðlandið. Og stund til að rýna ofan í Svarfaðardalsá af hengibrúnni miðri.

Skammt frá Húsabakka, í hlíðinni ofan við Laugahlíð, er annar álitlegur kostur fyrir sumargesti: fótalaug Bakkabræðra. Rökstuddur grunur er um að nefndur Hjöri frá Tjörn hafi komið að því mannvirki líka.

Þekkt er sagan um Bakkabræður sem lauguðu saman á sér fætur og rugluðust í því hver ætti hvaða löpp. Það er svo sem skiljanlegt því Bakkalækurinn er sérlega kaldur og þarf ekki að hafa lengi fætur í honum til að dofna upp og missa alveg tilfinningu í útlimum og hluta af vitinu líka.

Bakkabræður voru samt ekki vitlausari en svo að þeir sáu að snjó festi aldrei á ákveðnum bletti í fjallinu ögn neðar í sveitinni. Þar var volgt vatn að hafa og þangað fluttu þeir baðstað sinn frá Bakka. Aðrir Svarfdælingar föttuðu þetta ekki fyrr en öldum síðar og reistu sundlaug úr steinsteypu undir hlíðinni til að brúka volgruna.

Söguskrifarar slepptu laugahlíðarhluta Bakkabræðrasögunnar til að gera þá enn heimskari en efni stóðu til, enda æsifréttamenn þess tíma.

Hjöri endurgerði hins vegar fótlaugina í minningu bræðranna frá Bakka og sagði um leið söguna alla. Þökk sé honum fyrir það.

Ein athugasemd við “Heyr brúarsmiður

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s