Sigurlaug Arndal Stefánsdóttir var borin til grafar í Þorlákshöfn 20. júní 2017 að viðstöddu fjölmenni. Hún var eiginkona Gunnars Markússonar, fyrsta skólastjóra Húsabakkaskóla í Svarfaðardal.

Frá vinstri: Sigurlaug, Hildur, Stefán, Ágústa, Þór Jens og Gunnar.
Gunnar og Sigurlaug komu ásamt börnum sínum fjórum í Svarfaðardal frá Flúðum haustið 1955. Hann tók við stjórn nýbyggðs heimavistarskóla á Húsabakka, hún kenndi þar líka og var matráðskona einn vetur.
Þau fluttu suður á ný sumarið 1962 og hann gerðist skólastjóri í nýjum grunnskóla í Þorlákshöfn.
Gunnar lést árið 1997 og hvílir í Þorlákshafnarkirkjugarði. Við hlið hans var duftkeri Sigurlaugar komið fyrir nú.
Sigurlaug var merkileg kona og mikill karakter, hlýleg og létt í lundu, skemmtilegur viðmælandi og glæsileg í fasi. Hún er eftirminnilegur samferðamaður þeirra sem henni kynntust og útförin hennar verður eftirminnileg líka.
Séra Svavar Stefánsson jarðsöng. Hann er fyrrverandi sóknarprestur í Þorlákshöfn en þjónaði síðar í Fellasókn í Reykjavík í 14 ár og lét af embætti að eigin ósk haustið 2016. Við útför Sigurlaugar skrýddist séra Svavar hökli sem Gunnar Markússon prjónaði á sínum tíma úr kambgarni og gaf Þorlákskirkju. Þetta er eini handprjónaði hökullinn í kirkju á Íslandi og reyndar safngripur til sýnis í glerskáp í anddyri kirkjunnar. Sérstakt og afar viðeigandi að prestur skyldi skrýðast hökli Gunnars við útför Sigurlaugar.
Gunnar skólastjóri var ekki þekktur fyrir prjónaskap á Húsabakkaárunum. Hann tók samt í prjóna þá en það var ekki fyrr en í Þorlákshöfn sem Gunnar varð prjónagarpur og sannkallaður listamaður á því sviði. Um það verður frekar fjallað í bókinni Svarfdælasýsl sem kemur út í haust. Þar verður líka kafli um Sigurlaugu og minningar hennar úr Svarfaðardal.
Hökull Gunnars er ekki hið eina úr fjölskyldu hans í Þorlákskirkju. Í anddyrinu er líka listaverkið Þorlákur, veggskúlptúr, sem Ágústa Gunnarsdóttir myndlistarmaður gaf Þorlákskirkju til heiðurs foreldrum sínum og fyrrverandi skólastjórahjónum á Húsabakka, Sigurlaugu og Gunnari. Verkið var afhjúpað við messu 17. október 1993 að viðstöddum biskupi Íslands.
Sýslarinn sem þetta skrifar hitti Sigurlaugu nokkrum sinnum á árunum 2016 og 2017 til að rifja upp minningar frá Húsabakka og ræða um lífið og tilveruna. Það voru gefandi stundir. Við flettum meðal annars saman bókinni sem Árni Daníel Júlíusson frá Syðra-Garðshorni gaf út í vetur, Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals. Annars var hún mest til í að fá að láni reyfara og stytta sér stundir við að lesa um skáldsagnahetjur leysa sakamálahnúta. Hún tók fram að sögurnar mættu hvorki vera sérlega blóðugar né kynlífslýsingar úr hófi berorðar. Því var lofað að vanda reyfaravalið. Svo hló hún dátt. Sá hlátur lifir með mér.
Snemma árs 2016 var myndbandsupptökuvél í gangi um hríð á meðan við Sigurlaug spjölluðum saman. Henni var ekki um slíkt gefið rétt í fyrstu en lét kyrrt liggja, sem betur fer.
Í meðfylgjandi viðtalsbúti rifjar hún upp fyrstu kynnin af Þorlákshöfn haustið 1962. Svo víkur hún að því þegar hún flutti 10 ára gömul frá Siglufirði til Akureyrar og í lokin ber Svarfdælinga á góma.